Tuesday, April 13, 2021

Húsasnotra Þorfinns karlsefnis

Og er hann var albúinn og skip hans lá til byrjar fyrir bryggjunum þá kom þar að honum Suðurmaður einn, ættaður af Brimum úr Saxlandi. Hann falar af Karlsefni húsasnotru hans.

"Eg vil eigi selja," sagði hann.

"Eg mun gefa þér við hálfa mörk gulls," segir Suðurmaður.

Karlsefni þótti vel við boðið og keyptu síðan. Fór Suðurmaður í burt með húsasnotruna en Karlsefni vissi eigi hvað tré var. En það var mösur kominn af Vínlandi. 

Grænlendinga saga, 8. kafli 

Ég er ekki sá eini sem hefur hnotið um þessar línur í Grænlendinga sögu. En smá orðskýringar, áður en lengra er haldið. Íslensk orðabók (2007) skýrir: húsasnotra: ... verðmætur smíðisgripur úr tré (skraut eða siglingatæki?); mörk: ... hálfpund ... 214 eða 217 grömm; mösur: ... 1 ... hlynur ... 2 ... hnúður, vaxinn sem meinsemd á tré [þ.e. viðarnýra].

Þjóðverjinn gefur Þorfinni karlsefni hálfa mörk gulls, það eru yfir hundrað grömm og mundi kosta yfir 5000 bandaríkjadali að núvirði. Fyrir smíðisgrip úr tré. Hvað í fjandanum var þetta?

Páll Bergþórsson hefur skrifað það fróðlegasta sem ég hef séð um húsasnotru Karlsefnis og ég hef svo sem engu við þann fróðleik að bæta. Nema því að ég skil vel að Karlsefni hafi þótt vel boðið, að fá fyrir smíðisgrip úr tré kannski þyngdar virði í gulli.

(Viðurnefnið Karlsefni er líka skrítið.)

Tuesday, April 6, 2021

Tilboð á moldvörpugildrum

Þegar Bauhaus opnaði á Íslandi, var stillt upp einhverju stöðluðu úrvali af vörum sem kom í gámum frá meginlandinu. Þar á meðal voru moldvörpugildrur. Þær þykja víst mesta þing í öðrum löndum. Verklagið sagði að þær ættu að vera á boðstólum. Skrítið var, að þær seldust ekki. Barasta ekki.

Það var haft samband við móðurstöðina á meginlandinu og spurt hvort mætti ekki bara taka þær úr sölu. Nei, var víst svarið, byrjið á að bjóða þær með helmings afslætti. En þær seldust samt ekki.

Tuesday, March 30, 2021

20 ára afmæli

Í dag, 30. mars, eru tuttugu ár síðan við Bessi frændi fórum saman á Klepp og sóttum um vinnu. Við vorum ráðnir á staðnum og höfum unnið þar síðan. Ég segi ekki að þetta sé eins og í gær, en það er samt skrítið að það séu komin tuttugu ár.

Rúm níu ár á hjúkrunargeðdeild, hálft ár á öryggisgeðdeild og rúm tíu ár á endurhæfingargeðdeild. Þetta hefur verið lærdómsríkur tími og ég er þakklátur fyrir margt. Sjúklingarnir sem ég hef annast eru samt það sem hefur gert þetta allt þess virði. Þvílíkur hópur af góðu, skemmtilegu og áhugaverðu fólki.

Tuesday, March 23, 2021

Þegar sjónvarpið datt af sjálfu sér

Við fluttum þegar ég var á fimmta ári, og höfðum auðvitað með okkur gamla sjónvarpið frá Suðurgötu. Því var komið fyrir á stigapallinum, á litlu, rauðu borði, og sófa rétt hjá. Nú, einn daginn -- ég var 5-6 ára -- sat ég og horfði á sjónvarpið þegar það datt allt í einu fram fyrir sig, beint á gólfið. Og lenti á uppáhalds He-Man-karlinum mínum. Skjárinn brotnaði auðvitað, og He-Man-karlinn líka. Það var enginn til vitnis um þetta nema ég, og ég sver að ég kom ekki við tækið. En hver haldið þið að trúi 5 ára krakka sem heldur því fram að fyrsta lögmál Newtons hafi verið brotið? Ekki mundi ég gera það... En skrítið var það.

Tuesday, March 16, 2021

Stúlkan í rauða kjólnum

Það var á ofanverðum tíunda áratugnum, ég var á menntaskólaaldri, það var kvöld og ég var úti í garði heima hjá mér. Úr átt frá Ásvallagötu heyrðist glaumur, eins og þar væri samkvæmi í gangi. Þá kom gangandi lítill hópur af fólki í sparifötum og spurði hvort ég hefði séð stelpu. Stelpu? hváði ég. Já, við erum að leita að henni, sögðu þau, hún er ljóshærð, í rauðum kjól og líklega með svarta tösku og hún ráfaði eitthvað frá partíinu. Nei, sagði ég, ég hef því miður ekki séð hana. Og þau héldu áfram og hurfu fyrir horn.

Nokkrum mínútum síðar kom annar lítill hópur í sparifötum gangandi. Þau spurðu: Heyrðu, hefður séð ljóshærða... Ég botnaði: ...stelpu? Þau: Já. Ég: Í rauðum kjól? Þau: Já, einmitt! Ég: Hélt hún á svartri handtösku? Þau: Já! Hefurðu séð hana? Ég: Nei, því miður hef ég ekki séð hana...

Tuesday, March 9, 2021

Þegar Kölski/Grýla gekk suður Suðurgötuna

Sú var tíðin að ég var svo kúl, að ég gekk á kúrekastígvélum hvunndags. Ég varð þess fljótlega var, að hælarnir slitnuðu mun hraðar en aðrir hlutar sólans. Eðlilega, enda steig ég mest í þá. Einu sinni setti Hafþór skósmiður í Garðastræti nýja hæla, og setti í leiðinni litlar skeifur undir. Bara þunnar málmplötur skrúfaðar aftast undir hælinn. Þær hægðu auðvitað mjög á slitinu. Auðvitað, hugsaði ég. Skeifur.

Þegar þær voru uppurnar, fór ég í Brynju og keypti stóra skinnu, sagaði hana og boraði og gerði þannig úr henni tvær skeifur sem ég gat sjálfur skrúfað undir stígvélin. Algjör snilld. Nú, svo tók ég einu sinni bensín í Hveragerði og rak þar augun í alvöru skeifur til sölu. Skeifur undir hesta. Keypti einn gang af skaflaskeifum. Þær gætu komið sér vel.

