Tuesday, January 25, 2022

Stólaleikur húsnæðisskorts

Það er stundum sagt að skortur sé nauðsynlegur til að verðmyndun sé eðlileg. Það er auðvitað bull, því það er hægt bara að reikna út uppsafnaða vinnu sem er á bak við vöru eða þjónustu.

En þetta er ekki "bara" bull. Þetta er hættulegt bull. Að minnsta kosti þegar kemur að nauðsynjum. Það er væntanlega ástæðan fyrir því að enginn er að krefjast þess hér á landi, að tekinn verði upp skortur á drykkjarvatni.

En það er pólitísk ákvörðun að hafa skort á húsnæði. Og myndar hann verð? Já, aldeilis: skorturinn skrúfar upp verðið svo til vandræða horfir. Flestir borga miklu meira fyrir húsnæði en þeir þyrftu ef félagslega stýrð áætlun réði ferðinni í stað markaðarins. Í stað andfélagslegra mannasetninga.

En skortur þýðir líka einfaldlega að það verða alltaf einhverjir sem fá ekki. Hér: sem fá ekki að eiga heima neins staðar. Þetta er mannasetning.

Í stólaleik er alltaf einhver í hverri umferð sem fær ekki sæti og er úr leik. Það er staðreynd. Þekkt staðreynd sem stjórnvöld eiga að vita. Skömm sé þeim.

Tuesday, January 18, 2022

Óþolandi troðningur í Keflavík

Ég för til London í nóvember. Við heimkomu lentum við í svakalegri örtröð á Keflavíkurflugvelli. Ég þurfti meðal annars að beita miklum þjósti til að ekki væri ruðst fram fyrir okkur í fáránlegri biðröð.

Athugið þetta: Biðröð sem hlykkjast um allan komusalinn mep farangursfæriböndunum. Um allan salinn. Og komufarþegar þurfa að troða sér í gegn um biðröðina til að nálgast töskurnar sínar. Troða sér í gegn fjórum sinnum, og svo fjórum sinnum til baka. Eða troðast bara inn í röðina.

Ath.: Það var ekkert þessu líkt á Heathrow-flugvelli. 

Mér var mjög misboðið. Einhver ber ábyrgð á þessu skipulagsleysi. Og var búinn að hafa tuttugu mánuði til að leysa það og var ekki enn búinn að því.

Og þetta virðist standa enn!

Tuesday, January 11, 2022

Þrá eftir einsleitu samfélagi?

Ég sá um daginn barna-jólamynd sem sýnist gerast í evrópsku þorpi í gamla daga, kannski 19. öld. Þar var a.m.k. eitt barnið svart. Væntanlega til að láta evrópskum börnum í nútímanum, sem eru að einhverju leyti ættuð frá öðrum heimsálfum, ekki finnast þetta vera mynd um eintóm hvít börn. Þótt leitun hafi verið að því norður-evrópska þorpi á 19. öld, þar sem ekki öll börnin voru hvít. Og vel að merkja: svörtu fólki hefði trúlega verið mætt með rasisma.

Auðvitað lítir það illa út í nútímanum að setja upp nostalgískt sjónvarpsefni um þjóðfélag þar sem eru engir innflytjendur frá öðrum heimsálfum. Þótt það hafi reyndar verið þannig. Í meginatriðum.

En hvernig hljómar þá að himnaríki kristinna manna sé ekki með neinum gyðingum? Og engum múslimum, engum trúleysingjum, engum heiðingjum? Er allt í lagi að boða þannig hugmynd um himnaríki?

Tuesday, January 4, 2022

Eitt ár af bloggi

Núna er ég búinn að blogga vikulega í eitt ár. Þetta er tilraun til að endurlífga bloggið mitt sem miðil, og ég er sáttur við hvernig það gengur. Þannig að ég held áfram að sinni.