Tuesday, August 3, 2021

"Vel að vígi"

Það er svei mér gleðilegt ef Ísland "stendur vel að vígi" ef heimurinn hrynur. Ég hlakka til að geta boðið hálfum milljarði manns hæli hér.

Tuesday, July 27, 2021

Taktísk afglöp

Allt þetta fólk sem hélt að það hljómaði svo gáfað þegar það sagðist að vísu styðja stefnu Alþýðufylkingarinnar, en ætla "að kjósa taktískt í þetta skipti" og kaus svo VG (eða Pírata) ... það hljómaði ekkert gáfað. Það lét bara lokka sig til að gefa tækifærisstefnunni brautargengi einu sinni enn. Verði ykkur að góðu.
Best var auðvitað fólkið sem viðurkenndi að VG væri að vísu tækifærissinnaður flokkur, en að það yrði bara að hafa það að kjósa þau, í því skyni að halda Sjálfstæðisflokknum frá völdum. Það trompaði allt. Verði ykkur að góðu. 

Tuesday, July 20, 2021

Aldur og kyn í pólitík

Tilraun Miðflokksins til að breyta ásýnd sinni er óvenju skýrt dæmi um staðreynd sem mörgum yfirsést:

Pólitíkin skiptir meira máli en aldur og typpafjöldi.

Furðulegt hvað margir skilja ekki þetta einfalda aðalatriði. Vond pólitík batnar ekki við það að ung kona tali fyrir henni og það eru ekki rök gegn góðri pólitík (og með vondri), að miðaldra karl sé talsmaður. Það missir einfaldlega marks. Og gagnrýni á þessu plani missir almennt marks.

Áður en fólk á þessu plani  fer að misskilja mig viljandi vil ég taka fram að auðvitað eiga fleiri erindi í pólitík en miðaldra karlar, og aldur og kyn (og fleira) skipta auðvitað máli, en þegar þau ryðja öllu öðru frá sér er fókusinn farinn af því sem skiptir máli. Kannski er það stundum tilgangurinn, hvað veit ég?

Tuesday, July 13, 2021

Geðheilsuvandamálið sem einnig er byggðastefna

Ég hef oft sagt að húsnæðismálin á höfuðborgarsvæðinu séu stærsta geðheilsuvandamál þjóðarinnar. Pólitískt ákveðinn lóðaskortur gerir skort á íbúðarhúsnæði, sem spennir verðið upp eins og hægt er. Skuggalegur fjöldi heimilislausra segir ekki nema hluta af sögunni; miklu fleiri eru á hrakhólum og ná rétt svo að halda þaki yfir höfuðið. Og enn fleiri eru með stöðugar áhyggjur og kvíða -- raunhæfan kvíða -- vegna húsnæðiskostnaðar. Þurfa um leið að vinna meira en þeir ella þyrftu. Haldið þið að börnin fari varhluta af þessu? Þau gera það ekki. Þau taka þetta allt inn á sig, stressið, kvíðann, skortinn, og þau munu taka það með sér inn í fullorðinsárin í formi vandamála. Þess vegna er húsnæðisstefnan, sem hefur verið undanfarin 23 ár eða svo, vaxandi vandamál en fyrir löngu stærsti geðheilbrigðisvandi þjóðarinnar, og á eftir að halda áfram að skapa vanda næstu 75+ árin, sama þótt hann yrði leystur í dag.

Einu sinni var ekki kjallari svo saggafullur eða dimmur, að ekki mætti troða þangað barnafjölskyldu. Svo losnuðu braggarnir og kjallararnir tæmdust. Braggarnir urðu lélegir með tímanum og á endanum var byggt Breiðholt og braggarnir hurfu. Núna er löngu komið að því að byggja nýtt Breiðholt og útrýma ósamþykktu bælunum í iðnaðarhúsunum, og skúrunum í bakgörðunum.

En svo er hin hliðin. Þegar húsnæðisverð er orðið of íþyngjandi á höfuðborgarsvæðinu, þá er auðvitað ein lausn að flytja bara burt. Strax og maður er kominn norður fyrir Hvalfjörð eða austur fyrir Hellisheiði er verðið mun lægra. Að ég nú ekki tali um þegar lengra dregur.

Það væri hreint ekkert skrítið ef fólk gæfist bara upp á borginni og flytti jafnvel lengra burt. Og ég þekki reyndar allnokkra sem hafa gert það eða ætla að gera það. Ef það er byggðastefna, að halda landinu öllu í byggð, þá gæti húsnæðisstefna Reykjavíkur kannski flokkast sem eins konar byggðastefna. Hún hefur þessi óbeinu áhrif, þótt ekki komi til af góðu. Og auðvitað setur hún því um leið skorður, að fólk flytji til höfuiðborgarsvæðisins.

Tuesday, July 6, 2021

Þegar ég gleymdi hvernig ég hjóla

Þegar ég var lítill og var að læra að hjóla, var sagt við mig, eins og alla, að þegar maður læri einu sinni að hjóla, þá gleymi maður því aldrei. Það er kjaftæði.

Ég fór allra minna ferða hjólandi, meira og minna, frá því ég lærði að hjóla og þangað til ég var fjórtán ára, fór til giktarlæknis vegna verkja og stirðleika í hnjám, og hann sagði mér að taka pásu frá því að hjóla í svona ár eða svo. Og frí úr leikfimi, allan tíunda bekk.

Ég hef ekki hjólað síðan, og er fertugur ... það gerir um það bil 26 ára pásu frá hjólinu.

