Wednesday, December 1, 2004

Er manískur skítaustur svaraverður?



Davíð Oddsson er búinn að missa það. Hann æsir sig í tíma og ótíma, eys fólk auri, og þegar hann er orðinn rökþrota grípur hann til útúrsnúninga, rangfærslna og uppnefna. Það má hann eiga, að hann kemst oft skemmtilega að orði þegar hann tvinnar og þrinnar saman fúkyrðum um raunverulega eða ímyndaða andstæðinga sína -- en ansi er ég hræddur um að það hrökkvi skammt, röklega séð. Þegar rökrildi eru annars vegar má segja að uppnefni jafngildi uppgjöf, þ.e.a.s. ef þau eru þá ekki rökstudd því betur.

Nú hlýtur maður að spyrja sig, er þetta rugl í karlinum svaravert? Rífst maður við manískan mann? Rífst maður við öra, bölvandi dópista með slikju fyrir augunum? Rífst maður við rummunga? Nei, maður reynir að hunsa svona fólk.

Ég held að það væri öllum fyrir bestu ef fólk byrjaði bara að hunsa Davíð Oddsson. Það gæti hætt að velta sér upp úr því sem Davíð sagði síðast og farið að taka frumkvæði sjálft, í staðinn fyrir að láta brjálæðing stjórna för. Þegar sviðsljósið færi af honum mundi hann kannski slaka aðeins á. Ef áreitið yrði minna gæti hann kannski náð stjórn á skapsmunum sínum og þá hætt að gera ofstopa sinn opinberan.

En á hinn bóginn gegnir Davíð víst ábyrgðarstöðu. Stöðu sem ég kaus hann ekki í. Meðan hann er með utanríkisráðuneytið í höndunum er víst erfitt að hunsa hann. Það liggur því ljóst fyrir að hann yrði líka að hætta þar. Mikill yrði söknuðurinn, hmm? Ef ég væri sálfræðingurinn hans mundi ég mæla með hressingardvöl á heilsuhæli. Sem lengstri. Ísköld og brennheit böð til skiptis. Yfirseta og fylgd um stóran garð með kastaníutrjám og tjörn. Kannski fara að spila á eitthvað hljóðfæri. Fiðlu, kannski.

En ég er víst ekki sálfræðingurinn hans. Verð víst að láta mér nægja að fá sultardropa með skilti í hönd á Austurvelli. Vona að ég sjái sem flesta þar á hádegi.



No comments:

Post a Comment