Um DíaMat - félag um díalektíska efnishyggju

DíaMat - félag um díalektíska efnishyggju var stofnað 2015 og var formlega skráð sem lífsskoðunarfélag 2016, með öllu sem því fylgir. Þangað til félagið hefur fengið sína eigin heimasíðu, verða samþykktir þess aðgengilegar hér.

DíaMat - félag um díalektíska efnishyggju
Kt: 631115-1790, bankareikningur 1110-26-001917
Viðtakandi: Vésteinn Valgarðsson
Lögheimili: Grundarstíg 5b
101 Reykjavík


Yfirlýsing DíaMats

Samþykkt á stofnfundi DíaMats 22. apríl og lítið breytt af framhaldsstofnfundi 16. október 2015
Efnisheimurinn er einn og óskiptur og hulduheimar eru ekki til, upphaf vitundarinnar er í efninu, engin vitund getur verið aðskilin frá efnislegum skilyrðum sínum, vilji mannsins er aldrei frjáls heldur alltaf skilyrtur af efnislegum og félagslegum kringumstæðum hans og þeirri sögu og hefðum sem hann fær í arf frá fyrri kynslóðum.

Ekkert gerist án einhvers samhengis við umhverfi sitt og allir hlutir, öll ferli og öll orka tengjast öðrum hlutum, orku eða ferlum.

Vald mannsins yfir náttúrunni er háð skilningi hans á henni, og vald mannsins yfir sjálfum sér er háð samstöðu og samvinnu fólks um hið sameiginlega.

Maðurinn er mælikvarði allra hluta frá sínu eigin sjónarmiði.

Allt siðferði á sér upphaf í félagslegum aðstæðum.

Hugmyndir koma frá efnislegum veruleika sem fólk lifir við.

Ábyrg umgengni um vistkerfið og sjálfbær nýting náttúrugæða eru forsenda þess að mannkynið geti lifað og dafnað í framtíðinni.


Stofnskrá fyrir Díamat - félag um díalektíska efnishyggju

Samþykkt á stofnfundi 22. apríl 2015 og staðfest á framhaldsstofnfundi 16. október 2015
1 Díalektísk efnishyggja og undirgrein hennar, söguleg efnishyggja, eru grundvöllur félagsins.

2 Díalektísk efnishyggja er aðferð til að skoða efnisheiminn og mannlegt samfélag, þar sem díalektík þýðir að hlutir, fyrirbæri eða hugmyndir eru skoðuð í samhengi við hvert annað en ekki aðskilin frá hvert öðru, og þar sem breytingar eru skoðaðar sem átök gagnverkandi krafta sem leiða til nýrrar niðurstöðu, eða stöðu. Efnishyggja þýðir að efnisheimurinn er álitinn einn og óskiptur, efnið er undirstaða alls sem við köllum vitund eða anda, og vitund eða andi eru ekki hugsanleg nema sem afurð efnislegra ferla.

3 Söguleg efnishyggja er aðferð til að skoða mannkynssöguna með aðferð díalektískrar efnishyggju. Hún skoðar framvindu sögunnar út frá framförum í framleiðsluháttum og afleiðingum þeirra í stjórnmálum, samfélagsskipan, hugmyndum, búsetu og gildismati.

4 Þeir sem aðhyllast díalektíska og sögulega efnishyggju afneita allri yfirnáttúru, allri hjátrú og öllum æðri máttarvöldum. Við álítum að vísindaleg aðferð sé besta, ef ekki eina aðferðin til að komast að hlutlægum sannleika um raunveruleikann. Við teljum því raunvísindi, hugvísindi og félagsvísindi vera bestu tækin sem við höfum til að öðlast vitneskju.

5 Við höfum manneskjuna í öndvegi, sem miðpunkt lífsviðhorfs okkar. Gildismat okkar framgengur af hagsmunum og velferð manneskjunnar, alþýðunnar. Við tökum afstöðu með öllu sem stuðlar að velferð, mannréttindum og lýðræði. Við tökum afstöðu gegn öllu sem ógnar velferð, mannréttindum og lýðræði og viðurkennum ekki kúgun eða ranglæti af neinu tagi, hvorki á einstaklingslegum né samfélagslegum grundvelli.

