Monday, June 20, 2011

Margrét Müller, síðbúin minningarorð

Eftir að ég kláraði Ísaksskóla vorið 1989, fór ég í Landakotsskóla. Hann hafði gott orð á sér og var auk þess næsti skóli við heimili mitt. Ég þurfti bara að fara yfir eina götu, hina rólegu Hávallagötu, og var þá sama og kominn. Ég var í Landakoti frá níu ára til tólf ára, fjóra vetur.

Þar var Margrét Müller, versti kennari sem ég hef á ævi minni haft. Meira en það, hún var langverst. Næstversti kennarinn hafði ekki tærnar þar sem hún hafði hælana. Hún var ósanngjörn, illgjörn, grimm, einstaklega fráhrindandi manneskja sem var gjörsamlega vanhæf til að sinna börnum. Hún hafði svo mörg sígild einkenni stereótýpískrar gribbu, að ef hún hefði verið persóna í leikriti eða skáldsögu hefðu gagnrýnendur sagt að höfundurinn væri að ýkja, svona væri enginn í alvörunni. Hún var fædd og uppalin í Þriðja ríkinu, talaði með sterkum þýskum hreim og bjó meira að segja í turni. Ég held að það hafi enginn saknað hennar þegar hún drap sig fyrir nokkrum árum, í það minnsta ekki ég. Ég hefði ekki óskað mínum versta óvini að vera nemandi hennar. Hún virðist ekki hafa meikað lífið eftir að séra Georg var dáinn, át risaskammt af pillum, stökk út úr turninum og lenti á stéttinni fyrir framan aðaldyrnar, um það bil tíu metrum fyrir neðan, um það leyti sem börnin voru að koma í skólann um morguninn.

Ég var nemandi Margrétar í fjóra vetur, frá níu ára til tólf ára aldurs. Ég var ekki sérstaklega berskjaldað barn, bjó í hverfinu, átti stabíla fjölskyldu og hafði þokkalegt atgervi. Hún tók mig ekki sérstaklega fyrir umfram önnur börn. Það átti víst enginn sjö dagana sæla sem hún kenndi, en hún tók sum börn fyrir, einkum þau sem áttu á einhvern hátt erfitt uppdráttar félagslega. Það voru ekki þagnir eða svipir sem hún notaði mest, heldur illmælgi, háð, ósvífni og rógur. Hún hikaði ekki við að niðurlægja okkur fyrir framan allan bekkinn. Ég held að hún hafi ekki farið neitt verr með mig, persónulega, heldur en önnur börn, en ég fór ekki varhluta af henni.

Það eru tuttugu ár liðin, og það hefur fennt yfir ýmislegt, en mér er til dæmis minnisstætt þegar ég skrifaði stíl, á að giska tíu ára gamall, færði henni og hún fussaði (með sínum þýska hreim) að þetta væri bull og drasl. Hún reif síðan stílinn minn í tætlur og grýtti honum í ruslafötuna, fyrir framan allan bekkinn, og skipaði mér að skrifa nýjan stíl, sem ég gerði. Síðar um daginn hitti ég vin minn, sem var í næsta árgangi á eftir. Hún hafði kennt þeim í næstu kennslustund og viti menn, dregið þá upp stílinn minn, sem hún hafði tekið aftur upp úr ruslinu í frímínútunum og límt saman með límbandi. Tilgangurinn var að sýna hinum bekknum hvað ég hefði skrifað ööömurlegan stíl.

Margrét sagði sama bekk – árgangnum sem var ári yngri en ég – að hún „gæti ekki kúkað“ og væri með „rassgat úr plasti“. Hún hefur væntanlega meint að hún væri með stómíu, en við vissum ekki hvað það var og fylltum upp í með ímyndunaraflinu. Mér finnst það einhvern veginn ekki við hæfi að segja níu eða tíu ára börnum svona. Nú, einu sinni þegar ég var veikur heima, greip hún tækifærið og ásakaði tvo bekkjarbræður mína (ranglega) um að vera alltaf að fara heim til mín „og tæma ísskápinn“. Einn félaga, sem hafði verið veikur, ásakaði hún um að hafa verið að ljúga því. Einu sinni saumaði bekkjarbróðir minn handavinnuverkefni sitt fast við buxurnar sínar. Hún engdist um af hlátri yfir því hvað hann væri heimskur, fyrir framan allan bekkinn. Ég man líka þegar hún sagði okkur að Hitler hefði ekki verið slæmur maður, hann hefði endurreist Þýskaland, meðal annars útrýmt atvinnuleysi og lagt hraðbrautir.

