Tuesday, June 22, 2021

Lágmarksstærð

Lög um lágmarksstærð sveitarfélaga eru með verri hugmyndum sem ég hef heyrt, fyrir hinar dreifðu byggðir. Það er jafnvitlaust og lög um lágmarksstærð þjóðríkja, sem mundu skikka Ísland til að sameinast Noregi.

Þið spyrjið kannski af hverju. Vegna þess að það er alltaf sama sagan, þegar fámennara sveitarfélag sameinast fjölmennara, verður það alltaf afgangsstærð. Skólarnir eru til dæmis sameinaðir og öll börnin flutt á milli í skólabíl, miklu lengri vegalengd en ella hefði verið. Og sama með fleiri stofnanir. Úti um allt land er að finna samfélög í fámennari kantinum sem hafa selt frumburðarréttinn frá sér fyrir baunadisk og iðast þess æ síðan. Það væri nær að hlusta á þeirra reynslu.

Ríkið hvetur smærri sveitarfélög til að sameinast. Það er bull. Ef sveitarfélög hafa hag af sameiningu og íbúarnir vilja hana, þá þarf ekki að hvetja til hennar. Það þarf ekki að lokka fólk til einhvers sem er fýsilegt í sjálfu sér.

Tal um samlegðaráhrif er bull. Ef þau eru einhver eru þau bara til hagsbóta fyrir stærra sveitarfélagið. Auk þess er oft nóg að hafa samstarf til að ná fram hugsanlegri hagræðingu, og sameiningin er þá ástæðulaus. Rétt eins og það er hægt að starfa með öðru fólki án þess að giftast því líka.,

Jæja, bull og bull. Það yrðu að vísu líklega mjög mikil og holl samlegðaráhrif ef sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu sameinuðust. Þar eru bæði skriffinnskubákn sem mætti skera niður, og samgöngu- og skipulagsmál sem eru mikil sóknarfæri í að samræma.

No comments:

Post a Comment