"Ekki síðan" er reyndar ekki alveg nákvæmt, því ég hef reyndar sest á hjól síðan, í tvö eða þrjú skipti, eða á svona tíu ára fresti, og komist að því að ég held ekki lengur jafnvægi þegar ég hjóla og er þ.a.l. ekki öryggur á stýrinu, og reyndar ekki á pedölunum heldur. Og einu sinni ætlaði ég að bremsa, fattaði ekki að það væru handbremsur, reyndi að bremsa með fótbremsu sem engin var og var næstum lentur í slysi.

Þannig að það er bull að maður gleymi því aldrei, hvernig maður hjólar. Ég segi ekki að ég gæti ekki rifjað það upp frekar auðveldlega, en hef engu að síður gleymt því.

Hins vegar fór ég einu sinni ekki í sund í 20 ár, eða frá því ég var fjórtán þangað til ég var þrjátíuogfjögurra. Og eftir tuttugu ára pásu var ég ennþá alveg jafn vel syndur og ég var 1994. Í því hafði ég engu gleymt.

Við gleymum hjóli, en við gleymum ekki sundi.

Merkilegt.

Tuesday, June 29, 2021

Skrópaði í sundi í fjögur ár

Mér var alveg meinilla við að fara í skólasund þegar ég var barn. Hafði lítið gaman af sundi yfirhöfuð en alveg sérstaklega illa við skólasund. Fyrstu tvo veturna sem bekkjarfélagar mínir fóru í sund, skrópaði ég. Fór með í eins og eitt eða tvö skipti, en sat fullklæddur á bakkanum allan tímann. Aldrei var neitt sagt við þessu. Spéhræðsla var aðalástæðan.

Næstu fjóra vetur -- 9 til 12 ára -- fór ég svona oftast í skólasundið, lét mig hafa það þótt mér væri illa við það. Það var reyndar ömurlegt, eins og margt annað í Landakotsskóla.

Næstu tvo vetur eftir það: áttunda og níunda bekk, skrópaði ég alveg. Mætti ekki í eitt einasta skipti. Undir vor í níunda bekk hringdi leikfimikennarinn í mig. Hann bauð mér að koma í eitt skipti í Vesturbæjarlaug og ef ég sýndi að ég væri syndur, þá yrði þetta bara látið niður falla. Ég gerði þetta, mætti, sýndi að ég kynni að synda og fór eftir það ekki í neitt sund lengi, en það er önnur saga.

Mig hefur lengi grunað að leikfimikennarinn hafi áttað sig á að þar eð sundkennsla væri skylda, og enginn hafði sagt neitt í tvö ár þrátt fyrir 0% mætingu mína, þá mundu böndin berast að honum fyrir að ég hafi skrópað. Og hann hafi ekki getað losað sig úr þeirri klípu -- nema með því að losa mig úr henni. Ég hafi þannig notið þess að annar væri ábyrgur en hefði forsómað sína plikt.

Tuesday, June 22, 2021

Lágmarksstærð

Lög um lágmarksstærð sveitarfélaga eru með verri hugmyndum sem ég hef heyrt, fyrir hinar dreifðu byggðir. Það er jafnvitlaust og lög um lágmarksstærð þjóðríkja, sem mundu skikka Ísland til að sameinast Noregi.

Þið spyrjið kannski af hverju. Vegna þess að það er alltaf sama sagan, þegar fámennara sveitarfélag sameinast fjölmennara, verður það alltaf afgangsstærð. Skólarnir eru til dæmis sameinaðir og öll börnin flutt á milli í skólabíl, miklu lengri vegalengd en ella hefði verið. Og sama með fleiri stofnanir. Úti um allt land er að finna samfélög í fámennari kantinum sem hafa selt frumburðarréttinn frá sér fyrir baunadisk og iðast þess æ síðan. Það væri nær að hlusta á þeirra reynslu.

Ríkið hvetur smærri sveitarfélög til að sameinast. Það er bull. Ef sveitarfélög hafa hag af sameiningu og íbúarnir vilja hana, þá þarf ekki að hvetja til hennar. Það þarf ekki að lokka fólk til einhvers sem er fýsilegt í sjálfu sér.

Tal um samlegðaráhrif er bull. Ef þau eru einhver eru þau bara til hagsbóta fyrir stærra sveitarfélagið. Auk þess er oft nóg að hafa samstarf til að ná fram hugsanlegri hagræðingu, og sameiningin er þá ástæðulaus. Rétt eins og það er hægt að starfa með öðru fólki án þess að giftast því líka.,

Jæja, bull og bull. Það yrðu að vísu líklega mjög mikil og holl samlegðaráhrif ef sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu sameinuðust. Þar eru bæði skriffinnskubákn sem mætti skera niður, og samgöngu- og skipulagsmál sem eru mikil sóknarfæri í að samræma.

Tuesday, June 15, 2021

Illa þýddir matseðlar

Við vinirnir leituðum lengi -- asnalega lengi -- áður en við fundum veitingastað sem við gátum sezt inn á, í Beograd í Serbíu, um árið. Matseðillinn var plastaður og plastið stamt af húðfitu annarra gesta. Húsgögnin hvít úr plasti, eins og sjást oft í görðum. Enska þýðingin var ekki gert af mikilli kúnst, en ég valdi "greeled trout" af seðlinum -- glóðarsteiktan silung. 300 grömm, það kom fram. Mér var síðan borinn stór diskur, hlaðinn steiktum sardínum úr dós. Meðlæti var ein sneið af sítrónu og ein lítil visk af steinselju. Og stór Jelen Pivo.

