Thursday, May 31, 2007

SLFÍ, reykingar o.fl.

Það er grein eftir mig á Egginni í dag: Af fulltrúaþingi SLFÍ. Sviptingarnar í Sjúkraliðafélagi Íslands hafa verið miklar í vetur; það verður athyglisvert að sjá hvernig nýendurkjörnum formanni tekst að halda friðinn á þessu kjörtímabili.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Vegna þessa almenna reykbanns sem tekur gildi á morgun er rétt að minna á ágæta grein Jóns Karls Stefánssonar á Egginni í gær, um Reykingabannið og samvinnurekstur. Um leið er best að blása í sinn eigin lúður; ég skrifaði um afstöðu hins frjálslynda marxista til reykingabanns fyrir rúmum tveim árum. Ég held að það sem ég skrifaði þá standi barasta óbreytt.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Talandi um reykingabannið, þá verður reykingasamkoma í kvöld. Markmið: Að reykja eins mikið á krá og hægt er á meðan það er leyfilegt. Staður: bakherbergi Celtic Cross, stund: 20:00. Áhugafólk um reykingar velkomið.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Félagar í Félaginu Íslandi-Palestínu ættu að fá Frjálsa Palestínu inn um bréfalúguna eftir helgi, ef ekkert fer alvarlega úrskeiðis. Ég held að þetta tölublað sé bara frambærilegt, þótt ég segi sjálfur frá.

Friday, May 25, 2007

Ég fór með rangt mál

Í síðasta innleggi hér sagði ég að garðurinn minn hefði verið í órækt í yfir 20 ár. Það var rangt hjá mér. Mágur minn var svo vinsamlegur að leiðrétta mig og minna mig á að meðan hann bjó þarna lét hann sitt ekki eftir liggja. Þessi yfirsjón lætur mér líða bjánalega. Eftir 20 ára órækt hefði garðurinn litið mun verr út en hann gerði til skamms tíma. Nær væri að tala um að illgresi hefði lítið verið reytt og trjá- og runnagróður lítið grisjaður undanfarin ár. Það hefur svo sannarlega verið nóg að gera í garðinum undanfarið, en tíminn var gróflega ofmetinn hjá mér. Óneitanlega var hann í ágætu horfi þegar systir mín og mágur bjuggu þarna, en nú eru liðin nokkur ár síðan það var og það fennir víst hratt í sporin...

Með öðrum orðum: Ég fór með fleipur og mér þykir það leitt.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~

Meðal annarra orða, þá stendur heilmikið til með þennan garð, bæði skammtímaáætlanir og langtímaáætlanir. Ég reikna með að fræða mína tryggu lesendur um þær eftir því sem þeim vindur fram.

Wednesday, May 23, 2007

Tony Sayegh skrifar: Is it really just an Inter-Palestinian Fight?, og fjallar um dauðasveitirnar sem Mohammed Dahlan er að koma upp með tilstyrk BNA og Ísraels, til þess að "friða" landa sína í eitt skipti fyrir öll. Lesið þetta!
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Amnesty vara við óttaherferðinni sem ríkisstjórnir og fleiri valdamenn beita til þess að búa til skálkaskjól til að grafa undan mannréttindum. Þessi tilhneiging hefur ekki farið framhjá neinum sem er ekki því ákveðnari í því að sjá hana ekki.

Tuesday, May 22, 2007

Mold undir nöglunum

Fyrsta vorið sem ég hef búið á Laufásvegi hefur hingað til verið alveg hreint ágætt. Ég er svo heppinn, að umhverfis húsið er stóreflis garður. Í honum hefur varla verið tekið til hendinni í meira en 20 ár (með honorable undantekningum af hálfu föður míns og stundum mín) og í stuttu máli ekki vanþörf á. Þannig að ég hef verið með annan fótinn úti í garði í vor. Ég hef til dæmis gjarnan komið heim af næturvakt og stungið upp eða reytt kerfil í einn til tvo tíma áður en ég tek á mig náðir.
Ég hef meðal annars sett niður kartöflur, gulrætur og rósir, fellt tvö tré sem var fyrir löngu kominn tími á, brytjað mörg tonn af greinarusli niður í viðráðanleg stykki og síðast en ekki síst hef ég snúið vörn í sókn gegn erkióvininum -- kerflinum. Kerfill var orðinn of umsvifamikill í garðinum mínum (áður en ég tók til hendinni), en hefur hins vegar gleypt garð nágrannans algerlega. Það var því ekki um annað að ræða en að fara og stinga nágrannagarðinn upp eins og hann leggur sig. Ég er búinn að gera það þrisvar sinnum, og hef undanfarið verið að fínkemba hann í leit að smákerflum.
Rabarbarinn sem ég setti niður í fyrrahaust hefur það fínt og er hinn sprækasti. Ég hlakka til að éta hann.

