Thursday, February 1, 2007

Hugo Chavez hlýtur feiknaleg völd

Chavez veitt völd til að stjórna með tilskipunum. Ég get nú ekki sagt að ég sé svartsýnn á að hann komi til með að misbeita þeim -- þótt það komi auðvitað í ljós -- en það fer kannski eftir því hvaða skilning maður leggur í orðin „að misbeita völdum“. Segjum að hann haldi áfram þjóðnýtingarstefnu sinni, stolti gagnvart amerísku heimsvaldastefnunni og að bæta veg almennings í landinu á flestan hátt. Væri það misbeiting? Væri það? Orðið „misbeiting“ er gildishlaðið orð; misbeiting eða ekki misbeiting, það fer gjarnan eftir því hver er spurður. Venezuela-búar álíti það upp til hópa misbeitingu að fá að lepja eitthvað annað en dauðann úr skel? Nei -- þeir sem kalla þetta misbeitingu eru auðvaldið og taglhnýtingar þess, heimsíhaldið.

Sjáið nú til: Ríkisvald er í eðli sínu valdatæki einnar stéttar. Það fer eftir því hver heldur um stjórnvöldinn, hver það er sem fyrir valdinu verður. Valdastéttin í Venezuela hefur riðið almenningi í landinu í rassgatið í tvær aldir. Ef röðin er nú komin að henni, þá get ég ekki sagt að hún hafi ekki átt það í vændum. Ég meina, dísus, getur maður ætlast til þess að maður komi sér upp forréttindum, verji þau með kjafti og klóm -- og stundum byssum -- og svo, þegar taflið snýst við, þá fari maður bara að væla? Hvar voru eyru ykkar, ó valdastétt Venezuela, þá er smáfuglarnir stundu undir stígvélahælum ykkar!?

Kristalskúlan mín er satt að segja of óskýr þessa stundina til þess að ég geti séð hvernig þetta mál fer á endanum. Ekki ætla ég mér að lofa neinum því að Chavez sé svo stálheill og góðfús við alla að allir verði bara sáttir. Ekki dettur mér í hug að lofa neinum að allt verði í ljúfa löð í Venezuela næstu árin, frekar en undanfarin ár, eða aldirnar á undan því. Ég get samt lofað einu, og það er að hvað sem Chavez gerir með þessi nýfengnu völd, þá verða einhverjir til að kalla hann skúrk og glæpamann og öðrum vel völdum nöfnum.

Það er samt eitt sem ég vil síst af öllu lofa fyrir hönd Chavezar, og það er að hann muni halda ævarandi tryggð við alþýðuna og reynast henni sá tryggi brautryðjandi sem hann kann að virðast vera núna. Hann getur talað um sósíalisma, já, það getur hann. Hann getur þjóðnýtt -- eða, öllu heldur, ríkisvætt -- olíufélögin og hitt og þetta annað. Hann getur hjólað í valdastéttina þannig að það taki hana mörg ár að jafna sig -- en það er möguleiki sem ekki heyrist nógu oft: Efasemdaraddir frá vinstri.

Ef ég ætti líkneski af Hugo Chavez, þá mundi ég ekki krjúpa fyrir því. Ég veit ekki -- frekar en nokkur annar, Chavez sjálfur meðtalinn -- hverjum hann þjónar þegar öll kurl koma til grafar. Ég veit ekki hvort hann getur vanið sig af mjúkum sessupúða hásætisins þegar hann hefur ánetjast honum. Ég er sérstaklega tortrygginn á eitt: Bólivarísku byltinguna. Ég hef það sterklega á tilfinningunni að þetta sé ekki annað en vinstrikratísk stefna, sem stefni að „umbótum“ en ekki byltingu -- og sé þannig á endanum best til þess fallin að framlengja lífdaga auðvaldsins. Ef sú yrði raunin, væri þá ekki betur heima setið en af stað farið? Ef sú yrði raunin, yrði þá ekki hægt að tala í alvöru um misbeitingu valds?

Það getið þið haft eftir mér: Megi söguleg nauðsyn forða því að ég veðji nokkurn tímann á krata, eða aðrar stoðir auðvaldsins, og treysti þeim fyrir byltingunni, -- við skegg Leníns!

Ég afskrifa ekki bólivarísku byltinguna bara sisona. Það má kannski hafa gagn af henni. Kannski spíssar hún baráttuna, kannski greiðir hún Byltingunni leið -- hver veit, kannski er þetta meira að segja byltingin, og ég ber ekki kennsl á hana þegar hún stendur þarna fyrir framan mig, brosandi og sýnandi imperíalismanum fingurinn. Ég játa að ég veit það ekki fyrir víst. Ég játa að ég er ekki spámaður. Í öllu falli sé ég ekki að ég geti gert neitt til að handstýra veröldinni framhjá blindskerjum sögulegrar nauðsynjar.

Ég býst við að á þessu stigi málsins séu mátulegar efasemdir og uppbyggileg gagnrýni frá vinstri það skásta í stöðunni.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Það var annars grein eftir mig á Vantrú í gær: „Enn um aðkomu Þjóðkirkjunnar að menntun barna“.

No comments:

Post a Comment