Það liðu nokkrir mánuðir. Það kom vetur, það kom frost, það kom hláka og það kom logndrífa yfir hlákuna. Og ég ætlaði út. Logndrífa á hláku gerir auðvitað manndrápshálku, en ég var viðbúinn: Dró fram hermannastígvél og dreif skaflajárnin undir framanverð. Gekk svo út, förinni var heitið eitthvað í suðurátt og ég gekk því niður Kirkjugarðsstíg og svo suður Suðurgötu. Skaflajárnin gerðu að veggripið var eins og á sumardegi. Fór á fullri ferð í beygjur og haggaðist ekki á svellinu. Gekk svo hvatlega.

Slóð Kölska

Þegar ég leit um öxl, genginn spölkorn í snjónum, sá ég að þar sem venjulega hefðu verið venjuleg spor, voru auðvitað för eftir skeifurnar. Eins og hófför. Eins og spor eftir tvo hófa. Enginn gengur á tveimur hófum, nema auðvitað Grýla.

Ég tók nú skeifurnar undan stígvélunum þegar ég kom heim. Vildi ekki villa um fyrir sakleysingjum sem gætu dregið hjátrúarfullar ályktanir.

Enginn nema Grýla? Í Bretlandi sáust reyndar spor Kölska í febrúar 1855 og þau voru ekki ólík tveimur skeifum. Kannski hef ég óvart ráðið gátuna um hvernig stóð á þeim...?

Tuesday, March 2, 2021

Lögmál hárs og skalla í Kreml

Það getur varla verið tilviljun að leiðtogar Rússlands hafa til skiptis verið með hár og skalla í marga mannsaldra:

Pútín er með skalla, Medvedev með hár .. Pútín aftur með skalla.
Jeltsín var með hár.
Gorbatsjov með skalla.
Chernenkó var með hár.
Andrópov var með skalla.
Brésnév var með hár.
Khrúshchév var með skalla.

Khrúshchév, Brésnév, Andrópov, Chernenko

Nú, Stalín var auðvitað með hár og Lenín var með skalla.
Nikulás II var með hár.
Alexander III var með skalla.
Alexander II var með hár.
Nikulás I var með skalla...

Alexander I, Nikulás I, Alexander II, Alexander III, Nikulás II

...og Alexander I var líka með skalla. Hann var keisari 1801-1825. Á undan honum voru konur, börn og karlar sem gengu með parrukk, svo spurningin verður ómarktæk.

Tuesday, February 23, 2021

Offramboð á húsnæði: Ráð í tíma tekið

Ég hata stundum þegar ég hef rétt fyrir mér. Í kosningabaráttunni fyrir borgarstjórnarkosningar 2018 var eitt af baráttumálum Alþýðufylkingarinnar að borgin ætti að byggja íbúðarhúsnæði umfram það sem þarf í rauntíma, þ.e. að það yrði viljandi skapað eins konar offramboð. Eins konar, segi ég, vegna þess að í raun væri bara verið að gera ráðstafanir í tæka tíð, byggja fram í tímann.

Húsnæðisverð á höfuðborgarsvæðinu er, held ég, stærsta geðheilbrigðisvandamál íslensku þjóðarinnar. Áhyggjur og kvíði fólks sem rétt svo nær endum saman vegna þess hvað húsnæði er dýrt, eru raunverulegar áhyggjur og kvíði. Fólk neyðist til að vinna meira og verja þannig minni tíma með börnunum sínum. Ætli börnin finni ekki fyrir því?

Offramboð þurrkar út spekúlatífar verðhækkanir, sem stafa af alvarlegum og áralöngum skorti. Það er fyrsta og fremsta ástæðan fyrir að það væri til bóta. En aðrar góðar ástæður mæla líka með því: Segjum að það kæmi kreppa og byggingariðnaðurinn gengi i stå eins og eftir Hrun. Þá væri til forði af húsnæði. Nú, segjum að við vildum taka við þúsund flóttamannafjölskyldum. Það væri auðveldara ef það væri þegar til húsnæði handa þeim öllum.

Segjum að flóttamennirnir kæmu ekki einu sinni frá útlöndum. Í því samhengi nefndi ég eldgosið í Heimaey. Segjum að það endurtæki sig. Mér brá nú samt þegar spáin rættist næstum því, þegar fór að skjálfa í Grindavík. Eða aurskriðurnar að renna á Seyðisfirði. Það kemur auðvitað að því fyrr eða síðar í þessu landi, að það þarf að rýma heilt byggðarlag og koma þúsundum fyrir annars staðar. Þegar það gerist, þá væri gott að hafa í hús að venda.

Ekki draugaborg heldur hverfi sem er ekki
enn búið að flytja inn í (Wikipedia)
Það sannfærðust ekki nógu margir af málflutningi okkar til þess að áformin næðu fram að ganga. Að minnsta kosti ekki enn. Iss, hver nennir að hlusta á varnaðarorð?

En það er til land þar sem ráðstafanir eru gerðar. Munið þið eftir því sem maður sá annað slagið í fréttum
fyrir ekki svo löngu síðan, að í Kína stæðu draugaborgir fullbyggðar, gætu tekið hundruð þúsunda manns en það byggi enginn í þeim? Getið hvað, þær voru og eru byggðar samkvæmt plani. Þar eru byggð heilu hverfin -- hundruð þúsunda geta búið í einu hverfi í milljónaborg -- heilu hverfin, tilbúin fyrir fólksfjölgun í borgum, sem er vitað að kemur. Og hún kemur. Þessi hverfi eru reist, síðan er flutt inn í þau. Þau eru tilbúin þegar þarf að nota þau. Og við Vesturlandabúar, við getum aldeilis hlegið að þessum Kínverjum, sem gera ráðstafanir og byggja upp innviði áður en þarf að nota þá. Hí á þá.

Tuesday, February 16, 2021

Brennu-Njáls saga á hljóðbók

Ég hef lengi haft mikinn áhuga á Brennu-Njáls sögu. Það eru nokkur ár síðan mér var bent á að hlusta á hljóðbókina þar sem Hallmar Sigurðsson les hana; sjálfur lesturinn, var mér sagt, væri svo góður að það væri næg ástæða til að hlusta á hana. Og því var ekki logið. Lestur Hallmars er skýr, laus við öll tilþrif og leyfir textanum sjálfum að njóta sín til hins ítrasta.

