Monday, April 30, 2007

1. maí er á morgun

Á morgun er 1. maí. Það verður morgunkaffi í Friðarhúsi (Njálsgötu 87) frá klukkan 10:30. Klukkan 13:00 verður safnast saman í Hlemmi, og klukkan 13:30 gengið fylktu liði undir lúðrablæstri og fánaborg niður Laugaveg og á Ingólfstorg. Þegar fundinum þar lýkur, um klukkan 15:00, verður boðið upp á kaffi og slíkt á ýmsum stöðum, m.a. verður Zapatista-kaffi og 20% hátíðarafsláttur af róttækum bókmenntum í Snarrót, Laugavegi 21; BSR býður upp á kaffi og með því í Félagamiðstöðinni á Grettisgötu 89; eitthvað heyrði ég að yrði á döfinni í MÍR-salnum (sem er kominn upp á Hverfisgötu 105) og ég þykist vita að það verði opið í Pathfinder-bóksölunni líka.

Mitt plan: Morgunkaffi SHA - bera fána niður Laugaveg - fara kannski á einn eða tvo staði að fundinum loknum og enda í BSRB-húsinu á Grettisgötu.

Thursday, April 26, 2007

Þessa dagana (23.-29. apríl) stendur Slökkvum á sjónvarpinu-vikan yfir, að undirlagi AdBusters. Ég hvet fólk til að taka þátt í henni: Glápum minna, lifum meira.

Fréttin "Meirihluti hlynntur stofnun varaliðs lögreglu" frá því um daginn gefur gróflega skakka mynd vegna þess hvernig hún er sett fram. Hvers lags fyrirsögn er þetta, þegar kemur síðan fram að 9% eru mjög hlynnt, 30% frekar hlynnt, 17% frekar andvíg en 23,3% mjög andvíg? Augljóslega eru skiptar skoðanir um þetta -- en það gefur raunhæfari mynd, að af þeim sem hafa sterkar skoðanir á málinu eru meira en tveir þriðju mjög á móti.

Martin Van Crevel, ísraelskur prófessor í hernaðarsögu, talar af óvenjulegri hreinskilni þar sem vitnað er í hann í þessari grein: Við gætum eytt öllum höfuðborgum Evrópu. Furðuleg lesning.

Saturday, April 14, 2007

Heiligendamm, Berlín, Café Oscar

Ég er erlendis, nánar tiltekið í Árósum í Danmörku. Um daginn var ég í Berlín, þar sem ég kom á Karl-Marx-Allee og skoðaði Helfarar-minnismerkið og bílastæðið þar sem sprengjubyrgi Hitlers var forðum daga. Auk þess fór ég í róttæka bókabúð (á Kastanienallee 84) og skoðaði mig um í Prenzlauer Berg-hverfinu, og þar að auki heimsótti ég Heiligendamm í Mecklenburg-Vorpommern, þar sem ráðstefna G8 verður í 6.-8. júní. Með í för voru Rósa og Særós dóttir hennar. Við gistum yfir nótt í Heiligendamm og skoðuðum okkur um. Bærinn hefur ekki meira en nokkur hundruð íbúa, en lögreglan er nú þegar með gríðarlegan viðbúnað -- það voru tugir lögreglubíla á ferðinni, tugir, og það þótt tveir mánuðir séu enn til stefnu fyrir fundinn. Það sem ég skrifa meira um þennan N-Þýzkalandsrúnt mun birtast á hinu blogginu mínu.

Í gær skruppum við niður í bæ. Erindið var að fara í búð sem selur lífrænt ræktaðan mat og spyrjast fyrir um sjálfbært tilraunaþorp hér á Jótlandi, sem ég heyrði um á dögunum. Við fengum þær leiðbeiningar sem við þurftum, og gengum svo leiðar okkar. Skammt undan, á Mejlgade, fundum við hús þar sem athyglisverðir bolir hengu í glugga -- Café Oscar stóð yfir dyrunum. Við fórum inn, og það vildi svo heppilega til að þarna er aðeins opið einu sinni í viku, á föstudagseftirmiðdögum. Þetta reyndust vera höfuðstöðvar danska Kommúnistaflokksins (ekki rugla saman við Kommúnistaflokk Danmerkur), sem gefur út rauða dagblaðið Arbejderen. Það var áhugavert og skemmtilegt að spjalla við dönsku kommúnistana og drekka með þeim öl. Planið er að heimsækja þá aftur næsta föstudag. Eins og Íslendinga er siður í Danmörku, átti ég stórviðskipti við þau, kom út klyfjaður kommapésum, bolum, barmmerkjum og plakötum.

Monday, April 2, 2007

Sigurinn í Hafnarfirði

Það er best að halda því til haga hvað þessi sigur í Hafnarfirði var. „Mikilvægur áfangi í náttúruverndarbaráttunni“ segja Vinstri-græn, og það er líka hárrétt. Ekki þarf að orðlengja að þetta er mikilvægt. Áfangasigur er þetta vissulega -- sigur í einni viðureign á einni vígstöð, en ekki úrslitasigur í stóru baráttunni, og loks var þetta ekki sigur í baráttunni fyrir lýðræðinu eða gegn auðvaldinu, heldur fyrir náttúruvernd, í hinni borgaralegu baráttu fyrir náttúruvernd.
Þótt það séu skammtímahagsmunir auðvaldsins að rústa náttúrunni, þá eru það ekki langtímahagsmunir þess. Að því leyti getur vel verið gerlegt að heyja náttúruverndarbaráttu að miklu leyti borgaralegum forsendum. Já, sætur sigur var þetta, en varast skyldi að taka hann fyrir annað en hann er.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Í komandi kosningum ætla ég að kjósa Vinstri-græn. Ég er vel meðvitaður um þær takmarkanir sem flokkurinn býr, og reikna með að skrifa dálítið um þær á næstu vikum. Aðrir flokkar eru hins vegar sýnu takmarkaðri eða síður til gæfu fallnir. Hvað kemur fólki eiginlega til að kjósa Samfylkinguna?
Ég hef sett upp merki VG, „Af hverju ekki ríkisstjórn með ZERO framsókn?“ -- Fyrir utan að Framsókn átti þátt í R-listanum í borgarstjórn, þá þætti mér sniðugt ef það væru búin til merki þar sem stæði „Af hverju ekki land með ZERO ríkisstjórn?“ eða „Af hverju ekki þjóðfélag með ZERO auðvaldi?“
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Jón Karl Stefánsson skrifar á Eggina: Vill samfélagið refsa ógæfufólki? Saga Big Issue. Lesið þetta!