6 Við teljum æðsta markmið mannkynsins vera að öðlast fullt forræði yfir sjálfu sér. Til þess þarf að leiða félagslegar mótsetningar til lykta í samfélagi sem er stjórnað eftir lýðræði, rökhyggju og hagsmunum alþýðu manna. Til þess þarf einnig að stuðla að áframhaldandi framþróun í vísindum og tækni, til að ná sem bestum skilningi á vistkerfinu og félagslegum kringumstæðum, svo haga megi mannlífinu sem sjálfbærast, best og öryggast, sem eru hagsmunir alþýðunnar.


Iðkun díalektískrar og sögulegrar efnishyggju, athafnir og hátíðir

Samþykkt á stofnfundi DíaMats 22. apríl 2015 og með litlum breytingum á framhaldsstofnfundi 16. október 2015

Hvernig „iðkar“ maður díalektíska efnishyggju?


Þar sem díalektísk efnishyggja er ein tegund trúleysis, og felur ekki aðeins í sér að maður trúi ekki á yfirnáttúruleg fyrirbæri, heldur líka að maður beinlínis hafni tilvist þeirra, þá er engin tilbeiðsla af neinu tagi stunduð. Ef einhvern langar til að hugsa sér lífgefandi afl sem sé utan og ofan við valdsvið mannsins, þá bendum við á lögmál líffræði og eðlisfræði, sólina og jarðfræðilega eða efnafræðilega orkuferla. Hins vegar er eðlilegt að kynna sér bæði raunvísindi, hug- og félagsvísindi og heimspeki til þess að skilja betur hvað er að gerast í kring um okkur, og þar með til þess að hafa meira vald á umhverfi og velferð mannkynsins, ásamt því að þekkja takmarkanir okkar. Í því skyni býður díalektísk efnishyggja fólki að mennta sig sjálft og aðra og félagið styður þá viðleitni. Félagið boðar díalektíska efnishyggju með fræðslu og kynningu á hugmyndum hennar.

Við virðum mikils vísinda- og fræðimenn sem hafa lagt af mörkum til skilnings okkar og valds á okkur sjálfum og náttúrunni. Því minnumst við brautryðjenda raunvísindanna og félags- og hugvísindanna og þeirra stjórnmála- og verkalýðsleiðtoga sem hafa leitt alþýðu heimsins í sinni margvíslegu baráttu fyrir velferð sinni.

Hvað sjálfri díalektísku efnishyggjunni viðvíkur, eru Karl Marx og Friedrich Engels fremstir meðal jafningja. Heimspekilegir fyrirrennarar þeirra, Epíkúros, Demókrítos, Georg Wilhelm Friedrich Hegel og Ludwig Feuerbach, eiga einnig virðingarsess í huga okkar, sem og heimspekilegir sporgöngumenn þeirra, þar á meðal Georgi Plekhanov, Vladimir Ilyich Ulyanov og Antonio Gramsci. Félagið tekur sem slíkt ekki afstöðu í deilum um túlkun díalektískrar efnishyggju, svo sem milli György Lukács og Grigory Zinoviev eða milli Mao Zedong og Envers Hoxha, en stendur fyrir umræðu í málstofum og leshringjum, rannsóknum og útgáfu á fræðilegu efni um slíkar deilur.

Söguleg efnishyggja

Ásamt díalektískri efnishyggju boðar félagið hliðargrein hennar eða undirgrein, sögulega efnishyggju, sem fjallar um framþróun mannlegs samfélags og hvernig framfarir í framleiðsluháttum manna, í þekkingu, tækni og skipulagi framleiðslunnar, stuðla að félagslegri framþróun og breytingum, og hvernig framfarirnar stefna að lausn þeirra hindrana sem eru í veginum fyrir mannlegri velferð og farsæld: Hvernig baráttan við náttúruöflin vinnst með samvinnu, tækni og vísindum og hvernig baráttan fyrir félagslegum framförum vinnst með rökfestu, mannúð og samstöðu gegn úreltum eða vanþróuðum efnahagslegum og pólitískum skipulagsformum.

