Tuesday, October 30, 2007

Hress mótmæli

Jæja, fór við annan mann og við mótmæltum fyrir framan Hilton/Nordica. Ekki máttum við standa inni, en fengum að standa úti eins lengi og við vildum, alveg uppi við húsið (þótt það sé reyndar einkalóð og þeir hefðu þannig séð getað rekið okkur í burtu). Tvær löggur komu og höfðu svosem ekkert við friðsamleg mótmæli að athuga.
Þannig að þegar við nenntum þessu ekki lengur, þá fórum við fyrir framan sendiráð Bandaríkjanna og mótmæltum þar. Þangað kom hvorki meira né minna en Stefán Eiríksson lögreglustjóri. Hann var nú ekkert að stressa sig, en útskýrði fyrir okkur hvar við mættum vera og hvar við mættum ekki vera og þannig -- og ég hugsa reyndar að það hafi þrátt fyrir allt staðist að við mættum ekki vera á stéttinni beint fyrir framan húsið. Þarf að kanna það betur. Hann var bara hress, og líka sá sem var með honum, góðlegur fullorðinn maður. Ég notaði tækifærið til að hrósa Stefáni fyrir hvað hann væri sýnilegur í starfi.
Öryggisverðir sendiráðsins voru ekki eins hressir. Það hlýtur að fara í spælurnar á þeim að mega ekki gera manni neitt þegar maður stendur þarna í sakleysi sínu, og að maður skuli þekkja rétt sinn.

BAE Systems

Það eru stríðsmangarar á meðal vor! Ég fer eftir svona hálftíma til að mótmæla þeim. Komið líka.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Hér er hugmynd sem er ávísun að vandræðum: Takið stóran hóp blóðþyrstra og skotglaðra manna, setjið þá niður á átakasvæði, gráa fyrir járnum, og hefjið þá yfir lögin á staðnum. M.ö.o. Blackwater. Ósnertanlegir? Nú, það þýðir væntanlega að það þarf bara að fullnægja réttlætinu með öðrum, aðeins minna siðmenntuðum hætti, er það ekki?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Olíutunnan yfir 93 dollara -- pólitískum aðstæðum kennt um. Það er auðvitað hreint bull. Pólitískar aðstæður mundu ekki hækka verðið svona mikið ef það væri ekki farið að þrengja að olíumörkuðunum.

Wednesday, October 17, 2007

Umhugsunarverð ummæli

Morgunblaðið sagði á föstudaginn, með stríðsfyrirsögn, að "borgarstjórn" hefði verið "bylt". Hver hefði búist við því að Björn Ingi Hrafnsson væri byltingarleiðtogi Íslendinga? Svandís Svavarsdóttir sagði að "hreyfing almennings" hefði fellt meirihluta borgarstjórnar á dögunum. Varð einhver var við það?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ef það er eitthvað sem okkur vantar, er það þá ekki önnur innrás í Írak?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð Baskalands? Kannski að það sé bara ágæt hugmynd?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Til hvers að borga 200 milljónir fyrir bíl, í alvöru talað? Viskíflösku mundi ég skilja, en bíl?

