Wednesday, February 20, 2008

Í fréttum er þetta helst...

Þegar Geir Haarde segir að kjarasamningar séu "mjög ábyrgir", þá leyfi ég mér að hafa efasemdir um að þeir séu það fyrir launafólk. Samdi ASÍ af sér eða vann það stórsigur? Ég hef ekki verið í aðstöðu til að fylgjast nógu vel með, en sem ég segi, þá hef ég mínar efasemdir. Þeir töluðu um að "krefjast" 150.000 kr lágmarkslauna. Er von á stórsigri ef það er hið stóra takmark? Leiðréttið mig endilega ef ég fer með fleipur, en ég hef ekki ennþá séð ástæðu til að æpa af gleði.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
"Áhugafólk um borgarmál"? Ég get ekki skilið það öðruvísi en sem annað hvort "Hanna Birna og stuðningsmenn" eða "Sjálfstæðismenn sem hafa fengið nóg af Vilhjálmi". Það er líka athyglisvert að 45,4% segjast hafa kosið Sjálfstæðisflokkinn síðast -- en í síðustu kosningum fékk flokkurinn 42,1%. 30,4% segjast hafa kosið Samfylkingu, en hún fékk ekki nema 26,9%! Hvaða bull er þetta? Á þetta sér einhverja augljósa skýringu eða er þessi könnun bara vitleysa?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Í síðustu færslu skrifaði ég um reykingabann. Mér finnst að það eigi að fara eftir atvikum. Af vinnuverndarástæðum finnst mér að hver sá staður sem hefur fólk í vinnu eigi að vera reyklaus. Ef hópur fólks á stað saman og rekur hann saman og vinnur þar saman, þá kemur engum við hvort þar er reykt eða ekki. Ef staður er í eigi eins og þar vinna fleiri, þá finnst mér að það eigi að vera hægt að veita leyfi til að heimila reykingar (sbr. vínveitingaleyfi), ef staðurinn uppfyllir ströng skilyrði og borgar fyrir leyfið. Æskilegt gjald fyrir leyfið væri nákvæmalega sú upphæð sem staðurinn mundi græða brúttó á að hafa það, þannig að það væri ekki efnahagslegur hvati fyrir því, eða sem minnstur. Hins vegar væri athugandi að leyfa fólki ekki að reykja annað tóbak en það sem það keypti á staðnum. Ekki get ég komið með bjór inn á skemmtistað, er það?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ég sá í dönskum fréttum (finn ekki linkinn) að tveir Íslendingar hefðu ferðast 2500 km leið til Danmerkur til að lemja einhvern sem þeir töldu sig eiga eitthvað sökótt við. Ég hef heyrt þannig um fólk frá S-Evrópu, sem hinir þjóðrembusinnaðri vilja síður bera okkur saman við, en ég man ekki eftir að hafa heyrt það um Íslendinga áður.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Það segir sitt um hvað er á bak við Kosovo-málið, að í fréttamyndum flökta iðulega hlið við hlið fánar Albaníu og Bandaríkjanna. Kannast einhver við Camp Bondsteel? Lesið grein Jóns Karls frá því um daginn: Kósóvó og önnur aðskilnaðarhéröð á Balkanskaganum. Ég held að það kunni ekki góðri lukku að stýra að taka þátt í þessu.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Það er ekki allt sem sýnist í kosningunum í Pakistan.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Hvað gerir það til að ástunda ekki gagnrýna hugsun? Já, hvað gerir það til?

No comments:

Post a Comment