Monday, December 13, 2004

Abbas verður næsti forseti Palestínsku heimastjórnarinnar. Ég sé ekki hvernig hann getur haldið skútunni á floti lengi. Ég sé fyrir mér að hann muni ekki ná að fylkja mönnum í kring um sig, að hann muni gangast um of upp í því að fullnægja kröfum Ísraela, með því að reyna að brjóta á bak aftur herskárri hreyfingar Palestínumanna. Síðan, þegar honum hafi orðið nokkuð ágengt með það, rísi Hamas upp gegn Palestínsku heimastjórninni, Ísrael ráðist af offorsi á hvora tveggju, og reki nokkur hundruð þúsund Palestínumenn til viðbótar frá heimahögum sínum og innlimi í Ísrael.



~*~*~*~*~*~*~*~*~*~*~*~*~



Mér finnst alveg yfirmáta asnalegt að það skuli vera tollur á innfluttum bókum. Ef ég fengi einhverju ráðið yrði það svo sannarlega á minni stefnuskrá, að afnema skatta á bækur.



~*~*~*~*~*~*~*~*~*~*~*~*~



Í Mogga í dag segir Styrmir Gunnarsson frá Hosni Mubarak, forseta Egyptalands. Hann ætlar að arfleiða son sinn að forsetaembættinu. 300 manns mótmæltu á götum Kaíró.

Mubarak er ekki lýðræðislega kjörinn, hann hefur verið þjóðhöfðingi óralengi og hann stjórnar með harðri hendi. Ég sé ekki hvers vegna er ekki hægt að kalla hann harðstjóra eða einræðisherra. Eða, ef út í það er farið, þá sé ég ekki hvers vegna flestir þjóðhöfðingjar arabalandanna eru ekki kallaðir það. Eða, ef út í það er farið, flestir þjóðhöfðingjar í heimi. Hvers vegna er Pervez Musharraf í Pakistan kallaður forseti? Hann er hershöfðingi og komst til valda í valdaráni. Kannski er ég að leggja vitlausa mælistiku á þetta. Kannski að það séu ekki stjórnarhættir, heldur þjónkun manna við vestræna heimsvaldastefnu, sem ræður því hvort menn flokkast undir einræðisherra eða forseta. Skv. því má vel kalla Mubarak forseta.



~*~*~*~*~*~*~*~*~*~*~*~*~



....og mun Vermont lýsa yfir sjálfstæði frá Bandaríkjunum? Kannski. Vonandi. Ef Vermont-menn lýsa yfir sjálfstæði legg ég til að þeim veðri boðin innganga í Evrópusambandið. Frjálsu Quebec líka.

No comments:

Post a Comment