Tuesday, March 28, 2006

Tvöfalt áfall, einfaldur léttir

Ég fór út að skemmta mér á föstudagskvöld og á laugardagskvöld. Bæði kvöldin voru skemmtileg, en sitthvort áfallið skyggði á þau.

Á föstudagskvöld týndi ég fínu, nýju pípunni minni. Hún hefur annaðhvort týnst á Grettisgötu milli Snorrabrautar og Rauðarárstígs, eða þá á Rauðarárstíg milli Grettisgötu og Laugavegar, eða þá á Laugavegi milli Rauðarárstígs og Snorrabrautar. Ef einhver hefur fundið hana yrði ég mjög feginn því að fá hana aftur í hendur (og munnvik). Satt að segja er ég samt ekki svo bjartsýnn á það.

Á laugardagskvöldið henti mig öllu þungbærara áfall: Ég týndi vasabókinni minni. Fyrir vasabókarfíkil er þetta hrein og bein katastrófa. Það er hægt að kaupa nýja pípu, nýja kveikjara, fá nýjan síma eða veski eða lykla -- allt þetta er afturkræft -- en vasabók geymir hugsanir, minningar, upplýsingar, sem aðeins að litlu leyti er hægt að draga saman upp á nýtt. Að vísu var það lán í óláni að það er tiltölulega stutt síðan hún var tekin í notkun, svo að glataðar upplýsingar námu ekki nema viku af ævi minni.

Ég leitaði töluvert að pípunni en var fljótur að sjá að það væri til lítils. Öllu örvæntingarfyllri leit gerði ég að vasabókinni. Hún var að vísu merkt, svo að ég var heldur vonbetri um að endurheimta hana heldur en pípuna, sem var auðvitað ómerkt. (Hver merkir annars pípu? Ég, næst þegar ég kaupi nýja!) Ég hringdi í veislusalinn sem ég var í um kvöldið. Ekki fannst hún þar. Hringdi í leigubílastöðina, þaðan sem leigubíllinn kom sem keyrði okkur niður í bæ. Ekki fannst hún þar. Ég fór á knæpuna sem við fórum á, ekki var hún þar.

Vegna þess að bókin var merkt var ég í sjálfu sér ekki úrkula vonar. Samt grúfði yfir mér þrumuský allan sunnudaginn og allan mánudaginn, enda leið mér eins og ég væri nakinn, á sama hátt og kúrekanum sem vantar byssubeltið sitt. Þungur á brún bjó ég mig undir að fara á næturvakt, það var í gærkvöldi. Ég tók saman eitthvað af dóti til að hafa með mér. Blöð, rauðan kúlupenna og þess háttar. Það rifjaðist upp fyrir mér að ég ætlaði að skila DVD sem ég var með í láni. Fór og leitaði að honum en án árangurs. Sú leit bar mig hins vegar að tveim skýrslum sem ég ætlaði mér að lesa, og ég tók þær til handargagns.

Undir þeim lá vasabókin og beið þolinmóð eftir mér.

En þeir fagnaðarfundir! Þvílíkur léttir!

No comments:

Post a Comment