Það var haft samband við móðurstöðina á meginlandinu og spurt hvort mætti ekki bara taka þær úr sölu. Nei, var víst svarið, byrjið á að bjóða þær með helmings afslætti. En þær seldust samt ekki.
Tuesday, April 6, 2021
Tilboð á moldvörpugildrum
Tuesday, March 30, 2021
20 ára afmæli
Í dag, 30. mars, eru tuttugu ár síðan við Bessi frændi fórum saman á Klepp og sóttum um vinnu. Við vorum ráðnir á staðnum og höfum unnið þar síðan. Ég segi ekki að þetta sé eins og í gær, en það er samt skrítið að það séu komin tuttugu ár.
Rúm níu ár á hjúkrunargeðdeild, hálft ár á öryggisgeðdeild og rúm tíu ár á endurhæfingargeðdeild. Þetta hefur verið lærdómsríkur tími og ég er þakklátur fyrir margt. Sjúklingarnir sem ég hef annast eru samt það sem hefur gert þetta allt þess virði. Þvílíkur hópur af góðu, skemmtilegu og áhugaverðu fólki.
Tuesday, March 23, 2021
Þegar sjónvarpið datt af sjálfu sér
Við fluttum þegar ég var á fimmta ári, og höfðum auðvitað með okkur gamla sjónvarpið frá Suðurgötu. Því var komið fyrir á stigapallinum, á litlu, rauðu borði, og sófa rétt hjá. Nú, einn daginn -- ég var 5-6 ára -- sat ég og horfði á sjónvarpið þegar það datt allt í einu fram fyrir sig, beint á gólfið. Og lenti á uppáhalds He-Man-karlinum mínum. Skjárinn brotnaði auðvitað, og He-Man-karlinn líka. Það var enginn til vitnis um þetta nema ég, og ég sver að ég kom ekki við tækið. En hver haldið þið að trúi 5 ára krakka sem heldur því fram að fyrsta lögmál Newtons hafi verið brotið? Ekki mundi ég gera það... En skrítið var það.
Tuesday, March 16, 2021
Stúlkan í rauða kjólnum
Það var á ofanverðum tíunda áratugnum, ég var á menntaskólaaldri, það var kvöld og ég var úti í garði heima hjá mér. Úr átt frá Ásvallagötu heyrðist glaumur, eins og þar væri samkvæmi í gangi. Þá kom gangandi lítill hópur af fólki í sparifötum og spurði hvort ég hefði séð stelpu. Stelpu? hváði ég. Já, við erum að leita að henni, sögðu þau, hún er ljóshærð, í rauðum kjól og líklega með svarta tösku og hún ráfaði eitthvað frá partíinu. Nei, sagði ég, ég hef því miður ekki séð hana. Og þau héldu áfram og hurfu fyrir horn.
Nokkrum mínútum síðar kom annar lítill hópur í sparifötum gangandi. Þau spurðu: Heyrðu, hefður séð ljóshærða... Ég botnaði: ...stelpu? Þau: Já. Ég: Í rauðum kjól? Þau: Já, einmitt! Ég: Hélt hún á svartri handtösku? Þau: Já! Hefurðu séð hana? Ég: Nei, því miður hef ég ekki séð hana...
Tuesday, March 9, 2021
Þegar Kölski/Grýla gekk suður Suðurgötuna
Sú var tíðin að ég var svo kúl, að ég gekk á kúrekastígvélum hvunndags. Ég varð þess fljótlega var, að hælarnir slitnuðu mun hraðar en aðrir hlutar sólans. Eðlilega, enda steig ég mest í þá. Einu sinni setti Hafþór skósmiður í Garðastræti nýja hæla, og setti í leiðinni litlar skeifur undir. Bara þunnar málmplötur skrúfaðar aftast undir hælinn. Þær hægðu auðvitað mjög á slitinu. Auðvitað, hugsaði ég. Skeifur.