Mynd: Eldsveitir.is

Nú um daginn keypti ég svo aðra hljóðbók með Njálu, tíu segulbandssnældur með upplestri Einars Ól. Sveinssonar frá 1973. Ég var spenntur að hlusta á hana og bera saman, því ég átti von á góðu þar sem EÓS var en bjóst ekki við að hann næði að skáka Hallmari. Og hann gerir það satt að segja ekki. Lestur EÓS er að vísu lýtalaus. En lestur Hallmars er bara ennþá lýtalausari. (Er ekki annars hægt að stigbreyta þessu orði?)

Að Höskuldi Þráinssyni drepnum er gengið langt til að reyna að ná sáttum. Þingheimur skýtur saman silfri til að borga hæstu manngjöld sem höfðu þekkst: sex hundruð silfurs. Svo fjúka óvífin orð milli Flosa og Skarphéðins og allt fer út um þúfur.

Og ég fæ skrítna tilfinningu. Þótt ég hafi bæði lesið bókina og hlustað á hana nokkrum sinnum, er ég samt alltaf að vona að nú takist þetta, að nú náist sættir og brennunni verði afstýrt. Og verð alltaf fyrir vonbrigðum þegar allt kemur fyrir ekki. Og þegar Njáll er brenndur ... enn einu sinni ... sakna ég hans og líður nánast eins og ég hafi misst vin.

Monday, February 15, 2021

Miklabraut í stokk

Nú er ég alveg hlynntur því að leggja Miklubraut í stokk. En hvers vegna var það ekki gert hér um árið þegar henni var gerbreytt? Það var hvorki lítið rask né kostnaður, og verkinu var varla lokið þegar var farið að tala að breyta henni aftur. Þetta var kallað tvíverknaður í minni heimasveit, og þótti ekki til marks um mikið verksvit.

Tuesday, February 9, 2021

Sundabraut

Ef Sundabraut væri lögð, mundi byrja nærri Kleppi, fara yfir á Gufunes, þaðan í Geldinganes, þaðan í Gunnunes og frá Álfsnesi yfir á Kjalarnes mundi vegalengdin fráElliðaárósum upp á Kjalarnes styttast um ca. 7 kílómetra, eða sem nemur allir leiðinni frá Elliðaárósum í Garðabæ. Öll vegalengdin yrði eins og frá miðbæ Reykjavíkur suður í Straumsvík. Það mundi þýða að Grundarhverfi á Kjalarnesi, með gríðarmiklu mögulegu byggingarlandi, yrði komið í seilingarfjarlægð frá Reykjavík. Að ótöldu landinu sem brautin færi um; þótt ekki sé gert ráð fyrir landfyllingum með miklu flatarmáli, bætast við a.m.k. tveir ferkílómetrar á Geldinganesi og nokkrir til á Gunnunesi, Álfsnesi og jafnvel Þerney, og það þótt hafður sé góður radíus í kring um ruslahaugana.

Þá mundi Sundabraut verða möguleg flóttaleið út úr borginni. Mér þætti alveg sæmilega skynsamlegt að gera ráð fyrir því að einhvern tímann gæti þurft að rýma borgina í skyndi og að einhverjar leiðir út úr henni gætu lokast. Eða er alveg galið að hugsa sér slíkt ástand?

Í myndbandi um mögulega Sundabraut sem einhvern tímann birtist í fréttum, sást að ein möguleg lega hennar væri í gegn um göngudeildina á Kleppi. Ég legg til að sú leið verði ekki valin.

Tuesday, February 2, 2021

Kerfisbreytingarflokkarnir

Það mundu ekki margir nenna að lesa upptalningu á öllum þeim dæmum sem ég gæti nefnt um að Alþýðufylkingin hefði verið sniðgengin í kosningaumfjöllun fjölmiðlanna. Sú upptalning mundi auk þess æra óstöðugan. En nógu þreytandi var það.

Eitt bjánalegasta dæmið hlýtur samt að vera þegar einhver blaðamaðurinn tók saman yfirlit yfir alla flokkana sem voru í framboði og flokkaði þá eftir því hvort þeir stæðu fyrir kerfisbreytingar eða ekki. Þetta stuðorð var þrástef í kosningabaráttunni 2016 og 2017. Ég hef úrklippuna því miður ekki handbæra.

Alþýðufylkingin boðaði hvarf frá kapítalisma, góðan spöl í átt til sósíalismans. Eigindarbreytingu sem væri ekki til þess að bjarga hagkerfinu, heldur koma á nýju hagkerfi með nýjum grundvallargildum. Einkum gerbreytt fjármála-, lífeyris- og húsnæðiskerfi. Miklu róttækari kerfisbreytingar en nokkur annar boðaði.

Þetta sá blaðamaðurinn ekki sem kerfisbreytingar, heldur flokkaði okkur sem kerfisflokk. Alþýðufylkinguna sem kerfisflokk. Ég er nú ekki samsærissinnaðri en svo að ég skrifa þetta bara á gamaldags leti. Einhver hefði samt trúlega tekið sterkar til orða en það.

Tuesday, January 26, 2021

Þegar ég lék ekki í mynd eftir Hrafn Gunnlaugsson

Sumarið 1998 var hringt í mig og spurt hvort ég vildi koma í prufu fyrir kvikmynd. Ég vissi ekkert hvers vegna ég varð fyrir valinu en sá enga ástæðu til að segja nei, svo ég sló til. Kom í niðurnítt hús við Hverfisgötu, upp einhverja rangala og inn í vinnurými. Vísað inn í rökkvað herbergi og átti þar að leika, án neinna hjálpartækja, átjándu aldar skólapilt sem laumast inn í herbergi, opnar kistil á borði og verður undrandi yfir innihaldinu. Fórst mér þetta vel úr hendi. Flott, sagði kona, það verður svo haft samband við þig.

Liðu nú nokkrir mánuðir. Kominn var desember. Ég gekk snemma til náða, þar eð ég átti að mæta í próf morguninn eftir. Um hálfellefu um kvöldið hringir síminn, pabbi svarar. Kemur svo upp og segir að það sé síminn til mín. Ég fór framúr og hugsaði að þetta hlyti nú að vera mikilvægt fyrst það væri verið að hringja svona seint.

Röddin í símanum sagði:

Mynd: Kvikmyndir.is
Já, Vésteinn? Já, við erum að fara að taka upp. Geturðu verið kominn til Krýsuvíkur eftir klukkutíma?