Ég hef einu sinni á ævinni farið í verkfall. Það var ekki þegar ég var orðinn fullorðinn og verkalýðssinni, heldur var ég ellefu ára. Þá var mér svo nóg boðið af skólanum að ég neitaði bara að fara. Mórallinn í bekknum var vondur, mikil stríðni, mikið einelti, en ekkert vó jafn þungt og Margrét Müller. Þannig að ég neitaði bara að fara í skólann. Ég gat verið mjög ákveðinn, og foreldrar mínir reyndu ekki að pína mig í skólann, svo ég var heima í viku. Þá kom sr. Georg skólastjóri einn daginn heim til mín og við „sættumst“, og svo mætti ég daginn eftir í skólann.

Ég held að við höfum verið 25 í bekknum í 9 ára bekk, en vorum ekki fleiri en 15 sem kláruðum 12 ára bekk. Um helmingurinn hafði hætt en nokkrir bæst við. Þeir sem hættu fóru margir í Melaskóla eða Vesturbæjarskóla – ástæðan var s.s. oft ekki búferlaflutningar. Þeir sem byrjuðu entust mislengi. Sumir voru að flýja einelti annars staðar og Landakotsskóli var ekki rétti staðurinn fyrir þá að byrja nýtt líf, heldur ormagryfja.

Landakotsskóli mátti eiga það að hafa bólusett mig fyrir kristindómi, með einstaklega óaðlaðandi nálgun sem var haldið að okkur.

Ég sá það glöggt, eins og allir nemendur Landakotsskóla, að þar var alls konar óviðeigandi tal og hegðun gagnvart börnum. Það var ekki bara andlegt ofbeldi. Ég man t.d. vel eftir því líka að hún bað okkur börnin um að gramsa í eldhússkápunum heima hjá okkur og vita hvort við fyndum nokkur eldhúsáhöld sem væru ekki í miklu brúki. Við gætum þá bara fært henni þau, hún gæti notað þau, og það væri meira að segja allt í lagi ef þau væru ekki í lagi. Hún gerði okkur út til að stela brauðristum af foreldrum okkar!

Já, alls konar óviðeigandi hegðun var daglegt brauð. En uppljóstrunin í Fréttatímanum sl. föstudag kom mér samt verulega á óvart. Mig óraði aldrei fyrir því að kynferðisglæpir gegn börnum hefðu verið í þessu líka. Þau Margrét og sr. Georg virkuðu á mig sem ströng, íhaldssöm og gamaldags, en það hafði satt að segja aldrei hvarflað að mér að þau væru öfuguggar. Ég hafði ekki hugmynd um það, en eftir á að hyggja man ég eftir ýmsu „smávegis“ sem gat bent í þessa átt og hefði kannski átt að hringja bjöllum hjá einhverjum, t.d. að Margrét hjálpaði börnum stundum óeðlilega mikið við að baða sig í sumarbúðunum Riftúni.

Það var nett áfall að átta mig á að flest sem ég kann í skrift, reikningi, kristinfræði, handavinnu og matargerð, lærði ég af tveim barnaníðingum. Barnaníðingum segi ég, vegna þess að mér dettur ekki í hug að efast um frásagnirnar. Þær koma auk þess svo seint fram – þar sem þessi eftirminnilegu skötuhjú eru svo heppin að vera dauð og málin hvort sem er flest fyrnd – að þær geta varla verið hefnd. Það eiga örugglega eftir að koma fram fleiri frásagnir. En réttlætið hefur tvær hliðar, það er ekki bara að sá seki fái makleg málagjöld, heldur líka að fórnarlambið fái hlut sinn réttan. Ég á eftir að sjá kaþólsku kirkjuna gera hreint fyrir sínum dyrum í þessu máli.