Thursday, July 19, 2007

Ingibjörg í Miðausturlöndum

Það var grein eftir mig á Egginni í gær: Ég er líka á móti þessari ríkisstjórn. Lesið hana.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ég verð að játa að það eru vonbrigði, að þegar utanríkisráðherra Íslands fer til Palestínu -- og það var tímabært -- þá séu það Abbas og Fayed sem séu helstu viðmælendur hennar af hálfu Palestínumanna. Að vísu reikna ég með að fundurinn með Hanan Ashrawi hafi verið gagnlegur. Ashrawi veit hvað hún syngur. Það hljómar illa að hún hafi ekki heimsótt Gaza „af öryggisástæðum“ -- það liggur í augum uppi að ef Ingibjörg Sólrún vill fara til Gaza til viðræðna við Hamas-menn, þá mun Hamas ábyrgjast öryggi hennar á meðan. Létu hún og utanríkisráðuneytið Ísraela og Fatah-kvislingana ljúga því að sér að það væri ekki öruggt? Hvers vegna kalla ég þá kvislinga? Jú -- í fyrsta lagi eru margir af forystumönnum Fatah hrein og bein handbendi Ísraels. Má þar nefna Abbas og Fayad sjálfa, auk Mohammeds Dahlan, svo dæmi séu nefnd. Það sést hreinlega af verkum þeirra, eins og þegar þeir leystu þjóðstjórnina upp og nú síðast þegar Abbas bað um að Gaza yrði áfram haldið í svelti. Ég sé bara ekki hvaða gagn það gerir að tala við svona menn, samverkamenn Ísraels, og sleppa því að ræða við Hamas.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Í morgun birti Eggin fréttatilkynningu frá Saving Iceland vegna aðgerða gærdagsins: Saving Iceland loka veginum að Grundartanga. Umfjöllunin um þetta mál hefur verið með mestu ólíkindum. Moggabloggarar eru þar athyglisvert dæmi, þar sem menn keppast við að dæma þetta fólk í útlegð eða til dauða fyrir að stöðva vinnu. Borgari Þór Einarssyni finnst t.d. „sannir náttúruverndarsinnar eiga ... litla samleið með því hampreykjandi hippapakki“ -- nei, ætli sannir náttúruverndarsinnar kjósi ekki Sjálfstæðisflokkinn og stóriðjustefnuna í hans augum!? Borgar kemst annars skemmtilega að orði: „Fjölmiðlar hafa veitt þessum söfnuði óskaplega athygli og fer þar fremst í flokki Morgunblaðið, kirkja skandífasismans.“ Hvað er „skandifasismi“?
Það er svo annað mál hversu gagnlegar aðgerðir Saving Iceland eru. Ég hef svosem áður gert athugasemdir við þær og sé ekki ástæðu til þess hér og nú, en ætla bráðlega að skrifa um þær.
Að því sögðu, þá tókst löggunni greinilega betur til við Grundartanga heldur en sumarafleysingafólkinu sem hegðaði sér eins og ruddar á Snorrabrautinni.
Hvað er annars málið með þennan heimskulega spuna sem veður uppi? Atvinnumótmælendur, hvað er það? Veit einhver til þess að einhver hafi þegið laun fyrir umhverfisaktífisma? Hvers vegna finnst engum neitt athugavert við að það séu til atvinnumeðmælendur, eins og t.d. Hrannar Pétursson eða Erna Indriðadóttir, nú eða Friðrik Sófusson eða Rannveig Rist? Er allt í lagi að hafa atvinnu af meðmælum, semsagt? Og hvað er málið með klisjuna „þarf þetta fólk ekki að vinna?“? Segir það sig sjálft að fólk sé atvinnulaust ef það kemur hingað til að mótmæla? Ég skil ekki í því. Er ekki sumar? Er ekki fjöldi fólks í sumarfríi?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
VG lýsa áhyggjum af undirbúningi við ný álver -- hvar er Fagra Ísland núna?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Kársnesingar eru gramir vegna landfyllinga -- ef gremjan er næg þá stöðva þeir þær bara. Þeim er það í lófa lagið. Það verður engin landfylling gerð við Kársnes ef Kársnesingar samþykkja það ekki. Í þessu tilfelli er þögn sama og samþykki, og það jafngildir líka samþykki ef fólk situr á rassinum þegar mótbárurnar eru virtar að vettugi.

No comments:

Post a Comment