Ég hváði. Krýsuvíkur eftir klukkutíma? Hugsaði mig örstutt um: Vetur, seint, ég ekki með bíl og auk þess ekki með bílpróf, próf á morgun, fyrirvarinn enginn. Nei, það gat ég ekki. Það var bara ekki séns.

Röddin í símanum sagði þá vandræðalegt: Ó...

Þarna missti ég af semsagt smáhlutverki í Myrkrahöfðingjanum eftir Hrafn Gunnlaugsson, sem kom út árið eftir. Ég hef nú séð meira eftir ýmsu öðru. En fyrir vikið get ég sagt að ég sé föðurbetrungur, að minnsta kosti að þessu leyti. Ég lék í það minnsta ekki í mynd eftir Hrafn.

Wednesday, January 20, 2021

Frægir steinar sem ég skoðaði á síðasta ári

Blótsteinn á Hólmavík
(mynd: Vésteinn Valgarðsson)
Á árinu 2020 ferðaðist ég eins mikið og ég gat innanlands, og mest um Vesturland og Norðurland. Eitt af því sem ég geri á innanlandsferðalögum er að vitja frægra steina. Síðasta sumar skoðaði ég þessa:

Húsafellshelluna í Borgarfirði og Draugaréttina með.
Stein Árum-Kára í Selárdal.
Grástein í Stóru-Ávík á Ströndum.
Blótsteininn á Galdrasýningunni á Hólmavík (mynd).
Hestasteininn á Höskuldsstöðum í Vindhælishreppi á Skaga.
Skeljungsstein í landi Silfrastaða í Skagafirði.
Djáknastein á Myrká í Hörgárdal.
Hestasteininn í Laufási við Eyjafjörð (sem langalangafi setti þar).

Lurkasteinn í Öxnadal bíður betri tíma, sem og Staupasteinn í Hvalfirði og fleiri nafntogaðir merkissteinar.

Tuesday, January 12, 2021

Við áttum kött sem var læs

Mynd úr einkasafni
Einar bróðir átti kött sem hét Pamína. Hún var afburðaflottur köttur, greind, hugrökk og hraust. Við gáfum köttunum auðvitað alltaf jólagjafir svo að þeir gætu fagnað fæðingu jólasveinanna með okkur.

Einu sinni tók ég harðfisk og pakkaði þannig inn, að köttur gæti opnað pakkann með hæfilega miklum erfiðismunum, og skrifaði Pamína á miðann. Á aðfangadag fór pakkinn undir jólatréð eins og vera ber, en þegar við vorum búin að borða hafði Pamína ekki haft biðlund. Hún hafði farið beint í pakkann sem var merktur henni og var búin að opna hann.

Ég hef aldrei, fyrr eða síðar, vitað kött geta lesið nafnið sitt. Sannarlega mögnuð skepna.

Tuesday, January 5, 2021

Síðasta sumar hitti ég á óskastundina

Síðasta sumar var ég, einu sinni sem oftar, í vinnunni. Sjónvarpið var í gangi, stillt á Stöð tvö, og það rúllaði einhver auglýsing um dagskrána framundan. Klippt á nokkurra sekúndubrota fresti.

Bjartmar Guðlausson
Mynd: Ismus.is

Við sátum tveir, sjúklingur og ég, í stofu og ég reyndi að fitja upp á einhverju til að spjalla um. Það var sumar, þannig að ég spurði hvaða grillmat honum þætti best að borða. Kótilettur, sagði hann. Ah, svaraði ég, alveg sammála því. Þú ert þá orðinn kótilettukarl, eins og Bjartmar söng, bætti ég við. Eða -- ætlaði að bæta við. Þegar ég byrjaði að segja nafn Bjartmars Guðlaugssonar: Bja... -- birtist mynd af Bjartmari á skjánum. Í sekúndubrot. Ég sneri að sjónvarpinu og sá það, en ungi maðurinn viðmælandi minn sneri að mér og sá það ekki. Ég benti á sjónvarpið en nafn Bjartmars stoppaði í kokinu á mér og í hröðum klippingum auglýsingarinnar var hann löngu horfinn áður en sessunautur minn náði að líta við.

Sjúklingurinn spurði hvort væri allt í lagi. Jájá, svaraði ég -- náði fljótlega að koma nafninu út: Bjartmar! Bjartmar!

Bjartmar birtist á sama sekúndubroti og ég nefndi nafn hans. Þetta gat aðeins þýtt að ég hefði hitt á óskastundina, ellegar þá að það væri einfaldlega happadagurinn minn. Mér leið eins og ég væri sigurvegari alheimsins, hvorki meira né minna.

Vaktinni lauk undir miðnætti og ég fór auðvitað beint í sjoppuna í Hagkaupum í Skeifunni og keypti mér happaþrennu. Kom svo heim og hikaði. Á maður að freista gæfunnar? Á maður að taka sénsinn á að það sé ekki vinningur, og þá sé happadagurinn góði ekki lengur happadagur? Eða á maður að veðja á að það sé vinningur? Og ef maður er þegar á hátindinum -- sigurvegari alheimsins, eins og ég sagði -- væri þá ekki að bera í bakkafullan lækinn að vinna á happaþrennu líka?

Ég ákvað að geyma bara happaþrennuna. Ef ég verð svo gamall að eiga einhvern tímann virkilega vondan dag, þá gæti það bjargað deginum að vinna of fjár á happaþrennu. Hún fór í bjargráðaboxið og þar bíður hún vonandi lengi.

Thursday, December 31, 2020

Áramót á Tjarnargötu 3C

Indriði Einarsson (1851-1939), rithöfundur og endurskoðandi (revisor), var langalangafi minn. Amma mín Jórunn (1918-2017) mundi afa sinn vel og er þetta einn af þeim strengjum sem ég þykist upplifa óslitinn aftur á miðja nítjándu öld.

Indriði Einarsson
Indriði skrifaði endurminningar sínar -- Séð og lifað heita þær -- og þar kemur vel fram að lífsviðhorf hans var nokkuð íhaldssamt, alveg sérstaklega þegar gamlar venjur voru annars vegar. Hann var til dæmis af Reynistaðarætt, ætt Reynistaðarbræðra, sem urðu úti haustið 1780, og hélt dyggilega í heiðri ættarfylgjuna að drengir megi hvorki heita Bjarni, klæðast grænu né ríða bleikum hesti. Amma sagði að hann hefði ræktað þetta í pottum, og þetta voru þá hefðirnar gömlu, og það er vafalaust fyrir hans venjufestu að minn leggur af ættinni hefur fram á þennan dag að miklu leyti virt þessa gömlu bannhelgi.

