Thursday, June 30, 2005

Bækur tvær


Sú bók sem er næst í röðinni hjá mér að lesa er Um anarkisma sem Siggi pönk var að gefa út. Keypti hana á útgáfutónleikunum á laugardaginn, og ný saman lófum af eftirvæntingu að lesa hana. En hún verður þó að bíða aðeins, því ég er að lesa aðra - sem ég er reyndar með í láni hjá Sigga ... hún heitir Fragments of an Anarchist Anthropology og er eftir David nokkurn Graeber. Ég er að verða búinn með hana (hún er stutt) og hef lesið nóg til að hafa efni á að segja þetta: Fragments of an Anarchist Anthropology er virkilega góð bók, fræðandi, vekjandi til umhugsunar, skorandi á hólm, færir ferskan andblæ í pólitíska hugsun manns og fær mann til að endurskoða ýmislegt sem manni datt áður ekki í hug að endurskoða. Semsagt, súperbók. Hún fæst á Amazon. Hæli henni í hástert.

Óskemmtileg lífsreynsla


Ég var að koma heim til mín af næturvakt, og þar sem ég gekk upp heimreiðina heima hjá mér sá ég svartan, ókunnugan kött sem virtist eiga eitthvað vantalað við minn kött, sem var nær húsinu. Minn köttur var með eitthvað í hvoftinum, sem ég var fljótur að sjá að var þröstur. Ég kom nær, kötturinn bjó sig undir að koma með mér inn til að gera að bráðinni, en þá fór þrösturinn að hreyfa sig og tísta. Kötturinn stóðst það auðvitað ekki og hélt áfram að leika sér með hann. Mér bauð við óförunum, bandaði kettinum í burtu - og stytti þjáningar þrastarins með skóflu. Þrjú högg og hann var steindauður.
Ég hafði aldrei áður drepið fugl með eigin hendi, né reyndar nokkuð dýr með heitt blóð. Ég get ekki sagt að tilfinningin hafi verið ánægjuleg. Mér líður hálf illa. Jæja, hvað gat maður svosem gert? Annað hvort að láta köttinn pína grey dýrið til dauða eða láta þetta taka fljótt af.

Át kjúkling


Í fyrrakvöld var kjúklingur í matinn heima hjá mér. Það væri ekki í frásögur færandi nema vegna þess að það eru komin næstum 2 ár síðan ég hætti að borða kjúkling. Ástæðan er verksmiðjubúskapur og ill meðferð á dýrum - og af sömu ástæðu er ég hættur að borða svínakjöt líka. En í fyrrakvöld át ég kjúkling.
Skýring: Móðir mín kom í búð sem selur ýmiss konar lífrænt ræktuð matvæli, spurðist fyrir um lífrænt ræktaðan kjúkling, sem var til í frysti. Það kom á daginn að í Mosfellssveit einhvers staðar er bú, þar sem kjúklingar fá að spássera um og róta í haugum, eins og þeim er eðlilegt að gera, þangað til þeim er slátrað. Þennan kjúkling át ég með góðri samvisku - og bestu lyst!
Bandaríski fulltrúadeildarþingmaðurinn Charles Rangel var í viðtali hjá hægrinöttaranum Sean Hannity og sagði frá því að Bush og félagar hefðu ákveðið að ráðast inn í Írak löngu áður en Bush varð forseti. Þessari fullyrðingu, sem er vel rökstudd og meira að segja skjalfest af hálfu Bush og félaga sjálfra, vísaði nöttarinn Hannity á bug sem "samsæriskenningu"!
Lesið orðaskipti þeirra hérna.