Þegar þær voru uppurnar, fór ég í Brynju og keypti stóra skinnu, sagaði hana og boraði og gerði þannig úr henni tvær skeifur sem ég gat sjálfur skrúfað undir stígvélin. Algjör snilld. Nú, svo tók ég einu sinni bensín í Hveragerði og rak þar augun í alvöru skeifur til sölu. Skeifur undir hesta. Keypti einn gang af skaflaskeifum. Þær gætu komið sér vel.
Það liðu nokkrir mánuðir. Það kom vetur, það kom frost, það kom hláka og það kom logndrífa yfir hlákuna. Og ég ætlaði út. Logndrífa á hláku gerir auðvitað manndrápshálku, en ég var viðbúinn: Dró fram hermannastígvél og dreif skaflajárnin undir framanverð. Gekk svo út, förinni var heitið eitthvað í suðurátt og ég gekk því niður Kirkjugarðsstíg og svo suður Suðurgötu. Skaflajárnin gerðu að veggripið var eins og á sumardegi. Fór á fullri ferð í beygjur og haggaðist ekki á svellinu. Gekk svo hvatlega.
![]() |
Slóð Kölska |
Þegar ég leit um öxl, genginn spölkorn í snjónum, sá ég að þar sem venjulega hefðu verið venjuleg spor, voru auðvitað för eftir skeifurnar. Eins og hófför. Eins og spor eftir tvo hófa. Enginn gengur á tveimur hófum, nema auðvitað Grýla.
Ég tók nú skeifurnar undan stígvélunum þegar ég kom heim. Vildi ekki villa um fyrir sakleysingjum sem gætu dregið hjátrúarfullar ályktanir.
Enginn nema Grýla? Í Bretlandi sáust reyndar spor Kölska í febrúar 1855 og þau voru ekki ólík tveimur skeifum. Kannski hef ég óvart ráðið gátuna um hvernig stóð á þeim...?
Tuesday, March 2, 2021
Lögmál hárs og skalla í Kreml
Það getur varla verið tilviljun að leiðtogar Rússlands hafa til skiptis verið með hár og skalla í marga mannsaldra:
Pútín er með skalla, Medvedev með hár .. Pútín aftur með skalla.
Jeltsín var með hár.
Gorbatsjov með skalla.
Chernenkó var með hár.
Andrópov var með skalla.
Brésnév var með hár.
Khrúshchév var með skalla.
![]() |
Khrúshchév, Brésnév, Andrópov, Chernenko |
Nú, Stalín var auðvitað með hár og Lenín var með skalla.
Nikulás II var með hár.
Alexander III var með skalla.
Alexander II var með hár.
Nikulás I var með skalla...
![]() |
Alexander I, Nikulás I, Alexander II, Alexander III, Nikulás II |
...og Alexander I var líka með skalla. Hann var keisari 1801-1825. Á undan honum voru konur, börn og karlar sem gengu með parrukk, svo spurningin verður ómarktæk.
Tuesday, February 23, 2021
Offramboð á húsnæði: Ráð í tíma tekið
Ég hata stundum þegar ég hef rétt fyrir mér. Í kosningabaráttunni fyrir borgarstjórnarkosningar 2018 var eitt af baráttumálum Alþýðufylkingarinnar að borgin ætti að byggja íbúðarhúsnæði umfram það sem þarf í rauntíma, þ.e. að það yrði viljandi skapað eins konar offramboð. Eins konar, segi ég, vegna þess að í raun væri bara verið að gera ráðstafanir í tæka tíð, byggja fram í tímann.
Húsnæðisverð á höfuðborgarsvæðinu er, held ég, stærsta geðheilbrigðisvandamál íslensku þjóðarinnar. Áhyggjur og kvíði fólks sem rétt svo nær endum saman vegna þess hvað húsnæði er dýrt, eru raunverulegar áhyggjur og kvíði. Fólk neyðist til að vinna meira og verja þannig minni tíma með börnunum sínum. Ætli börnin finni ekki fyrir því?