Athafnir

Félagið stendur fyrir nafngiftar- og útfararathöfnum fyrir þá félagsmenn sem þess óska, eftir atvikum sjálft eða í samvinnu við önnur félög eða fólk. Félagið sér um manndómsvígslur og gefur fólk saman. Um athafnir sér athafnamaður, það getur verið formaður eða annar félagsmaður sem stjórn getur skipað með einróma samþykki. Til þess að geta orðið athafnamaður þarf að hafa staðgóða þekkingu á díalekstískri efnishyggju, stjórn útfærir þær kröfur nánar.

Félagið veitir félagsmönnum persónulegan og félagslegan stuðning eftir þörfum og atvikum.

Hátíðir

Félagið heldur hátíðir til að minnast stóratburða úr sögu baráttunnar fyrir framförum: átjánda mars minnist félagið valdatöku alþýðunnar í Frakklandi, sjöunda nóvember valdatöku alþýðunnar í Rússlandi og fyrsta desember minnist félagið fullveldis Íslands.

Félagið heiðrar daga sem hvetja til frekari framfara, þar sem áttunda mars er tekið undir alþjóðlega kröfu kvenna um frið og jafnrétti, fyrsta maí er tekið undir baráttu verkalýðsins fyrir hag sínum og sjötta ágúst er tekið undir baráttu alþýðu heimsins gegn kjarnorkuvígbúnaði.

Félagið fagnar sumarsólstöðum, þegar jörðin stendur í mestum blóma, vetrarsólstöðum, þegar dag tekur að lengja, og jafndægrum á vori og hausti, þegar sólin skín jafn á alla jarðarbúa.


Um siðferðisgrundvöll díalektískrar efnishyggju

Samþykkt á stofnfundi Díamat 22. apríl 2015 og staðfest á framhaldsstofnfundi 16. október 2015

Hugmyndir manna um hvað sé gott og hvað sé vont eru í grunninn til þær sömu: Það sem bætir líf okkar og barnanna okkar, stuðlar að öryggi, þroska og velsæld, það eykur hamingju okkar og er því gott - og öfugt: það sem gerir líf okkar og barnanna okkar verra, skerðir öryggi, þroska og velsæld, það er vont. Þar með er þó ekki nema hálf sagan sögð, því vegna hagsmunaárekstra horfa sömu málin ólíkt við fólki í mismunandi þjóðfélagsstöðu.

Ráðandi viðhorf eru jafnan viðhorf ráðandi stéttar, sem notar skoðanamyndandi tæki á borð við fjölmiðla, trúarbrögð og menningu almennt til þess að innræta almenningi viðhorf sem verja ríkjandi þjóðskipulag. Þegar þau viðhorf eru andstæð hagsmunum alls almennings tökum við hagsmuni almennings fram yfir hin boðuðu viðhorf. Til dæmis getum við sagt að nægjusemi sé dygð að því leyti að rétt sé að fara sparlega með auðlindir jarðar og taka ekki meira til sín af hinu sameiginlega en manni ber. En ef hún lætur fólk sætta sig við vont hlutskipti, þegar betra er í boði, þá missir hún marks og er ekki dygð heldur löstur, sem gerir lífið verra og bitnar mest á manni sjálfum og þeim sem maður deilir hagsmunum með, stéttsystkinum manns.

Þegar borinn er út siðaboðskapur á borð við að ekki skuli mann deyða eða að ekki skuli stela, þá viljum við að sama gangi yfir alla: Þess vegna höfnum við ekki bara óskipulögðum morðum frömdum af einstaklingum, heldur líka dauðarefsingum og stríðsrekstri frömdum af ríkjum, og hungurdauða og drepsóttum sem stafa af tómlæti ríkjandi afla þjóðfélaganna. Og við höfnum ekki bara handahófskenndu hnupli örvilnaðs, fátæks fólks, heldur umfram allt því þjóðfélagslega arðráni sem auðvaldsskipulagið byggist á. Sé boðuð nægjusemi, viljum við líka að hún gangi yfir alla, og þeir sem hafa dregið til sín meiri auð og völd en réttlætt verður með þeirra eigin vinnu og verðleikum, byrji þá á að jafna sína þjóðfélagsstöðu alþýðunni.

