Tuesday, September 7, 2004

Gíslataka, bylting, hómópatar og Kórea



1. Gíslatakan í Beslan

Á Propaganga Matrix eru menn tortryggnir á gíslatökuna í Beslan og opinberan fréttaflutning af henni. Ég verð nú að segja að ég er skeptískur á það sem þeir eru að segja. Eru rússnesk yfirvöld flækt í málið? Mér þykir það ólíklegt í þetta skipti. Sennilegasta skýringin er nefnilega mun einfaldari.

Chechenska þjóðin er kúguð og pínd og hefur verið beitt ótrúlegu harðræði, bæði af Yeltsín og Pútín og forvera þeirra Stalín. Þessi óskemmtilegu örlög setja vitanlega mark sitt á þjóðina og þjóðarsálina. Hörmungarnar síðan núverandi átök hófust hafa komið svo óþyrmilega við þjóðarkauninn á Chechenum, að engan skyldi undra að öfgamenn í þeirra hópi séu orðnir margir. Öfgamenn? Reactionary þjóðernis- og trúarofstæki hefur skotið djúpum rótum í chechensku andspyrnunni. Andspyrnan skiptist, má segja, í tvennt. Sekúlar arm sem er ívið jarðbundnari (Mashkadov forseti og Kameyev eru meðal leiðtoga hans) og þjóðernistrúararmur (Shamil Basayev sennilega frægasti leiðtoginn, og núna Magomed Jevloyev kannski líka). Quislinga á borð við Kadyrov heitinn tel ég ekki með.

Þjóðfrelsisstríð Chechena hefur goldið mjög fyrir það hvað þjóðernis- og trúarofstækið hefur orðið ríkur þáttur í því. Ekki hefur hjálpað að heittrúaðir vígamenn frá öðrum íslömskum löndum hafa slegist í hópinn, og þar með enn skekkt vogarskálarnar.

Án þess að ég þurfi svosem að taka það fram, þá var gíslatakan í Beslan hræðilegur og óafsakanlegur glæpur. Ennfremur virðast viðbrögð yfirvalda hafa farið meira og minna í handaskolun. Ég harma innilega þennan voveiflega atburð. Ég harma líka það sem sjaldnar er talað um, en það eru aðfarir rússneska hersins í Checheníu og hvernig níðst er á chechenum með morðum, nauðgunum og tortímingu. Ég spái því að næsta verk rússneska setuliðsins í Checheníu verði að fara til heimaþorpa hryðjuverkamannanna og leggja þau í rúst.

Þetta mál allt saman sýnir vel að hryðjuverk stuðla ekki að neinu sem kallast gæti framfarir, framsækið eða uppbyggilegt. Hryðjuverk koma beint í kollinn á óbreyttum borgurum og ekki einu sinni göfugasta málstað er unnið gagn með grimmd eða hrottaskap.

~~~~~~~~~~~~~~



2. Bylting

Þórarinn Hjartarson skrifar greinina „Byltingar og endurbætur. Svar.“ á Múrnum. Þetta er framhald af „Nokkrum atriðum í stefnuumræðu fyrir íslenska byltingarsinna“ (1., 2., 3. hluti), afar langri og áhugaverðri grein sem birtist fyrir skemmstu. (Lesið hana!) Sverrir Jakobsson svaraði henni og nú svarar Þórarinn semsagt Sverri. Þórarinn hefur margt gott og gilt til málanna að leggja og ég vona að ég sjái fleiri skrif frá honum á næstunni.

~~~~~~~~~~~~~~



3. Hómópatar

Skrifaði landlæknisembættinu áðan bréf og hvatti til þess að látið yrði til skarar skríða gegn hómópatíu og öðru skrumi sem gefur sig út fyrir að vera heilnæmt. Hvers á hrekklaus almúginn að gjalda, þegar loddarar með gerfivísindi og hjátrú að vopni eru ekki einu sinni gagnrýndir kröftuglega? Þar sem ég var að snuðra um netið í örvæntingarfullri leit að skjaldborg læknastéttarinnar um alvöru læknisfræði (fann enga slíka) fann ég þessa síðu. Fyrir áhugasama um hómópatíu bendi ég á þessa áhugaveðru frétt. Hópi Belga mistókst að fremja fjöldasjálfsmorð, enda þótt þeir hefðu tekið inn eitur sem skv. formúlum hómópata ætti að vera afar kröftugt.

~~~~~~~~~~~~~~



4. Kórea

Viti menn, bandamenn okkar í Suður-Kóreu viðurkenna að hafa fiktað við að auðga úran! (Grein WSWS um málið.) Hversu harkalega ætli Bandaríkjamenn taki á því? Hversu harkalega hefðu þeir tekið á sambærilegri játningu frá t.d. Íran? Talandi um Kóreu: [Kim Jong-il] was widely believed by the West to be insane until Madeleine Albright, the former American secretary of state, declared him to be "perfectly rational" after a summit in 2000.* Madeleine Albright sagði að sér þætti dauði 500.000 írasqra barna vera „ásættanlegur fórnarkostnaður“ fyrir viðskiptabannið gegn Íraq. Í ljósi þeirra ummæla, sem sýna hennar dómgreind og siðferðisstig, eru ummælin um Kim Jong-il áhugaverð.

No comments:

Post a Comment