Saturday, December 11, 2004

Rúðubrot, NATO, Palestína, efnavopn, hræsni, olía og rasismi



Það var víst ekki grjót heldur gashylki sem var kastað inn um rúðu í Alþingi í gær. Ég veit ekki hvort þessi maður sem gerði það er veikur eða heimskur, en svona heimskupör eru afleit og skaðleg ef menn eru að reyna að koma málstað sínum áfram. Það vill svo til að ég og fleiri vorum nýfarin frá Austurvelli þegar þetta varð. Það vill svo til að ég hef fjarvistarsönnun. Asnastrik. Fertugur maður, skyldi hann ekki ætla að vaxa upp úr strákapörum?

Tilgangslaus og vanhugsuð skemmdarverk á opinberum eigum - þar sem öryggi saklausra er stefnt í hættu - eiga ekki að sjást meðal siðmenntaðra manna.



Hins vegar eru NATÓ-herskip í höfninni fyrir þá sem hafa áhuga. Skemmtilegt að fá að skoða stríðstól og manndrápsvélar. Jii ... fallbyssur? En gasalegt.

~*~*~*~*~*~*~*~*~*~



Palestína: Mustafa Barghouti, lækni, húmanista og forsetaframbjóðanda meinað ferðafrelsi af ísraelskum hermönnum, barinn og auðmýktur. Annars forsetaframbjóðandi, Bassam al-Sahli, tekinn fastur og meinð ferðafrelsi. Hvernig á að halda forsetakosningar undir þessum kringumstæðum? Sharon segir að Ísraelar muni gera sitt til að kosningarnar geti farið fram, en eins og fyrri daginn: Hlustum ekki á hvað hann segir heldur fylgjumst með því sem hann gerir. Hann er ómerkur orða sinna, en gjörðirnar tala sínu máli.

~*~*~*~*~*~*~*~*~*~



Það er merkilegt hvað einhliða umfjöllun og lituð sýn á hlutina getur skekkt málflutning manna. Hægrimenn úthúða Castró á Kúbu fyrir allt mögulegt, sumt verðskuldað en annað ekki, en láta eins og ekkert sé að í Guantanamo. Hræsni heitir það.

~*~*~*~*~*~*~*~*~*~



Tilraunir með efnavopn framkvæmdar á breskum hermönnum.

~*~*~*~*~*~*~*~*~*~



OPEC kemur sér saman um að minnka olíufrmleiðsluna til að "verðið falli ekki meira" ef ég skildi það rétt.

Heyr á endemi!

Sko, fáum eitt á hreint: Birgðir jarðarinnar af ódýrri olíu fara þverrandi og það er einhvern tímann á árunum 2000-2005 sem framboð og eftirspurn mætast í skurðpunkti. Þegar það gerist, og eftirspurnin verður meiri en framboðið, fer verðið snarhækkandi og þar af leiðandi snarminnkar aðgangur fólk að ódýrri orku og öðru sem er unnið úr olíu, með katastrófískum afleiðingum fyrir mannkynið.



Út af fyrir sig er gott mál að minnka olíuborun og minnka olíunotkun. Það þarf að gera það með afgerandi hætti: Taka í neyðarhemlana áður en lestin þýtur fram af hengifluginu. Það er meira í húfi en flestir kæra sig um að vita. En þetta, sýndaraðgerð af hálfu OPEC, er best til þess fallið að láta almenning (og flesta fjárfesta) halda að OPEC stjórni olíuverðinu. Það hefur gert það, en það kemur að því fyrr en við kærum okkur um, að það skellur á harðasta kreppa mannkynssögunnar. Þegar blind en hamrömm náttúrulögmál framboðs og eftirspurnar láta til sín taka verður OPEC eins og spilaborg frammi fyrir þessum jötni. Kapítalisminn siglir okkur ofan í lífskjaralegan öldudal, skellir á okkur kreppu svo ógurlegri að hún á sér enga líka.



Er mögulegt að henni verði afstýrt? Kynnið ykkur málið og myndið ykkur skoðun á því. Þetta er ekkert gamanmál.

~*~*~*~*~*~*~*~*~*~



Ég hef áhyggjur af því sem mér virðist vera vaxandi rasismi. Það er ekkert gamanmál. Mér finnst eins og ég finni fyrir aukinni róttæknisveiflu í þjóðfélaginu; ennþá ekki afgerandi, en næg til þess að maður verði var við hana. Ætli fleiri finni fyrir því sama? Allavega, róttækni tekur ýmsar birtingarmyndir. Sumir verða vinstri-róttæklingar, aðrir hægri-róttæklingar. Eru þetta fyrstu merkin um fjörbrot borgaralegs félags, harða kreppu, stéttaátök og byltingarástand? Eru þetta merki um að hin pólítíska loftvog sé að falla? Hver veit ... ég er altént uggandi.



No comments:

Post a Comment