Þá viljum við að öllu fólki sé gert kleift að öðlast hlutdeild í gæðum þjóðfélagsins, svo sem menntun, heilsu og menningarlífi.

Við byggjum siðferðisgrundvöll okkar ekki á siðferðislegri vandlætingu heldur á hagsmunum alþýðunnar: Það sem er í þágu alþýðunnar er þannig æskilegt, en það sem ógnar alþýðunni er óæskilegt. Því er samstaða miðlæg í siðferðinu, samstaða alþýðufólks með öðru alþýðufólki, og um leið höfnun á öllu sem sundrar samstöðunni og hindrar alþýðuna í baráttunni fyrir hagsmunum sínum.


Lög fyrir DíaMat - félag um díalektíska efnishyggju

Samþykkt á stofnfundi 22. apríl 2015

1 Nafn og aðsetur

1.1 Félagið heitir DíaMat - félag um díalektíska efnishyggju.
1.2 Heimili félagsins og varnarþing er í Reykjavík. Starfssvæði þess er landið allt.

2 Tilgangur

2.1 Tilgangur félagsins er að vera samfélag og samstarfsvettvangur fólks sem aðhyllist díalektíska og sögulega efnishyggju, samkvæmt skilningi stofnskrár félagsins, til að stuðla að þroska, sjálfsforræði og velferð alþýðunnar.

3 Starf

3.1 Félagið mun vinna að tilgangi sínum með rannsóknum, boðun og fræðslu um díalektíska efnishyggju. Það mun halda námskeið og málfundi. Það mun gefa út frumsamið og þýtt efni. Það mun styðja starf í anda stefnunnar, svo sem fræðistörf og baráttu fyrir mannréttindum og félagslegu réttlæti. Félagið vinnur að velferð og hamingju félagsmanna með persónulegum og félagslegum stuðningi og samstöðu, eftir þörfum og atvikum.
3.2 Félagið mun koma sér upp aðstöðu fyrir fundi og aðra starfsemi sína.
3.3 Félagið mun annast nafngjafir, jarðarfarir og aðrar athafnir þeirra félagsmanna sinna sem þess óska, sjálft eða í samstarfi við aðra. Það mun halda athafnir tengdar hátíðisdögum sínum.
3.4 Félagið mun sækja um skráningu sem lífsskoðunarfélag strax og stjórn telur forsendur til þess.

4 Aðild

4.1 Félagið er opið öllum þeim sem aðhyllast díalektíska efnishyggju, eiga lögheimili á Íslandi, eru orðnir fullra 16 ára, samþykkja að hlíta lögum þess og borga félagsgjöld.
4.2 Stjórn getur veitt fólki sem á lögheimili erlendis undanþágu til að eiga aðild að félaginu.
4.3 Stjórn getur vikið félögum úr félaginu ef þeir spilla orðstír þess, brjóta gegn lögum þess eða tilgangi eða bregðast trúnaði þess. Brottviknir félagar eiga rétt á að skjóta máli sínu til næsta aðalfundar eða aukaaðalfundar.
4.4 Heiðursfélagar eru undanþegnir félagsgjöldum.
4.5 Þegar félagið hefur fengið skráningu sem lífsskoðunarfélag skulu lög og reglur um skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög gilda um aðild að því.