En þegar ég var barn -- kannski tíu ára -- vorum við pabbi og systkini mín norður í Mývatnssveit og fórum þar út að borða. Á Hótel Reykjahlíð. Í enska dálkinum á hinum eftirminnilega matseðli gat m.a. að líta "grilled throat" og "tenderlion". Ég vildi að ég hefði stolið eintaki.

Tuesday, June 8, 2021

Í sátt við íhaldið

Þegar Sjálfstæðismenn tala um að það "þurfi" að hafa "sátt" um eitthvað, þýðir það að þeir þurfi að vera sáttir við það sjálfir. Og þeir segja það ekki nema þeir séu það ekki. Aldrei töluðu þeir um að það þyrfti sátt um sölu Símans, eða um Kárahnjúkavirkjun, og hvað þá fjárlagafrumvarpið. Það virkar ekki þannig.

Ætli sé almenn sátt við að hafa kvóttakerfið óbreytt? Er sátt um gömlu stjórnarskrána? Eða um aðildina að Evrópska efnahagssvæðinu? Eða NATÓ?

Það breytist aldrei neitt ef það verður að vera í sátt við íhaldið og auðvaldið. Og þeir vita það best sjálfir. Þannig að fjandinn hafi þeirra sátt, þeirra hagsmuni og þeirra villandi blaður.

Tuesday, June 1, 2021

Ugluskoðun í Laugardalnum

Hann sagði konunni að hann væri í fuglaskoðunarferð. Settist svo á bekk í Laugardalnum með vini sínum og með eina viskíflösku í nesti ... og beið eftir að sjá uglu.

Tuesday, May 25, 2021

"Ég vil kjósa fólk en ekki flokka"-bullið

Fólk sem er gagnrýnið á eða óánægt með íslensk stjórnmál, skýtur oft fram hjá markinu þegar það krefst persónukjörs eða að kjósa "fólk en ekki flokka" eða talar um "flokksræði" eins og það sé stór hluti af vanda íslenskra stjórnmála. Það er auðvitað auðræðið, leynt og ljóst, sem er aðalvandamálið, og spillir m.a. flokkakerfinu, eða mótar það. Krafan um persónukjör missir marks af a.m.k. þrem ástæðum:

a) Flokkur er ekkert annað en hópur af fólki sem stendur saman og hjálpast að í stjórnmálum. Það gerir það í krafti félagafrelsis. Að "banna flokka" þýðir að afnema félagafrelsi í landinu. Ætli fólk átti sig almennt á því? Það er auk þess nauðsynlegt að mynda einhvers konar hóp þegar er á annað borð listakosning. Og vel að merkja hefur venjulegt fólk miklu meiri þörf fyrir samtakamáttinn heldur en þeir ríku; þeir sjá alltaf um sig.

b) Það eru nú þegar til persónukosningar og það er hægt að sjá hvernig þær virka. Til dæmis einmenningskjördæmi, eins og eru algeng í Bretlandi. Ef 51% kjósenda kjósa íhaldið en 49% Verkamannaflokkinn, þá fær íhaldið þingsætið en Verkamannaflokkurinn ekkert. Og til dæmis í sveitarstjórnarkosningum þar sem er óhlutbundin kosning, en ekki lista-/hlutfallskosning. Þar þýðir það að einfaldur meirihluti kjósenda getur tekið sig saman um að kjósa sömu frambjóðendurna, sem þá endurspegla vilja þeirra kjósenda. Það þýðir að einfaldur meirihluti hreppir alla sveitarstjórnina og minnihlutinn fær enga fulltrúa. Vorið 2018 hrepptu t.d. virkjanasinnar öll sætin í sveitarstjórn Árneshrepps. Er þetta það sem þessir ógurlegu lýðræðissinnar þrá?

c) Í hreinu persónukjöri hefur frægt fólk og ríkt ennþá meira forskot en í listakosningu. Við sáum það t.d. í kosningum til stjórnlagaþings hér um árið, að flestir sem náðu kjöri voru nokkuð þekkt fólk úr þjóðfélagsumræðunni. Ég er ekki að segja að það hafi ekki verið hæft fólk, en annað fólk sem var kannski jafnhæft átti eðlilega á brattann að sækja, og það verður eiginlega að kallast lýðræðislegt vandamál.

Tuesday, May 18, 2021

Ég trúi ekki á fylgjur, en...

Annan janúar 2020 fékk ég gesti. Um þetta leyti dvaldi ég hjá mömmu, og gestirnir komu þangað. Mamma var ekki heima, og við, vinahjón mín og ég, sátum lengst í borðstofunni og drukkum te. Þegar klukkan var um hálfellefu heyrum við skýrt að útidyrunum er lokað. Halló, kallaði ég, og reiknaði með að þetta hefði verið mamma. Ekkert svar. Ég reiknaði þá með að hún hefði ekki heyrt í mér, enda kallaði ég svose ekki meira en stundarhátt. En mamma kom ekki inn í borðstofu -- og þá reiknaði ég með að hún hefði farið upp, einhverra erinda, kannski vildi hún bara ekki trufla okkur, en hún þekkti gestina ekki.

Nú, klukkan var orðin þetta margt, og vinahjón mín sögðust ætla að fara að tygja sig. Ég fylgdi þeim til dyra. Og þegar þau fóru, sá ég út í garð, að innkeyrslan var tóm. Og ég kallaði og fór upp, og þá var mamma alls ekki heima. Hún kom heim nokkrum mínútum eftir að gestirnir fóru, eða á að giska tuttugu mínútum eftir að ég heyrði fylgjuna hennar.

