Saturday, April 14, 2007

Heiligendamm, Berlín, Café Oscar

Ég er erlendis, nánar tiltekið í Árósum í Danmörku. Um daginn var ég í Berlín, þar sem ég kom á Karl-Marx-Allee og skoðaði Helfarar-minnismerkið og bílastæðið þar sem sprengjubyrgi Hitlers var forðum daga. Auk þess fór ég í róttæka bókabúð (á Kastanienallee 84) og skoðaði mig um í Prenzlauer Berg-hverfinu, og þar að auki heimsótti ég Heiligendamm í Mecklenburg-Vorpommern, þar sem ráðstefna G8 verður í 6.-8. júní. Með í för voru Rósa og Særós dóttir hennar. Við gistum yfir nótt í Heiligendamm og skoðuðum okkur um. Bærinn hefur ekki meira en nokkur hundruð íbúa, en lögreglan er nú þegar með gríðarlegan viðbúnað -- það voru tugir lögreglubíla á ferðinni, tugir, og það þótt tveir mánuðir séu enn til stefnu fyrir fundinn. Það sem ég skrifa meira um þennan N-Þýzkalandsrúnt mun birtast á hinu blogginu mínu.

Í gær skruppum við niður í bæ. Erindið var að fara í búð sem selur lífrænt ræktaðan mat og spyrjast fyrir um sjálfbært tilraunaþorp hér á Jótlandi, sem ég heyrði um á dögunum. Við fengum þær leiðbeiningar sem við þurftum, og gengum svo leiðar okkar. Skammt undan, á Mejlgade, fundum við hús þar sem athyglisverðir bolir hengu í glugga -- Café Oscar stóð yfir dyrunum. Við fórum inn, og það vildi svo heppilega til að þarna er aðeins opið einu sinni í viku, á föstudagseftirmiðdögum. Þetta reyndust vera höfuðstöðvar danska Kommúnistaflokksins (ekki rugla saman við Kommúnistaflokk Danmerkur), sem gefur út rauða dagblaðið Arbejderen. Það var áhugavert og skemmtilegt að spjalla við dönsku kommúnistana og drekka með þeim öl. Planið er að heimsækja þá aftur næsta föstudag. Eins og Íslendinga er siður í Danmörku, átti ég stórviðskipti við þau, kom út klyfjaður kommapésum, bolum, barmmerkjum og plakötum.

No comments:

Post a Comment