Wednesday, December 15, 2004

Gijs de Vries heitir maður. Hann ku stjórna aðgerðum Evrópusambandsins gegn hryðjuverkum. Áhorfendum sjónvarpsfrétta RÚV 14. desember (nánar tiltekið, áhorfendum þessarar fréttar) er de Vries etv. kunnur. Þar sagði hann að ógnin sem Vesturlöndum stafaði af hryðjuverkamönnum, væri einkum sprottin úr heimi íslams.



Það er ekki satt.



Sannleikur er allur sannleikurinn og ekkert nema sannleikurinn. Þetta er ekki allur sannleikurinn. Nú veit ég ekki hvort val Boga Ágústssonar og Ólafs Sigurðssonar, á því sem sjónvarpað var úr þessu viðtali, hefur valdið því að orð de Vries hafi verið tekin úr samhengi, né, ef svo er, hversu mikið. Orð hans eru samt í góðum samhljómi við það sem búast má við frá Evrópusambandinu, svo ég sé ekki sérstaka ástæðu til að gruna Boga og Ólaf um græsku.



De Vries segir ekki allan sannleikann. Það væri nefnilega vinnuveitendum hans í óhag, að hann gerði það. De Vries er háttsettur maður hjá Evrópusambandinu og Evrópusambandið er verkfæri og valdatæki valdastéttar evrópsku valdastéttarinnar, einkum þeirrar vestur-evrópsku. Sú valdastétt er kapítalísk og Evrópusambandið er kapítalískt. Hvers vegna væri þá allur sannleikurinn því í óhag?



Í staðinn fyrir að spyrja hvar hryðjuverk muni næst henda, eða hver muni næst leiðast til pólítískra ofbeldisverka, þá ættu menn að leita róta vandans. Spyrja af hverju pólítísk eða trúarleg ofbeldisverk stafa til að byrja með. Svarið við því er að það er róttæknisveifla í löndum kapítalismans. Sú róttæknisveifla á beinar rætur að rekja til efnahagslegra aðstæðna, og þeirrar staðreyndar, að þökk sé (vestrænum) kapítalisma er offramboð á örvæntingarfullu fólki. Þeir sem tapa í samkeppninni verða skiljanlega spældir.



Hverjir tapa í samkeppninni? Þeir sem standa veikar að vígi. Sá sem er fátækur og illa menntaður stendur verr að vígi. Sá sem talar illa mál landsins þar sem hann býr og er ef til vill einnig fórnarlamb fordóma innfæddra er ennþá líklegri en aðrir til að standa illa að vígi -- og verða undir í samfélaginu. Fordómar samborgaranna, eða þjóðernishyggja heimamanna, veldur því ennfremur að innfæddir finna oft ekki til samheyrileikakenndar með þeim. Hvað erum við þá komin með? Undirstétt sem er að miklu leyti saman sett af innflytjendum, frekar fátækum, frekar illa menntuðum, í sínum eigin menningarkima, með eigin siði og trú og jafnvel skuggalegir á litinn líka.



Það sem ég er að reyna að segja er að ógnin sem VEsturlöndum stafar af pólítísku ofbeldi á ekki rætur að rekja til heims íslams heldur til heims öreiganna, heims örbirgðar og örvæntingar. Þessi heimur er sköpunarverk og skilgetið afkvæmi kapítalismans og þess vegna getur Evrópusambandið ekki horfst í augu við rót vandans. Rót vandans er sama rótin og völd evrópsku valdastéttarinnar spretta af. Evrópska valdastéttin hefur, sem stendur, betur í samkeppninni, meðan undirstétt Evrópu hefur verr. Það vill svo til að innflytjendur og undirstétt eru að verulegu leyti sama fólkið. Heppilegt, hvað það er auðvelt að gera þá að framandlegum óvinum og mála þá sem hættulega af því þeir eru öðruvísi!