Wednesday, June 29, 2005

Nokkuð um Írak og Palestínu


Donald Rumsfeld laug því nýlega, að viðræður stæðu yfir við írösku andspyrnuna. Mike Whitney gerir grein fyrir þessu í ágætri grein. (Hvernig er annars hægt að eiga skipulegar viðræður við andspyrnuhreyfingu sem er ekki miðstýrð og hefur enga talsmenn eða heildarskipulag? Það væri í mesta lagi hægt að ræða við einstaka leiðtoga eða einstakar hreyfingar, en íraska andspyrnan samanstendur af tugum aðskildra hópa!) Rumsfeld sagði að viðræður stæðu yfir, George Casey, hershöfðingi í Írak, neitaði því, og það hafa ýmsir leiðtogar andspyrnunnar einnig gert. Rumsfeld laug. Ekki í fyrsta sinn. Gefum Whitney orðið:
The real purpose was simply to deceive the American public once again, to elicit greater support for a botched war that has degenerated into a quagmire.
By now, every American who is capable of reading a newspaper or watching a TV should know that Rumsfeld is a compulsive liar, a serial liar, a pathological liar.
... Rumsfeld plans to create the "creative chaos" which he feels will best serve the overall objectives of the occupation.

~~~ ~~~ ~~~ ~~~

Önnur athuglisverð grein um Írak er "Iraq: A Bloody Mess" eftir Patrick Cockburn. Tölurnar í endann á henni segja ýmislegt. Hér getur að líta örstutta "flash presentation" sem kortleggur mannskæðar árásir á hernámsliðið fram til 20. júní.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~

Fyrrverandi hermenn í Ísraelsher ljóstra upp um kerfisbundna valdníðslu hersins gegn Palestínumönnum, notkun á palestínskum borgurum sem lifandi skjöldum, siðferðislega hnignun í hernum, allt upp í efstu raðir hans, skeytingarleysi um örlög Palestínumanna og hræsnina í talsmönnum hersins, sem segja hann vera til fyrirmyndar fyrir aðra heri. (Nema hvað, talsmenn hersins eru auðvitað á mála hjá honum!) Þessar upplýsingar eru auðvitað fjarri því að vera nýjar (ég get sjálfur vitnað um ýmislegt óhreint í pokahorni Ísraelshers) en það er eftirtektarvert að það skuli vera ísraelskir hermenn sem rjúfa þögnina. Hópur þeirra kallar sig einmitt Breaking the Silence. Sjá nánar í þessari grein.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~

Palestínsk-bandaríski háskólaprófessorinn Sami al-Arian er ásamt fleirum fyrir rétti, sakaður um stuðning við Islamic Jihad í Palestínu. Ég hef efasemdir um sekt hans; held að þetta sé hluti að aðförinni sem hefur verið í gangi gegn aröbum í Bandaríkjunum. En allavega: FBI njósnaði um al-Arian í níu ár áður en hann var tekinn fastur. Hleruðu síma og tölvupóst og komu fyrir hljóðnemum á skrifstofunni hans. Sjá nánar í þessari grein.

Tuesday, June 28, 2005

Bókin sem Siggi pönk var að gefa út, Um anarkisma, virðist þegar vera farin að hafa áhrif.
Svo ég segi minn túskilding á anarkisma, frjálslyndum sósíalisma og hinni langvarandi rökræðu um ríki/ekki ríki, þá veit ég um ýmsa sem kalla sig ýmist anarkista eða frjálslynda sósíalista og gera annað hvort ekki greinarmun á, eða álíta þetta tvennt skarast í stóru sniðmengi. Ég álít sjálfur að þetta skarist. Frjálslyndur sósíalismi er í mínum huga frjálslyndur á sama hátt og anarkismi er það, semsagt afgerandi frjálslyndur.
Markmið anarkista er hið sama og markmið (annarra) kommúnista, sem er að koma á samfélagi sem er laust við stéttaskiptingu og ríkisvald. Það hefur lengi verið djúpstæður ágreiningur um það, hvernig þeirri breytingu verði komið í kring og hafa anarkistar löngum viljað afnema ríkisvaldið, en kommúnistar að öreigastéttin yfirtæki það og mótaði í sinni mynd.
Ég, fyrir mitt leyti, sé nákvæmlega enga haldbæra ástæðu fyrir því að þetta tvennt þurfi að stangast hvort á við annað. Frá því þverhausarnir Marx og Bakúnín gátu ekki komið sér saman í 1. alþjóðasambandinu á 19. öld hefur sárlega skort samræðu milli anarkista og (annarra) kommúnista, einkum marxista. Hvorir tveggja hafa tapað á því að hafa ekki gagn og aðhald hverjir af öðrum. Marxistum hefur hætt til of mikils stjórnlyndis og ofskipulags, en anarkistum til of lítils skipulags og stefnu og lausrar í reipunum, og svo hefur báðum hætt til sundurlyndis og slíks, bæði innbyrðis og út á við. Ég, fyrir mitt leyti, sé það sem stóran og mikilvægan áfanga í hinni miklu baráttu, eða byltingu, ef þú vilt kalla það það, að anarkistar, sósíalistar, kommúnistar, marxistar, eða hvað sem menn kalla sig, geti stillt saman strengi sína og komið sér saman um (a) markmið og (b) leiðir. Það vildi ég sjá, takk fyrir. Og þú átt að vera með í að lyfta þessu grettistaki, takk fyrir.

Monday, June 27, 2005

Var að bæta hér til hliðar linkum á Landsvirkjun, Kárahnjúkavirkjun og eitthvað. Hvers vegna? Know thy enemy.
Hér getur að líta athyglisverðan leiðara á Kantipur Online, þar sem fjallað er um stjórnmálin í Nepal þessa dagana. Áhugavert það sem sagt er þar um dr. Bhattarai.
Ég held að ég hafi í gær gerst áskrifandi að Lögbirtingarblaðinu og látið, þar með, gamlan draum rætast.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Á tónleikunum í gærkvöldi opnaði ég jómfrúrbás með Kommadistrói Íslands (á þessu nafni er sá fyrirvari að mér gæti dottið eitthvað betra í hug...) með bókum, barmmerkjum og smávegis fleiru. Á sömu tónleikum keypti ég mér bókina Anarkisma sem út er gefin af Sigurði pönk. Hlakka til að lesa hana.

Úr fréttum


Samningur við Mexíkó um vernd fjárfestinga“ ... þýðir það að við höfum tryggt okkur sæti við enn einn kjötketilinn sem gengur fyrir þrælavinnu? „Olíuverð yfir 60 dollara“ ... og fer hækkandi. Þeir sem kannast við stærsta vandamál okkar kynslóðar skilja hvaðan á sig stendur veðrið. „Rumsfeld býst við áframhaldandi ofbeldi næstu árin í Írak.“ ... ég hefði getað sagt honum það. Bandaríkjamenn eiga eftir að halda áfram að níðast á þessari þjóð þangað til henni tekst að reka þá af höndum sér. Ég sé ekki fyrir mér að þeir muni fara með góðu, né að þeir muni samþykkja neins konar stjórn þar nema hún sé undirgefin þeim. Þessu stríði -- þessum glæp gegn mannkyni -- verður að linna. Ránsstyrjöld í okkar nafni. Heildsöluhryðjuverk.
Þetta eru alvarlegar fréttir. Ég næ ekki alveg umfangi þess sem virðist vera að dynja á okkur á næstu árum. (1) Húsnæðisbólan springur - það verður svakalegt, en gæti fölnað við hliðina á því þegar (2) greiðsluhalli Bandaríkjanna sligar efnahagskerfið (b), sem aftur verður eins og Vatnaskógur samanborið við (3) Olíutindinn. Þá eru heilbrigðismál, umhverfismál, óhjákvæmilegar uppskiptastyrjaldir kreppuauðvalds, vaxandi trúarofstæki og aukin vígvæðin ekki einu sinni talið með.
Það verður athyglisvert að fylgjast með næstu árin.

Friday, June 24, 2005

Kárahnjúkabúðir og fjölmiðlar


Uppsetning tjaldbúða við Kárahnjúka er hafin. Fréttir herma að sjö manns séu þar núna, en búast við má töluverðri fjölgun á næstu dögum. Athyglisvert er að bera saman fréttir mismunandi fjölmiðla af búðunum. RÚV segir: „Fyrstu tjöldin í fyrirhuguðum tjaldbúðum mótmælenda við Kárahnjúkavirkjun voru reist í dag. Tjaldbúar segja að búðirnar verði líflegar og skemmtilegar og vel sé hægt að mótmæla án þess að sýna ofbeldi. Lögreglan hefur vaktað svæðið við Kárahnjúka í dag.“ Þetta sé ég ekki betur en að sé sanngjörn frétt. Mogginn hefur verið undarlega þögull um þetta mál. Um Vísi undanfarna daga er hins vegar annað að segja. Þar segir meðal annars (allar leturbreytingar eru mínar):
Engin tjöld enn á Kárahnjúkum
Enn virðast engin tjöld mótmælenda farin að rísa á Kárahnjúkasvæðinu. ... Hitinn er í kringum fimm stig svo það er vonandi að mótmælendurnir séu vel búnir fyrir útileguna.
Sjá fleiri en ég hótfyndnina skína út á milli glottandi tanna fréttamannsins? Ég giska á (veit ekki fyrir víst, en giska á) að blessað fólkið hafi nú hlustað á veðurfréttirnar áður en það lagði af stað. Eða, segir það sig ekki sjálft? Eða segir það sig kannski ekki sjálft, að það sé vel búið ef það ætlar að dvelja þarna vikum saman? Höldum áfram:
Ekkert sést til mótmælenda
