Thursday, March 13, 2008

Af suður-asískum maóistum og öðru

„Stærsta ógnin við öryggi á Indlandi“, Naxalbari-maóistar, eru með 15 milljón dollara sjóð til vopnakaupa, að sögn Manmohan Singh forseta landsins. Naxalítar eru félagar í RIM ásamt nepölsku maóistunum. Þeir neita því samt að vera í beinum tengslum. Annar aðildarflokkur í RIM, Kommúnistaflokkur Perú (betur þekktur sem „Skínandi stígur“) fordæmdi, sem kunnugt er, nepölsku maóistana hér í hittifyrra fyrir að víkja frá réttri stefnu og taka upp borgaraþjónkandi hentistefnu. Ég held ekki að naxalítar hafi tekið afstöðu í þessari innanbúðardeilu, en hins vegar hef ég fullan skilning á gagnrýni perúvíönsku maóistanna. Ekki að þeir hafi alltaf fylgt réttri stefnu heldur. En í öllu falli eru nepölsku maóistarnir komnir á furðulega borgaralega leið. Nú í apríl næstkomandi verður kosið til nýs stjórnlagaþings, og búist er við að það muni afnema konungdæmið og koma á fót borgaralegu lýðveldi í staðinn. Prachanda formaður er ekki fráhverfur því að verða framarlega í því. Hvaða maóisti sækist eftir metorðum innan borgaralegs lýðveldis, getið þið sagt mér það? Alla vega, hann sakar erlenda heimsvaldasinna og útþenslusinna (án efa með réttu) um að blanda sér í málin á bak við tjöldin, og segir Koirala forsætisráðherra vita vel hvað er á seyði. Á sama tíma skorar hann á aðra vinstrisinna að fylkja sér saman gegn afturhaldinu, um að sameinast um að afnema konungdæmið. Það er auðvitað hárrétt hjá honum, að það er í hæsta máta gott og rétt markmið. En hvergi nærri fullnægjandi; það er ekki nema hálfur sigur unninn með því, ef þá það. Ef markmiðið er borgaralegt lýðveldi, þá hafa þeir óneitanlega vikið af braut byltingarinnar. Og ef borgaralegt lýðveldi er bara áfangamarkmið, en sósíalískt lýðveldi er lengri tíma markmið, hvers vegna nota nepölsku maóistarnir þá ekki yfirburðastöðu sína til þess að mynda bandalag við verkafólk í Kathmandu og öðrum borgum, og koma sósíalíska lýðveldinu strax á?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ísraelskir þingmenn æfir vegna þess að Angela Merkel ætlar að ávarpa þá á þýsku. Jæjajá. Hún er fædd 1954. Hvernig er hægt að vera reiður út í hana út af helförinni? Af nógu er að tala til að hafa vanþóknun á henni út af, þótt helförin bætist ekki á sakaskrána líka. Ef þessir þingmenn eru svona mótfallnir fjöldamorðum, þá væri þeim nær að berjast gegn þeim í sínum eigin ranni, og vera ekki að siga ísraelskum hermönnum á palestínsk börn. Nema mannréttindin eigi bara við suma.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Annars er grein eftir mig á Egginni: Uppgangurinn í Kína er brothættur.

No comments:

Post a Comment