Monday, October 15, 2007

Um borgarmál ... og Spán

Ekið á gangandi vegfaranda á Geirsgötu -- það minnir mig á fréttina um daginn, en tölfræði segir að hlutfall gangandi vegfarenda sé mun lægra í umferðarslysum á Íslandi en í nágrannalöndunum. Sumum kann að þykja það gott, en ekki mér. Þetta er nefnilega einkenni á þeirri áráttu Íslendinga að vilja helst ekki fara gangandi milli húsa. Bílafloti landsmanna er meira en nógu stór til þess að allir komist fyrir í framsætunum einum. Hvaða rugl er þetta eiginlega? Það ætti að vera ókeypis í strætó fyrir alla, alltaf. Þá mætti spara óhemjukostnað við að laga og stækka umferðarmannvirki, þjóðfélagslegan kostnað af bensíneyðslu, mengun, tryggingum, slysum og stressi. Það mætti meira að segja hækka verðið á bensíni (og kallið mig bara bandamann Búrmastjórnar!) þótt mér finnist frekar að það ætti að lækka það, en skammta það til almennings, og sama mætti reyndar gilda um einkabíla. Hjón með tvö börn þurfa ekki að eiga þrjá bíla, díses!
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Íbúar í Gnúpverjahreppi og víðar við Þjórsá vilja ekki virkjun. Hvers vegna dugir það ekki sem ástæða til þess að sleppa því að byggja hana?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Að hugsa sér að Batasuna-flokkur Baska hafi verið bannaður, ekki fyrir það sem hann gerði/sagði heldur fyrir það sem hann gerði/sagði ekki! Þeir neita að fordæma ETA skilyrðislaust. Það er misskilningur að Batasuna sé „pólitískur armur“ ETA -- þar eru engin skipulagsleg tengsl á milli. Banninu á Batasuna fylgir bann við því að nokkur sem hefur starfað með Batasuna megi starfa með nokkrum öðrum flokki, að viðlögðu banni við þeim flokki líka. Það jafngildir því að fjórðungur Baska sé de facto sviptur kosningarétti. Hvers vegna er þessum mannréttindabrotum ekki mótmælt? Hvar er Félagið Ísland-Baskaland?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ég verð að segja að mér finnst nýja borgarstjórnin lyktar af stækri tækifærismennsku. Björn reddar á sér rassgatinu, hin komast til valda. Kannski gerast kaupin bara svona á eyrinni; það kann að vera lítil fórn að redda rassinum í Birni í skiptum fyrir allt það sem vinstrisinnuð borgarstjórn getur gert gott fyrir borgarbúa. Skv. skoðanakönnun Fréttablaðsins mundu Sjálfstæðismenn og Frjálslyndir tapa manni hvor, en Samfylking og Vinstri-græn auka við sig manni hvor, ef kosið væri núna. Hvað með að boða þá bara til kosninga núna, og mynda fyrst nýtt sameiginlegt framboð Samfylkingar, VG og Íslandshreyfingarinnar, og koma Margréti Sverrisdóttur og Ólafi F. Magnússyni báðum inn í borgarstjórn sem aðalmönnum, en leyfa Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki að éta það sem úti frýs?

Friday, October 12, 2007

Það sem mér finnst um atburði dagsins í borginni

Þann 9. nóvember 1932 var Gúttóslagurinn. Formaður Kommúnistaflokksins, Brynjólfur Bjarnason var að kenna námsmeyjum í Kvennaskólanum, og gat með öngu móti komist frá. Í dag voru sviptingar í borgarstjórn, og næturvörðurinn ég var sofandi. Breytir það einhverju? Nei -- ekki öðru en því að ég blogga ekki um málið fyrr en mörgum klukkutímum síðar. Big deal.
Mér finnst kostulegt að fylgjast með þessu máli. Þvílík spilling! Þórólfur Árnason hafði manndóm til að segja af sér þegar hann fann að hans vitjunartími var kominn, og gat haldið ærunni svona nokkurn veginn. Það sama verður ekki sagt um Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson.
Við hverju er að búast, þegar maður hefur hrapp í herbúðum sínum, öðru en að maður fái rýting í bakið? Eru Sjálfstæðismenn virkilega svo grænir að þetta komi eins og þruma úr heiðskíru lofti?

