Wednesday, December 1, 2004

Af forsíðu Þjóðviljans 1. desember 1939:



Orustur hafnar milli Rússa og Finna



Hernaðaraðgerðir á landi, sjó og í lofti?

Allar nánari fréttir, sem enn hafa borist um orusturnar , eru samkvæmt finnskum heimildum.

Í morgun fór rússneskur her inn í Finnland á þremur stöðum: Úr Kirjálanesinu milli finnska flóans og Ladoga við Rajajoki, fyrir norðan Ladoga við Suojärvi og eftir Norðuríshafsströndinni í áttina til Petsamo, sem er hafnarborg á norðurströndinni. Tilkynning um þetta var gefin út í Helsingfors nokkru fyrir hádegi.

Engar fregnir hafa enn birizt um þessa atburði frá Sovétríkjunum, nome opinber yfirlýsing um að hernaðaraðgerðir gegn Finnum hafi verið hafnar.

Um aðdraganda þessara tíðinda er það að segja, að svar finnsku stjórnarinnar til Sovétstjórnarinnar við uppsögn griðasáttmálans barst til Moskva í gærkvöldi. Ekkert hefur ennþá verið tilkynnt um efni þessa svars. Um sama leyti ákvað Sovétstjórnin að slíta stjórnmálasambandi við Finnland og kalla sendiherra sinn í Helsingfors heim. Segja Finnar, að Sovétríkin hafi tekið þessa ákvörðun áður en henni barst svar finnsku stjórnarinnar. Um sama leyti flutti Molotoff, forsætis- og utanríkisráðherra Sovétríkjanna, ræðu í útvarp, þar sem hann réðist hvasslega á finnsku stjórnina og kvað Sovétríkin ekki mundu þola lengur framkomu hennar. Lauk hann ræðu sinni með því, að skýra frá því, að ríkisstjórnin hefði gefið út tilskipun til yfirmanns hers og flota að vera við öllu búnir. ...



Síðustu fréttir:

Rússneska útvarpið segir atburðina vera landamæraskærur

Rússneska útvarpið gat ekki í gær um neinar hernaðaraðgerðir í Finnlandi. Fyrstu fregnirnar eftir rússneskum heimildum voru sendar út í rússneska útvarpið seint í gærkvöldi.

Voru þær fréttir á þá leið, að eftir margítrekaðar finnskar árásir á landamærunum hefði herstjórn Rauða hersins skipað að reka finnsku hersveitirnar frá landamærunum. Hefði þá Rauði herinn sótt á nokkrum stöðum um 15-20 km. inn í landið í því skyni. Ennfremur er sagt frá því að rússneskar flugvélar hafi flogið könnunarflug inn yfir Finnland, en hvergi kastað sprengjum yfir borgir. Loks skýrir rússneska útvarpið svo frá því að í gær hafi gengið æðisgengnar æsingar gegn Sovétríkjunum í Finnlandi.






Það eru semsagt 75 65* ár frá upphafi Finnlandsstríðsins. Sameiningarflokkur alþýðu-Sósíalistaflokkurinn studdi Rússa af einurð. Sá stuðningur vakti óhug meðal annarra Íslendinga: Héðinn Valdimarsson sagði sig úr Sósíalistaflokknum, Hermann Jónasson tók m.a.s. í lurginn á Brynjólfi Bjarnasyni í fundasal efri deildar í Alþingi. Sósíalistaflokkurinn tók við flokkslínu frá Kreml Stalíns. Finnlandsstríðið er eitt skýrasta dæmið um þær voveiflegu afleiðingar sem blind fylgispekt við erlend veldi getur haft. Alsaklausir sósíalistar dagsins í dag gjalda enn fyrir þessa atburði.

No comments:

Post a Comment