Friday, December 7, 2007

„Skalat maðr rúnir rísta, nema ráða kunni“

Það eru gömul sannindi að maður á ekki að vekja upp drauga sem maður getur ekki kveðið niður aftur. Það hefði áróðursdeild Þjóðkirkjunnar átt að geta sagt sér sjálf. Nú virðist herferðin, sem hefur staðið yfir undanfarna daga, vera að snúast í höndunum á þeim. Það er sama sagan og alltaf, að ódrengileg framkoma Þjóðkirkjunnar við aðra -- hvort sem það eru samkynhneigðir eða trúlausir -- kemur sér verst fyrir hana sjálfa. Á dögunum birti Vantrú greinaflokk eftir mig sem kallast Strategískar ráðleggingar handa Þjóðkirkjunni, I: Opnið augun, II: Rætur vandans og III: Ráðið ykkur framkvæmdastjóra. Kirkjan hefði gott af því, og allir aðrir líka, að hún tæki það til athugunar sem ég skrifaði þar.

Í dag er heilsíðuauglýsing í Fréttablaðinu (s. 25), sem Siðmennt keypti til þess að koma því á hreint hvað hún vill og hvað hún vill ekki. Þessar rangfærslur eru óþolandi, og étur hver eftir öðrum. Ábyrgð Bjargar Evu Erlendsdóttur er mikil í því máli, eftir að hún ranghermdi það eftir Bjarna Jónssyni að Siðmennt væri á móti litlu jólunum í skólum. Þvílík fásinna. Siðmennt er á móti helgileikjum að svo miklu leyti sem í þeim felst trúboð. Það er málstað kirkjunnar síst til framdráttar að halda þessu blaðri áfram, til viðbótar við allan þann ófögnuð sem talsmenn hennar hafa látið út úr sér um trúleysingja í gegn um tíðina. Dylgjur og vísvituð ósannindi fara henni illa.

Trúboð í leikskólum er ekki spurning um vinsældakosningar trúarbragða, heldur um mannréttindi. Einstaklingsbundin mannréttindi og ófrávíkjanleg.

No comments:

Post a Comment