Ekkert hefur sést til mótmælenda á Kárahnjúkum en þeir hugðust setja upp tjaldbúðir þar í gær á lengsta degi ársins. Lögregla hefur verið á svæðinu í dag en þar hefur verið kalt og var hiti aðeins tvær gráður í morgun. Frá skipuleggjendum tjaldbúðanna bárust þær fregnir í dag að tafir hefðu orðið en stefnt væri að því að koma á svæðið í kvöld.
Þetta gat verið verra, en ég þykist enn sjá í gegn um fyrirsögnina að mótmælendurnir séu lúserar og að þetta sjó ósvinna hjá þeim (og eigi örugglega eftir að misheppnast). Höldum enn áfram:
Eitt tjald risið við Kárahnjúka
Aðeins eitt tjald virðist risið við Kárahnjúka þar sem mótælendur sögðust ætla að reisa tjaldbúðir.
...
Kalt hefur verið á Kárahnjúkum undanfarna daga og hitinn þar var aðeins um tvær gráður í nótt og því hefur væntanlega verið kalt í tjaldinu sem búið er að reisa.
Á heimasíðunni Saving Iceland er hins vegar öllu meira gert úr aðgerðunum hingað til.
Heimasíðan Saving Iceland er gerð ótrúverðug með því að gefa í skyn - eða segja beint - að þar sé farið með staðlausa stafi og meira digurbarkatal en tilefni sé til. Eins og hver, sem skoðar síðuna, getur gengið úr skugga um, eru þetta ómakleg ummæli. Þar stendur skrifað, dagsett 23. júní:
„Fyrstu tjöldin hafa risið á bökkum Jöklu strax til vinstri þegar komið er yfir brúnna. Tólf manns eru komnir á staðinn. Veður er hlýtt og bjart.
Fyrstu 2-4 dagarnir fara í að koma búðunum upp og þeir sem vilja aðstoða við það eru ómetanlegur liðsauki, öllum sem vilja taka þátt er velkomið að koma.“
22. júní eru sjö komnir fyrir kvöldið og daginn eftir er fjöldinn kominn í tólf. Ég leyfi mér að efast um að veðrið sé mjög hlýtt, en það getur samt vel verið, sbr. Veðurstofu Íslands. En höldum áfram:
Eitt tjald við Kárahnjúka
Tveir einstaklingar í einu tjaldi mynda nú mótmælendabúðirnar sem andstæðingar Kárahnjúkavirkjunar eru að koma þar upp. Fimm til viðbótar bætast við fyrir nóttina.
Skipuleggjendur hugðust koma upp búðunum fyrir sumarsólstöður í fyrradag en í dag var þar aðeins eitt lítið tjald, við Sauðá, um þrjá kílómetra frá Kárahnjúkastíflu. Ekkert sást til mannaferða við tjaldið en fréttaritari Stöðvar 2 fékk þær upplýsingar að þar inni væru tveir einstaklingar sofandi, karl og kona, enda hefðu þau komið á svæðið seint um nótt og tjaldað í morgun.
Næst er því lýst hvað fólkinu á Kárahnjúkum sé annt um öryggi mótmælendanna, og m.a. vitnað í Yrsu Sigurðardóttur. Hún er sjálfsagt góð manneskja og ekki efast ég um að henni sjálfri sé umhugað um öryggi þeirra. En yfirmenn hennar? Það er nú það. Þeir virðast ekki (eða a.m.k. ekki ennþá) hafa áhyggjur af því að þessi mótmæli verði árangursrík. Kannski kenna þeir bara í brjósti um ungt fólk með hugsjónaeldinn logandi. Kannski að þeir komi meira að segja með smákökur og sitthvort mjólkurglasið handa meinleysingjunum tveim? Hver veit.
Svo lengi sem þessi mótmæli eru meinlaus býst ég við að þau fái að vera í friði. Á meðan má líka búast við að góðlátleg hótfyndni fréttamanna beinist að þeim öðru hvoru. Um leið og þau fara að hafa tilætluð áhrif má hins vegar búast við öðru hljóði í strokkinn. Þá má sjá fyrir sér að lögregla verði kölluð til og að athyglin beinist að því sem er „sensational“ við mótmælin - ef einhver streitist á móti eða eitthvað þvíumlíkt. Ég skal hins vegar éta hattinn minn ef eftirfarandi (feitletruð) fullyrðing reynist röng: Í sumar munu fjölmiðlar ekki veita stóru fréttinni mikla athygli, sem er að gerast á Kárahnjúkum, en það eru stærstu umhverfisspjöll Íslandssögunnar, og sá boðskapur -- sú frétt sem mótmælendurnir vilja vitaskuld að athyglin beinist að -- verður hornreka við hlið æsifrétta af óstýrilátum ungmennum og stjórnleysingjum. PR-áróður Landsvirkjunar verður áfram áberandi í fréttum en hlið umhverfisverndarsinna verður að miklu leyti þögguð niður í fréttum hér eftir sem hingað til. Því verður haldið stíft að Íslendingum, að Kárahnjúkavirkjun sé æðisleg og mótmælendurnir örsmár hópur sérviturs, eða öfgafulls, en meinlauss og svolítið hlægilegs hugsjónafólks sem sé á mótþróaskeiði eins og stórir unglingar.
Sannið þið bara til.

Hefur hann rétt fyrir sér?


Formaður BSRB gagnrýnir Ríkisendurskoðun harðlega
Ögmundur Jónasson ... ábendingar Ríkisendurskoðunar um að breyta þurfi lögum um réttindi og skyldur svo frysta megi launagreiðslur starfsmanna þeirra stofnana sem fari fram úr fjárlagaheimildum vera forkastanlegar. ... "Ég vísa þessum köldu kveðjum algerlega á bug og að sjálfsögðu mun svona ofbeldi aldrei verða þolað."
Ég er hjartanlega sammála því að þessi uppástunga sé forkastanleg og að Ríkisendurskoðun ætti að skammast sín. Ekki vantar það nú. En að svona ofbeldi muni aldrei verða þolað? Ég vona að satt sé, og ég vona að BSRB standi við það ... en um leið játa ég að ég efast um að sú mótspyrna færi lengra en fyrir dómstóla. Segjum að dómstóll úrskurði ríkinu í hag. Munu BSRB eða önnur samtök launþega blása til verkfalls ríkisstarfsmanna til að knýja það fram, að lögin verði tekin til baka?
Þau ættu að gera það -- en hvort þau mundu eða munu gera það -- það er önnur saga.
Það þarf víst engan sérfræðing til að sjá svartsýni mína á þetta...
Í dag tók ég í notkun nýtt bindi af vasabókinni minni. Ég sé fram á að þurfa að horfa á ~50 kvikmyndir og kaupa ~ 50 bækur áður en ég tek næstu í notkun, það er orðið svo tímafrekt að færa á milli bóka listann yfir bækur sem mig vantar og myndir sem ég þarf að sjá. Ég hef ekki hugmynd um númer hvað nýjasta bókin er, en grunar að númerið sé einhvers staðar milli 30 og 40. Það er óþolandi að vera með skert minni og áráttu fyrir því að vilja muna hugrenningar sínar, hvort tveggja í senn.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Áðan hitti ég nokkra félaga mína og við litum inn á Ölstofu Kormáks og Skjaldar og við duttum sko aldeilis í lukkupottinn: Ókeypis bjór og skot! Ég drakk tvo bjóra af tegund sem ég man ekki hvað heitir og bragðaðist frekar illa. Þá drakk ég eitt skot af annað hvort "Ópal" eða "Tópas" -- alla vega bragðaðist það alveg eins og rauður ópal -- og er sannkallaður viðbjóður. Ópal á maður að sjúga, ekki staupa. Og hann á að vera blár, ekki rauður.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Vegna þess að Arngrímur kaupir ekki alveg brandarann í þarsíðasta bloggi, þá er best að ég láti fylgja nokkra í viðbót, í svipuðum dúr, til skýringar. Þessa birtingu tileinka ég Arngrími:

Það var maður sem dó og fór til himna og þar sem hann stóð við Gullna hliðið þá .. bíðið við, æ, gleymið þessu, hann lá bara ofan í jörðinni og rotnaði.

Hvítur maður á Cadillac ók framhjá svertingja sem leiddi hjólið sitt meðfram þjóðveginum. Hann stoppaði til að bjóða svertingjanum far. Hann sagði: „Hjólið þitt kemst því miður ekki í skottið, en ef þú vilt getum við bundið það aftan í bílinn og ég get þannig dregið þig. Ef ég fer of hratt, þá æpirðu bara.“
Svertinginn svaraði: „Nei takk, það hljómar of hættulegt fyrir minn smekk,“ og hélt áfram að leiða hjólið sitt meðfram þjóðveginum.

Önd kom vaggandi inn í Bónus og spurði afgreiðslumann: „Eigið þið varasalva?“ Afgreiðslumaðurinn var innflytjandi, talaði ekki íslensku og skildi öndina því ekki. Hins vegar áttaði hann sig vel á því hvað það var óeðlilegt að öndin kynni að tala, hélt að guð væri að refsa sér, og brast í grát. Öndin gekk undrandi út, spyrjandi sjálfa sig hvað hún hefði ætlað að gera við varasalvar hvort sem er, vegna þess að endur eru ekki með neinar varir.

Hafnfirðingur kom til læknis til að fara í ófrjósemisaðgerð. Hann var klæddur í svört jakkaföt. Læknirinn spurði hvers vegna hann væri klæddur í svört jakkaföt, og Hafnfirðingurinn svaraði: „Ég var að koma úr jarðarför.“

Ég er vel upp alinn ungur maður, stunda ekki ritstuld, og tek því fram að þessa brandara, og fleiri í svipuðum dúr, fann ég hér (en þýðingin og staðfæringin er mín).

Thursday, June 23, 2005

Nærri Kárahnjúkum er verið að setja upp títtumræddar tjaldbúðir og lögreglan er með viðbúnað eins og al Qaeda séu að setja upp þjálfunarbúðir hryðjuverkamanna. Sjálfsmorðs-skyrslettuárásir eru helsta ógnin á Austfjörðum í dag. Umhverfisbullur, friðarkommar og reykingamenn. Ofdekruð góðborgarabörn frá Reykjavík og óstýrilátir vandræðadelar sem hafa ekkert betra að gera í lífinu en að mótmæla öllu því góða sem við eigum. Blablabla.