5 Stjórn

5.1 Stjórn er kosin á aðalfundi til árs í senn. Fimm aðalmenn eru kosnir í einu lagi. Stjórn skiptir með sér verkum.
5.2 Ef stjórnarmaður forfallast til lengri tíma eða hættir í stjórn skal stjórn finna staðgengil til næsta aðalfundar eða aukaaðalfundar.
5.3 Stjórn ber sameiginlega ábyrgð á starfi félagsins milli aðalfunda og hjálpast að eftir atvikum.
5.4 Stjórn ber sameiginlega ábyrgð á firmaritun félagsins.
5.5 Stjórnarfundur er löglegur ef hann er boðaður með minnst fjögurra virkra daga fyrirvara og hann situr meirihluti stjórnarmanna.
5.6 Stjórn getur skuldbundið félagið fjárhagslega á grundvelli bókaðra samþykkta löglegra stjórnarfunda.
5.7 Stjórn ber sameiginlega ábyrgð á að halda skjölum félagsins til haga.
5.8 Formaður ber ábyrgð á að fundir séu boðaðir og hann stjórnar þeim ef ekki er annar fundarstjóri kosinn. Hann er aðaltalsmaður félagsins út á við. Hann hefur tvöfalt atkvæði ef atkvæðagreiðslur falla á jöfnu.
5.9 Varaformaður er staðgengill formanns.
5.10 Ritari tekur við skráningum og úrskráningum og heldur utan um spjaldskrá félagsins. Hann ritar fundargerðir og bókanir í gerðabók félagsins og sér til þess að nýjustu upplýsingar um lög og aðrar samþykktir, og um stjórn og aðra trúnaðarmenn félagsins, séu ávallt aðgengilegar félögum og berist til ríkisskattstjóra.
5.11 Gjaldkeri innheimtir félagsgjöld og hefur prókúru fyrir félagið. Hann ber ábyrgð á ársreikningi og öðrum reikningum og fjármálum félagsins gagnvart stjórn.

6 Reikningsár

6.1 Reikningsár félagsins er almanaksárið.

7 Aðalfundur

7.1 Aðalfundur er æðsta vald í málefnum félagsins.
7.2 Aðalfund skal halda fyrir lok febrúar á hverju ári
7.3 Aðalfund skal boða með öruggum hætti með tillögu að dagskrá, með minnst mánaðar fyrirvara.
7.4 Á aðalfundi hefur hver sá félagsmaður eitt atkvæði, sem er fullgildur félagi og stendur í skilum með félagsgjöld þegar aðalfundarboð er sent út.
7.5 Aðalfundur er löglegur ef löglega er til hans boðað.
7.6 Á dagskrá aðalfundar skal vera:
7.6.1 Kosning fundarstjóra og fundarritara,
7.6.2 Skýrsla stjórnar um starf félagsins á starfsárinu,
7.6.3 Endurskoðaðir reikningar félagsins lagðir fram og afgreiddir,
7.6.4 Lagabreytingar,
7.6.5 Stjórnarkjör,
7.6.6 Kjör tveggja skoðunarmanna reikninga, sem ekki eru í stjórn.
7.6.7 Félagsgjöld næsta starfsárs ákveðin,
7.6.8 Önnur mál.
7.7 Stjórn getur bætt við dagskrárliðum í fundarboði ef þurfa þykir. Það getur aðalfundur einnig gert sjálfur.
7.8 Aðalfundi er stjórnað samkvæmt almennum fundarsköpum. Setji félagið sér sérstök fundarsköp, gilda þau.
7.9 Aukaaðalfund skal boða, á sama hátt og aðalfund, strax og formaður, meirihluti stjórnar eða þriðjungur félagsmanna eða fleiri æskja þess og leggja fram tillögu að dagskrá.
7.10 Aukaaðalfund skal einnig boða strax og þörf er á þegar félagið er komið í umsóknarferli til að fá skráningu sem lífsskoðunarfélag.

8 Lagabreytingar og slit félagsins

8.1 Lögum félagsins getur aðalfundur breytt með einföldum meirihluta.
8.2 Breytingar á stofnskrá skal afgreiða eins og lagabreytingu, en teljast ekki samþykktar nema með þrem fjórðu hlutum atkvæða.
8.3 Komi fram tillaga um að leggja félagið niður skal fara með hana eins og lagabreytingartillögu, en hún telst ekki samþykkt nema með þrem fjórðu hlutum atkvæða og að helmingur félagsmanna eða fleiri sitji fundinn. Sé tilskilinn meirihluti fundarmanna samþykkur tillögunni, en fundarsókn ófullnægjandi, skal boða til framhaldsaðalfundar innan fimm vikna og getur hann þá afgreitt tillöguna með sama hlutfalli atkvæða en óháð fundarsókn. Sami fundur skal ráðstafa eignum félagsins í samræmi við tilgang þess.