Offramboð þurrkar út spekúlatífar verðhækkanir, sem stafa af alvarlegum og áralöngum skorti. Það er fyrsta og fremsta ástæðan fyrir að það væri til bóta. En aðrar góðar ástæður mæla líka með því: Segjum að það kæmi kreppa og byggingariðnaðurinn gengi i stå eins og eftir Hrun. Þá væri til forði af húsnæði. Nú, segjum að við vildum taka við þúsund flóttamannafjölskyldum. Það væri auðveldara ef það væri þegar til húsnæði handa þeim öllum.
Segjum að flóttamennirnir kæmu ekki einu sinni frá útlöndum. Í því samhengi nefndi ég eldgosið í Heimaey. Segjum að það endurtæki sig. Mér brá nú samt þegar spáin rættist næstum því, þegar fór að skjálfa í Grindavík. Eða aurskriðurnar að renna á Seyðisfirði. Það kemur auðvitað að því fyrr eða síðar í þessu landi, að það þarf að rýma heilt byggðarlag og koma þúsundum fyrir annars staðar. Þegar það gerist, þá væri gott að hafa í hús að venda.
![]() |
Ekki draugaborg heldur hverfi sem er ekki enn búið að flytja inn í (Wikipedia) |
En það er til land þar sem ráðstafanir eru gerðar. Munið þið eftir því sem maður sá annað slagið í fréttum
fyrir ekki svo löngu síðan, að í Kína stæðu draugaborgir fullbyggðar, gætu tekið hundruð þúsunda manns en það byggi enginn í þeim? Getið hvað, þær voru og eru byggðar samkvæmt plani. Þar eru byggð heilu hverfin -- hundruð þúsunda geta búið í einu hverfi í milljónaborg -- heilu hverfin, tilbúin fyrir fólksfjölgun í borgum, sem er vitað að kemur. Og hún kemur. Þessi hverfi eru reist, síðan er flutt inn í þau. Þau eru tilbúin þegar þarf að nota þau. Og við Vesturlandabúar, við getum aldeilis hlegið að þessum Kínverjum, sem gera ráðstafanir og byggja upp innviði áður en þarf að nota þá. Hí á þá.
Tuesday, February 16, 2021
Brennu-Njáls saga á hljóðbók
Ég hef lengi haft mikinn áhuga á Brennu-Njáls sögu. Það eru nokkur ár síðan mér var bent á að hlusta á hljóðbókina þar sem Hallmar Sigurðsson les hana; sjálfur lesturinn, var mér sagt, væri svo góður að það væri næg ástæða til að hlusta á hana. Og því var ekki logið. Lestur Hallmars er skýr, laus við öll tilþrif og leyfir textanum sjálfum að njóta sín til hins ítrasta.
![]() |
Mynd: Eldsveitir.is |
Nú um daginn keypti ég svo aðra hljóðbók með Njálu, tíu segulbandssnældur með upplestri Einars Ól. Sveinssonar frá 1973. Ég var spenntur að hlusta á hana og bera saman, því ég átti von á góðu þar sem EÓS var en bjóst ekki við að hann næði að skáka Hallmari. Og hann gerir það satt að segja ekki. Lestur EÓS er að vísu lýtalaus. En lestur Hallmars er bara ennþá lýtalausari. (Er ekki annars hægt að stigbreyta þessu orði?)
Að Höskuldi Þráinssyni drepnum er gengið langt til að reyna að ná sáttum. Þingheimur skýtur saman silfri til að borga hæstu manngjöld sem höfðu þekkst: sex hundruð silfurs. Svo fjúka óvífin orð milli Flosa og Skarphéðins og allt fer út um þúfur.
Og ég fæ skrítna tilfinningu. Þótt ég hafi bæði lesið bókina og hlustað á hana nokkrum sinnum, er ég samt alltaf að vona að nú takist þetta, að nú náist sættir og brennunni verði afstýrt. Og verð alltaf fyrir vonbrigðum þegar allt kemur fyrir ekki. Og þegar Njáll er brenndur ... enn einu sinni ... sakna ég hans og líður nánast eins og ég hafi misst vin.