Mér fannst þetta mjög skrítið. Þetta er ekki eina, en langskýrasta skiptið sem ég hef heyrt í fylgju. Ég trúi ekki á yfirnáttúruleg fyrirbæri, en ég gat ekki skýrt þetta. Við heyrðum þetta þrjú og annar gestanna er ekki einu sinni Íslendingur. Það kom enginn annar. Og það fór enginn, því það var enginn annar heima. Hurðin getur ekki hafa lokast af sjálfu sér, því hún var læst og ég hafði sjálfur lokað henni og læst þegar gestirnir komu.

Þannig að "skrítið" er eiginlega það eina sem ég get sagt.

Tuesday, May 11, 2021

Elverhøj

Christian IV, mynd: Wikipedia
Elverhøj er leikrit eftir Heiberg og Kuhlau, trúlega frægasta leikrit Danmerkur og hefur verið sýnt meira en þúsund sinnum síðan það var frumsýnt árið 1828. Konunglegi danski þjóðsöngurinn, Kong Christian stod ved højen mast, er notaður í verkinu.

Ég komst fyrst á snoðir um Elverhøj fyrir ekki mörgum árum, þegar ég var með lagið Geng ég fram á gnípur á heilanum. Ég hafði aldrei kunnað nema fyrsta erindið en tók mig til og lærði allan textann. Hann er auðvitað eftir Matthías Jochumsson og úr leikritinu Skugga-Sveini, en lagið er vanalega kallað "erlent" þegar textinn er prentaður. Og ég komst í færi við mér fróðari mann, sem sagði mér að þetta væri eftir Kuhlau og úr Elverhøj.

Nú settist ég niður um daginn og hlustaði á Elverhøj frá upphafi til enda. Og það er að sönnu magnað verk, og væri mjög gaman að heyra það flutt á tónleikum. En viti menn, þar blasir við annað "íslenskt lag", sem við þekkjum sem Frjálst er í fjallasal, eftir Steingrím Thorsteinsson. Aldrei hafði ég heyrt áður að það lag væri erlent. Og týpískt að það sé danskur höfundur að einhverju sem við mundum nánast kalla ættjarðarsöng.

Tuesday, May 4, 2021

Þegar draugurinn hrinti mér

Ég fór einu sinni í einhverja móttöku á Kjarvalsstöðum þegar ég var barn, varla meira en sjö ára. Ég fór með mömmu, sem var borgarfulltrúi, en Reykjavíkurborg hélt móttökuna og Davíð Oddsson var borgarstjóri og hélt ræðu fyrir gestina. Í ræðunni hafði hann orð á því hvað margir væru saman komnir, enda hefði hann boðið öllum sem honum hefði dottið í hug, meira að segja draugnum í Höfða.

Mér fannst spennandi að hjálpa konunum sem gengu um beina og fékk að taka bakka með glösum og halda á honum. Þá finn ég eins og stjakað sé í öxlina á mér, aftan frá, dett við, missi bakkann og glösin og allt fer í gólfið og allt í mask. Ég leit snöggt við til að sjá hver hefði hrint mér, og þar var enginn.

Það kom þá bara eitt til greina. Davíð hafði sagt að draugnum hefði verið boðið. Úr því enginn sýnilegur hafði hrint mér, hlaut það að vera eini ósýnilegi gesturinn í boðinu, draugurinn í Höfða. Og hananú.

Tuesday, April 27, 2021

"List" hins mögulega? Bismarck rangþýddur

Það er stundum vitnað í hinn orðsnjalla Otto von Bismarck og haft eftir honum að stjórnmál séu "list hins mögulega", þegar fólk vill hljóma klárt. Þetta sagði Bismarck aldrei. Hann sagði Politik ist die Lehre des Möglichen. Lehre þýðir fræðigrein og þær eru (eða voru) kallaðar arts á ensku, náttúrlega sama orð og fyrir listir. Þannig að "Art of the possible" er í sjálfu sér rétt ensk þýðing, en "list" er það ekki á íslensku. Munið þetta, krakkar, þetta verður til prófs.

Bismarck var annars í nöp við lækna, er sagt, og leitaði helst ekki til þeirra. En einu sinni var hann svo veikur að það var samt kallaður til læknir, sem fór að skoða hann og spyrja hvernig honum liði. Karlinum leiddist þetta og sagði lækninum að hætta þessum spurningum og finna bara hvert meinið væri. Læknirinn svaraði þá: "Ef þér viljið lækni sem spyr ekki spurninga, ættuð þér að fá yður dýralækni." Bismarck þótti svarið svo snjallt að hann gerði þennan lækni að líflækni sínum.

Tuesday, April 20, 2021

Búktalari í útvarpinu

Allir muna eftir Baldri og Konna. Baldur Georgsson var búktalari og Konni brúðan hans. Það eru um þrjátíu ár síðan Baldur lést, en þið getið séð Konna á Þjóðminjasafninu. Ég hafði mikið gaman af að lesa Galdra- og brandarabók Baldurs og Konna þegar ég var lítill og hlæ enn dátt að bröndurunum sem hún kenndi mér. Eins og: "Hún var með svo framstæðar tennur að hún gat borðað epli í gegn um tennisspaða." Hahaha, gott á hana!