Nýja ríkisstjórnin, Palestína, Moggablogg...

Ég vil bara segja eitt um ríkisstjórnina sem er að koma í dagsljósið, að ég er jafn andvígur henni og síðustu ríkisstjórn. Ef skipting ráðuneyta milli kynja verður jöfn hjá Samfylkingunni fær hún að vísu prik fyrir það, sem og fleira, því get ég ekki neitað. En það voru líka einstök atriði sem gamla ríkisstjórnin mátti eiga og fékk prik fyrir. Nei ég veit, mér varð nú ekki tíðrætt um þau, en þau voru nú þarna, seisei já -- skárra væri það nú.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ég bendi á frétt af Ortrud Gessler Guðnason, sjálfboðaliða frá Íslandi sem er í Palestínu og varð fyrir barsmíðum af hálfu ísraelskra óknyttaunglinga. Lesa má fréttatilkynningu Félagsins Ísland-Palestína í heild sinni á Egginni: Sjálfboðaliði frá Íslandi varð fyrir barsmíðum í Palestínu. Það er ljóti óaldarlýðurinn, þessir landtökumenn.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Eldar Ástþórsson skrifaði grein á Vísi um daginn: Til helvítis með Palestínu! heitir hún. Heill hópur zíonista skríður fram úr fylgsnum sínum til þess að kommentera á grein Eldars, og eru flest kommentin hvert öðru vitlausar. Hvar er þetta fólk dagsdaglega? Létu Zíonistasamtök Íslands (ZSÍ) boð út ganga á póstlistanum sínum?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Jón Karl Stefánsson skrifar á Eggina: Riftir milli grasrótarhópa og austfirskra launþega.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Moggablogg fer hrikalega í taugarnar á sumum. Ég er í sjálfu sér ekki í þeim hópi, en hef samt vissa andúð á því. Það er þægilegra að geta fest blogg beint við fréttir, og það er hentugt að hafa flesta bloggara landsins tengda innbyrðis, og ætli Moggabloggið hafi ekki blásið nýju lífi að glóðum kulnandi bloggmenningar? Altént er það þó eitt: Einsleitni. Þegar flest blogg eru af sama taginu, hvar er þá fjölbreytnin? Ég get svosem trútt um talað, skrifandi á blogger.com... Auk þessflokkast það tæpast undir frjálsari bloggheim, að hann sé undir valdi Morgunblaðsins. Ég er allavega ennþá hérna, og hef lítið hugsað mér til hreyfings (en stundum þó..)
Það er hins vegar eitt sem fer ósegjanlega í taugarnar á mér við sum Moggablogg. Sumir bloggarar þar hafa þann leiða ávana að kommentera á frétt á mbl.is, segja "Það var aldeilis" í fyrirsögninni eða eitthvað ámóta innihaldsríkt, copy/peista síðan allri helvítis fréttinni inn í bloggið sitt í stað þess að láta bara helvítis linkinn nægja! Hefur þetta fólk ekki áttað sig á því að aðrir eru fullfærir um að lesa fréttina sjálfir á mbl.is í gegn um linkinn? Þ.e.a.s. ef þeir komu ekki þaðan inn á bloggið? Það er til tilbrigði við þetta, sem er fólkið sem les frétt og sér ástæðu til að skrifa sérstakt blogg sem ber sama titil og fréttin, og svo gott sem ekkert nýtt kemur fram í, þótt hlutirnir séu orðaðir aðeins öðruvísi (fyrir utan titilinn). Ég held ekki að ég þurfi að nefna nöfn.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ég var að ljúka við að ganga frá efni í Frjálsa Palestínu, málgagn Félagsins Island-Palestína, sem ég ritstýri í ár. Það fylgir því viss ánægja að ljúka þannig verki. Ég hlakka til að sjá blaðið koma út. Innanbúðarupplýsingar: Takið kvöldið 5. júní frá, því þá verður félagsfundur sem verður um leið útgáfuhóf blaðsins.

