Sunday, February 8, 2009

Þessa dagana...

Mér finnst makalaust að sjá hvernig Sjálfstæðismenn klóra í bakkann og reyna að bjarga skinni síns aflóga flokks. Eins og að tala um "pólitísk afskipti" af Seðlabankanum -- hvað eru það annað en pólitísk afskipti af Seðlabankanum að skipa Davíð Oddsson seðlabankastjóra?

Og "pólitískar hreinsanir"? Hvað á að gera annað en að leggjast í pólitíska ormahreinsun, þegar heilt stjórnkerfi er sýkt af pólitískum hringormum? Og tal um "málefnaágreining" eða "hatur á einum manni"? Í augum Sjálfstæðismanna er heilagur Davíð náttúrlega ósnertanlegur. Gagnrýni á hann hlýtur að vera af vafasömum hvötum og persónuleg. Makalaus málflutningur.

Ég held að um þessar mundir megi skipta Sjálfstæðismönnum í nokkra hópa: Þeir sem skilja í alvörunni ekki, þeir sem vilja ekki skilja, þeir sem þykjast ekki skilja, þeir sem skilja en halda sig til hlés og svo þeir sem skilja og hafa þess vegna snúið baki við flokknum.

"Búsáhaldabyltingin" hafði pólitískt takmörkuð markmið, sem nú eru öll komin fram nema ormahreinsunin í Seðlabankanum. Hún er eftir, og ég trúi því nú ekki að árar verði lagðar í bát fyrr en Davíð er kominn út með skófar á rassinum.

"Búsáhaldabyltingin" steypti gömlu ríkisstjórninni. Úrtölumennirnir, sem gátu ekki séð neitt að gömlu ríkisstjórninni og höfðu meira á móti Herði Torfasyni heldur en Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, töluðu oft um hvað það væri mikill VG-bragur á þessum mótmælum. Ég ætla ekki að eyða orðum í úrtölurnar, að öðru leyti en þessu: Eru þær að rætast núna? Er nýja ríkisstjórnin byltingarstjórn? Er hún það sem við stefndum öll eða flest að?

Mér finnst gott að núverandi ríkisstjórn sé komin til valda. Ég get veitt henni gagnrýninn stuðning að ýmsu leyti, en fyrst og fremst er gott að VG fái tækifæri til að spreyta sig og sýna hvað í þeim býr. En ég vil þreifa áður en ég trúi. Stefnuskrá VG er vinstri-kratísk og ég á von á að efndirnar verði samkvæmt því. Kannski koma VG mér skemmtilega á óvart. Kannski afhjúpa þau kratískt getu- og viljaleysi til að glíma við vandamálin. En þegar vandamálið er auðvaldið sjálft, þá er lausnin augljóslega ekki kratísk.

Vandamálin eru ekki farin neitt og þau fara ekkert á næstu 80 dögum, hvað þá ef kratar eiga að leysa þau. Það mun rísa upp ný mótmælaalda þegar ekkert bólar á lausnunum, og sú mótmælaalda mun setja fram róttækari kröfur og fylgja þeim betur eftir.

No comments:

Post a Comment