Eru ekki einhverjar framkvæmdir þarna í grenndinni?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Herskáir maóistar ræna banka á Indlandi ... alveg er ég viss um að þetta voru naxalíta-skæruliðar.

Wednesday, June 22, 2005

Kárahnjúkar, Saúdi-Arabía, Zimbabwe, Venezuela og tvennt áhugavert á laugardaginn


~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Á Gagnauga er skýrt frá vinnubrögðum á Sjónvarpinu sem eru ekki boðleg. Frétt um Paul Gill var látið fylgja myndefni af öðrum manni að fela andlit sitt - án þess að tekið væri fram að annar maður væri á ferðinni!
Víkingasveitin er víst í viðbragðsstöðu á Egilsstöðum ef umhverfisbullurnar og „atvinnumótmælendurnir“ illræmdu skyldu reyna einhvern uppsteyt, sjálfsmorðsárásir eða þaðan af verra.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Sjá fleiri en ég eitthvað eftirtektarvert við þessa frétt?
Yfirvöld í Sádi-Arabíu gerðu í dag lítið úr ummælum Condoleezzu Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, en hún hvatti í gær til lýðræðisþróunar í landinu ...
Saud al-Faisal, utanríkisráðherra landsins, sagði íbúa landsins best til þess fallna að dæma um það hvers lags stjórnmálaþróun henti þeim best.
Þessi Saud al-Faisal - ég vil að það komi fram að hann er hundur og ætti að éta skít - hlýtur annað hvort að vera óborganlega heimskur (ólíklegt: þá væri hann vara ráðherra..eða hvað?) eða þá að hann heldur að við (allir hinir á jörðinni) séum það. Fyrst hann er aðalsmaður er reyndar ekkert skrítið við yfirgengilegan hroka í hans fari -- en athugum: Lýðræði á ekkert erindi til Saúdi-Arabíu. BNA ættu ekki að skipta sér af, það eru Saúdi-Arabar sjálfir sem eru best færir um að velja. Einmitt: Það er einmitt vandinn, þeir fá ekki að velja! Úff, ég spyr mig hvort svona heimska sé smitandi.
Það verður samt að viðurkennast að þessi asni og aumingi hefur rétt fyrir sér að einu leyti: Þegar öllu er á botninn hvolft kemur það einmitt í hlut Saúdi-Araba sjálfra að bylta þessu konungdæmis-skrifli og trampa fínu hallirnar þeirra út í úlfaldaskít. Þetta veit krúnan og lætur wahhabista-klerkana því eiga sig til þess að þeir geti veitt almennri óánægju í farveg af afturhaldssömustu sort, róttæka bókstafstrú.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Í Zimbabwe gengur strengjabrúðum heimsvaldasinna, MDC, illa að sannfæra kjósendur á landsbyggðinni um ágæti sitt. Þeim gengur líka illa að sannfæra mig! Verst er að hinn stóri flokkurinn, ZANU-PF Mugabes forseta, er ekki af betra taginu heldur.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Í Venezuela hefur verið afhjúpað plott um að ráða Chavez forseta af dögum. Mér segir svo hugur að slík aðgerð yrði í hæsta máta óvinsæl.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Var að setja þessar tilkynninguar efst á bloggið: Kanadíski sjónvarpsmaðurinn Barrie Zwicker er væntanlegur til landsins. Hann er framleiðandi "The Great Conspiracy" sem hefur verið sýnd á vegum Gagnauga og heldur fyrirlestur um 11. september í sögulegu samhengi. Laugardaginn 25. júní í Norræna húsinu kl. 14:00, aðgangseyrir:800 kr (nánar). Talandi um Gagnauga, þá er heilmikil hreyfing á síðunni þessa dagana. Það er gott. Ég hvet fólk til að fylgjast með þessari síðu.
Einnig þessa: Út er komin bókin "Um Anarkisma"
Í þessari bók er reynt að útskýra hverju anarkistar trúa, hvað þeir vilja, hvernig pælingar þeirra kvíslast og hvað þeir gera.
Markmiðið með sjálfri útgáfunni er að reyna að víkka pólitískan sjóndeildarhring íslendinga.
Í tilefni ef útkomu bókarinnar "UM ANARKISMA" koma nokkrar hljómsveitir saman á tónleikum, INNVORTIS, FIGHTING SHIT o.fl., TÓNLISTARÞRÓUNARMIÐSTÖÐINNI (Hólmaslóð 2). 500 kr, 18.00-22.00, EKKERT ALDURSTAKMARK. Bókin verður auðvitað til sölu á staðnum, kostar 500 kr.

Myndband, brandari og misheyrn


Sú snilldarhljómsveit Biomechanical sendi nýverið frá sér nýtt tónlistarmyndband sem ég mæli eindregið með fyrir fólk sem fílar kröftugt og tæknilegt þungarokk. Gott fólk, Empires of the Worlds!
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Sp: Hver er munurinn á Michael Jackson og Jóhannesi Páli II páfa?
Sv: Jóhannes Páll páfi er dáinn.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ég var að tala við konu, og í tal barst maður sem við þekkjum, sem er ekki sem bestur í blöðruhálskirtlinum. Konan sagði: „Ég var að heyra að sólarljós væri svo gott fyrir blöðruhálskirtilinn. Það væri sennilega best að taka hann út,“ ssagði hún og mér svelgdist á kaffinu mínu. Hún hélt áfram: „...taka blessaðan manninn út í sólina.“

Tuesday, June 21, 2005

Nepölsku sjöflokkarnir taka yfirlýsingu Prachanda af varkárni og segjast bíða eftir að maóistar breyti í samræmi við hana. Tanka Dhakal, ráðherra samskiptamála og talsmaður ríkisstjórnar konungsins, sagði: "Við höfum heyrt af tilraunum sem flokkarnir hafa gert til að mynda bandalag viðhóp sem hefur verið lýstur hryðhuverkahópur. Bandalag milli hans og flokkanna yrði óheppilegt." Það er skiljanlegt að konungsmanninum finnist það óheppilegt, ef maóistar og þingræðisflokkar taka höndum saman. Það sem er samt óheppilegast er að Gyanendra kóngur skuli fara með völd sín eins og hann gerir, en bæði royalistar og maóistar sæta þungum ásökunum um mannréttindabrot. Mögulegt bandalag milli flokkanna gæti (ef til vill) verið slæm hugmynd frá sjónarhóli byltingarinnar, en sagt er að það hafi orðið rússnesku byltingunni þungur baggi, þegar bolsévíkar gerðu bandalag við ýmsa aðra misjafnlega afturhaldssama flokka.

Það, sem gæti orðið samvinna milli þingræðisflokkanna og maóista, hófst með því að kóngurinn boðaði til sveitarstjórnarkosninga sem þingræðisflokkarnir sögðust mundu sniðganga. Þeirri sniðgönguyfirlýsingu tók Prachanda formaður fagnandi með yfirlýsingu daginn eftir. Búist er við að bilið milli maóista og hinna flokkanna fari mjókkandi á næstunni. Prachanda sagði að þeir flokkar yrðu boðnir velkomnir í bandalag, sem tækju afstöðu gegn kerfinu (kerfi lénsveldis og kapítalisma) og gegn krúnunni, m.ö.o. sem gerðust byltingarsinnaðir. Nú er haft við orð að maóistarnir séu fúsir að semja um að konungur sitji áfram, ef hann verði táknrænn, og að konunglegi herinn verði ekki leystur upp heldur, heldur aðeins færður undir lýðræðislega stjórn. Það gæti orðið pólitískt erfitt fyrir sjöflokkana að tengjast maóistum, þar sem þeir síðarnefndu hafa myrt fjölda starfsmanna og aktívisita þeirra fyrrnefndu undanfarin ár.

Það er líka sagt að þetta gæti verið divide et impera af hálfu maóistanna. Þeir neituðu að eiga samningaviðræður við Deuba meðan hann var forsætisráðherra vegna þess að hann hafi ekki umboð til að koma til móts við kröfur þeirra. Frekar hafa þeir sagst vilja tala við konunginn sjálfan. Nú mætti halda að þeir væru að etja hinum flokkunum gegn kóngi - veikja andstæðinga sína með því að láta þá takast hvora á við aðra.

Um þessar mundir held ég að fari heldur rénandi það dauðafæri sem maóistar höfðu til að ganga milli bols og höfuðs á konungdæminu eftir valdarán konungsins 1. febrúar. Maóistarnir reyndust ófærir um að nýta sér það þá vegna síns eigin innbyrðis klofnings, milli formannsins Prachanda og næstráðandans Bhattarai. Bhattarai mun hafa krafist sterkara lýðræðis innanflokks og sakaði Prachanda um einræðistilburði. Prachanda sakaði þá Bhattarai um klofningshneigð, að örva klíkumyndun í flokknum og að vera agent fyrir indverska heimsvaldasinna, m.a. eftir að Bhattarai fór til Nýju-Delhi og hitti þar formann Kommúnistaflokks Indlands (marxista). Bhattarai brást við með því að segja að Prachanda væri agent konungshallarinnar. Prachanda hefur yfirhöndina, alla vega sem stendur, og ég er hræddur um að ásakanir Bhattarai um einræðistilburði séu ekki úr lausu lofti gripnar.

(Heimildir: *, *, *, *, *)
~~~ ~~~ ~~~ ~~~

