Wednesday, February 15, 2017

Væri hægt að setja lög á útgerðarmenn?

Maður sér stundum talað um hvort eigi að setja lög á verkfall sjómanna. Svei þeim ólánsmanni sem gerir það. Það væri nær að setja lög á útgerðarmenn, bæði til að banna verkbann þeirra á vélstjóra og einnig til að skikka þá til að ganga að kröfum sjómannanna.

Staðreynd: Það er ekki hægt að stunda stórfelldar fiskveiðar án sjómanna. En það er vel hægt að stunda þær án kapítalískra útgerða.

Wednesday, February 8, 2017

Í „lýðræðislegum" kosningum?

Óli Björn Kárason, Halldór Jónsson o.fl. hafa undanfarið mótmælt því að talað sé um Donald Trump sem fasista. Bæði vegna þess að fasismi eigi sér ekki stað í raunveruleikanum, og vegna þess að Trump hafi verið kosinn í lýðræðislegum kosningum, en það eru fasistar víst ekki skv. þessum herramönnum.
Það er svo margt vitlaust við þetta tal að það mætti skrifa heilu ritgerðirnar um það. Ég ætla samt ekki að gera það. Læt þetta nægja:
Forsetakosningar í Bandaríkjunum eru ekki lýðræðislegar. Það vita allir sem kæra sig um að vita það. Það eru margar brotalamir, nægir að nefna kjörmannakerfið sem skekkir vægi atkvæða verulega, skort á þjóðskrá sem þýðir að fólk þarf að skrá sig fyrirfram á kjörskrá, að fátæku fólki er gert erfitt um vik að kjósa m.a. með því að hafa kjörklefa of fáa þannig að fólk þarf að bíða tímunum saman í biðröð.
Þá eru ótalið beint kosningasvindl.
Menn sem láta eins og þeir viti þetta ekki eru annað hvort illa upplýstir eða skilja ekki hvað orðið „lýðræði" þýðir eða er sama vegna þess að þeir eru í einhverjum annarlegum erindum.

Tuesday, February 7, 2017

Díalektísk "messa" um uppeldismál -- síðdegis í dag (þriðjudag)

DíaMat heldur díalektíska "messu" þriðjudaginn 7. febrúar kl. 17:00 í Friðarhúsi, Njálsgötu 87 (horni Snorrabrautar).


Ólafur Grétar Gunnarsson fjölskylduráðgjafi hefur framsögu:
Ólafur Grétar
Gunnarsson

Fögnum breytingum og styðjum hvert annað
Verðandi foreldar leggja línurnar fyrir betra samfélagi með því sækjast eftir stuðningi og fræðslu, við hin með því að svara kallinu og styðja við bakið á foreldrum með  fjölbreyttum hætti. Hvernig getum við stutt við bakið á verðandi foreldrum?
Og hvernig getum við stutt við bakið á þeim þegar þau eru orðnir foreldrar? Hvað er samfélagið að gera núna? Hvernig mætti gera betur? Hvað var gert á árum áður? 

Umræður á eftir. Heitt á könnunni. Allir velkomnir. Aðgangur ókeypis.