Saturday, February 10, 2007

Írak: Þagað um fréttir?

Hér eru atriði sem ég skil ekki af hverju hafa ekki sést meira í fréttum:

Númer eitt: Íraska andspyrnan hefur unnið lönd úr höndum Bandaríkjahers og kvislingastjórnarinnar. Við munum eftir Ramadi, Fallujah og fleiri borgum sem herinn hefur plægt ofan í svaðið og íbúana með. Um þessar mundir er borgin Baqouba undir yfirráðum uppreisnarmanna. [1]

Númer tvö:
Íraska andspyrnan býður friðarviðræður. Talsmaður stórrar andspyrnuhreyfingar segir andspyrnuna reiðubúna til viðræðna, ef Bandaríkjastjórn gengur að kostum sem hafa verið settir. Kostirnir sem andspyrnan býður eru trúir málstað þjóðfrelsis, og Bandaríkjaher er verkfæri heimsvaldastefnunnar, svo að hann mun ekki ganga að þessum kostum í bráð -- en þeir hafa verið boðnir. [2]

Númer þrjú:
Sjöundi hver Íraki er á vergangi vegna stríðsins. Um það bil þrjár og hálf milljón Íraka hefur hrakist að heiman vegna stríðsins, um það bil helmingur er innan landamæra Íraks og hinir flestir í Jórdaníu og Sýrlandi. Þetta er stærsta flóttamannavandamál Miðausturlanda frá stríðinu þegar Ísrael var stofnað árið 1948. [3]

Hryllingurinn í Írak mun engan endi taka fyrr en íraska andspyrnan sparkar vígamönnum heimsvaldastefnunnar úr landi. Með valdi. Mér þykir leitt að segja það, en Írakar eiga ekki aðra kosti í stöðunni. Sá sem afneitar rétti Íraka til að verjast hernámsliðinu er að afneita réttinum til að verja hendur sínar, sé á mann ráðist. Það var ekki andspyrnan sem hóf þessi átök. Valdbeiting Bandaríkjahers er ekki til komin vegna valdbeitingar andspyrnunnar. Írakar eru króaðir í horni og geta ekki annað en bitið frá sér.
Íraskur almenningur verður að standa saman gegn óvininum, Bandaríkjaher og leppum hans. Við, almenningur landanna sem standa að þessu stríði, verðum líka að gera allt sem við getum til að stöðva það. Það er blaður að það hafi verið rétt að styðja stríðið miðað við þær forsendur sem þá lágu fyrir. Forsendurnar sem lágu fyrir þá voru þessar: Bush og félagar ásældust yfirráð yfir Írak og höfðu logið upp hverri átyllunni á eftir annarri til að réttlæta það, og þær höfðu jafnóðum verið hraktar og nýjar fundnar. Þetta sáu allir nema þeir sem vildu ekki sjá.
Hér á Íslandi sitja stjórnmálamenn við völd sem ekki hafa séð ástæðu til að mótmæla stríði bandarísku heimsvaldastefnunnar gegn írösku þjóðinni. Hvað eigum við að gera í því?

No comments:

Post a Comment