Tuesday, December 4, 2007

Siðmennt. Líka Venezuela.

Rógsherferð Þjóðkirkjunnar undanfarið gegn Siðmennt er með ólíkindum. Eða, öllu heldur, hún er dæmigerð í eðli sínu þótt umfangið sé meira en maður á að venjast. Talsmenn Siðmenntar hafa staðið sig vel; það er kúnst að halda stillingu og þolgæði frammi fyrir svona breiðsíðu af dylgjum og rangfærslum, þar sem bloggarar og fjölmiðlamenn éta vitleysu hver upp eftir öðrum og láta liggja óbættar hjá garði -- það er að segja, óleiðréttar. Svakalegt. Ef ég væri ekki orðinn félagi í Siðmennt fyrir löngu mundi ég gerast það á stundinni. Ég mæli með því að fólk skoði heimasíðu Siðmenntar og gangi jafnvel í félagið. Það er margur húmanistinn sem ætti heima meðal skoðanasystkina sinna og leggja lóð á vogarskálarnar.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Bandaríkin fagna ósigri Chavez -- ekki undrast ég það. Þau reru líka öllum árum að honum. Þetta kemur samt á óvart, verð ég að segja. Ekki held ég samt að öll kurl séu komin til grafar -- þeir eiga fleira í pokahorninu og eru með virk og svæsin plön um að steypa Chavez með illu. Tapið í kosningunum er bara hluti af stærra plotti. Venezúelsk stjórnvöld komust að því um daginn, fundu leyniskjöl þegar þau rótuðu í tösku bandarísks diplómata, og gerðu plönin opinber. Verkbönn, samgöngutruflanir, valdarán. Þetta er í pípunum, en dokum við og sjáum. Ég reikna með að tjá mig meira um þetta áður en langt um líður.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Um glæpamanninn Pútín hef ég ekki annað að segja en að hann mundi ekki þekkja lýðræði þótt því væri vafið um hálsinn á honum og hert að. Ég skil ekki að nokkur stjórnmálamaður með heiðarlega hugsjón fyrir lýðræði vilji nokkuð saman við hann sælda ótilneyddur. Þessi ófyrirleitni asni og ruddi.

No comments:

Post a Comment