Talandi um suður-asíska maóistaskæruliða, þá hafa maóísku naxalbari-skæruliðarnir sett fylkisyfirvöldum í Andra Pradesh úrslitakosti. (*)

Monday, June 20, 2005

Paul Gill hefur verið settur í farbann. SHA hafa fordæmt meðferðina á honum. Mér skilst að hann hafi verið látinn laus. Hvað er "atvinnumótmælandi"? Ég get ekki mælt fyrir annarra hönd, en mér finnst absúrd hvernig tröllasögur hafa spunnist um atburðinn á Hotel Nordica. Gill hefur verið sagður vera "málaliði" og vera á launum hjá einhverjum illa innrættum útlendingum. (Ósama, kannski?) Einhver á að hafa skitið á sig af hræðslu. Hvaða rugl er þetta eiginlega? Ég skil að fólk sé uppveðrað af þessum atburði - en mér hefur heyrst tvær fjaðrir verða að tíu hænum.
Ég sé mig knúinn til að draga aðeins í land varðandi "katastrófuna" um daginn, viðvíkjandi erindi mínu til Íslenskrar málstöðvar. Svo er, að þótt ég geti nú fallist á að "æsi" sé rétt þágufallsmynd eintölu af "ás" í merkingunni "goð", þá get ég með engu móti fallist á að það sé eina rétta myndin. Frá "ási" og frá "ás" finnst mér hvort tveggja hljóma fullkomlega eðlilega, og ég sé ekki að ég, sem altalandi Íslendingur, sé um þau efni ómerkilegra kennivald en annað kennivald. Semsagt: Ég mun halda áfram að viðurkenna "ás" og "ási" sem rétt þágufall af "ás" í merkingunni "goð". Það er ekkert óeðlilegt við að fleiri aukafallsmyndir en ein séu réttar af sama orðinu, eða fleiri myndir en ein almennt. Ég tek sem dæmi orðið sem í upphafi beygðist "mær - mey - mey - mær" og bætti svo við sig myndinni "mey - mey - mey - meyjar" - og svo enn "meyja - meyju - meyju - meyju". Það er tilhneiging til að sterk beyging víki fyrir veikri, og í krafti þess mun ég halda áfram að segja "frá ás" eða "frá ási", þótt ég fallist á að hitt sé rétt líka.
Íranskir umbótasinnar styðja Rafsanjani og það held ég að megi kallast skiljanlegt, sé höfð hliðsjón af því hver keppir við hann... Var að lesa þetta ágrip af horfum í þessum kosningum. Ætli Rafsanjani taki þetta ekki?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Í Líbanon vann bandalag leitt af Saad Hariri sigur í kosningunum. Er það gott eða slæmt? Ég hef ekki hugmynd! Þeir eru með and-sýrlenskan brodd, sem gæti þýtt að þeir væru hallir undir Bandaríkin (eða kannski Ísrael) en ég veit svosem ekkert um það.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Eftir mína nýjustu Vantrúargrein hafa skapast fjörugar umræður ef einhver hefur gaman að slíku.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Haft er eftir Prachanda formanni nepalskra maóista: "Our party has issued special instructions to all cadres, (our) People's Liberation Army and other units not to carry out physical attacks on any unarmed person until another decision" ...jæja, óneitanlega er þetta skref í rétta átt, þ.e.a.s. ef þeir fara eftir því. Þeir hafa einnig lýst yfir stuðningi við stefnuskrá sjöflokkanna, þ.e. þingræðisflokkanna sem var vikið frá þann 1. febrúar -- og það býst ég við að sé reiðarslag fyrir krúnuna. Hver veit, það gæti skipt sköpum fyrir framtíð Nepals?

Sunday, June 19, 2005

19. júní: Fagnaðardagur fyrir lýðræðissinna


Í dag eru 90 ár frá því kosningaréttur varð almennur á Íslandi, 90 ár frá degi einhverra stórstígustu breytinga í lýðræðisátt í sögu Íslands. Það er tómt mál að tala um borgaralegt lýðræði þar sem konur sitja ekki við sama borð og aðrir, en reyndar fengu fleiri en konur kosningarétt fyrir 90 árum. Með gildistöku sömu laga var veittir kosningaréttur snauðum körlum - vinnumönnum, tómthúsmönnum og öðrum - að vísu með því skilyrði að þeir hefðu ekki þegið af sveit, auk þess sem kosningaaldur þeirra, eins og kvennanna, var í fyrstu töluvert hærri en karla sem borguðu visst útsvar. En stökkið var stórt, og ég vil óska löndum mínum til hamingju með það. Tilefni dagsins er tilefni til almenns fagnaðar, ekki bara fagnaðar kvenna, því hver nýtur lýðræðis ef sumir njóta þess ekki? Hver er frjáls ef sumir eru ófrjálsir?

Það er ástæða til að minnast unninna sigra og fagna orðnum framförum, en varast skyldi fólk, að telja sig vera komið í höfn eða láta hér við sitja. Margt er eftir óunnið, mörgum steini óvelt, áður en þetta samfélag okkar má heita fullfrjálst, stjórnfrjálst, réttlátt, fullvalda eða í höfn komið. Í mínum huga eru dagar á borð við þennan umfram annað hvatning fortíðarinnar til nútímafólks, að láta ekki deigan síga heldur halda áfram baráttunni, vinna nýja sigra og þoka samfélaginu áfram til meiri framfara, meira lýðræðis og meira réttlætis.

Verði svo.
Egill Helgason skrifar um "Evró-neikvæða", frekar slappa grein að mínu mati. "Evrópusamtökin" vísa á greinina og á Múrnum gerir Huginn sér þetta að umfjöllunarefni. Ég held ég geti nú tekið undir grein Hugins, en vil bæta við athugasemd við það sem mér finnst kannski slappast í grein Egils:
Í meginstraumi stjórnmálanna dettur engum heilvita manni í hug annað en við eigum samleið með ESB.
Þetta er nú auma rökleysan, hvaða rugl er þetta? Egill drullar bara á þá sem eru honum ósammála að þeir séu annað hvort einhvers konar öfgamenn á jaðrinum, eða þá hálfvitar. Þessi ummæli dæma sig nú sjálf, en ég held að þarna sé á ferðinni dæmi um mann sem finnur fjara undan sínu sjónarmiði.

Saturday, June 18, 2005

Enn af mótmæla-, virkjana- og álversmálum


Úr fréttum RÚV:
Glæpa og afbrotaumhverfi á Íslandi er að breytast, segir Björn Bjarnason dómsmálaráðherra. Hann segir það alvarlegt að fólk geti ekki komið saman á lýðræðislega samkomur án þess að eiga það á hættu að vera truflað eins og gerðist á ráðstefnu um áliðnað á Hótel Nordica í...
Á lýðræðislegar samkomur? Hvað er lýðræðislegt við að ráðamenn stórfyrirtækja plotti í reykfylltum bakherbergjum? Hvað er lýðræðislegt við að reyna að halda ráðstefnunni leyndri af ótta við fólk sem er ósammála? Hvað er lýðræðislegt við að leyniráðstefna kapítalistabrodda ákveði hlutskipti fólks sem er ekki einu sinni látið vita af ráðstefnunni? Svar: Það er ekkert lýðræðislegt við það. Ég efast um að Björn Bjarnason mundi þekkja alvöru lýðræði þótt það kæmi og ruglaði fínu hárgreiðslunni hans.
...og meira af sama meiði:
Jóhannes Geir Sigurgeirsson, stjórnarformaður Landsvirkjunar, vísar á bug gagnrýni mótmælenda álráðstefnunnar sem fram fór á Hótel Nordica í gær og þvertekur fyrir að þar hafi Ísland verið markaðsett sem ódýrt málmbræðsluland.
Hann segir það bæði órökrétt og rangt af umhverfisverndarsinnum að gagnrýna nýtingu hreinnar orku vilji þeir raunverulega draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda og bæta lífsskilyrði í þriðja heiminum.
Er fólk hissa á að Jóhannes vísi á bug gagnrýni á hans eigið fyrirtæki? Ef það er bara rætt við hann, þá þarf hann ekki einu sinni að rökstyðja mál sitt. „[M]arkaðssett sem ódýrt málmbræðsluland“ er einmitt það sem Ísland er. Ódýrt rafmagn og ódýrar umhverfiskröfur. Á meðan Ísland er auglýst sem hreint ferðamannaland og borgararnir hvattir til að sturta ekki úr öskubökkunum á götuna („hreint land, fagurt land“) sjá gróðapungarnir bara tækifæri í óspjallaðri náttúrunni. Er það „hrein“ orka, að hlaða upp einhverjum rúmkílómetrum af jökulleir? Er það „hrein“ málmbræðsla, að reisa risaálver á Íslandi til að bæta fyrir lokun álvers í Bandaríkjunum, sem er lokað vegna kostnaðar við mengunarvarnir þar? Hvað er til betra til að laða að sálarlaus stórfyrirtæki, heldur en að gefa afslátt af umhverfisvernd, kjaramálum, lýðræði og öðrum mannréttindum?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ég vil í leiðinni vísa í meiriháttar góða grein Sverris Jakobssonar á Múrnum, sem innblásin er af þessum mótmælum og hinum móðursýkislegu viðbrögðum við þeim.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Í gærmorgun gerði ég mér ferð í kirkjugarðinn þegar forseti borgarastjórnar lagði blómsveig á Jón Sigurðsson. Það eru örugglega 15 ár síðan ég gerði það síðast. Það fór vel fram, en athöfnin var heldur fámennari en ég bjóst við. Fylgdi svo skrúðgöngu niður á Austurvöll. Á Austurvelli var ýmislegt sem lét mér líða eins og barninu í "Nýju fötunum keisarans". Skruðningar í hátalarakerfinu, marserandi smástelpnadeild og fret í mótorhjólum löggunnar, geistlegir kennimenn í hálfgerðum trúða-skrúða og svo framvegis. Ég gat, satt að segja, ekki annað en hlegið að þessum skrípalátum.