Ég neita því ekki að íslam, í sjálfu sér, á hlut að máli. Slæmar afleiðingar íslams eru að miklu leyti sambærilegar við slæmar afleiðingar kristninnar. Þannig að það er ekki sanngjarnt að segja að við íslam sé að sakast per se, heldur eru það nánar til tekið skipulögð trúarbrögð sem eiga hlut að máli. Og sem slík gildir það auðvitað um íslam líka, sem svo vill til að eru trúarbrögð stórs hluta undirstéttar Evrópu í dag.



Eitt af stóru vandamálunum við trúarbrögðin er að þau hafa einstakt lag (jæja, ásama þjóðernishyggjunni) á að veita byltingarsinnuðum straumum og róttækum hgusunarhætti í farveg kreddufestu, afturhalds, patentlausna og ... tja, forheimskunar. Í því samhengi minni ég á að ég styð andspyrnuna í Íraq, byltinguna í Íran og andspyrnuna í Afghanistan að svo miklu leyti sem hún snýr að brottrekstri heimsvaldasinnaðs herliðs. En um leið og stefnan er tekin á klerkaveldi eða ámóta afturhalds torfgrafir mannlegrar hgusunar, þá er framsæknin keyrð út af sporinu og stuðningur minn heyrir sögunni til. Köttur undir stýri setti byltinguna út í mýri, úti er ævintýri.



Afturhaldssöm hugmyndafræði á borð við íslamisma ógnar ekki grundvallarstoðum kapítalisma. Einstökum kapítalistum kannski, einstökum valdstjórnum kannski, en valdakerfinu sem slíku, nei. Þar sem til eru mun róttækari stefnur og framsæknari (t.d. ýmsar sósíalískar og kommúnískar) sem ógna einmitt þessum sömu stoðum, þá má segja að með íslamisma sé að rísa ógn sem er sú minna hættulega af tveim hættulegum. Það má meira að segja gæla við það, hvort valdastétt Vesturlanda reyni ekki meira að segja kerfisbundið að beina róttækni öreiga, af serknesku bergi brotinna, í farveg íslamismans. Styðja þannig þann valkost sem síður ógnar hagsmunum þeirra. Sá stuðningur gæti t.d. farið fram með inngripum leyniþjónusta (sbr. CIA og mujahedeen, Talibana, al-Qaeda etc.), eða bara með því að umbera íslamska eldklerka í vestrænum borgum.



Hvað er vandamálið? Vandamál er ekki pólítískt ofbeldi, þótt það sé í sjálfu sér vandamál og óæskilegt og hættulegt og allt það. Pólítískt ofbeldi er aðeins ein birtingarmynd af stóra vandamálinu. Vandamálinu sem má ekki tala um, og sem Gijs de Vries fer í kring um, eins og vinnuveitendur hans ætlast til af honum. Vandamálið er vestrænn kapítalismi, og lausnin er fólgin í afnámi hans og endurskipulagningu efnahagskerfisins með hagsmuni fólks í huga, þarfir þess, hamingju þess og velsæld. Og hananú!









Síðan þarf ekki snilling eða spámann til að sjá fyrir skref sem verður tekið á allra næstu árum, og reyndar er byrjað: Arabahatur. Eftir því sem aröbum sem slíkum eða múslimum sem slíkum er meira kennt um pólítískt ofbeldi, þá mun andúð Evrópumanna á þeim fara vaxandi. Hvar endar það? Ég veit það ekki. En á leiðinni þangað munu vestrænar ríkisstjórnir reyna að nota þetta hatur til að fylkja Vesturlandabúum að baki sér í auðlindastríði um olíulindir arabalandanna. Annað: Pólítísk róttækni á Vesturlöndum snertir auðvitað fleiri en innflytjendur. Hvað með innfædda? Hvort vill valdastéttin sjá róttækar marxistahreyfingar verða til eða óaldarflokka snoðkolla og fasista?

No comments:

Post a Comment