Monday, February 15, 2021
Miklabraut í stokk
Nú er ég alveg hlynntur því að leggja Miklubraut í stokk. En hvers vegna var það ekki gert hér um árið þegar henni var gerbreytt? Það var hvorki lítið rask né kostnaður, og verkinu var varla lokið þegar var farið að tala að breyta henni aftur. Þetta var kallað tvíverknaður í minni heimasveit, og þótti ekki til marks um mikið verksvit.
Tuesday, February 9, 2021
Sundabraut
Ef Sundabraut væri lögð, mundi byrja nærri Kleppi, fara yfir á Gufunes, þaðan í Geldinganes, þaðan í Gunnunes og frá Álfsnesi yfir á Kjalarnes mundi vegalengdin fráElliðaárósum upp á Kjalarnes styttast um ca. 7 kílómetra, eða sem nemur allir leiðinni frá Elliðaárósum í Garðabæ. Öll vegalengdin yrði eins og frá miðbæ Reykjavíkur suður í Straumsvík. Það mundi þýða að Grundarhverfi á Kjalarnesi, með gríðarmiklu mögulegu byggingarlandi, yrði komið í seilingarfjarlægð frá Reykjavík. Að ótöldu landinu sem brautin færi um; þótt ekki sé gert ráð fyrir landfyllingum með miklu flatarmáli, bætast við a.m.k. tveir ferkílómetrar á Geldinganesi og nokkrir til á Gunnunesi, Álfsnesi og jafnvel Þerney, og það þótt hafður sé góður radíus í kring um ruslahaugana.
Þá mundi Sundabraut verða möguleg flóttaleið út úr borginni. Mér þætti alveg sæmilega skynsamlegt að gera ráð fyrir því að einhvern tímann gæti þurft að rýma borgina í skyndi og að einhverjar leiðir út úr henni gætu lokast. Eða er alveg galið að hugsa sér slíkt ástand?
Í myndbandi um mögulega Sundabraut sem einhvern tímann birtist í fréttum, sást að ein möguleg lega hennar væri í gegn um göngudeildina á Kleppi. Ég legg til að sú leið verði ekki valin.
Tuesday, February 2, 2021
Kerfisbreytingarflokkarnir
Það mundu ekki margir nenna að lesa upptalningu á öllum þeim dæmum sem ég gæti nefnt um að Alþýðufylkingin hefði verið sniðgengin í kosningaumfjöllun fjölmiðlanna. Sú upptalning mundi auk þess æra óstöðugan. En nógu þreytandi var það.
Eitt bjánalegasta dæmið hlýtur samt að vera þegar einhver blaðamaðurinn tók saman yfirlit yfir alla flokkana sem voru í framboði og flokkaði þá eftir því hvort þeir stæðu fyrir kerfisbreytingar eða ekki. Þetta stuðorð var þrástef í kosningabaráttunni 2016 og 2017. Ég hef úrklippuna því miður ekki handbæra.
Alþýðufylkingin boðaði hvarf frá kapítalisma, góðan spöl í átt til sósíalismans. Eigindarbreytingu sem væri ekki til þess að bjarga hagkerfinu, heldur koma á nýju hagkerfi með nýjum grundvallargildum. Einkum gerbreytt fjármála-, lífeyris- og húsnæðiskerfi. Miklu róttækari kerfisbreytingar en nokkur annar boðaði.
Þetta sá blaðamaðurinn ekki sem kerfisbreytingar, heldur flokkaði okkur sem kerfisflokk. Alþýðufylkinguna sem kerfisflokk. Ég er nú ekki samsærissinnaðri en svo að ég skrifa þetta bara á gamaldags leti. Einhver hefði samt trúlega tekið sterkar til orða en það.