Nú, í fjölskyldu Indriða hafði lengi tíðkast á áramótum að bjóða heima, sem kallað er. Sagt er að álfar og huldufólk flytji búferlum á áramótum og þessi athöfn felur í sér að ganga þrisvar sinnum réttsælis og þrisvar sinnum rangsælis umhverfis bæinn eða húsið og fara með þuluna: Komi þeir sem koma vilja, fari þeir sem fara vilja, veri þeir sem vera vilja, mér og mínum að meinalausu. Reyndar hef ég oft hugsað að það þyrfti ekki orðlengja meira innflytjendastefnu fyrir Ísland, en það er önnur saga. En þessi siður lifir líka enn í minni fjölskyldu, sem að öðru leyti stundar litla hjátrú.

Indriði bjó lengi á Tjarnargötu 3C, litla húsinu sem var seinna flutt og stendur síðan við Garðastræti, milli Túngötu og Grjótagötu og er númer 11 við síðastnefndu. Þegar hann flutti þangað gekk dálítil vík norður úr Tjörninni fyrir austan húsið. Röskleikamaðurinn Indriði tók upp á því að sækja á hverjum degi einar hjólbörur af jarðvegi -- sér til heilsubótar, sagði hann -- og sturta út í víkina. Þegar svo víkin varð full, seldi Indriði lóðina sem hann hafði búið til. Skúli Thoroddsen, áður sýslumaður Ísfirðinga, og Theódóra kona hans keyptu, og byggðu sér þar hið reisulega hús sem var Vonarstræti 12 en stendur nú á Kirkjustræti 4.

Í þann tíð stóðu oft allhá timburgrindverk eða þil þvert um bil milli húsa, og svo var milli húsa Skúla og Indriða. Theódóra þekkti nágranna sinn vel og hans siði og þegar gamlársdegi hallaði, nefndi hún þetta gjarnan við mann sinn: Skúli minn, ertu búinn að reisa tröppuna fyrir revísorinn?

Thursday, July 23, 2020

Innanlandsferðirnar

Eg hef undanfarin ár ferðast af kappi innanlands. Sumarið 2018 tók ég fyrir byggðir Suðurlands og 2019 Vesturlands. Það var mjög margt sem ég komst ekki yfir, en líka mjög margt sem ég náði að skoða. Í ár er fókusinn á Norðurland.  Og 2021 ætla ég að þræða Austurland eftir megni.
Ég geri mér fullvel grein fyrir að það er óraunhæft að dekka heilan landsfjórðung á einu sumri, og er heldur ekki að reyna það. Bara "þurrka upp" sem flesta staði og koma sem víðast. Ég merki inn á landakort með svörtum doppum staði sem ég er búinn að koma á. En það verða auðvitað nægir staðir eftir fyrir seinni tíma heimsóknir.
Í árferðinu núna, er eins og allir séu á faraldri um landið og samfélagsmiðlarnir eru fullir af þessu. Ég nenni ekki að taka þátt í því. Ég mun því lítið fjalla um eigin ferðir hér, á Facebook eða á Snapchat.

Friday, June 26, 2020

Ung var ég Njáli gefin

Ég hef verið byltingarsinni mestallan fullorðinsaldur minn og hef frekar lítið skipt mér af borgaralegum stjórnmálum sem slíkum, enda hef ég lítinn áhuga á þeim. Þátttaka mín í stjórnmálum var enda ekki á þeim forsendum, heldur að koma málstað sósíalismans inn í umræðuna og, ef á besta veg færi, að málstaðurinn næði einhverri fótfestu einhvers staðar.

Nú eru forsetakosningar, einhverjar þær óáhugaverðustu kosningar sem ég man eftir. Það er í sjálfu sér ekki erfitt að velja milli meinleysingja og fábjána sem er of mislukkaður til að standa undir nafninu lýðskrumari. Og það kemur varla á óvart að allt að tíu prósent þjóðarinnar vilji hann sem forseta. Ég meina, kosningahegðunin hingað til gefur ekki tilefni til bjartsýni, er það? Nóg um það.

Ég veit ekki hvað Guðna Th. gekk til þegar hann svaraði spurningu vinar míns, á bókakynningu í Sögufélagi fyrir allmörgum árum. Það var verið að ræða Óvini ríkisins og vinur minn spurði Guðna um hans afstöðu, hvort honum þætti réttlætanlegt að beita símhlerunum gegn pólitískum andstæðingum, í þessu tilfelli sósíalistum og já, það var kalt stríð.

Sem ég segi, ég veit ekki hvað Guðna gekk til, en hann sagði að kannski væri "réttlætanlegt að víkja leikreglum lýðræðisins til hliðar til þess að vernda lýðræðið". Einmitt. Til að vernda borgarastéttina, hefði einhver getað skilið þetta. Ég ætla samt ekki að reyna að túlka þessi orð, ég tek þau bara á nafnverði.

Minn málstaður heitir sósíalismi og hann er ekki í framboði í þessum kosningum. Þannig að spurningin er hvort ég á að nenna að fara og skila auðu á morgun.

Wednesday, May 6, 2020

Enginn sameiginlegur vettvangur

Ég hef oft upplifað það, þegar ég kem til útlanda, að kaupa dagblað og verða alveg gáttaður á því hvað er margt merkilegt í því. Svo margt að ég næ ekki að lesa það allt þann daginn, og enda með að hafa það með mér heim til að lesa betur seinna. Þannig að ég á í kössum æðimörg erlend dagblöð sem ég ætla að lesa við tækifæri. Það verður væntanlega eftir byltinguna, þegar ég ætla líka að læra á harmonikku.
Ég kalla þessa upplifun "fyrirbæri hins frábæra dagblaðs" -- en hún er auðvitað skilyrt af því hvað ég er vanur lélegum blöðum á Íslandi. Það er hvorki meira né minna en þjóðfélagsmein, hvað íslenskir fjölmiðlar eru slappir. Já, ég veit að þetta er alþjóðlegt trend og allt það. Og kannski snýr þetta vandamál upp á alheiminn, en ekki bara okkur.
En ég get varla álasað fólki fyrir að nenna ekki að lesa Fréttablablaðið. Ég hef ekki lesið það í tvö ár sjálfur. Nenni því bara ekki.
Það breytir því ekki að í samfélagi þar sem er enginn sameiginlegur vettvangur fyrir alvöru umræðu um alvöru mál, þar vantar eitt meginatriðið sem þarf að vera til staðar til að geta haft lýðræði. Hvað þá annað. Án einhvers konar almennra og almennilegra fjölmiðla er það naumast hægt.
Facebook-bergmálshellar koma ekki í staðinn. Ekki einu sinni vefir stærri fjölmiðla og því síður vefrit eða blogg. Það sem nær því ekki að vera almennt lesið nær augljóslega ekki augum almennings og þar með er almenna umræðan í þjóðfélaginu ekki til. Ég endurtek: Ekki til.
Ríkið heldur nú þegar úti útvarpi og sjónvarpi, sem eru það sem nálgast helst vandaðan fjölmiðil. Væri galið að ríkið bætti við dagblaði? Eða er einhver með betri hugmynd? Ég bara spyr.

