Sunday, January 4, 2009

Af mótmælum og fleiru

Ég kalla það bölvun næturvarðarins, að sofa af sér mikilvæga atburði vegna þess að maður hafi verið á næturvakt. Það henti mig í gær, svo ég missti af mótmælunum á Austurvelli. Hafði asnalegar draumfarir í staðinn. Það gladdi mig að heyra, og kom mér ekki mikið á óvart, að mætingin hefði veirð mun meiri en fyrir viku. Nú sækja mótmælin í sig veðrið, og kemur ekki til af góðu. Við sem stöndum í andófinu verðum að passa okkur að splitta ekki hreyfingunni og vera ekki að fordæma hvert annað. Gagnrýni er sjálfsögð á meðan hún er uppbyggileg, en það þarf víst líka að átta sig á því að margvísleg taktík er notuð og hefur hver aðferð sína kosti og sína galla, sinn árangur og sínar takmarkanir.
Fyrir utan það, þá er vitað mál að óánægjualdan mun vaxa og þetta mun enda með ósköpum ef stjórnvöld fara ekki að bregðast við af viti og ábyrgð. Fólk sem hneykslast yfir skemmdarverkum ætti bara að bíða þangað til óvanari og reiðari mótmælendur fara að láta hnefa skipta. Ég efast um að margir muni kalla það ofbeldi að skemma sjónvarpskapla þegar fólk er farið að slasast alvarlega í átökum. Ábyrgðin er að fullu og öllu í höndum ríkisstjórnarinnar. Það er hún sem lætur þetta vaxa og stigmagnast með því að þumbast við og ímynda sér að þetta lægi bara af sjálfu sér. Það er leiðinlegt ef ráðamenn skilja ekki friðsamlegar, tiltölulega friðsamlegar eða ofbeldislausar aðgerðir. Það verður barist gegn þessari ríkisstjórn þangað til hún víkur með góðu eða illu og það verður öllum brögðum beitt til þess, líka þeim sem fólk mun sjá eftir.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Mikið getur Moggabloggið verið tímafrekt og þreytandi. Mér líður auk þess illa þegar ég finn fyrir ritskoðun, á borð við þá að loka fyrir blogg um dólgslæti Klemenzbræðra á gamlársdag.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Eyþór Árnason, upptökustjóri Stöðvar tvö, lýsir reynslu sinni af átökunum á gamlársdag: Kryddsíld - Bardaginn á Borginni. Trúverðug lýsing og virðist sanngjörn -- og sérdeilis lipurlega skrifuð.

No comments:

Post a Comment