Tuesday, January 26, 2021
Þegar ég lék ekki í mynd eftir Hrafn Gunnlaugsson
Sumarið 1998 var hringt í mig og spurt hvort ég vildi koma í prufu fyrir kvikmynd. Ég vissi ekkert hvers vegna ég varð fyrir valinu en sá enga ástæðu til að segja nei, svo ég sló til. Kom í niðurnítt hús við Hverfisgötu, upp einhverja rangala og inn í vinnurými. Vísað inn í rökkvað herbergi og átti þar að leika, án neinna hjálpartækja, átjándu aldar skólapilt sem laumast inn í herbergi, opnar kistil á borði og verður undrandi yfir innihaldinu. Fórst mér þetta vel úr hendi. Flott, sagði kona, það verður svo haft samband við þig.
Liðu nú nokkrir mánuðir. Kominn var desember. Ég gekk snemma til náða, þar eð ég átti að mæta í próf morguninn eftir. Um hálfellefu um kvöldið hringir síminn, pabbi svarar. Kemur svo upp og segir að það sé síminn til mín. Ég fór framúr og hugsaði að þetta hlyti nú að vera mikilvægt fyrst það væri verið að hringja svona seint.
Röddin í símanum sagði:
Já, Vésteinn? Já, við erum að fara að taka upp. Geturðu verið kominn til Krýsuvíkur eftir klukkutíma?Mynd: Kvikmyndir.is
Ég hváði. Krýsuvíkur eftir klukkutíma? Hugsaði mig örstutt um: Vetur, seint, ég ekki með bíl og auk þess ekki með bílpróf, próf á morgun, fyrirvarinn enginn. Nei, það gat ég ekki. Það var bara ekki séns.
Röddin í símanum sagði þá vandræðalegt: Ó...
Þarna missti ég af semsagt smáhlutverki í Myrkrahöfðingjanum eftir Hrafn Gunnlaugsson, sem kom út árið eftir. Ég hef nú séð meira eftir ýmsu öðru. En fyrir vikið get ég sagt að ég sé föðurbetrungur, að minnsta kosti að þessu leyti. Ég lék í það minnsta ekki í mynd eftir Hrafn.
Wednesday, January 20, 2021
Frægir steinar sem ég skoðaði á síðasta ári
![]() |
Blótsteinn á Hólmavík (mynd: Vésteinn Valgarðsson) |
Húsafellshelluna í Borgarfirði og Draugaréttina með.
Stein Árum-Kára í Selárdal.
Grástein í Stóru-Ávík á Ströndum.
Blótsteininn á Galdrasýningunni á Hólmavík (mynd).
Hestasteininn á Höskuldsstöðum í Vindhælishreppi á Skaga.
Skeljungsstein í landi Silfrastaða í Skagafirði.
Djáknastein á Myrká í Hörgárdal.
Hestasteininn í Laufási við Eyjafjörð (sem langalangafi setti þar).
Lurkasteinn í Öxnadal bíður betri tíma, sem og Staupasteinn í Hvalfirði og fleiri nafntogaðir merkissteinar.
Tuesday, January 12, 2021
Við áttum kött sem var læs
![]() |
Mynd úr einkasafni |
Einu sinni tók ég harðfisk og pakkaði þannig inn, að köttur gæti opnað pakkann með hæfilega miklum erfiðismunum, og skrifaði Pamína á miðann. Á aðfangadag fór pakkinn undir jólatréð eins og vera ber, en þegar við vorum búin að borða hafði Pamína ekki haft biðlund. Hún hafði farið beint í pakkann sem var merktur henni og var búin að opna hann.
Ég hef aldrei, fyrr eða síðar, vitað kött geta lesið nafnið sitt. Sannarlega mögnuð skepna.
Tuesday, January 5, 2021
Síðasta sumar hitti ég á óskastundina
Síðasta sumar var ég, einu sinni sem oftar, í vinnunni. Sjónvarpið var í gangi, stillt á Stöð tvö, og það rúllaði einhver auglýsing um dagskrána framundan. Klippt á nokkurra sekúndubrota fresti.