Sagt er að Baldur hafi einhvern tímann verið að skemmta í Hafnarfirði og reytt af sér hafnfirðingabrandara, og lét Konna alltaf segja lokaorðin, þar til einn maður stóð upp, öskureiður, og sagði að það væri hneisa að hæðast svona að venjulegu, heiðvirðu fólki. Baldur fór að afsaka sig, en maðurinn greip fram í: "Ég er ekki að tala við þig, ég er að tala við þetta litla fífl sem situr á hnénu á þér!"

Það eru til hljóðupptökur af Baldri og Konna, og af Konna að syngja dægurlög með Alfreð Clausen. Þetta kom út á plötum, og var eitthvað spilað í útvarpi líka. Búktal í útvarpi.

Tuesday, April 13, 2021

Húsasnotra Þorfinns karlsefnis

Og er hann var albúinn og skip hans lá til byrjar fyrir bryggjunum þá kom þar að honum Suðurmaður einn, ættaður af Brimum úr Saxlandi. Hann falar af Karlsefni húsasnotru hans.

"Eg vil eigi selja," sagði hann.

"Eg mun gefa þér við hálfa mörk gulls," segir Suðurmaður.

Karlsefni þótti vel við boðið og keyptu síðan. Fór Suðurmaður í burt með húsasnotruna en Karlsefni vissi eigi hvað tré var. En það var mösur kominn af Vínlandi. 

Grænlendinga saga, 8. kafli 

Ég er ekki sá eini sem hefur hnotið um þessar línur í Grænlendinga sögu. En smá orðskýringar, áður en lengra er haldið. Íslensk orðabók (2007) skýrir: húsasnotra: ... verðmætur smíðisgripur úr tré (skraut eða siglingatæki?); mörk: ... hálfpund ... 214 eða 217 grömm; mösur: ... 1 ... hlynur ... 2 ... hnúður, vaxinn sem meinsemd á tré [þ.e. viðarnýra].

Þjóðverjinn gefur Þorfinni karlsefni hálfa mörk gulls, það eru yfir hundrað grömm og mundi kosta yfir 5000 bandaríkjadali að núvirði. Fyrir smíðisgrip úr tré. Hvað í fjandanum var þetta?

Páll Bergþórsson hefur skrifað það fróðlegasta sem ég hef séð um húsasnotru Karlsefnis og ég hef svo sem engu við þann fróðleik að bæta. Nema því að ég skil vel að Karlsefni hafi þótt vel boðið, að fá fyrir smíðisgrip úr tré kannski þyngdar virði í gulli.

(Viðurnefnið Karlsefni er líka skrítið.)

Tuesday, April 6, 2021

Tilboð á moldvörpugildrum

Þegar Bauhaus opnaði á Íslandi, var stillt upp einhverju stöðluðu úrvali af vörum sem kom í gámum frá meginlandinu. Þar á meðal voru moldvörpugildrur. Þær þykja víst mesta þing í öðrum löndum. Verklagið sagði að þær ættu að vera á boðstólum. Skrítið var, að þær seldust ekki. Barasta ekki.

Það var haft samband við móðurstöðina á meginlandinu og spurt hvort mætti ekki bara taka þær úr sölu. Nei, var víst svarið, byrjið á að bjóða þær með helmings afslætti. En þær seldust samt ekki.

Tuesday, March 30, 2021

20 ára afmæli

Í dag, 30. mars, eru tuttugu ár síðan við Bessi frændi fórum saman á Klepp og sóttum um vinnu. Við vorum ráðnir á staðnum og höfum unnið þar síðan. Ég segi ekki að þetta sé eins og í gær, en það er samt skrítið að það séu komin tuttugu ár.

Rúm níu ár á hjúkrunargeðdeild, hálft ár á öryggisgeðdeild og rúm tíu ár á endurhæfingargeðdeild. Þetta hefur verið lærdómsríkur tími og ég er þakklátur fyrir margt. Sjúklingarnir sem ég hef annast eru samt það sem hefur gert þetta allt þess virði. Þvílíkur hópur af góðu, skemmtilegu og áhugaverðu fólki.

Tuesday, March 23, 2021

Þegar sjónvarpið datt af sjálfu sér

Við fluttum þegar ég var á fimmta ári, og höfðum auðvitað með okkur gamla sjónvarpið frá Suðurgötu. Því var komið fyrir á stigapallinum, á litlu, rauðu borði, og sófa rétt hjá. Nú, einn daginn -- ég var 5-6 ára -- sat ég og horfði á sjónvarpið þegar það datt allt í einu fram fyrir sig, beint á gólfið. Og lenti á uppáhalds He-Man-karlinum mínum. Skjárinn brotnaði auðvitað, og He-Man-karlinn líka. Það var enginn til vitnis um þetta nema ég, og ég sver að ég kom ekki við tækið. En hver haldið þið að trúi 5 ára krakka sem heldur því fram að fyrsta lögmál Newtons hafi verið brotið? Ekki mundi ég gera það... En skrítið var það.

Tuesday, March 16, 2021

Stúlkan í rauða kjólnum

Það var á ofanverðum tíunda áratugnum, ég var á menntaskólaaldri, það var kvöld og ég var úti í garði heima hjá mér. Úr átt frá Ásvallagötu heyrðist glaumur, eins og þar væri samkvæmi í gangi. Þá kom gangandi lítill hópur af fólki í sparifötum og spurði hvort ég hefði séð stelpu. Stelpu? hváði ég. Já, við erum að leita að henni, sögðu þau, hún er ljóshærð, í rauðum kjól og líklega með svarta tösku og hún ráfaði eitthvað frá partíinu. Nei, sagði ég, ég hef því miður ekki séð hana. Og þau héldu áfram og hurfu fyrir horn.