Saturday, May 12, 2007

Á eftir fer ég og kýs VG

Ég er utan flokka og enginn flokkur hér er mér fyllilega að skapi. Hins vegar ætla ég að kjósa VG, og fyrir því eru einkum tvær ástæður. Flokkurinn er mun trúverðugri en aðrir flokkar í jafnréttimálum og í umhverfismálum. Þar við bætast fleiri mál, en í þessum tveim skarar hann mest fram úr.

Friday, May 11, 2007

Það sem mér liggur á hjarta í dag

Það er grein eftir mig í Mogganum í dag. Ef fólk hefur ekki tök á að kaupa Moggann til að lesa hana, þá hef ég ákveðið að vera svo rausnarlegur að birta hana einnig á Egginni: „Íraksstríðið: Mistök?“ heitir hún. Ríkisstjórnin hefur alveg verið leiðinleg við okkur hérna á köflum og svona, en hún hefur þó ekki stutt það að við fengjum sprengju í hausinn. Það er að segja, við sem búum á Íslandi.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Hin mæta Katrín Jakobsdóttir minnist á vinnustaðalýðræði á s. 41 í Mogganum í dag. Ég gæti ekki verið meira sammála; lýðræði á vinnustöðum væri hin mesta gæfa. En gætum að: Það er ekki lýðræði að hafa samráð við undirmenn sína. Ekki heldur að bera virðingu fyrir þeim, umbera að þeir séu í stéttarfélagi, vera alþýðlegur við þá eða kaupa bakkelsi á föstudögum. Á meðan einn maður, eða nokkrir, geta ákveðið að leggja niður fyrirtækið eða hækka sín eigin laun eða þannig -- með öðrum orðum, meðan lítill hópur eigenda eða embættismanna hefur völdin á vinnustaðnum, þá er ekki hægt að segja að þar ríki lýðræði. En lýðræði er gott og æskilegt -- við ættum fyrir alla muni að reyna að koma því á á sem flestum vinnustöðum -- en það er varla nema ein leið til þess, og hún heitir afnám auðvaldsskipulagsins.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ég er ekki vanur að halda með stórkapítalistum. Alls eki þegar þeir beita peningum sínum í pólitísku skyni. Það er ekki lýðræðislegt að stórfyrirtæki skipti sér af stjórnmálum -- peningar þeirra koma beint úr vösum arðrændra starfsmanna og/eða kúnna, sem hafa lítið að segja um pólitíkina sem viðkomandi fyrirtæki skarar eld að. En þegar Jóhannes í Bónus birtir heilsíðuauglýsingar og skorar á kjósendur Sjálfstæðisflokksins að strika Björn Bjarnason út -- þá liggur nú við að maður geri undantekningu. Ég meina, þarna er verið að fórna minni hagsmunum fyrir meiri, er það ekki? Það sem Jóhannes gerir er rangt í sjálfu sér, en inntakið í því er rétt. Ég ætla reyndar ekki að strika Björn Bjarnason út, en það er ekki vegna þess að ég sé svo hrifinn af honum...
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Það er sagt að Kölski freisti ekki þeirra sem hann telur sér vísa. Nú hefur Sjálfstæðisflokkurinn enn ekki hringt í mig. Hvers vegna ætli það sé eiginlega? Ég veit ekki hvort ég get kosið flokkinn sem ég fæddist inn í ef hann hringir ekki í mig til að segja mér hvers vegna ég ætti að gera það. Nú hlýt ég að hugsa minn gang.
Ég þekki pólska konu sem er á kjörskrá hérna. Um daginn var hringt í hana frá Sjálfstæðisflokknum. Hinu megin á línunni var önnur pólsk kona sem vildi útskýra fyrir henni hvað Sjálfstæðisflokkurinn væri nú fínn og flottur og að hún ætti nú að kjósa hann. Mín var nú ekki alveg viss, sagðist vera efins. Hin bauð henni þá að koma á fund og kynna sér málin nú almennilega. Eftir nokkrar fortölur sagði mín: "Kannski kem ég .. ekki."