Monday, April 27, 2020

Ný bloggveita

Óli Gneisti vill auka veg bloggsins. Ég er sammála honum. Í þessu skyni hefur hann sett upp nýja bloggveitu. Fylgist með: http://blogg.kistan.is/ og verið með í endurreisn bloggsins. Niður með auðvaldið, lifi fólkið!

Thursday, April 23, 2020

Gleðilegt sumar ... í skugga asnans

Alveg er Facebook að gera mig gráhærðan. Mér kemur í hug hvað Jón Vídalín hefur eftir gríska ræðuskörungnum Demosþenesi: Þegar ég held ræðu um skugga asnans, leggja allir við hlustir. En þegar ég held ræðu um þarfir borgríkisins, þá loka allir eyrunum. Þannig er Facebook. Maður póstar mynd af þúfu með blómi á, og fær 50 læk. Maður póstar hlekk á mikilvæga grein um umhverfismál eða kannski mannréttindi, og fær 6 læk. Viðbrögðin reyna að draga mann til þess að tala um eitthvað sem er skemmtilegt en skiptir litlu máli, og fá mann til að halda sér saman um hitt. Maður finnur hvernig það spillir manni. En vera má að það sé ekki að öllu leyti við algríminn að sakast; er þetta ekki bara það sem fólkið vill? Það vill brauð og leika, skoða blóm og hugsa um skugga asnans, en nennir ekki að hugsa um erfiða hluti sem valda áhyggjum eða skylda okkur til athafna, til að bjarga heiminum og okkur sjálfum með.
-- -- -- --
Ég er auðvitað engin undantekning. Ég get rausað um fólk, en sjálfur er ég fólk. Ég er orðinn dauðþreyttur á átökum og langar bara til að velta mér upp úr grúski og safna hlutum og reynslu sem gera lífið skemmtilegra.

Tuesday, August 27, 2019

Meira grúsk, minna digital

Mikið skelfing getur Facebook verið þreytandi. Og tímafrekt. Það eru tvö ár síðan ég byrjaði þar og þetta helvíti gleypir dýrmæta tímann minn. Um mánaðamótin ætla ég að eyða Facebook-appinu úr símanum mínum. Snjallsíminn fer reyndar að komast á síðasta snúning líka og verður ekki endurnýjaður í bráð. Ég ætla í staðinn að nota tímann í eitthvað meira gefandi, eins og grúsk eða skrautskrift.

Wednesday, November 29, 2017

af gekk og kjötið af knjánum

Nú leika þeir, og hefur Þorgrímur ekki við, felldi Gísli hann og bar út knöttinn. Þá vill Gísli taka knöttinn, en Þorgrímur heldur honum og lætur hann eigi því ná. Þá fellir Gísli svo hart Þorgrím, svo að hann hafði ekki við og af gekk skinnið af knúunum, en blóð stökk úr nösunum, af gekk og kjötið af knjánum. Þorgrímur stóð seint upp. Hann leit til haugsins Vésteins og mælti:
Geir í gumna sárum
gnast. Kannk ei þat lasta.

Wednesday, November 8, 2017

Hátíðarræða flutt í Iðnó á byltingarafmælinu 7. nóvember 2017

Góðir gestir,

í dag eru 100 ár frá Októberbyltingunni. Í dag, og þessa dagana, kemur fólk saman um víða veröld og fagnar líkt og við. Við erum ekki komin saman til að biðjast afsökunar, heldur til að fagna sigrum! Við getum öll haldið upp á þetta afmæli, því að þótt Októberbyltingin hafi að sönnu verið rússnesk, er hún um leið okkar allra. Saga hennar og lærdómarnir sem við drögum af henni eru sameign okkar allra, okkar allra sem þráum að draga andann frjáls og byggja í sameiningu réttlátt þjóðfélag. Sigrar Októberbyltingarinnar eru sigrar okkar allra.

Fyrir hundrað árum síðan voru miklar hræringar í Rússlandi, milljónaþjóð ekki lengur tilbúin til að halda áfram undir arftekinni kúgun aldanna, heldur tilbúin til að taka völdin í sínar hendur, og þar með eigin örlög. Þetta er efnið sem byltingarástand er gert úr, en ástæða þess að þessi bylting fór ekki út um þúfur heldur varð sigursæl er að alþýðan var leidd af vel skipulögðum byltingarflokki, sem var vopnaður skýrri byltingarkenningu og einbeittum vilja og haldið við efnið af knýjandi sögulegri nauðsyn.

Heimsskoðun verkalýðssinna, díalektísk og söguleg efnishyggja, er gagnleg til að skoða sögu byltingarinnar, og sjá í gegn um ódýrar skýringar tækifærissinna og borgaralegra sófafasista og sunnudagshvítliða. Í ljósi hennar getum við dregið lærdóma sem duga okkur í byltingum framtíðarinnar, lærdóma bæði af því sem heppnaðist vel og því sem heppnaðist illa.

Díalektísk og söguleg efnishyggja kennir okkur að sagan mótar samtíðina. Sjálf byltingin, hvernig hún sigraði í borgarastríði og hvernig hún festist loks í sessi, stjórnarfar Ráðstjórnarríkjanna, allt er þetta mótað af fortíð Rússlands, sterkri hefð fyrir vægðarlausri valdabaráttu og svikráðum, sem lifði ekki bara byltinguna heldur lifði fram yfir hrun Ráðstjórnarríkjanna og fram á okkar dag.

Hún kennir okkur að þekkja hafrana frá sauðunum, að þekkja mistökin frá glæpunum, að þekkja dygðir sósíalismans frá rótgrónum hugsunarhætti lénstímans eða breyskleikum spilltra manna.