Fleyg orð
Í umræðum dagsins hafa nokkur gullkorn hrotið af lyklaborðum landsmanna. Hér eru nokkur dæmi sem mig langar að halda til haga:
Ég les oft blogg Jóhannesar Ragnarssonar. Hann veifar oft réttu tré og kemst auk þess vel að orði. Í kommenti um blogg um mál dagsins kemst hann svo að orði, og ég leyfi mér að vitna beint í hann: „Ég held ... að minnihlutaflokkarnir hefðu líka getað hafnað því að draga kjölturakka Halldórs Ásgrímssonar upp úr drullunni og leyft honum, þess í stað, að veltast um í svaðinu með Villa og frjalhyggjuæskunni. Ég er þeirrar skoðunnar að ætíð fari best á, að asninn fylgi eyrunum.“ Pragmatistinn í mér hefur efasemdir um þessa skoðun, en púrítaninn í mér skríkir af kæti!
Ég kútveltist af ... öh ... andakt yfir þeirri speki hins geðþekka Stefáns Friðriks Stefánssonar segir að nýr meirihluti sé „án málefnagrunns“ -- það var og!
Sjálfstæðismaðurinn Þrymur Sveinsson hefur lært þá lexíu að það „borgi sig illa að treysta Framsókn“ -- tími til kominn!
Óskar Helgi Helgason leggur Vilhjálmi fleyg orð í munn: „Og þú líka, Brútus, sonur minn!“ Vel að orði komist.
Mbl.is hefur eftir Vilhjálmi að þetta komi á óvart því engin „önnur alvarleg ágreiningsmál hefðu komið upp“ í samstarfinu!
***************************************
Í öðrum fréttum, þá fylgist ég nokkuð spenntur með gangi mála í Pakistan. Mér sýnist samt að þar séu, eins og svo víða annars staðar, úlfar og refir að bítast um sauðina. Ég held að það væri bara best að Pakistanar gerðu bara byltingu og steyptu þessum spilltu pólitíkusum af stóli, en kæmu sér í staðinn upp ráðstjórnarskipulagi og sósíalisma.
***************************************
Sex uppreisnarhópar í Írak taka höndum saman gegn Bandaríkjunum -- það gæti orðið athyglisvert. Ég sakna þess samt frá Írak að andspyrna á forsendum sósíalisma sé ekki meira áberandi. Það er btw. villandi fréttaflutningur af andspyrnunni. Hún er alls ekki eins trúarleg og halda mætti ef maður læsi bara Morgunblaðið, heldur er, merkilegt nokk, ennþá sterk þjóðleg andspyrna. Það er nú snöggtum skárra.

Thursday, October 11, 2007

Rant dagsins

Jæja, fyrst utanríkismálanefnd fulltrúadeildar bandaríska þingsins hefur samþykkt það, þá er víst engum blöðum um það að fletta, að Tyrkir frömdu þjóðarmorð á Armenum. Ég skil ekki hvað Lýðveldið Tyrkland hefur á móti því að viðurkenna að Ottómanska ríkið hafi framið þjóðarmorð. Hvers vegna að verja gjörðir harðstjórans? Framdi Atatürk kannski valdarán og stofnaði lýðveldi vegna þess að soldáninn hafi verið svo góður? Ég hefði haldið að viðurkenning þjóðarmorðsins, ásamt fordæmingu á því og heitstrengingu um að slíkt mundi aldrei endurtaka sig, mundi frekar styrkja lýðveldið í sessi en hitt.
Það má segja framboði Íslands til Öryggisráðsins til málsbóta, að hér hefur þó aldrei verið framið þjóðarmorð. Alla vega hefur þá verið þagað rækilega um það. Eða, ætli Spánverjavígin á Vestfjörðum geti annars talist þjóðarmorð? (Austurríkismenn tóku þátt í Helförinni, en hafa ekki afneitað henni.) Ekki það, að þetta skipti miklu máli pólitískt séð, því pólitíkin fer gjarnan eftir öðrum brautum en siðferðinu.
Nú munu þeir sem telja herforingjastjórnina í Búrma vera Mahómet Samtaka hernaðarandstæðinga væntanlega telja þetta ósigur fyrir SHA. Ætli það komi ekki ályktun frá miðnefndinni, þar sem eindregnum stuðningi er lýst við Mehmet V soldán, og lygar Armena fordæmdar...
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Og ég er hræddur um að einhverjir eigi líka eftir að reka upp stór eyru þegar þeir heyra þessa frétt: Mahmoud Abbas segir að Ísraelar verði að skila hernumdu svæðunum! Ismail Hanyeh segist reiðubúinn að ræða við Fatah og að Hamas geti vel láti völdin á Gaza af hendi! Hafa verið gerð endaskipti á góðu og vondu gæjunum eða hvað?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ég held að það sé alveg rétt hjá Pétri Blöndal, að regluverk heilbrigðiskerfisins sé á of háu flækjustigi. Það eru líka ýmsar reglur sem eru beinlínis ósanngjarnar. Er t.d. sanngjarnt að fólk geti ekki átt lögheimili á spítala, þótt það hafi verið inniliggjandi í áratugi og eigi enga von um að útskrifast? Er sanngjarnt að fólk geti ekki komist inn á hjúkrunardeild á dvalarheimili fyrir aldraða vegna þess að það er með skráð lögheimili í bæjarfélagi þar sem það býr ekki lengur? Er eðlilegt að fólk sem einu sinni er lagt inn á geðdeild sé dæmt inn á geðdeild ef það veikist líkamlega?
Það er annars fleira en regluverkið sem er torvelt. Skriffinnskan og smákóngaveldið eru yfirgengilega þunglamalegar fjárhítir og taka fé og tíma frá nauðsynlegri þáttum. Valkvæm einkavæðing á ýmsu, t.d. ræstingum, er einnig til vandræða.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Smælki: Bojkotta Samskip? *** Kallið mig fasista, en mér finnst rétt að íslenska verði opinbert tungumál Íslands. *** Mér finnst að Guðfinna Bjarnadóttir hefði átt að greiða atkvæði með þessari tillögu um sköpunarskáldsöguna. En það er nú bara það sem mér finnst. *** Ætli þessi fréttatilkynning hafi verið skrifðu undir þrýstingi? *** Þetta kalla ég borgaralega óhlýðni!

