Monday, January 29, 2007

Fáein orð um Bangladesh

Það er ljóta ástandið í Bangladesh. Í stuttu málið, þá lauk kjörtímabili Þjóðernissinnaflokks Bandladesh í haust, og bráðabirgðastjórn tók tímabundið við völdum til að skipuleggja kosningar, en þjóðernissinnarnir reyndust hafa búið þannig um hnútana að hún er rammhlutdræg. Awami-bandalagið, sem er veraldlega þenkjandi miðju-vinstrisinnað og einn stærsti flokkurinn, lýsti því yfir að það mundi sniðganga kosningarnar þar sem þær yrðu greinilega óréttlátar. Afsagnir, útgöngubönn, óeirðir og leiðindi hafa fylgt í kjölfarið.
Nú er ég ekki sérfræðingur í málefnum Bangladesh, en stenst það eiginlega ekki að tjá mig um málið: Ég hef efasemdir um heilindi Kommúnistaflokks Bangladesh, sem mun vera endurskoðunarsinnaður khrústsjofítaflokkur. Þá er spurningin, hvað annað stendur til boða? Öreigaflokkur Bangladesh (Purba Banglar Sarbahara Party) og Kommúnistaflokkur Bangladesh (marxistar-lenínistar) (Dutta) (Bangladesher Samyabadi Dal (Marxbadi-Leninbadi)) eiga báðir aðild að RIM (Byltingarsinnuðu alþjóðahreyfingunni) og CCOMPOSA (Samræmingarnefnd suðurasískra maóistaflokka og -hreyfinga). Ég tel það meðmæli, enda er RIM mikilvægur samstarfs- og samráðsvettvangur fyrir maóistaflokka frá jafn fjölbreyttum löndum og Indlandi, Íran, Sri Lanka, Kólumbíu, Nepal, Perú, Afghanistan, Tyrklandi, Haítí og víðar, en sem kunnugt er eiga þessi lönd það sameiginlegt, þótt ólík séu, að vera í brýnni þörf fyrir kommúníska byltingu.
Klofningshópurinn Maóista-bolsévíka-endurskipulagningarhreyfing Öreigaflokks Bangladesh er líka áhugaverð hreyfing, þar sem hún klauf sig út úr RIM árið 2004 eftir að hafa ályktað að RIM væri komin með gagnbyltingarsinnaða stefnu. Ég fellst hins vegar ekki á yfirlýsingu þeirra frá október 2004, og mundi því ekki styðja þá. Sama máli gegnir um Kommúnistaflokk Bangladesh (marxista-lenínista) (Umar), sem ég sé ekki ástæðu til að styðja.
Já, ég held að Öreigaflokkur Bangladesh sé sennilega málið. Lengi lifi Khalequzzaman formaður!

No comments:

Post a Comment