Hún sýnir okkur að fyrir 100 árum síðan var hinn valkosturinn ekki eitthvert borgaralegt þingræðis- og velferðarþjóðfélag, heldur blóðbað og fasismi, hernaðareinræði með áframhaldandi heimsstyrjöld sem leikmynd.

Díalektísk og söguleg efnishyggja kennir okkur að draga lærdóma af því að fylgjast með breytingum, sem verða við átök andstæðra krafta. Hér má nefna að við þá breytingu, að reynt var að skipuleggja efnahagskerfið eftir þörfum alþýðunnar, snarvænkuðust lífskjör hennar: Sovéskir borgarar fengu ókeypis heilbrigðisþjónustu og menntun, fengu þokkalegt húsnæði á viðráðanlegu verði í stað hreysanna sem þeir bjuggu í áður, fengu langt fæðingarorlof áður en það orð var búið til á íslensku, ungbarnadauði og dauði af barnsförum snarféllu, ævilíkur lengdust til muna – svo fátt eitt sé nefnt. Og þegar Ráðstjórnarríkin fengu náðarhöggið 1991 snerist þetta hratt við.

Rússneska byltingin sýndi píndri alþýðunni að draumurinn um að steypa fornum stofnunum er ekki bara draumur, það er hægt að gera það í alvörunni. Það er hægt að steypa keisurum og patríörkum, það er hægt að stöðva heimsstyrjöld, það er hægt að steypa því ranglætiskerfi sem dæmir alþýðuna til sárrar fátæktar meðan elítan situr í marmarasölum og étur næturgalaegg með gullhnífapörum.

Berthold Brecht var einn orðheppnasti maður liðinnar aldar. Hann komst svo að orði: 1917 - síðan þá á veröldin sér von. Þetta er að mínu mati mikilvægasta tilfinningin sem byltingin skilur eftir sig: vonin.

Það er ekki tilviljun að verkalýðsbarátta á Vesturlöndum tók fjörkipp áratugina eftir Októberbyltinguna. Hún fékk kjarkinn þegar hún sá Októberbyltinguna. Það er ekki heldur tilviljun að þjóðfrelsisbarátta nýlendubúa tók slíkan fjörkipp að nýlendustefnan hrundi í þeirri mynd sem við þekktum hana. Nýlendubúarnir fengu einnig kjarkinn þegar þeir sáu Októberbyltinguna og barátta þeirra fékk stuðning með ráðum og dáð.

Fyrsta öld sósíalismans fól í sér uppgjör við það gamla, uppgjör við lénsveldið, uppgjör við alræði borgarastéttarinnar, uppgjör við kúgun kvenna, kúgun þjóða, þjóðarbrota, kynþátta, – uppgjör sem er hvergi nærri lokið, en er svo sannarlega hafið og lýkur ekki nema með fullum sigri fólksins gegn kúgunarvaldinu.

Við getum lært margt af auðvaldinu. Fyrst ber að nefna stéttvísina: í hita stéttabaráttunnar þurfa allir sósíalistar að standa saman. Ekki endilega í einum flokki, en standa saman um lýðræðið – að fólkið ráði sjálft ríkjum í landinu – og um kröfu fólksins um að njóta ávaxta síns eigin erfiðis og auðlinda.

En einnig þarf að nefna, að auðvaldið áttaði sig mjög hratt á því hvað til þess friðar heyrði, að rússneska byltingin gaf alþýðu heimsins fordæmi og kjark sem bar að taka alvarlega. Þótt hugmyndir alþýðunnar hafi verið alla vega skildi auðvaldið á Vesturlöndum, að án einhverrar eftirgjafar mundi fara eins fyrir því og rússneska auðvaldinu. Sér í lagi eftir seinni heimsstyrjöldina, þar sem milljónir ungra alþýðumanna fengu þjálfun í vopnaburði og var síðan att út í blóðbað. Við heimkomu þeirra, og kröfu um betri lífskjör, skapaði fordæmi rússnesku byltingarinnar og sósíalismans pláss fyrir umbætur, sem yfirstéttin hefði hlegið að nokkrum áratugum fyrr. Í skjóli Ráðstjórnarríkjanna voru þannig byggð upp velferðarsamfélög á Vesturlöndum til að kaupa auðvaldinu frið, og um leið til að keppa við Ráðstjórnarríkin í tækni og framleiðslugetu.

Við Íslendingar höfum aldrei gert byltingu þótt við höfum á margan hátt notið áhrifanna af Októberbyltingunni eins og aðrar vestrænar þjóðir: þeirra áhrifa að auðvaldið skildi að það gat ekki leyft sér allt, það yrði að taka tillit til krafna verkalýðsins áður en byltingarástand skapaðist. Nú er farið að fenna verulega í þessi spor, auðvaldið fer sínu fram þegar ekkert er mótvægið. Það stendur upp á okkur – núlifandi verkalýðssinna – að minna auðvaldið á hvað til þess friðar heyrir. Það gerum við ekki öðru vísi en með því að minna okkar eigin stéttsystkin á það: Ef við ætlum okkur og börnunum okkar að lifa góðu lífi þurfum við að skipta gæðunum, sem vinnandi fólk framleiðir, upp á nýtt með réttlæti og samstöðu að leiðarljósi. Það þýðir að við – alþýðan – þurfum að taka völdin í þjóðfélaginu.

Stéttabaráttan fór upp á nýtt stig fyrir einni öld síðan, stig verkalýðsbyltingarinnar. Þessi öld var fyrsta öld sósíalismans. Næsta öld sósíalismans byrjar á morgun. Stéttabaráttan bíður okkar og ef við viljum lifa þann dag, að geta um frjálst höfuð strokið og heyrt áhyggjulaus hlátur barnanna okkar, þá þurfum við að standa okkur. Þetta er ekki bara spurning um réttlæti og ranglæti. Fyrir hundrað árum var það andstaðan við fyrri heimsstyrjöldina sem sameinaði byltingarsinnana með sinni þungu áherslu. Í dag eru það ekki bara stríðshætta og fasismi heldur líka, og ekki síst, umhverfisógnin, sem beinlínis ógnar framtíð okkar.

Verkefnin eru því mörg, en við erum líka mörg. Óvinir okkar eru sterkir, en þegar við stöndum saman erum við sterkari. Októberbyltingin sýnir okkur að leiðin er ekki greið, en hún er fær.

