Thursday, December 16, 2004

Fór á Gauk á Stöng í gærkveldi. Varð þar fyrir Vonbrigðum en þó ekki fyrir vonbrigðum, ef svo má segja. Þrusutónleikar.



~~~~~



Rak áðan augun í auglýsingu í blaði. Legópakki á 5000. Annar Legópakki á 10.000. Hver dirfist að heimta 5000 kall fyrir pakka af Legói sem inniheldur ekki meira en 100 skitna kubba?? Þvílíkt okur! Þvílíkt rán!



~~~~~



Ég held ég hafi heyrt "I Put a Spell on You" tvisvar í útvarpinu í morgun. Mér fannst þetta lag aldrei neitt sérstakt fyrr en ég heyrði upprunalegu útgáfuna með snillingum og geðsjúklingnum Scremin' Jay Hawkins. Síðan þá hefur álit mitt á því breyst. Ég verð nú að viðurkenna, að gaman þætti mér að trúa á svartagaldur, vúdú og svona ... geri það nú samt ekki.



~~~~~



Mér finnst Pú og Pa í Fréttablaðinu alveg óborganlega leiðinlegir. Alltaf. Þetta bjálfalega drasl er ekki prentsvertunnar virði sem það er prentað með.



~~~~~



Og talandi um bjálfalegt: Slökum aðeins á stóru orðunum með Bobby Fischer! Gott mál að hann fái dvalarleyfi hér, gott mál. En að hrósa Efnavopna-Davíð fyrir þetta afrek, eins og hann hafi verið að fella illvígan dreka eða eitthvað, það er ekki ástæða til þess. Ástþór Magnússon er meðal þeirra sem hafa tekið óeðlilega djúpt í árinni. Var Davíð ekki bara að vinna vinnuna sína? Er það ekki vinna hans sem ráðherra í meintu lýðræðislíki .. afsakið, ríki .. að hjálpa mönnum eins og Fischer? Ekki sendir Ástþór Magnússon mér sérstakt skeyti til að hrósa mér fyrir frammistöðu mína í minni vinnu. Það hafa fleiri en hann farið mikinn í lofi um þetta afrek Efnavopna-Davíðs, sem verði í minnum haft og skráð á spjöld sögunnar. Blabla. Ef það verður í minnum haft verður það gert til að varpa skugga á önnur, óyndislegri afrek.



~~~~~



Talandi um Bobby Fischer, hvað ætli honum fyndist ef hann vissi að heilt sund heiti eftir honum í Grjótaþorpinu?



~~~~~



Og talandi um Grjótaþorp og Fischersund, þá er þar bókaveisla Sagnfræðingafélagsins klukkan 20:00 í kvöld. Í húsi Sögufélagsins. Ég vona að ég komist, en hvet aðra annars til að kíkja.

No comments:

Post a Comment