Monday, March 9, 2009

Prófkjörið og heimsmálin

Burtséð frá öðrum frambjóðendum í prófkjöri VG, er ég ánægður með að Lilja Mósesdóttir hafi náð langt og óánægður með að Þorvaldur Þorvaldsson hafi ekki komist lengra. Það lítur út fyrir að VG muni í vor, eins og fyrri daginn, bjóða fram lista sem verður fyrst og fremst borgaralegur eða vinstri-kratískur. Flokkurinn hefur gagnrýninn stuðning minn á meðan ekki er sósíalískt framboð í boði.

Svandís talar um vinstristjórn, eins og fleiri. Borgaraleg vinstrikratísk stjórn væri líklegust til þess að verða lyfleysa fyrir okkar sjúka þjóðfélag. Gæti látið okkur líða betur um stund, en ólíkleg til að láta okkur batna í alvörunni. Til þess dugir ekkert minna en nýtt þjóðskipulag, og því verður ekki komið á af flokkum sem hafa ekkert annað á stefnuskránni en umbætur á gamla þjóðskipulaginu. Hér vantar stjórnmálaafl sem stefnir á réttlátt og skynsamlegt þjóðskipulag -- sósíalískt stjórnmálaafl sem er með vel útfært, trúverðugt prógram og bjargirnar til að fylgja því eftir. Þangað til það stjórnmálaafl kemur fram, býst ég við að ég veiti VG gagnrýninn stuðning áfram.

~~~ ~~~ ~~~ ~~~

Avigdor Lieberman, tilvonandi utanríkisráðherra Ísraels, er fasisti. Ekta fasisti. Fasisti á grófari og hreinskilnari hátt en Netanyahu, Sharon eða þessir karlar. Hann talar opinskátt um þjóðernishreinsanir og fjöldamorð eins og það séu sjálfsagðir hlutir. Hann hefur hvatt til þess opinberlega að friðarsinninn Uri Avnery verði myrtur. Ef hann kemst til verulegra áhrifa versnar staðan í Ísrael til muna; þetta gæti vel verið versti mögulegi kandídat í utanríkisráðuneyti Ísraels. Það er óhugnanlegt að svona skúrkar fái fylgi í kosningum.

Í samanburði við Avigdor Lieberman er Benyamin Netanyahu nokkuð vinstrisinnaður. Hægri og vinstri er afstætt. Ísraelsku flokkarnir eru vitanlega hægri og vinstri hver við annan, eins og þeir raðast á kvarðann, en ef borið er saman við einhver önnur lönd eru þeir meira og minna mjög hægrisinnaðir, nema ef til vill Kommúnistaflokkurinn. Þjóðernishyggja (zíonismi) þykir sjálfsögð, hernámið þykir sjálfsagt, það þykir sjálfsagt að halda áfram apartheid-stefnunni sem mismunar fólki eftir því hvort það er gyðingar, múslimar eða eitthvað annað.

Óréttlæti þykir sjálfsagt. Gæfulegt, eða þannig.

~~~ ~~~ ~~~ ~~~

Skrítið að Norður-Kórea álíti það ögrun að erkióvinurinn sé með heræfingar á þröskuldinum hjá þeim.

Bandaríkin mundu örugglega bregðast allt öðru vísi við ef Norður-Kórea væri með heræfingar í norðanverðu Mexíkó.

Það getur verið að það fenni í spor Kóreustríðsins í vitund Bandaríkjamanna. Það gerir það ekki í vitund Kóreumanna. Það er erfiðara fyrir fórnarlömbin að gleyma. Það gæti engin ríkissjtórn haldið velli í Norður-Kóreu lengi ef hún legði ekki rækt við herinn. Hann er tryggingin fyrir því að Kóreustríðið endurtaki sig ekki. Lausnin á málinu er auðvitað að Bandaríkjaher hypji sig heim til Bandaríkjanna. Hann á hvort sem er ekkert með að vera á Kóreuskaga.

No comments:

Post a Comment