Sunday, January 7, 2007

Fatah og Hamas

Fatah segir Hamas stríð á hendur.
Ekki með orðaðri stríðsyfirlýsingu, heldur með verkum sínum.
Það er kunnara en frá þurfi að segja, að verk vega þyngra en orð. Árás sem slík vegur þannig þyngra en stríðsyfirlýsing sem slík.

Þegar Fatah ræðst á Hamas má segja að þeir séu í raun að ráðast á Palestínumenn. Þeir ráðast á samstöðuna, sem er það eina sem Palestínumenn geta treyst á. Þeir kalla ómældar hörmungar yfir fólk sitt, með því að hefja hjaðningavíg. Þeir þjóna Ísraelum og Bandaríkjamönnum með því að veikja þrótt Palestínumanna. Þeir undirstrika sína eigin spillingu með því að ráðast á þá sem hafa gagnrýnt hana hvað harðast. Þeir vanvirða lýðræðið með því að ráðast á lýðræðislega kjörna stjórn -- og leika þar aftur sama leikinn og Ísraelar og Bandaríkjamenn.
Spillingin hjá Fatah er ömurleg byrði á palestínsku þjóðinni. Það er full ástæða að trega það, að Palestínumenn sitji uppi með stjórnmálastétt sem er rotin inn að merg af spillingu. Það mega Hamas eiga, að þeir munu ekki vera nærri því eins spilltir og Fatah. Ég er ekki hrifinn af trúarlegum stjórnmálaöflum, en Hamas er í fyrsta lagi díalektískt afsprengi aðstæðna sinna, og í öðru lagi vöndurinn sem þarf til að sópa og flengja út úr skúmaskotum landráðamanna. Hvað eru það annað en landráð, þegar sitjandi forsætisráðherra á sementsverksmiðju sem selur Ísraelum sement til að byggja aðskilnaðarmúrinn, eins og tilfellið var með Ahmed Qurei?
Palestínumenn geta ekki sett traust sitt á baráttu á borgaralegum forsendum. Það þýðir bara að þeir verða hlunnfarnir af sínum eigin leiðtogum. Baráttan þarf að eiga sér rætur meðal fólksins sjálfs, grasrótarinnar, í skipulagi og samstöðu meðal óbreytts almennings.

No comments:

Post a Comment