Friday, June 17, 2005

Úr fréttum RÚV:
"Neyðarástand í búsetumálum geðsjúkra"
Neyðarástand ríkir í búsetumálum geðsjúkra. Meira en 200 manns þarfnast búsetu með stuðningi en a.m.k. 70 þeirra eru vistaðir á sjúkrastofnunum.
Þetta segir hópur aðstandenda geðsjúkra hjá Geðhjálp. Félagsmálaráðherra segir að um forgangsverkefni sé að ræða.

Forgangsverkefni schmorgangsverkefni. Sem geðheilbrigðisstarfsmaður get ég sagt að þessi mál þurfa að vera mun ofar í forgangsröðinni. Ef þetta eru forgangsmál, þá þætti mér athyglisvert að vita hvernig málum er háttað þegar þau eru ekki forgangsmál.
"Háskólarnir skilgreina akademískt frelsi" - það finnst mér jákvætt.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ég býst við að það tengist nýlegum skrifum mínum um Kárahnjúkavirkjun, mótmælatjaldbúðir, en ég hef fengið einhverjar heimsóknir frá vefþjóni ALCOA í Bandaríkjunum í gær og fyrradag. Ekki að það skipti neinu máli.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Litli bróðir skrifar um Halldór Ásgrímsson og meinta spillingu.

Thursday, June 16, 2005

Katastrófa: Játa mig sigraðan


Fyrir allmörgum árum sá ég í kennslubók í skólanum að maður nokkur hefði sagst hafa „fyrirmæli frá æsinum Óðni“ - og ég rak upp stór augu: Æsinum? Þetta samrýmdist sko ekki minni málfarskennd, og gerði ég athugasemd. Kennarinn sagði að „æsi“ væri rétt þágufall af „ás“ og það sögðu sumir af bekkjarfélögum mínum. Ég var aldeilis ekki sammála því: „ási“ væri það og engar refjar. Þegar tímanum lauk sat ég fastur við minn keip með kökk í hálsinum.
En nú tók ég mig til - bara í gærkvöldi - og skrifaði Íslenskri málstöð fyrirspurn um þetta. Ætlaði að fá úr þessu skorið í eitt skipti fyrir öll.
Svarið barst um hæl:
Sæll Vésteinn.
Rétt beyging er ás, ás, æsi, áss; æsir, æsi, ásum, ása.
Það leynir sér ekki. Ég þræti ekki við Íslenska málstöð. Niðurstaðan er semsagt sú að ég hafði á röngu að standa og hafði haft á röngu að standa í öll þessi ár. Ég held að þessi þræta hafi verið þegar ég var í 10. bekk - þ.e.a.s. fyrir áratug síðan.
Ég hef haft rangt fyrir mér um þetta í áratug! Að eitthvað sé „frá æsinum Óðni“ finnst mér ennþá hljóma illa - en sem ég segi, maður þrætir ekki við Íslenska málstöð.
Í tilefni af þessu hef ég bætt verðskulduðum hlekk á Íslenska málstöð á linkalistann hér til hægri.

Wednesday, June 15, 2005

Um skyrslettur, mótmæli og fleira


Skyrsletturnar á álráðstefnunni eru umhugsunarefni. Skipuleggjendurnir gátu sagt sér það sjálfir að það yrðu mótmæli, og það var örugglega ástæðan fyrir því að þessi ráðstefna var ekki gerð kunn almenningi. Það mátti vita fyrir að það yrðu mótmæli, og allir vita að almennileg, friðsöm mótmæli er ekki hægt að draga saman á nokkrum klukkutímum. Einhverjar Gandhi-aðferðir komu því ekki til greina þarna, þökk sé skipuleggjendunum sjálfum. Í staðinn gripu nokkrir einstaklingar til örþrifaráða, hvað sem fólki annars finnst um þau. Þar sem skrúfað var fyrir hefðbundna farvegi fyrir mótmælin, þá fundu þau sér óhefðbundinn farveg í staðinn.

Mig hálfgrunar satt að segja að svona aðgerð veki ekki jafn almenna andúð og margir virðast halda. Mig grunar að margir hugsi innra með sér að þetta hafi nú verið vel af sér vikið, þótt þeir létu ekki hafa það eftir sér. Fólkið sem talar digurbarkalega á kaffistofunni og í heita pottinum, getur það fordæmt fólkið sem framkvæmir það sem hin hugsuðu? Okkur hefur verið kennt að svona geri maður ekki og við hikum við að brjóta gegn því eða lýsa okkur á móti því sem við teljum vera meginstrauminn. En mig grunar að leyndur stuðningur við þessa aðgerð sé umtalsverður. Það var ekki verið að meiða neinn. Það er ekki öllum sárt um það þótt milljónamæringur þurfi að senda Armani-jakkafötin sín í hreinsun.

Það er auðvitað ekki þar með sagt að þetta hafi veið góð hugmynd og það mun koma í ljós hver eftirmálin verða af þessu. Þetta ber óneitanlega þann árangur að ráðstefnugestirnir urðu skelkaðir og eru þá ekki eins öruggir með sig við að rústa landinu okkar og seilast til valda í efnahagskerfinu okkar. Það er óneitanlega gott ef þessir þrjótar átta sig á að þeir eru ekki velkomnir hérna. Ég veit hins vegar ekki hvað skal segja um fórnarkostnaðinn. Þótt skyrslettur séu tiltölulega meinlausar, eru þær samt býsna aggressíf aðgerð, hljóta iðulega að vekja neikvæða athygli og eru því vægast sagt vandmeðfarin aðferð! Alla vega komst enginn málstaður til skila í fréttatímanum. En það var kannski ekki ætlunin.

Ef mótmæli eiga að vera í anda Gandhis, þá verða skipuleggjendur að láta vita með nægum fyrirvara að eitthvað standi til. Þegar þeir vita að fólk vill mótmæla, þá verða þeir að gefa því tíma til að skipuleggja friðsamleg mótmæli ef mótmælin á annað borð eiga að vera friðsamleg. Skyrslettur eru samt aðferð sem er í besta lagi tvíbent. Trúverðugleikinn hlýtur að bíða hnekki. Stimplar ungæðisháttarins og óstýrilætisins eru skammt undan. Jákvæðari nálgun á málin er víst vænlegri til árangurs - en til að mótmæli geti farið friðsamlega fram verður svona viðburður að vera auglýstur í tæka tíð. Það var þessi ekki.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Það er grein eftir mig á Vantrú í dag, miðvikudag. Eins og illa gerður hlutur heitir sú og er um aðkomu Þjóðkirkjunnar að stjórnarskrárráðstefnunni.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Dick Cheney átti tilvitnun dagsins í fréttatímanum: Ég held að Guantanamo-fangelsið hafi ekki gert orðstír Bandaríkjanna verri. Flestir sem eru að mótmæla meðferð fanga þar voru á móti stefnu Bandaríkjanna fyrir. [leturbreyting VV] ... já, ég er ekki frá því að þarna hafi auðvald og ofbeldisfullt ríkisvald talað upp úr svefni. Hvers vegna ættu stjórnmálamenn að hlusta á þá sem gagnrýna þá? Hvers vegna ætti Halldór Ásgrímsson að gefa því gaum sem ég hef að segja, til dæmis? Það er ekki eins og ég eigi eftir að kjósa hann fyrir því.

