Thursday, December 31, 2020

Áramót á Tjarnargötu 3C

Indriði Einarsson (1851-1939), rithöfundur og endurskoðandi (revisor), var langalangafi minn. Amma mín Jórunn (1918-2017) mundi afa sinn vel og er þetta einn af þeim strengjum sem ég þykist upplifa óslitinn aftur á miðja nítjándu öld.

Indriði Einarsson
Indriði skrifaði endurminningar sínar -- Séð og lifað heita þær -- og þar kemur vel fram að lífsviðhorf hans var nokkuð íhaldssamt, alveg sérstaklega þegar gamlar venjur voru annars vegar. Hann var til dæmis af Reynistaðarætt, ætt Reynistaðarbræðra, sem urðu úti haustið 1780, og hélt dyggilega í heiðri ættarfylgjuna að drengir megi hvorki heita Bjarni, klæðast grænu né ríða bleikum hesti. Amma sagði að hann hefði ræktað þetta í pottum, og þetta voru þá hefðirnar gömlu, og það er vafalaust fyrir hans venjufestu að minn leggur af ættinni hefur fram á þennan dag að miklu leyti virt þessa gömlu bannhelgi.

Nú, í fjölskyldu Indriða hafði lengi tíðkast á áramótum að bjóða heima, sem kallað er. Sagt er að álfar og huldufólk flytji búferlum á áramótum og þessi athöfn felur í sér að ganga þrisvar sinnum réttsælis og þrisvar sinnum rangsælis umhverfis bæinn eða húsið og fara með þuluna: Komi þeir sem koma vilja, fari þeir sem fara vilja, veri þeir sem vera vilja, mér og mínum að meinalausu. Reyndar hef ég oft hugsað að það þyrfti ekki orðlengja meira innflytjendastefnu fyrir Ísland, en það er önnur saga. En þessi siður lifir líka enn í minni fjölskyldu, sem að öðru leyti stundar litla hjátrú.

Indriði bjó lengi á Tjarnargötu 3C, litla húsinu sem var seinna flutt og stendur síðan við Garðastræti, milli Túngötu og Grjótagötu og er númer 11 við síðastnefndu. Þegar hann flutti þangað gekk dálítil vík norður úr Tjörninni fyrir austan húsið. Röskleikamaðurinn Indriði tók upp á því að sækja á hverjum degi einar hjólbörur af jarðvegi -- sér til heilsubótar, sagði hann -- og sturta út í víkina. Þegar svo víkin varð full, seldi Indriði lóðina sem hann hafði búið til. Skúli Thoroddsen, áður sýslumaður Ísfirðinga, og Theódóra kona hans keyptu, og byggðu sér þar hið reisulega hús sem var Vonarstræti 12 en stendur nú á Kirkjustræti 4.

Í þann tíð stóðu oft allhá timburgrindverk eða þil þvert um bil milli húsa, og svo var milli húsa Skúla og Indriða. Theódóra þekkti nágranna sinn vel og hans siði og þegar gamlársdegi hallaði, nefndi hún þetta gjarnan við mann sinn: Skúli minn, ertu búinn að reisa tröppuna fyrir revísorinn?

No comments:

Post a Comment