Tuesday, December 28, 2004

Sá sem stjórnar fjölmiðlunum stjórnar orðræðunni, sá sem stjórnar orðræðunni getur komið til skila öllum þeim áróðri sem hann vill með því að velja réttu orðin.



Hverjir ráða vestrænum fjölmiðlum? Það er vestræna valdastéttin, vestræna auðvaldið. Þegar þjóðarleiðtogar eru kallaðir „brjálæðingar og harðstjórar“ í vestrænum fjölmiðlum, hvað er þá á feðrinni?

~ Þeir gætu verið brjálæðingar og harðstjórar í alvörunni.

~ Þeir gætu átt í beinum eða óbeinum deilum við vestræna auðvaldið og verið rægðir.

~ Þeir gætu staðið í heiðarlegri baráttu gegn auðvaldi og heimsvaldastefnu og uppskorið róg og níð fyrir.



Hvað sem öllu líður er rétt að leggja við hlustir þegar brjálæðingar og harðstjórar berast í tal í fjölmiðlum. Fyrir utan að ekta brjálæðingar eru oft áhugaverðir, þá held ég að fullyrða megi að ofter en ekki séu þeir, umfram annað, fórnarlömb rógs. Hvað svo sem segja má um þá menn að öðru leyti, þá hafa Saddam Hussein, Slobodan Milesovic, Muammar Khaddafi, Hugo Chavez, Fidel Castro og fleiri verið rægðir miskunnarlaust í vestrænum fjölmiðlum. Gleymum heldur ekki Yasser heitnum Arafat.



Ef framsækinn leiðtogi kemur fram á sjónarsviðið og leiðir fólk sitt í varnarstríði gegn innlendu og erlendu auðvaldi og heimsvaldastefnu, hvernig má þá búast við að sjá talað um hann í vestrænum, heimsvaldasinnuðum fjölmiðlum?



„Brjálæðingur og harðstjóri!“



Einkareknir fjölmiðlar eru að mestu leyti í eigu kapítalista, fréttaveitur á borð við AFP og Reuters eru í eigu kapítalista, og ríkisreknir fjölmiðlar eru oft og tíðum í umsjón möppudýra og bürókrata -- atvinnu-erindreka auðvaldsins í kerfinu. Þegar (einkarekinn) fjölmiðill bregst ókvæða við ríkisstjórn eigin lands, þá eru verulegar líkur á að eitthvað merkilegt sé að gerast.

Uppgjör milli valdablokka er algeng skýring, sbr. fjölmiðlamáls-upphlaupið hér á Íslandi. Líka æsa framsæknir fjölmiðlar sig (skiljanlega) yfir atlögum afturhaldsins gegn alþýðunni.



Allavega, það er einn þjóðarleiðtogi sem mig grunar að sé fórnarlamb ósanngjarns rógburðar. Það er ... haldið nú niðri í ykkur andanum: Robert Mugabe, forseti Zimbabwe. Hann er óspart kallaður brjálæðingur og harðstjóri, en er hann það? Ég veit það ekki fyrir víst. Hann hefur staðið í uppskiptum (Chimurenga) á risabúgörðum í landinu, sem hafa verið teknir eignarnámi af hvítum fyrrum eigendum sínum og fengnir í hendur svörtum bændum. Hann hefur ríkt í 24 ár sem forseti. Hann var skæruliði á yngri árum og barðist við menn Ians Smith (ætli stríðsglæpamaðurinn „Halli málaliði“ hafi ekki verið þar á meðal?), hermenn hvítu minnihlutastjórnarinnar sem stjórnaði í sama anda og apartheid í Suður-Afríku. Mugabe kallaði sig eitt sinn marxista -- ég veit ekki hvort hann gerir það ennþá. Hvað veit maður mikið um Mugabe og verk hans í alvörunni? Ekki svo mikið. Ég ætla hins vegar að kynna mér hann þegar ég hef tíma til, sem verður í janúar eða febrúar.

No comments:

Post a Comment