Játningar, þó ekki eftir Ágústínus kirkjuföður

Ég er svag fyrir Spiderman. Það er að segja -- myndirnar eru fínar og allt það -- en teiknimyndasögurnar eru eitt það skemmtilegasta sem ég veit. Ég fylgist náið með sögunni sem er í Mogganum, og finnst hún æsispennandi. Gömlu blöðin eru líka gersemar. Einu sinni stappaði nærri því að ég læsi yfir mig af þeim. Það eru sko bókmenntir.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Það er grein eftir mig í Mogganum í dag, á blaðsíðu 45. Ég hef nokkrum sinnum áður skrifað í Moggann, og alltaf fæ ég sömu tilfinninguna þegar ég les mínar eigin greinar þar -- sömu tilfinningu og þegar ég heyri mína eigin rödd á segulbandi.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ég verð að viðurkenna að ég hef lengi verið aðdáandi Eiríks Haukssonar. Ég gerðist svo frægur að sjá hann á tónleikum á Wacken 2001, þar sem hann söng með hljómsveitinni sinni Artch frá Noregi -- ef þið viljið getið þið séð myndir á heimasíðu þeirra, þar á meðal þessa, þar sem baksvipnum á mér tvítugum bregður fyrir fremst á myndinni.
Mér finnst Evrósjón hins vegar frábærlega leiðinleg keppni. Ég hef meira að segja sloppið við að heyra þetta æðislega lag sem stóð sig svo eftirminnilega. En kommon, austur-evrópsk mafía? Hvað meinar maðurinn? Eins og Norðurlöndin séu ekki mafía líka? Þau eru bara ekki eins mörg, díses. Norðurevrópska mafían er bara léleg mafía vegna þess að hún getur ekki keppt við austurevrópsku mafíu.
Ég efast um að ég muni eyða fleiri orðum í Evrósjón. Á ævinni.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Doddi er í bænum. Þá er gaman.

Thursday, May 10, 2007

Í dag fór ég í nokkur erindi. Ég var afgreiddur af homma, gyðingi, anorexíusjúklingi og manni með nef eins og Matthías Jochumsson. Skemmtilegt hvað lífið getur verið litríkt.

Wednesday, May 9, 2007

VG, Live Earth, London'05 og Heiligendamm

Á maður að trúa því að VG glopri sigri aldarinnar út úr höndunum á lokasprettinum? Ekki get ég sagt að mér þætti það skemmtilegt.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Núna er verið að handtaka fólk fyrir árásirnar í London 2005. Ég neita að trúa því að íslamskir hryðjuverkamenn hafi varað Binyamin Netanyahu við!
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Á maður að vera leiður yfir því að Live Earth! verði ekki á Íslandi? Ég verð nú bara að viðurkenna að ég finn ekki til mikillar depurðar. Ég sé ekki hvaða gagn svona tónleikar eiga að gera gegn þeirri vá sem steðjar að okkur á mörgum vígstöðvum. Eins og með Live8 hér um árið. Þvílík della. Ágóðinn fór næstum allur í yfirbyggingu og í vasa tónlistarmannanna. Þetta er blekking. Blekking, segi ég. Þetta er hugsað sem svona „eitthvað“ sem frægir tónlistarmenn geta gert til að líða betur og fundist þeir þó hafa gert eitthvað. Misskiljið mig ekki, ég hef ekkert á móti frægum tónlistarmönnum, og fáeinir eru mér meira að segja kærir. En þetta er blöff og ekkert annað.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Húsleit hjá „stjórnleysingjum“ sem „tilheyra hryðjuverkasamtökum“ -- það er ekkert annað! Allt er nú hægt að kalla hryðjuverkasamtök nú á þessum síðustu og verstu tímum. Ef þið spyrjið mig, þá væri nær að gera húsleit á Hótel Karpinsky í Heiligendamm í júní. Ég hef grun um að þar verði stór hópur heimsvaldasinna að gera eitthvað fleira en að éta snittur. Ég snuðraði í garðinum við hótelið núna í aprílbyrjun, og hitti þar fyrir vörð sem var næstum því dónalegur við mig. En bara næstum því. Þær löggur sem ég átti samskipti við voru hins vegar greiðviknar og nokkuð þægilegar í viðmóti. En á móti kemur að ég er ekki með dredda og var auk þess í heilum buxum...
En er það ekki billegt að reyna að mála andófið gegn G8 með sama penslinum, að þetta séu nú bara anarkistar sem séu í tengslum við hryðjuverkasamtök? Það er búist við allt að 100.000 mótmælendum á G8, og flestir þeirra eru alls engir anarkistar, nei, síður en svo. Fyrir utan annað: Fyrirbæri á borð við G8-fund getur af sér andstöðu hvar sem það er haldið. Það liggur við að það megi kalla það náttúrulögmál, nei, hvernig læt ég, það er náttúrulögmál. Tesa ( staða) getur af sér antitesu (andstöðu). Vald getur ávallt af sér mótspyrnu. Þannig að það eru skipuleggjendur G8-fundarins sem eru, óbeint, að skipuleggja mótmælin. Augljóslega væru engin mótmæli ef enginn væri fundurinn, eða hvað?