![]() |
Bjartmar Guðlausson Mynd: Ismus.is |
Við sátum tveir, sjúklingur og ég, í stofu og ég reyndi að fitja upp á einhverju til að spjalla um. Það var sumar, þannig að ég spurði hvaða grillmat honum þætti best að borða. Kótilettur, sagði hann. Ah, svaraði ég, alveg sammála því. Þú ert þá orðinn kótilettukarl, eins og Bjartmar söng, bætti ég við. Eða -- ætlaði að bæta við. Þegar ég byrjaði að segja nafn Bjartmars Guðlaugssonar: Bja... -- birtist mynd af Bjartmari á skjánum. Í sekúndubrot. Ég sneri að sjónvarpinu og sá það, en ungi maðurinn viðmælandi minn sneri að mér og sá það ekki. Ég benti á sjónvarpið en nafn Bjartmars stoppaði í kokinu á mér og í hröðum klippingum auglýsingarinnar var hann löngu horfinn áður en sessunautur minn náði að líta við.
Sjúklingurinn spurði hvort væri allt í lagi. Jájá, svaraði ég -- náði fljótlega að koma nafninu út: Bjartmar! Bjartmar!
Bjartmar birtist á sama sekúndubroti og ég nefndi nafn hans. Þetta gat aðeins þýtt að ég hefði hitt á óskastundina, ellegar þá að það væri einfaldlega happadagurinn minn. Mér leið eins og ég væri sigurvegari alheimsins, hvorki meira né minna.
Vaktinni lauk undir miðnætti og ég fór auðvitað beint í sjoppuna í Hagkaupum í Skeifunni og keypti mér happaþrennu. Kom svo heim og hikaði. Á maður að freista gæfunnar? Á maður að taka sénsinn á að það sé ekki vinningur, og þá sé happadagurinn góði ekki lengur happadagur? Eða á maður að veðja á að það sé vinningur? Og ef maður er þegar á hátindinum -- sigurvegari alheimsins, eins og ég sagði -- væri þá ekki að bera í bakkafullan lækinn að vinna á happaþrennu líka?
Ég ákvað að geyma bara happaþrennuna. Ef ég verð svo gamall að eiga einhvern tímann virkilega vondan dag, þá gæti það bjargað deginum að vinna of fjár á happaþrennu. Hún fór í bjargráðaboxið og þar bíður hún vonandi lengi.
Thursday, December 31, 2020
Áramót á Tjarnargötu 3C
Indriði Einarsson (1851-1939), rithöfundur og endurskoðandi (revisor), var langalangafi minn. Amma mín Jórunn (1918-2017) mundi afa sinn vel og er þetta einn af þeim strengjum sem ég þykist upplifa óslitinn aftur á miðja nítjándu öld.
![]() |
Indriði Einarsson |
Nú, í fjölskyldu Indriða hafði lengi tíðkast á áramótum að bjóða heima, sem kallað er. Sagt er að álfar og huldufólk flytji búferlum á áramótum og þessi athöfn felur í sér að ganga þrisvar sinnum réttsælis og þrisvar sinnum rangsælis umhverfis bæinn eða húsið og fara með þuluna: Komi þeir sem koma vilja, fari þeir sem fara vilja, veri þeir sem vera vilja, mér og mínum að meinalausu. Reyndar hef ég oft hugsað að það þyrfti ekki orðlengja meira innflytjendastefnu fyrir Ísland, en það er önnur saga. En þessi siður lifir líka enn í minni fjölskyldu, sem að öðru leyti stundar litla hjátrú.
