Thursday, January 10, 2008

Norður-Kórea; Íran; olía og efnahagur

Mér finnst skynsamlegt af Kínverjum -- og vitanlega mjög skiljanlegt -- að hafa áætlanir um innrás í Norður-Kóreu ef hún kiknar og hrynur saman. Kjarnorkuáætlun Norður-Kóreumanna er augljóslega mikilvæg, en fyrir utan hana, þá sitja Kóreumenn á óhemjulega miklu af vopnum. Her þeirra er einn sá stærsti í heimi og landamærin, úff... Í suðvesturhorni landsins hafa þeir t.d. komið upp svo mörgum langdrægum fallbyssum, að ef það yrði gerð innrás úr suðri, gætu þeir jafnað Seoul við jörðu -- bókstaflega þurrkað hana út -- á klukkustund. Það yrði óneitanlega sjón að sjá. Tilfellið er, að gereyðingarmáttur Norður-Kóreu liggur í hefðbundnum vopnum. Feiknalegu magni af hefðbundnum vopnum. Þar við bætast auðvitað efna- og sýklavopn, og kannski ein eða tvær kjarnorkusprengjur. Þessi viðbúnaður vekur auðvitað furðu í augum flestra Vesturlandabúa, en er samt skiljanlegur. Man einhver eftir Kóreustríðinu? Í því varð Kórea sviðin jörð. Því er ekki einu sinni formlega lokið. Nálægt hálf milljón lét lífið og annar eins fjöldi særður. Bandaríkjaher situr ennþá á þröskuldinum, 38. breiddargráðu, grár fyrir járnum. Norður-Kóreustjórn getur vitanlega ekki boðið landsmönnum sínum upp á þann möguleika að sagan endurtaki sig. Ekki frekar en Stalín eftir síðari heimsstyrjöld.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ég trúi því vel að þetta atvik í Hormuz-sundi hafi verið vísvitað og úthugsað af Írana hálfu. Reyndar er ég hér um bil viss um það. Tilgangurinn er nokuð skýr, sýnist mér: Þeir voru einfaldlega að minna á að þeir geta lokað Hormuz-sundi þegar þeim sýnist og sökkt hvaða fleytu sem er, sem hættir sér um það, ef þá langar til. Skoðið sem snöggvast kort af Hormuz-sundi. Íran liggur í hálfhring utan um það. Það þýðir að það siglir enginn um það nema með samþykki Írana. Enginn. Hvaða máli skiptir það? Herflutningar Bandaríkjamanna til og frá Írak eru aukaatriði. Um Hormuz-sund er flutt olía. Næstum öll olía Íraks, næstum öll olía Kúveits, næstum öll olía Saúdi-Arabíu, auk Bahrein og Qatar og Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Hormuz-sund er kannski mikilvægasta siglingaleið í veröldinni. Íranar eru semsé að sýna tennurnar og minna á að þeir geta hæglega bitið frá sér ef þeim finnst sér ógnað. Ég held samt að það sé ekki stríð í uppsiglingu milli Írans og Bandaríkjanna.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Það lítur út fyrir að framboð á díselolíu fari þverrandi í Bandaríkjunum. Vörubílar, dráttarvélar, öskubílar ... þarf að segja meira? Það blæs heldur ekki byrlega á fjármálamörkuðum fyrir árið 2008, síst þegar olíumarkaðurinn er tekinn með í reikninginn. Það kemur heldur ekki á óvart að gullverðið heldur áfram að hækka -- náði 880 dölum í gær. Ef loftvogin hegðaði sér svona, mundu Almannavarnir þeyta flauturnar og reka fólk ofan í neðanjarðarbyrgi. Verst að loftvog efnahagskerfisins virðist ekki ræsa ráðamenn heimsins. Ef einhvern tímann var rétti tíminn til að taka í neyðarhemlana, þá var það .... fyrir svona fimm árum síðan. Það sem gerir horfurnar ennþá leiðinlegri er að það er ekkert plan B. Ég endurtek: Það er ekkert plan B! Þegar spilaborgin hrynur, hver borgar þá brúsann? Hver ber ábyrgðina? Hver gerði eitthvað sem hann átti ekki að gera eða gerði ekki eitthvað sem hann átti að gera? Sjónir okkar hljóta að beinast að ráðamönnum, fólkinu sem hefur verið við stýrið á þessari fleytu sem nú er við það að sigla fram af fossbrún með manni og mús. Það fólk ætlar ekki að sökkva með skipinu sínu, heldur er það í hraðbát og siglir í burtu.

No comments:

Post a Comment