Wednesday, July 4, 2007

Ég var mjög mótfallinn því á sínum tíma, að Íbúðalánasjóður hækkaði lánshlutfallið úr 75% í 90%. Nú vill Jóhanna lækka það í 80%. Eins sakleysislega og þessar tölur kunna að hljóma, þá er þetta spurning um hvort fólk getur leyft sér að kaupa fjórfalt, fimmfalt eða tífalt dýrara húsnæði en sem nemur peningunum sem það hefur til ráðstöfunar, undir ákveðnum mörkum þó, nema ég hafi misskilið eitthvað hrapallega. Er rétt að lækka hlutfallið? Bitnar það á þeim tekjulægstu og þeim sem eru að koma sér þaki yfir höfuðið? Eða er þetta nauðsynleg aðhaldsaðgerð til þess að lækka geipiverð á fasteignamarkaði, þótt hún sé sársaukafull fyrir suma?
Ég hallast að því að þetta sé hið rétta í stöðunni, að öðru óbreyttu. Offramboð á lánsfé til þess að kaupa húsnæði þýðir aðeins eitt, og það er óeðlilega mikil eftirspurn, með tilheyrandi óeðlilega háu verði. Varla hagnast hinir verst settu á því, eða hvað? Offramboðið gagnast fyrst og fremst auðvaldinu.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Alcoa hækkar yfirtökutilboðið í Alcan. Það verður rækilegur halli á Íslandi ef þessi tvö fyrirtæki sameinast. Ekki er nú á það bætandi.

No comments:

Post a Comment