Nánar um athafnir Díamats – félags um díalektíska efnishyggju

Ritað hefur Vésteinn Valgarðsson, formaður DíaMats, í marsbyrjun 2016

Inntakið í athöfnum DíaMats er díalektísk efnishyggjusýn á manninn sem einstakling, sem fjölskyldu og sem samfélag. Umgjörð þeirra byggist á hefðum lýðræðislegra funda. Að öðru leyti munu athafnirnar draga dám af borgaralegum athöfnum sem þegar eru stundaðar, en taka skal fram að ekki er komin hefð á athafnir í anda díalektískrar efnishyggju. Það er vegna þess að lífsskoðunarfélög af okkar tæi eru hvergi starfandi svo okkur sé kunnugt, þó svo að margir aðhyllist díalektíska efnishyggju í heiminum, enda búa trú- og lífsskoðunarfélög víðast við aðrar reglur en á Íslandi.

Athafnamaður

Athafnamaður félagsins stjórnar athöfnum. Það getur verið forstöðumaður eða athafnamaður úr röðum félagsmanna, sem stjórn hefur einróma samþykkt til þessa hlutverks í umboði forstöðumanns, og fengið samþykki innanríkisráðuneytisins. Athafnir félagsins standa félagsmönnum til boða ef þeir æskja þess. Félagið krefur félagsmenn sína ekki um þátttöku í neinum athöfnum. Athafnir félagsins verða að jafnaði látlausar og haldnar af virðingu fyrir alvöru lífsins. Aðkoma félagsins einskorðast ekki við sjálfar athafnirnar, heldur mun það bjóða félagsmönnum persónulegan og félagslegan stuðning eða fræðslu eftir þörfum og atvikum. Athafnamaður ber ábyrgð á að skila upplýsingum til þjóðskrár um þær athafnir sem varða opinbera skráningu þeirra sem í hlut eiga.

Félagið lítur á fæðingu og dauða sem úrslitaatriði í lífi hverrar manneskju þar sem enginn kemst undan þeim og þau eiga sér líffræðilegar en ekki félagslegar ástæður. Þess vegna eru nafngjafir og útfarir meginathafnir félagsins. Félagið mun einnig annast manndómsvígslur og hjónavígslur, en þar sem þær eru mannasetningar, og valkvæðar sem slíkar, eru þær ekki í sama fyrirrúmi og nafngjöfin og útförin.

Nafngjöf

Við nafngjöf heldur athafnamaður ræðu þar sem hann tekur saman hollráð um uppeldi og atlæti barna og skyldur nánustu ættingja og vina og samfélagsins alls. Þá innir hann forráðamenn barnsins eftir því hvað það eigi að heita og lýsir því svo að barnið heiti það og kallar viðstadda votta að því. Fyrir utan nafngjafarathöfnina sjálfa mun félagið styðja við nýbakaða foreldra með fræðslu, svo sem með því að gefa þeim bækur eða bjóða þeim á námskeið, um uppeldismál og þarfir og velferð barna.

Útför

Við útför heldur athafnamaður ræðu þar sem hann fer yfir mikilsverð atriði úr lífi hins látna, með áherslu á hvað eftirlifendur geti lært af því og hvernig þeir geti farið með missi sinn. Að öðru leyti ráða aðstandendur hins látna því hvernig athöfnin fer fram. Til viðbótar mun félagið styðja fólk í sorgarferli, til dæmis aðstoða fólk við að fá viðtöl við sálfræðing ef það þarf.

Manndómsvígsla

Fyrir díalektíska manndómsvígslu skal sá, sem ætlar að undirgangast hana, fyrst tileinka sér díalektíska og sögulega efnishyggju og lærdóma hennar undir handleiðslu sem félagið sér fyrir. Hann skal skilja díalektíska sýn á réttlæti og ranglæti, á siðferði, á ábyrgð og á þjóðfélagsleg mál og vilja haga lífi sínu eftir þessum skilningi. Manndómsvígslan fer fram líkt og fundur, þar sem athafnamaður er sem fundarstjóri: Hann setur fundinn. Því næst fær sá orðið, sem ætlar að taka manndómsvígsluna, og segir viðstöddum frá því sem hann hefur lært og skilið í díalektískri og sögulegri efnishyggju og samhengi þess við sjálft lífið og hvernig því er lifað. Þegar hann hefur lokið máli sínu opnar athafnamaður umræður og gefur viðstöddum kost á að segja skoðun sína. Eins og á díalektískum fundi er tilgangur umræðnanna að bæta skilning allra viðstaddra. Manndómsvígsluþeginn á síðasta orðið í umræðunum og þegar hann hefur lokið máli sínu ber athafnamaðurinn hann undir fundarmenn, sem samþykkja hann með lófataki. Neðra aldurstakmark fyrir manndómsvígslu DíaMats skal vera 13 ár en efri mörk engin.