Nokkrum mínútum síðar kom annar lítill hópur í sparifötum gangandi. Þau spurðu: Heyrðu, hefður séð ljóshærða... Ég botnaði: ...stelpu? Þau: Já. Ég: Í rauðum kjól? Þau: Já, einmitt! Ég: Hélt hún á svartri handtösku? Þau: Já! Hefurðu séð hana? Ég: Nei, því miður hef ég ekki séð hana...

Tuesday, March 9, 2021

Þegar Kölski/Grýla gekk suður Suðurgötuna

Sú var tíðin að ég var svo kúl, að ég gekk á kúrekastígvélum hvunndags. Ég varð þess fljótlega var, að hælarnir slitnuðu mun hraðar en aðrir hlutar sólans. Eðlilega, enda steig ég mest í þá. Einu sinni setti Hafþór skósmiður í Garðastræti nýja hæla, og setti í leiðinni litlar skeifur undir. Bara þunnar málmplötur skrúfaðar aftast undir hælinn. Þær hægðu auðvitað mjög á slitinu. Auðvitað, hugsaði ég. Skeifur.

Þegar þær voru uppurnar, fór ég í Brynju og keypti stóra skinnu, sagaði hana og boraði og gerði þannig úr henni tvær skeifur sem ég gat sjálfur skrúfað undir stígvélin. Algjör snilld. Nú, svo tók ég einu sinni bensín í Hveragerði og rak þar augun í alvöru skeifur til sölu. Skeifur undir hesta. Keypti einn gang af skaflaskeifum. Þær gætu komið sér vel.

Það liðu nokkrir mánuðir. Það kom vetur, það kom frost, það kom hláka og það kom logndrífa yfir hlákuna. Og ég ætlaði út. Logndrífa á hláku gerir auðvitað manndrápshálku, en ég var viðbúinn: Dró fram hermannastígvél og dreif skaflajárnin undir framanverð. Gekk svo út, förinni var heitið eitthvað í suðurátt og ég gekk því niður Kirkjugarðsstíg og svo suður Suðurgötu. Skaflajárnin gerðu að veggripið var eins og á sumardegi. Fór á fullri ferð í beygjur og haggaðist ekki á svellinu. Gekk svo hvatlega.

Slóð Kölska

Þegar ég leit um öxl, genginn spölkorn í snjónum, sá ég að þar sem venjulega hefðu verið venjuleg spor, voru auðvitað för eftir skeifurnar. Eins og hófför. Eins og spor eftir tvo hófa. Enginn gengur á tveimur hófum, nema auðvitað Grýla.

Ég tók nú skeifurnar undan stígvélunum þegar ég kom heim. Vildi ekki villa um fyrir sakleysingjum sem gætu dregið hjátrúarfullar ályktanir.

Enginn nema Grýla? Í Bretlandi sáust reyndar spor Kölska í febrúar 1855 og þau voru ekki ólík tveimur skeifum. Kannski hef ég óvart ráðið gátuna um hvernig stóð á þeim...?

Tuesday, March 2, 2021

Lögmál hárs og skalla í Kreml

Það getur varla verið tilviljun að leiðtogar Rússlands hafa til skiptis verið með hár og skalla í marga mannsaldra:

Pútín er með skalla, Medvedev með hár .. Pútín aftur með skalla.
Jeltsín var með hár.
Gorbatsjov með skalla.
Chernenkó var með hár.
Andrópov var með skalla.
Brésnév var með hár.
Khrúshchév var með skalla.

Khrúshchév, Brésnév, Andrópov, Chernenko

Nú, Stalín var auðvitað með hár og Lenín var með skalla.
Nikulás II var með hár.
Alexander III var með skalla.
Alexander II var með hár.
Nikulás I var með skalla...

Alexander I, Nikulás I, Alexander II, Alexander III, Nikulás II

...og Alexander I var líka með skalla. Hann var keisari 1801-1825. Á undan honum voru konur, börn og karlar sem gengu með parrukk, svo spurningin verður ómarktæk.

Tuesday, February 23, 2021

Offramboð á húsnæði: Ráð í tíma tekið

Ég hata stundum þegar ég hef rétt fyrir mér. Í kosningabaráttunni fyrir borgarstjórnarkosningar 2018 var eitt af baráttumálum Alþýðufylkingarinnar að borgin ætti að byggja íbúðarhúsnæði umfram það sem þarf í rauntíma, þ.e. að það yrði viljandi skapað eins konar offramboð. Eins konar, segi ég, vegna þess að í raun væri bara verið að gera ráðstafanir í tæka tíð, byggja fram í tímann.

Húsnæðisverð á höfuðborgarsvæðinu er, held ég, stærsta geðheilbrigðisvandamál íslensku þjóðarinnar. Áhyggjur og kvíði fólks sem rétt svo nær endum saman vegna þess hvað húsnæði er dýrt, eru raunverulegar áhyggjur og kvíði. Fólk neyðist til að vinna meira og verja þannig minni tíma með börnunum sínum. Ætli börnin finni ekki fyrir því?