Sunday, June 12, 2005

Ég fór á ráðstefnu stjórnarskrárnefndar í gær. Var skráður sem óháður (eða, réttara sagt, sagnfræðinemi). Dagskrá ráðstefnunnar má lesa hér. Ráðstefnan stóð frá morgni og fram undir kvöld. Ekki er hægt að segja að mikill hiti hafi verið í mönnum, og saknaði ég tveggja erinda úr umræðunni, sem hvorugt barst nefndinni nógu snemma til að komast á dagskrá ráðstefnunnar, en það voru erindi Lýðræðishópsins og erindi Vantrúar (sjá Vantrú á morgun, mánudag). Margir málaflokkar voru ræddir og var umræðum skipt upp í þrjár málstofur, svo sem sést í dagskránni. Um flest það sem rætt var hef ég ekki annað að segja en að margt áhugavert og fróðlegt kom fram, en ráðstefnan var sem slík frekar lognmolluleg og hefði mátt hugsa sér fjörugri umræður. Ég held ég geti tekið undir erindi a.m.k. ÖBÍ, Félags heyrnarlausra, Þjóðarhreyfingarinnar, Siðmenntar, SARK, Landverndar, SHA og sumra annarra að einhverju leyti ... en eitt sló mig.
Bæði félögin SARK og Siðmennt lögðu fram tillögur um að trúfrelsi yrði betur tryggt og ríki og kirkja aðskilin, og viti menn: Þjóðkirkjan sendi fulltrúa á staðinn. Hún hafði (og hefur) ekki sent nefndinni erindi, og svo skömmu sem 36 tímum áður en ráðstefnan hófst vissi enginn af þátttöku hennar - en þarna dúkkaði Sigurjón Árni Eyjólfsson upp fyrir Þjóðkirkjunnar hönd og virtist eiga að vera einhvers konar mótvægi við SARK, Siðmennt og fleiri sem mæltu með aðskilnaði. (Þess má geta að þótt Samtök herstöðvaandstæðinga ættu fulltrúa, þá voru Samtök um vestræna samvinnu víðs fjarri, svona til samanburðar!)
Sigurjón flutti erindi sem nefndist „Kirkja og samfélag“ og var því dreift til ráðstefnugesta eins og öðrum erindum. Eftir stutta leit á Google varð ég þess vísari að þetta erindi hefur áður birst, þá undir nafninu „Trú og afhelgun“, á Guðfræðivefnum! Þar getur hver sem er séð erindið, og ég þarf því ekki að segja þeim sem þetta lesa að það var bæði óviðeigandi, innihaldsrýrt, fullt af tuggum, klisjum og rökleysum og, í stuttu máli sagt, óskiljanlegt hvað það var að gera þarna. En endilega, látið mig ekki segja ykkur að það hafi verið þannig: Lesið það sjálf.
Það er kominn tími til að forréttindastöðu og silkihanskameðferð þessarar forneskjustofnunar linni.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Í dag eru 92 ár liðin frá einu glæsilegasta tiltæki Íslendinga í borgaralegri óhlýðni, fánatökunni. Það er því viðeigandi í dag að hugsa til borgaralegrar óhlýðni og hvaða erindi hún á í dag.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Í Bólivíu hefur forsetinn Mesa sagt af sér og nýr forseti er tekinn við. Umsátri mótmælenda um höfuðborgina La Paz er lokið og nú er að sjá hvort stjórnarbæturnar verða gerðar, sem hefur verið lofað.

Thursday, June 9, 2005

RÚV flytur gleðifrétt dagsins:
Bush forseti hefur gefið leyniþjónustunni fyrirmæli um að fjölga starfsmönnum um 50% á ári næstu fimm ár.
Það er nú gott til þess að hugsa að einhver sé að hugsa um öryggi okkar. *ræskj*
~~~ ~~~ ~~~ ~~~

Í Nepal drápu maóistar 38 og særðu 71 í sprengjutilræði á rútu, en biðjast afsökunar og segja þetta hafa verið mistök og að þeim ábyrgu hafi verið refsað ... úff, þetta eru vægast sagt dýrkeypt mistök.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~

Í Bólivíu taka mótmælendur olíulindir á sitt vald, Mesa forseti hefur sagt af sér og nú er að sjá hvort verður boðað til kosninga. Það er eitt sem Bólivíumenn vantar til að geta gert vel heppnaða byltingu, og það er byltingarflokkur. Einhver vísir að slíku er til, en virðist ekki vera nóg til að geta leitt hana til farsælla lykta.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~

Á Deiglunni skrifar Pawel: „Rökin gegn hvalveiðum eru veik, en það eru rökin með þeim einnig.“ Satt er það.

Wednesday, June 8, 2005

Húgó Chavez gagnrýnir Bandaríkjamenn harðlega: „If there is any government that should be monitored by the OAS, then it should be the US government, a government which backs terrorists, invades nations, tramples over its own people, seeks to install a global dictatorship. That should be the government that is monitored“ ... hann hittir naglann á höfuðið, og ekki í fyrsta sinn. Á sama tíma býr hann land sitt undir það versta með því að byggja upp borgaralegar varnarsveitir, ef til innrásar kæmi. Ef mér skjátlast ekki, er það sambærilegt við landvarnir Kúbu.
~~~ ~~~ ~~~

Spurt er hvort Swaziland verði fyrsta landið til þess að deyja úr alnæmi.
~~~ ~~~ ~~~

Nýlega birtist á Gagnauga grein Jóns Karls Stefánssonar, „Skólar og innræting“ ... góð lesning og gagnleg.
~~~ ~~~ ~~~