Hjónaband

Afstaða félagsins til hjónavígslu er í grunninn til sú, að hjónaband eigi aldagamlar rætur í félagslegum ójöfnuði og eignarrétti karla á konum. Félagið heldur þess vegna ekki beinlínis upp á hjónabandið sem stofnun, en viðurkennir engu að síður að þar sem það er til, og þar sem fólk vill gjarnan ganga í hjónaband og umgjörð samfélagsins gerir auk þess ráð fyrir því, meðal annars hvað varðar forræði yfir börnum og arf, sé sjálfsagt að veita þjónustu við hjónabandsathafnir ef fólk æskir þess og vill frekar þjónustu félagins heldur en sýslumanna eða annarra trú- eða lífsskoðunarfélaga.

Við díalektíska hjónavígslu stjórnar athafnamaður athöfninni. Athafnamaður tekur sér stöðu milli hjónaefnanna frammi fyrir gestunum. Ekki er gert ráð fyrir svaramönnum nema hjónaefnin óski þess sérstaklega. Athafamaður býður gesti velkomna og heldur ræðu um samstöðu og tryggð og traust í sambandi fólks, og um þær skyldur sem það leggur þeim á herðar í samfélaginu. Hann fjallar um díalektískt samband fólksins sem er gefið saman, hvernig það hefur áhrif á hvort annað og hvernig parið á díalektískt samband við samfélagið og fjölskylduna, vegna gagnkvæmra félagslegra áhrifa. Síðan spyr hann hjónaefnin hvort þau vilji verða hjón, og þegar þau játa því lýsir hann þau hjón í krafti embættis síns.

Ef hjón innan félagsins vilja fá hjónabandsráðgjöf eða ráðgjöf um annað sem viðkemur sambandi þeirra, mun félagið bjóða þeim stuðning, til dæmis með því að útvega viðtöl við hjónabandsráðgjafa.

Á hátíðisdögum og við önnur tilefni

Viðhöfn félagsins á hátíðisdögum þess fer eftir tilefninu. Áttunda mars, fyrsta maí, sjötta ágúst, sjöunda nóvember og fyrsta desember taka félagarnir þátt í fundum af tilefni dagsins. Vetrarsólstöðum er fagnað með jólahaldi. Sumarsólstöðum og jafndægrum fagnar hver á sinn hátt. Átjánda mars er valdatöku alþýðunnar í Frakklandi minnst og gerir það hver á sinn hátt.

Aðrar reglulegar samkomur félagsins fara þannig fram að framsögumaður er fenginn til að halda framsögu, þar sem hann velur sér umfjöllunarefni og leggur út af því í díalektískum skilningi: hvernig megi túlka það, hvað megi læra af því og hvernig sá lærdómur gagnist til þess að bæta heiminn. Síðan taka við almennar umræður, sem athafnamaður stjórnar, þar sem viðstaddir geta sagt sína skoðun, og er tilgangur umræðnanna og alls fundarins sá, að bæta skilning og þekkingu þátttakenda á efninu.

Líf í anda díalektískrar efnishyggju

DíaMat trúir því ekki að menn réttlætist af skoðunum sínum eða þátttöku í athöfnum, heldur séu hegðunin og verkin eini mælikvarðinn. Þess vegna iðkar fólk díalektíska efnishyggju með því að starfa að því sem það vill að verði, og með reynslu, menntun og gagnrýninni hugsun.

Vésteinn Valgarðsson
formaður DíaMats

No comments:

Post a Comment