Wednesday, October 10, 2007

Eva norn skrifar um gengisfellt orð, um klisjuna að „nauðgun sé sálarmorð“. Ég tek í sama streng og hún.
Arngrímur Vídalín leggur sín lóð á vogarskálarnar til að leiðrétta átta algenga misskilninga; eins og ég segi í kommenti þar, þá væri aðeins skemmtilegra að lifa ef allir vissu þetta. Þannig að lesið leiðréttingar hans og bætið heiminn smávegis með því að tileinka ykkur þær, ef þið hafið ekki þegar gert það.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Mér finnst alveg sérlega langt seilst í vitleysunni, þegar hægrimenn halda því fram að herforingjastjórnin í Mjanmar sé einhver Mahómet íslenskra vinstriróttæklinga. Þó hef ég séð því haldið fram, taki sá til sín sem á.

Tuesday, October 9, 2007

9. október

Elías skrifar: Vændi -- tvöfalt siðgæði á Eggina, og ég skrifa um Che Guevara: Che Guevara -- 40 ára minning. Það þarf varla að segja neinum, en í dag eru fjörutíu ár síðan hann var drepinn. Ég er ekki yfirlýstur Che-aðdáandi, og á ekki einu sinni bol með honum á. Hins vegar fer það óskaplega í taugarnar á mér hvernig oft er fjallað um hann. Ekki vegna þess að það megi ekki gagnrýna hann, heldur vegna þess að skrifin eru svo oft svo ósanngjörn.

~~~ ~~~ ~~~ ~~~
GT verktakar fyrir austan fóru aldeilis illa að ráði sínu með þetta útlendinga. Ég vona að það verði komið lögum yfir þessa glæpamenn. Það er óþolandi, alveg gjörsamlega óþolandi, hvað atvinnurekendur komast upp með í viðskiptum sínum við erlent verkafólk. Það er auk þess óþolandi að íslenska verkalýðshreyfingin skuli ekki vera þess megnug að stöðva þetta í eitt skipti fyrir öll. Gott og vel, þau gera alveg heilmikið, en halda samt ekki í við glæpamennina sem hlunnfara saklaust fólks em þekkir ekki rétt sinn eða er minni máttar af öðrum ástæðum.
Ef réttarkerfið lætur svona menn ekki fá það sem þeir eiga skilið, þá endar þetta með því að einhver annar mun gera það. Þætti hinu opinbera það skemmtilegra? Þætti hr. GT skemmtilegra sjálfum ef góðir menn tækju niður um hann og hýddu á honum sitjandann?
Sumir segjast skammast sín fyrir land okkar. Ekki skil ég í því. Hins vegar finnst mér valdastéttin hérna hreint ekki merkilegur pappír.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ég var spurður hvort mér fyndist að OR ætti að setja hlut sinn í GGE og REI eða ekki. Ef satt skal segja, þá finnst mér bara hvorugt. Ég held hvorki með prívatauðmagni né opinberu auðmagni. Mitt svar við þessu OR dæmi er að við ættum að gera byltingu og steypa valdastéttinni.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Fjöldaaftökur í Afghanistan. Jæja, svo lengi sem þeir eru ekki að eyðileggja ævafornar Búddastyttur.