Tuesday, January 29, 2008

44 blaðsíður

Ég man ekki eftir að Morgunblaðið hafi nokkurn tímann verið eins þunnt og í dag.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Egyptar samþykkja tillögu Abbasar um að palestínska heimastjórnin taki yfir landamærastöðina í Rafah. Takið eftir: Egyptar samþykkja að PA taki yfir hana. Er eitthvað bogið við það? Eru það ekki Hamas-samtökin sem ráða ríkjum á Gaza? Hvernig geta Egyptar og PA þá skipt Gaza á milli sín? Abu Gheit, utanríkisráðherra Egypta, segist fordæma „valdarán“ Hamas-samtakanna -- og í prent-Mogga sá ég að Hamas ríktu „í óþökk alþjóðasamfélagsins“. Það var og! Hvenær var „alþjóðasamfélagið“ spurt álits? Þýðir þetta nokkuð annað en að Bandaríkjastjórn og Ísrael séu á móti þeim? Það er best að halda því til haga að það var Fatah sem rændi völdum af réttkjörinni ríkisstjórn Hamas. „Lýðræðislegar kosningar“ -- pah! Hvað haldið þið að palestínskur almenningur fái mikla trú á gildi lýðræðislegra kosninga þegar Vesturveldin hunsa þær eftir hentugleika? Þegar heimsvaldasinnar tala um „lýðræði“ -- eða „frelsi“, „siðmenningu“, „kristni“ eða önnur gildishlaðin orð, þá meina þau aðeins eitt: Eigin völd.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ólafur F. Magnússon var með einhverja glötuðustu innkomu sem ég hef vitað. Hann og Sjálfstæðisflokkurinn hafa drullað upp á bak með þessari fáránlegu leikfléttu. Gott samt að þeir skuli sýna sitt rétta andlit, svona svo maður líti á björtu hliðarnar. Það verður gaman að sjá hvernig þeim vegnar í næstu kosningum. Það besta sem getur hlotist af þessu er að nokkrum gömlum húsum verði þyrmt. Það er mikið gleðiefni í sjálfu sér, að öllu öðru slepptu.

No comments:

Post a Comment