Tuesday, February 2, 2021

Kerfisbreytingarflokkarnir

Það mundu ekki margir nenna að lesa upptalningu á öllum þeim dæmum sem ég gæti nefnt um að Alþýðufylkingin hefði verið sniðgengin í kosningaumfjöllun fjölmiðlanna. Sú upptalning mundi auk þess æra óstöðugan. En nógu þreytandi var það.

Eitt bjánalegasta dæmið hlýtur samt að vera þegar einhver blaðamaðurinn tók saman yfirlit yfir alla flokkana sem voru í framboði og flokkaði þá eftir því hvort þeir stæðu fyrir kerfisbreytingar eða ekki. Þetta stuðorð var þrástef í kosningabaráttunni 2016 og 2017. Ég hef úrklippuna því miður ekki handbæra.

Alþýðufylkingin boðaði hvarf frá kapítalisma, góðan spöl í átt til sósíalismans. Eigindarbreytingu sem væri ekki til þess að bjarga hagkerfinu, heldur koma á nýju hagkerfi með nýjum grundvallargildum. Einkum gerbreytt fjármála-, lífeyris- og húsnæðiskerfi. Miklu róttækari kerfisbreytingar en nokkur annar boðaði.

Þetta sá blaðamaðurinn ekki sem kerfisbreytingar, heldur flokkaði okkur sem kerfisflokk. Alþýðufylkinguna sem kerfisflokk. Ég er nú ekki samsærissinnaðri en svo að ég skrifa þetta bara á gamaldags leti. Einhver hefði samt trúlega tekið sterkar til orða en það.

No comments:

Post a Comment