Offramboð þurrkar út spekúlatífar verðhækkanir, sem stafa af alvarlegum og áralöngum skorti. Það er fyrsta og fremsta ástæðan fyrir að það væri til bóta. En aðrar góðar ástæður mæla líka með því: Segjum að það kæmi kreppa og byggingariðnaðurinn gengi i stå eins og eftir Hrun. Þá væri til forði af húsnæði. Nú, segjum að við vildum taka við þúsund flóttamannafjölskyldum. Það væri auðveldara ef það væri þegar til húsnæði handa þeim öllum.

Segjum að flóttamennirnir kæmu ekki einu sinni frá útlöndum. Í því samhengi nefndi ég eldgosið í Heimaey. Segjum að það endurtæki sig. Mér brá nú samt þegar spáin rættist næstum því, þegar fór að skjálfa í Grindavík. Eða aurskriðurnar að renna á Seyðisfirði. Það kemur auðvitað að því fyrr eða síðar í þessu landi, að það þarf að rýma heilt byggðarlag og koma þúsundum fyrir annars staðar. Þegar það gerist, þá væri gott að hafa í hús að venda.

Ekki draugaborg heldur hverfi sem er ekki
enn búið að flytja inn í (Wikipedia)
Það sannfærðust ekki nógu margir af málflutningi okkar til þess að áformin næðu fram að ganga. Að minnsta kosti ekki enn. Iss, hver nennir að hlusta á varnaðarorð?

En það er til land þar sem ráðstafanir eru gerðar. Munið þið eftir því sem maður sá annað slagið í fréttum
fyrir ekki svo löngu síðan, að í Kína stæðu draugaborgir fullbyggðar, gætu tekið hundruð þúsunda manns en það byggi enginn í þeim? Getið hvað, þær voru og eru byggðar samkvæmt plani. Þar eru byggð heilu hverfin -- hundruð þúsunda geta búið í einu hverfi í milljónaborg -- heilu hverfin, tilbúin fyrir fólksfjölgun í borgum, sem er vitað að kemur. Og hún kemur. Þessi hverfi eru reist, síðan er flutt inn í þau. Þau eru tilbúin þegar þarf að nota þau. Og við Vesturlandabúar, við getum aldeilis hlegið að þessum Kínverjum, sem gera ráðstafanir og byggja upp innviði áður en þarf að nota þá. Hí á þá.

Tuesday, February 16, 2021

Brennu-Njáls saga á hljóðbók

Ég hef lengi haft mikinn áhuga á Brennu-Njáls sögu. Það eru nokkur ár síðan mér var bent á að hlusta á hljóðbókina þar sem Hallmar Sigurðsson les hana; sjálfur lesturinn, var mér sagt, væri svo góður að það væri næg ástæða til að hlusta á hana. Og því var ekki logið. Lestur Hallmars er skýr, laus við öll tilþrif og leyfir textanum sjálfum að njóta sín til hins ítrasta.

Mynd: Eldsveitir.is

Nú um daginn keypti ég svo aðra hljóðbók með Njálu, tíu segulbandssnældur með upplestri Einars Ól. Sveinssonar frá 1973. Ég var spenntur að hlusta á hana og bera saman, því ég átti von á góðu þar sem EÓS var en bjóst ekki við að hann næði að skáka Hallmari. Og hann gerir það satt að segja ekki. Lestur EÓS er að vísu lýtalaus. En lestur Hallmars er bara ennþá lýtalausari. (Er ekki annars hægt að stigbreyta þessu orði?)

Að Höskuldi Þráinssyni drepnum er gengið langt til að reyna að ná sáttum. Þingheimur skýtur saman silfri til að borga hæstu manngjöld sem höfðu þekkst: sex hundruð silfurs. Svo fjúka óvífin orð milli Flosa og Skarphéðins og allt fer út um þúfur.

Og ég fæ skrítna tilfinningu. Þótt ég hafi bæði lesið bókina og hlustað á hana nokkrum sinnum, er ég samt alltaf að vona að nú takist þetta, að nú náist sættir og brennunni verði afstýrt. Og verð alltaf fyrir vonbrigðum þegar allt kemur fyrir ekki. Og þegar Njáll er brenndur ... enn einu sinni ... sakna ég hans og líður nánast eins og ég hafi misst vin.

Monday, February 15, 2021

Miklabraut í stokk

Nú er ég alveg hlynntur því að leggja Miklubraut í stokk. En hvers vegna var það ekki gert hér um árið þegar henni var gerbreytt? Það var hvorki lítið rask né kostnaður, og verkinu var varla lokið þegar var farið að tala að breyta henni aftur. Þetta var kallað tvíverknaður í minni heimasveit, og þótti ekki til marks um mikið verksvit.

Tuesday, February 9, 2021

Sundabraut

Ef Sundabraut væri lögð, mundi byrja nærri Kleppi, fara yfir á Gufunes, þaðan í Geldinganes, þaðan í Gunnunes og frá Álfsnesi yfir á Kjalarnes mundi vegalengdin fráElliðaárósum upp á Kjalarnes styttast um ca. 7 kílómetra, eða sem nemur allir leiðinni frá Elliðaárósum í Garðabæ. Öll vegalengdin yrði eins og frá miðbæ Reykjavíkur suður í Straumsvík. Það mundi þýða að Grundarhverfi á Kjalarnesi, með gríðarmiklu mögulegu byggingarlandi, yrði komið í seilingarfjarlægð frá Reykjavík. Að ótöldu landinu sem brautin færi um; þótt ekki sé gert ráð fyrir landfyllingum með miklu flatarmáli, bætast við a.m.k. tveir ferkílómetrar á Geldinganesi og nokkrir til á Gunnunesi, Álfsnesi og jafnvel Þerney, og það þótt hafður sé góður radíus í kring um ruslahaugana.