Saturday, May 5, 2007

Prachanda, blóm hugsjónanna fölnað?

Í Nepal segir Prachanda að það ætti að lýsa landið lýðveldi. Á sama tíma taka sex maóistar sæti sem ráðherrar í bráðabirgðaríkisstjórn. 31.000 hermenn maóista sitja í búðum undir eftirliti SÞ og vopn þeirra í innsigluðum skemmum. Ef Prachanda væri alvara þá mundi hann einfaldlega lýsa landið lýðveldi og leita stuðnings hjá verkamönnum í Katmandú og öðrum borgum til þess að koma borgaraflokkunum frá völdum.
Ég hef misst trúna á nepölsku maóistana. Ég held að lýðveldistal Prachanda sé lýðskrum. Orð hans eru innistæðulítil meðan hann fylgir þeim ekki eftir. Þetta eru vonbrigði; maóistarnir voru á blússandi siglingu, með mestallt landið á valdi sínu, boðandi hundraða þúsunda manna útifundi og voru svo gott sem með pálmann í höndunum. Það vantaði að vísu tengingu við fátæklinga í borgunum, en það hefði nú mátt bæta úr því með góðum vilja. En allt kom fyrir ekki.
Það er engu líkara en að Prachanda, Baburam Bhattarai og félagar hafi einfaldlega ekki staðist völdin þegar þeim buðust þau. Það leggst lítið fyrir kappana. En þessu floti hafa fáir neitað.

Friday, May 4, 2007

Kaupþing smaupsming

Ég er í viðskiptum hjá Kaupþingi, og hef verið óánægður með það árum saman, en ekki komið því í verk að skipta um banka. Ég þoli það ekki, þegar þessi banki þarf alltaf að vera að skipta sér af mér og klína á mig einhverri andskotans "þjónustu" sem ég hef aldrei beðið um. Það heitir dónaskapur í mínum bókum.
Rétt í þessu hringdi kona í mig. Eflaust góð manneskja og bara að vinna vinnuna sína og svona, en hún hringdi semsé frá Kaupþingi. Erindið var að tilkynna mér mér hefði verið úthlutað þjónustufulltrúa og hún væri sumsé þessi þjónustufulltrúi. Ég sagðist aldrei hafa beðið um neinn þjónustufulltrúa, spurði hverju það sætti að vera að úthluta mér þjónstufulltrúa að mér forspurðum og að ég væri fullfær um að biðja um að fá þjónustufulltrúa ef mig vantaði slíkan. Mér skildist á henni að hún skyldi kippa þessu í liðinn; að ég yrði áfram jafnfrjáls undan þjónustufulltrúaveldinu og ég hef verið. Það er að segja, relatíft frjáls.
Einu sinni hélt ég gremjulista yfir allt sem fór í taugarnar á mér við það sem þá hér Búnaðarbankinn.Ég skrifaði hann að vísu aldrei niður, en kunni hann þess í stað utanað, þangað til hann varð of langur til að ég gæti það. Það var á síðasta áratug.
Það er sagt að tryggð Íslendinga við bankann "sinn" sé með því mesta sem gerist. Það er víst þess vegna sem bankarnir eru með öll þessi gylliboð til fermingarkrakka. Það er eini vettvangurinn þar sem hægt er að ná sér í nýja kúnna, meðal fólks sem er að hefja sinn feril sem auðmagnsþrælar.
Ég er langþreyttur á Kaupþingi. Það er tímaspursmál hvenær mælirinn fyllist og ég tek mitt fjárhagslega hafurtask annað. Ef einhver er sérstaklega ánægður með bankann sinn, þá fúlsa ég ekki við vingjarnlegum ábendingum.