David Kay Johnston gerir grein fyrir því, hvernig bilið milli ríkra og fátækra í Bandaríkjunum fer breikkandi, og það hratt.
~~~ ~~~ ~~~

Siggi pönk skrifar, eins og fyrri daginn, ýmislegt af viti. Orð Sigga eru skáletruð:
stjórnmál hafa verið gerð að félagslegum afkima sem einungis útvaldir eiga að hafa afskipti af.
Stjórnmál eru firrt: Þau eru í höndum atvinnumanna og sérfræðinga - gjarnan sjálfskipaðra - sem gengur eitthvað annað til en almannahagur. Samfélagið stjórnar sér ekki sjálft, heldur er því stjórnað af áhrifamesta valdahópnum hverju sinni, af sterkustu blokk sérhagsmunafólks - þar á móti þarf að myndast öflug, þétt og samhent „blokk“ um almannahag. Með öðrum orðum: Almenningur þarfnast meðvitundar og skipulags, og hann þarfnast þess að taka málin í eigin hendur, hvort sem litið er til einstaklinga eða hópa.
Baráttan fyrir félagslegum og efnahagslegum jöfnuði verður ekki unnin á einum orrustuvelli heldur taka sig saman friðarsinnar og feministar, anarkistar og sósíalistar, anti-fasistar og umhverfisverndarsinnar, baráttufólk fyrir ýmsa minnihlutahópa ... auk dýraverndunarsinna og neytendasamtaka svo ég nefni einhverja þeirra hópa sem taka þátt í samfélaginu utan við valda- og fjármagnsmarkaðinn.
Þetta er hárrétt. Nú er nóg komið af klofningi, hann hefur skemmt nógu mikið, en við getum um leið lært mikið af honum. Ólíkir hópar sem vinna hver að sínum kima almannahags, og sameinast um mál eða málaflokka eftir hentugleikum eða þörfum, breið hreyfing sem á erindi til fólks, en hefur sem slík enga miðju, enga miðstjórn, aðra en hópeflið og pólitískt atgervi.
Valdablokkin hleypir þér ekki inn nema að þú aðlagir þig hennar reglum og þá ert þú þegar búin(n) að tapa. Ungur karlmaður sem leiðist að vinir sínir tali niðurlægjandi um konur bætir ekki ástandið með því að temja sér að hugsa eins og þeir.
Hittir beint í mark: Ef valdablokkin getur ekki sigrað keppinaut, þá vill hún semja. Hún innlimar keppinautinn frekar og deilir með honum völdum, heldur en að missa þau alveg. Við sigrum ekki óvininn með því að ganga í lið með honum, ekki frekar en með því að biðja hann kurteislega um að hætta að níðast á saklausum.

Sunday, June 5, 2005

Það er grein eftir mig á Vantrú í dag, um bænir sem geta virkað í alvörunni.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ég vil líka ítreka ábendinguna um að fólk skoði Lýðræðisfrumvarpið. Á umræðuvefnum þar kom um daginn áhugaverður pistill frá Helga Hrafni Gunnarssyni. Frumvarpið hefur verið sent stjórnarskrárnefnd og má núna nálgast það á heimasíðu hennar líka, eða réttara sagt, þá hluta þess sem einkum ættu erindi í stjórnarskrána. Ég hvet fólk: Lesið þetta endilega, takið afstöðu og gerið grein fyrir henni - og bendið öðrum á.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Hér er "flash presentation": None Of Us Are Free - If One Of Us Is Chained.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Hérna má svo lesa samræðu úr þætti Amy Goodman, þar sem William Schultz í Amnesty og David Rivkin elta ólar um hvort Bandaríkjastjórn sé viðriðin kerfisbundin mannréttindabrot eða ekki. Mér finnst Schultz nú koma betur út úr þessu ... en er reyndar fyrirfram meira og minna sammála honum.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Í Nepal hafa maóistar blásið af þjóðvegastöðvun sem þeir hafa reynt að halda uppi undanfarnar tvær vikur. Segja hins vegar að allsherjarvinnustöðvun verði næsta skref, ef ekki verður komið til móts við þá. Ég held að stjórnarherinn hafi unnið þónokkuð á að undanförnu, og maóistarnir eru sjálfir klofnir vegna ágreinings Bhattarais og Prachanda. Þannig að kannski er þetta veikleikamerki. Eða, það gæti a.m.k. vel verið það. Prachanda og Bhattarai ættu að sættast í snatri, þótt ekki væri nema af taktískum ástæðum, og þétta raðirnar ef þeir vilja ekki að byltingin fari út um þúfur. Þeir mega ekki við þessu núna. Annars held ég að meðferðin á Bhattarai sé óverðskulduð - það verður varla betur séð en að einræðistilhneiginga gæti hjá Prachanda, og innra lýðræðis er tvímælalaust þörf í flokknum.

Saturday, June 4, 2005

Norður-Kóreustjórn krefst afsökunarbeiðni frá Cheney - um leið og opinbert málgagn hennar skefur ekkert utan af því:
Cheney is hated as the most cruel monster and blood-thirsty beast as he has drenched various parts of the world in blood.
Það sem mér líkar við þetta málgagn annars meira og minna andstyggilegrar ríkisstjórnar N-Kóreu, er hvað þeir leyfa sér að vera hispurslausir þegar þannig liggur á þeim. Þeir segja að Cheney sé skepna og skrímsli og blóðþyrstur, hataður og grimmur - og það er einfaldlega rétt hjá þeim!

Friday, June 3, 2005

Baburam Bhattarai, sem ég hef oft minnst á og var til skamms tíma næstráðandi í nepalska maóistaflokknum en var sviptur öllum ábyrgðarstöðum eftir ósætti milli hans og Prachanda formanns, er ekki jafn týndur og sumir héldu (þar á meðal ég): Það hefur frést af honum í Indlandi! Þar hefur hann m.a. fundað með Prakash Karat, aðalritara Communist Party of India (Marxist). Þetta hefur farið leynt, en er merkisfrétt! Hindustan Times segja innanbúðarmenn hjá CPI(M) hafi staðfest að fundurinn hafi átt sér stað - þótt Karat sjálfur vilji hvorki játa því né neita.

Thursday, June 2, 2005

Um daginn bloggaði ég þessu flotta ljóði, sem var ort af samviskufanga sem neitaði að þjóna í hernum í fyrri heimsstyrjöldinni og orti í fangelsi:
Mourn not the dead, that in the cool earth lie,
dust unto dust;
The calm, sweet earth, that mothers all who die,
as all men must;
But rather mourn the apathetic throng,
the cowed and the meek,
who see the world's great anguish and its wrong,
and dare not speak!

(Ralph Chaplin)

...og var að þýða það yfir á íslensku:
Grát ekki þá dauðu, sem gista svarta mold,
gengnir í frænda sal.
Milda, blíða jörð, móðir fóstrar hold
af mörgum hal.
Grát þú fólkið, gæfusnauða hjörð,
guggnað og sljótt
sem veraldar ólög veit að eru hörð,
en vantar þrótt.

(þýð. V.V. 2.6.05)

Vésteinn Valgarðsson: Fyrstur með fréttirnar?


RÚV.is birti fréttina af byltingarástandinu í Bólivíu klukkan 12:49 í dag. Þegar þetta er skrifað hefur Mbl.is enn ekki birt frétt af þessu og Vísir ekki heldur. Ég hlýt því að álykta að þetta blogg mitt frá því í nótt sé fyrsta íslenska fréttin af því, a.m.k. á netinu. Merkilegt. Ég vil að vísu geta þess, í heiðarleika skyni, að ég fékk senda ábendingu um þetta í rafpósti.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Súpergrein eftir Óla Gneista í Morgunblaðinu í dag, s. 40. Einnig er hægt að sjá hana á Vantrú.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Norður-Kóreustjórn kallar Dick Cheney "blóðþyrst villidýr" ... ég get tekið heils hugar undir það með þeim!

Bólivía á barmi byltingar!


Þúsundir innfæddra Bólivíumanna (semsagt indíána) fylla götur La Paz, rífa bindin af skrifstofufólki og henda dínamíti í lögregluna! Mótmælendurnir mótmæla fullum hálsi löggjöf um gas-lindir landsins, krefjast þess að þær verði þjóðareign. Þingið er í lamasessi, framkvæmdavaldið líka, stjórnmálagreinirinn Winston Moore, staddur þar, segir að það sé alvarlegt valdatóm og upplausnin fari vaxandi. Talið er að rósturnar geti breiðst út til annarra borga. Verkfall lamar höfuðborgina og forsetinn Carlos Mesa kennir "róttækum hópum" um ástandið og hótar að beita hernum! Hér er lexía: Það er sama hversu róttækur einhver hópur er, hann lamar ekki höfuðborg með óeirðum nema það séu hyldjúp félagsleg vandamál fyrir. Með öðrum orðum: Enginn róttækur hópur getur "búið til" óeirðir sem megna að lama stórborg.
Fleiri fréttir frá róstum í Bólivíu

Wednesday, June 1, 2005

Freedom House segja að 9 ára fangelsisdómur Mikhails Khodorkovsky sé vísbending um að réttaröryggi í Rússlandi sé trosnað. Sko ... hann er stjórnarandstæðingur -- en frelsi til að vera ósammála forsetanum gefur mönnum ekki leyfi til að svíkja morð fjár undan skatti! Fyrir utan að hann er þjófsnautur, að þiggja Yukos á silfurfati frá Yeltsín á sínum tíma.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Best að skella þessari tilkynningu hingað:
5. og 6. júní verður boðið upp á námskeið um borgaralegt hugrekki og friðsamar beinar aðgerðir ...
Í kjölfarið, eða helgina 11.-12. júní, verður ýtarlegra námskeið. Æskilegt er að þátttakendur á því námskeiði hafi sótt námskeið Milan Rai eða undirbúningsnámskeið 5. eða 6. júní. ...
Takið daginn frá! Frekari upplýsingar og skráning á motmaeli@yahoo.co.uk
Sjá nánar einhvers staðar annars staðar, svosem hér og hér... Snillingurinn ég fékk þessa tilkynningu senda á póstlistann Fólkið.net ... skráði mig um hæl, og sendi skráninguna á póstlistann líka. Það ætti að sæma mig heiðursmerki. Eða prófessorsnafnbót.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Hér er stríðsljóð, að því er mig minnir úr fyrri heimsstyrjöldinni, sem mér þykir með afbrigðum vel ort. Höfundurinn sat í fangelsi fyrir að neita að gegna herþjónustu, ef ég man rétt:
Mourn not the dead, that in the cool earth lie,
dust unto dust;
The calm, sweet earth, that mothers all who die,
as all men must;
But rather mourn the apathetic throng,
the cowed and the meek,
who see the world's great anguish and its wrong,
and dare not speak!

(Ralph Chaplin)