Þá mundi Sundabraut verða möguleg flóttaleið út úr borginni. Mér þætti alveg sæmilega skynsamlegt að gera ráð fyrir því að einhvern tímann gæti þurft að rýma borgina í skyndi og að einhverjar leiðir út úr henni gætu lokast. Eða er alveg galið að hugsa sér slíkt ástand?

Í myndbandi um mögulega Sundabraut sem einhvern tímann birtist í fréttum, sást að ein möguleg lega hennar væri í gegn um göngudeildina á Kleppi. Ég legg til að sú leið verði ekki valin.

Tuesday, February 2, 2021

Kerfisbreytingarflokkarnir

Það mundu ekki margir nenna að lesa upptalningu á öllum þeim dæmum sem ég gæti nefnt um að Alþýðufylkingin hefði verið sniðgengin í kosningaumfjöllun fjölmiðlanna. Sú upptalning mundi auk þess æra óstöðugan. En nógu þreytandi var það.

Eitt bjánalegasta dæmið hlýtur samt að vera þegar einhver blaðamaðurinn tók saman yfirlit yfir alla flokkana sem voru í framboði og flokkaði þá eftir því hvort þeir stæðu fyrir kerfisbreytingar eða ekki. Þetta stuðorð var þrástef í kosningabaráttunni 2016 og 2017. Ég hef úrklippuna því miður ekki handbæra.

Alþýðufylkingin boðaði hvarf frá kapítalisma, góðan spöl í átt til sósíalismans. Eigindarbreytingu sem væri ekki til þess að bjarga hagkerfinu, heldur koma á nýju hagkerfi með nýjum grundvallargildum. Einkum gerbreytt fjármála-, lífeyris- og húsnæðiskerfi. Miklu róttækari kerfisbreytingar en nokkur annar boðaði.

Þetta sá blaðamaðurinn ekki sem kerfisbreytingar, heldur flokkaði okkur sem kerfisflokk. Alþýðufylkinguna sem kerfisflokk. Ég er nú ekki samsærissinnaðri en svo að ég skrifa þetta bara á gamaldags leti. Einhver hefði samt trúlega tekið sterkar til orða en það.

Tuesday, January 26, 2021

Þegar ég lék ekki í mynd eftir Hrafn Gunnlaugsson

Sumarið 1998 var hringt í mig og spurt hvort ég vildi koma í prufu fyrir kvikmynd. Ég vissi ekkert hvers vegna ég varð fyrir valinu en sá enga ástæðu til að segja nei, svo ég sló til. Kom í niðurnítt hús við Hverfisgötu, upp einhverja rangala og inn í vinnurými. Vísað inn í rökkvað herbergi og átti þar að leika, án neinna hjálpartækja, átjándu aldar skólapilt sem laumast inn í herbergi, opnar kistil á borði og verður undrandi yfir innihaldinu. Fórst mér þetta vel úr hendi. Flott, sagði kona, það verður svo haft samband við þig.

Liðu nú nokkrir mánuðir. Kominn var desember. Ég gekk snemma til náða, þar eð ég átti að mæta í próf morguninn eftir. Um hálfellefu um kvöldið hringir síminn, pabbi svarar. Kemur svo upp og segir að það sé síminn til mín. Ég fór framúr og hugsaði að þetta hlyti nú að vera mikilvægt fyrst það væri verið að hringja svona seint.

Röddin í símanum sagði:

Mynd: Kvikmyndir.is
Já, Vésteinn? Já, við erum að fara að taka upp. Geturðu verið kominn til Krýsuvíkur eftir klukkutíma?

Ég hváði. Krýsuvíkur eftir klukkutíma? Hugsaði mig örstutt um: Vetur, seint, ég ekki með bíl og auk þess ekki með bílpróf, próf á morgun, fyrirvarinn enginn. Nei, það gat ég ekki. Það var bara ekki séns.

Röddin í símanum sagði þá vandræðalegt: Ó...

Þarna missti ég af semsagt smáhlutverki í Myrkrahöfðingjanum eftir Hrafn Gunnlaugsson, sem kom út árið eftir. Ég hef nú séð meira eftir ýmsu öðru. En fyrir vikið get ég sagt að ég sé föðurbetrungur, að minnsta kosti að þessu leyti. Ég lék í það minnsta ekki í mynd eftir Hrafn.

Wednesday, January 20, 2021

Frægir steinar sem ég skoðaði á síðasta ári

Blótsteinn á Hólmavík
(mynd: Vésteinn Valgarðsson)
Á árinu 2020 ferðaðist ég eins mikið og ég gat innanlands, og mest um Vesturland og Norðurland. Eitt af því sem ég geri á innanlandsferðalögum er að vitja frægra steina. Síðasta sumar skoðaði ég þessa:

Húsafellshelluna í Borgarfirði og Draugaréttina með.
Stein Árum-Kára í Selárdal.
Grástein í Stóru-Ávík á Ströndum.
Blótsteininn á Galdrasýningunni á Hólmavík (mynd).
Hestasteininn á Höskuldsstöðum í Vindhælishreppi á Skaga.
Skeljungsstein í landi Silfrastaða í Skagafirði.
Djáknastein á Myrká í Hörgárdal.
Hestasteininn í Laufási við Eyjafjörð (sem langalangafi setti þar).

Lurkasteinn í Öxnadal bíður betri tíma, sem og Staupasteinn í Hvalfirði og fleiri nafntogaðir merkissteinar.