Til þess að farsæl bylting geti orðið er ekki nóg að byltingarástand skapist. Það þarf líka, eins og áður sagði, byltingarflokk vopnaðan byltingarkenningu. Ekki tækifærisstefnu sem forðast málefnin og skýlir sér bakvið formsatriði, ekki umbótastefnu sem vill betrumbæta kapítalismann, ekki endurskoðunarstefnu sem friðmælist við kerfið og þrífst best inni á skrifstofu, heldur byltingarsinnaðan sósíalistaflokk sem setur byltinguna á dagskrá sem alvöru verkefni til að leysa á vorum dögum, uppgjör við auðvaldið og uppbyggingu sósíalismans. Sá flokkur verður ekki til á einni nóttu. Hann þarf að vera til áður en byltingarástandið skapast. Eða með öðrum orðum: Það þarf að undirbúa hinn vísvitaða þátt byltingarinnar áður en þjóðskipulagið fer í mola af völdum kapítalismans. Samstaða allra sósíalista er lykilatriði til að þetta heppnist. Og svo það fari ekki milli mála, þarf þessi vinna að fara fram núna.

Til hamingju með hundrað ár af bjartsýni, hundrað ár af vissu um að þegar fólkið stendur saman, þá getur það það sem það ætlar sér. Fyrsta öldin er liðin, en bjartsýnin er ekki liðin og stéttabaráttan hefur ekki farið neitt. Þannig að til hamingju líka með næstu öld sósíalismans, sem hefst á morgun, öldina þegar við brjótum endanlega af okkur hlekki fortíðar, fáfræði og fátæktar. Eins og þörfin hefur aldrei verið meira knýjandi en nú, þá hafa möguleikar okkar heldur aldrei verið betri en nú. Við erum rétt að byrja.

Brettum upp ermarnar, herðum upp hugann, niður með auðvaldið, lifi fólkið og lifi byltingin! 

Sunday, November 5, 2017

Októberbyltingin 100 ára

 Hátíðarfundur í Iðnó þriðjudaginn 7. nóvember kl. 20

Pólitísk menningardagskrá í boði Alþýðufylkingarinnar, MFÍK, MÍR og Sósíalistaflokks Íslands

Aðgangur ókeypis, en frjálsum framlögum safnað á staðnum.

Fyrir 100 árum var Rússland í djúpri alhliða kreppu í miðri heimsstyrjöld. Baráttan gegn stríðinu og þrengingum alþýðunnar náði hámarki þegar 2. Sovétþingið tók völdin 7. nóvember, og hóf að knýja fram friðarsamning og félagsvæðingu í samfélaginu.

Þetta er einhver merkasti og áhrifamesti atburður seinni tíma sögu, og veitti innblástur fyrir baráttu verkalýðsins um allan heim fyrir sósíalisma og bættum kjörum. Októberbyltingin hefur haft áhrif á framvindu sögunnar æ síðan. Þó að beinir ávinningar hennar hafi tapast um tíma að verulegu leyti, er hún mikil uppspretta lærdóma í verkalýðsbaráttunni og verður um ókomna tíð.

Á þessum tímamótum hafa fern samtök, Alþýðufylkingin, MFÍK, MÍR og Sósíalistaflokkur Íslands tekið sig saman um að minnast byltingarinnar á hátíðarfundi í Iðnó, þriðjudaginn 7. nóvember kl. 20

Kynnir er Árni Hjartarson

Ávörp flytja:
Skúli Jón Unnarson
Sólveig Anna jónsdóttir
Vésteinn Valgarðsson

Sólveig Hauksdóttir les ljóð

Gunnar J Straumland kveður frumsamið efni

Tónlist:
Svavar Knútur
Þorvaldur Örn Árnason
Þorvaldur Þorvaldsson

Monday, October 30, 2017

AÐ LOKNUM KOSNINGUM -- HELDUR BARÁTTAN ÁFRAM

Það væri tilgerðarlegt að láta eins og ég væri ánægður með atkvæðafjölda Alþýðufylkingarinnar í fyrradag. En reyndar er ég alls ekki sleginn heldur. Eins og margkom fram í kosningabaráttunni, vinnast sigrar alþýðunnar ekki með atkvæðafjölda heldur í fjöldabaráttu, og Alþýðufylkingin er ekki háð kosningum eins og borgaralegir flokkar.
Það eru samt sigrar að (a) Alþýðufylkingin hafi haldið velli og ekki látið stuttan frest slá sig út af laginu, (b) málstaður okkar hafi komist þónokkuð áleiðis þrátt fyrir heiðarlegar tilraunir til þess að þagga niður í okkur, (c) félögum í flokknum hefur snarfjölgað.
Með öðrum orðum: Okkar barátta heldur áfram -- strax í dag. Verkefnin framundan eru m.a. að stofna svæðisfélög í Norðvesturkjördæmi og í Suðurkjördæmi; funda með þeim félögum sem hafa bæst við nýlega og eiga eftir að bætast við á næstunni og skipuleggja uppbyggingu flokksins. Þá er ekki langt í sveitarstjórnarkosningarnar nk. vor -- en í millitíðinni mörg önnur verkefni.
Þannig að við getum verið sátt við okkur sjálf, og farið brött inn í veturinn.
Vésteinn Valgarðsson

Wednesday, October 25, 2017

Alþýðufylkingin: kosningabaráttan í algleymingi

Ég hef lítið skrifað hér undanfarið. Bloggið er víst á undanhaldi, eins og svo margt annað, eftir að Facebook kom og ruddi borðið.
Þið sem þetta lesið eruð víst flest á Facebook. Ég er kominn þangað og mun lítið blogga hér í framtíðinni.
Skoðið vefrit Alþýðufylkingarinnar: Neistar.is -- það er vefrit sem bragð er að.

Thursday, September 28, 2017

Ný heimasíða Alþýðufylkingarinnar

Alþýðufylkingin er komin með nýja heimasíðu:

https://www.althydufylkingin.is/

Komið og skoðið, deilið, lækið!


Thursday, September 7, 2017

Ég er byrjaður á Facebook

Ég ákvað sl. föstudag loksins að láta undan tímans þunga straumi, og skrá mig á Facebook. Þar hafði ég aldrei verið skráður áður. Aðalástæðan fyrir því að ég skráði mig ekki fyrr en að ég veit vel hvílíkur tímaþjófur þetta er. Ég hef líka gefið því gaum að á þessum tæpu 6 sólarhringum sem liðnir eru, hef ég lítið lesið af bókum, lítið skrifað í vasabókina mína, en ... já: eytt miklum tíma í FB.