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Getur einhver sagt mér hvort starfsfólk McDonalds á Íslandi er í stéttarfélagi, og þá hverju?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Það eru önnur tímamót sem má minnast í dag: Eitt ár liðið síðan Kóreumenn sprengdu kjarnorkusprengjuna sína, og reistu þar með rándýrinu enn frekari skorður. Ef ég væri Kóreumaður, þá mundi ég leggja býsna mikið í sölurnar til þess að Kóreustríðið endurtæki sig ekki.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Friðarsúlan heillar mig ekki svo. Ég er ekki búinn að sjá hana; hún gæti vel verið falleg, það er ekki það, en hvað er málið? Hvað á hún að tákna? Einhverja naíva bæn fyrir friði? alla vega er hún ekki tákn fyrir hvað Ísland sé friðsamt, svo mikið er víst. Þátttaka í Nató og árásarstríðum þess er ekki beinlínis friðsamleg. Það er líka fyndið, að hún skuli vera vígð á sama tíma og þessi glæpafundur er haldinn hérna, og að þegar hún var kynnt fyrst hafi viljað svo til að heil þrjú Nató-herskip voru í höfninni! Gárungar þurfa að finna þessu gott nafn.

Wednesday, October 3, 2007

Moggalygi eða...

Í dag var þing sett hér í Danmörku og af því tilefni fór ég á mótmæli á ráðhústorginu í Árósum, þar sem ég er staddur. Þau voru ekki nærri því eins kröftug og í fyrra, þegar Fjogh gat ekki orða bundist um þessa "socialistiske ballademagere", en hress voru þau nú samt. Ég sá vini mína í KP, og fleiri á svipuðum pólitískum slóðum, og tók m.a. við flæer um nasistafund á sama stað á laugardaginn -- þar sem fólk er hvatt til að mæta og mótmæla nasistunum. Ég er ánægður með hvað vinstrivængurinn hérna lætur nasistana ekki komast upp með neitt múður. Það er gott að nasistar eru varla til á Íslandi, annars veit ég ekki hvernig væri tekið á þeim þar.
*************
Það mætti halda að það væri lygi, en skrifast líklega á reikning hroðvirkni vegna sparnaðar, en að segja að Ayan Hirsi Ali hafi verið "fræðimaður við rannsóknastofnun" er beinlínis rangt. American Enterprise Institute er áróðursstofnun, og það sem þaðan kemur og er kennt við akademíu er sniðið að þörfum últrahægrisinnaðra hagsmunaafla í Bandaríkjunum. Hirsi Ali er í vondum félagsskap ef hún er ekki últrahægrisinnuð sjálf, svo mikið er víst.
*************
Það verður ekki sagt að Mogginn sé fyrstur með fréttirnar, að Blackwater séu að gera eitthvað vafasamt í Írak. Málaliðar heimsvaldasinna þar hafa svo sannarlega ekki fengið þá athygli sem þeir verðskulda, en það er nú samt æði langt síðan a.m.k. ég frétti af framferði þeirra.
*************
Mér ofbýður stundum hvað gagnrýni á Saving Iceland er oft grunnhyggin og, já, ég segi það bara: heimskuleg. Það er ótrúlegur fjöldi kjána sem básúnar kjánaskap sinn með digurbarkalegum en heimskulegum yfirlýsingum um SI.