Friday, January 18, 2008

Þorsteinn, Bergiðja, milljarðar...

Mikið fannst mér fyndið að sjá Birgi Ármannsson í sjónvarpinu í fyrrakvöld, að reyna að verja skipan Þorsteins Davíðssonar. Þetta er brandari sem heldur bara áfram og áfram. Ég hálfkenni í brjósti um alla þessa ungu sjálfstæðismenn sem lenda í þessu, að þurfa að verja þessa æðislegu skipan. Ég hálfkenni líka í brjósti um Árna Mathiesen. En bara hálf. Honum -- og þeim hinum -- var nær að taka þetta að sér. Trúverðugleikinn í rass og rófu. Greyin. En bara hálf samt.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Þann 1. maí nk. á að loka Bergiðjunni hér við Klepp. Þar eru verkstæði og vinnustofur þar sem sjúklingar vinna. Ástæðan er sparnaður, eins og fyrri daginn. Ég skil nú ekki forgangsröðunina -- það er skrúfað fyrir leka þar sem enginn leik er -- skorið niður í kostnaði við sjálfa þjónustu Landspítalans -- en á meðan standa flóðgáttirnar opnar í yfirbyggingunni. Er þetta fyndið? Er þetta smekklegt? Hvers vegna er verið að reka þetta heilbrigðiskerfi á annað borð, ef það er ekki hægt að gera það sómasamlega?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Í dag er grein eftir mig á s. 28-9 í Mogganum. Lesið hana. Hún ætti að birtast á Vantrú líka fljótlega.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Það er eins og það sé allt á öðrum endanum vegna þessa hruns á verðbréfamörkuðum. Jah, ég er alla vega ekki á öðrum endanum. Ég man ekki eftir að þessi verðbréfamarkaður hafi gert mikið fyrir mig nýlega. Kemur þetta einhverjum á óvart? Getur það, í alvöru talað, verið? Það er talað um að svo og svo margir milljarðar hafi „horfið“. Hvernig getur maður annað en hlegið? Það sýnir best hvað þessi markaður byggist á miklu hókuspókusi. Alvöru verðmæti „hverfa“ ekki bara sisona. vitið þið hver galdurinnn er? Á ég að segja ykkur það? Það voru engin verðmæti á bakvið þessa svokölluðu milljarða! Þetta voru bara sjónhverfingar! Og þar hafiði það og hananú.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Í Nepal sögðu maóistar sig úr bráðabirgðastjórninni í haust, en hafa gengið til liðs við hana aftur eftir samninga um að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð konungdæmisins fyrir áramót, sem eru í apríl hjá þeim. Nú segjast þeir sjá kosningasvindl í uppsiglingu, alla vega í Terai-héraði, en heita aðgerðum til þess að koma í veg fyrir það.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
BP vísa því á bug á olíutindurinn sé yfirvofandi eða yfirstaðinn. Já, tóbaksfyrirtækin neituðu líka skaðsemi tóbaks frameftir öllu. Hver vill að hlutabréfin lækki? Hér er hollráð: Ef þið eigið hlutabréf í olíufélögum, seljið þau þá á stundinni!

No comments:

Post a Comment