Indriði bjó lengi á Tjarnargötu 3C, litla húsinu sem var seinna flutt og stendur síðan við Garðastræti, milli Túngötu og Grjótagötu og er númer 11 við síðastnefndu. Þegar hann flutti þangað gekk dálítil vík norður úr Tjörninni fyrir austan húsið. Röskleikamaðurinn Indriði tók upp á því að sækja á hverjum degi einar hjólbörur af jarðvegi -- sér til heilsubótar, sagði hann -- og sturta út í víkina. Þegar svo víkin varð full, seldi Indriði lóðina sem hann hafði búið til. Skúli Thoroddsen, áður sýslumaður Ísfirðinga, og Theódóra kona hans keyptu, og byggðu sér þar hið reisulega hús sem var Vonarstræti 12 en stendur nú á Kirkjustræti 4.
Í þann tíð stóðu oft allhá timburgrindverk eða þil þvert um bil milli húsa, og svo var milli húsa Skúla og Indriða. Theódóra þekkti nágranna sinn vel og hans siði og þegar gamlársdegi hallaði, nefndi hún þetta gjarnan við mann sinn: Skúli minn, ertu búinn að reisa tröppuna fyrir revísorinn?
Thursday, July 23, 2020
Innanlandsferðirnar
Ég geri mér fullvel grein fyrir að það er óraunhæft að dekka heilan landsfjórðung á einu sumri, og er heldur ekki að reyna það. Bara "þurrka upp" sem flesta staði og koma sem víðast. Ég merki inn á landakort með svörtum doppum staði sem ég er búinn að koma á. En það verða auðvitað nægir staðir eftir fyrir seinni tíma heimsóknir.
Í árferðinu núna, er eins og allir séu á faraldri um landið og samfélagsmiðlarnir eru fullir af þessu. Ég nenni ekki að taka þátt í því. Ég mun því lítið fjalla um eigin ferðir hér, á Facebook eða á Snapchat.
Friday, June 26, 2020
Ung var ég Njáli gefin
Wednesday, May 6, 2020
Enginn sameiginlegur vettvangur
Ég kalla þessa upplifun "fyrirbæri hins frábæra dagblaðs" -- en hún er auðvitað skilyrt af því hvað ég er vanur lélegum blöðum á Íslandi. Það er hvorki meira né minna en þjóðfélagsmein, hvað íslenskir fjölmiðlar eru slappir. Já, ég veit að þetta er alþjóðlegt trend og allt það. Og kannski snýr þetta vandamál upp á alheiminn, en ekki bara okkur.
En ég get varla álasað fólki fyrir að nenna ekki að lesa Fréttablablaðið. Ég hef ekki lesið það í tvö ár sjálfur. Nenni því bara ekki.
Það breytir því ekki að í samfélagi þar sem er enginn sameiginlegur vettvangur fyrir alvöru umræðu um alvöru mál, þar vantar eitt meginatriðið sem þarf að vera til staðar til að geta haft lýðræði. Hvað þá annað. Án einhvers konar almennra og almennilegra fjölmiðla er það naumast hægt.
Facebook-bergmálshellar koma ekki í staðinn. Ekki einu sinni vefir stærri fjölmiðla og því síður vefrit eða blogg. Það sem nær því ekki að vera almennt lesið nær augljóslega ekki augum almennings og þar með er almenna umræðan í þjóðfélaginu ekki til. Ég endurtek: Ekki til.
Ríkið heldur nú þegar úti útvarpi og sjónvarpi, sem eru það sem nálgast helst vandaðan fjölmiðil. Væri galið að ríkið bætti við dagblaði? Eða er einhver með betri hugmynd? Ég bara spyr.
Monday, April 27, 2020
Ný bloggveita
Thursday, April 23, 2020
Gleðilegt sumar ... í skugga asnans
-- -- -- --
Ég er auðvitað engin undantekning. Ég get rausað um fólk, en sjálfur er ég fólk. Ég er orðinn dauðþreyttur á átökum og langar bara til að velta mér upp úr grúski og safna hlutum og reynslu sem gera lífið skemmtilegra.
Tuesday, August 27, 2019
Meira grúsk, minna digital
Wednesday, November 29, 2017
af gekk og kjötið af knjánum
Nú leika þeir, og hefur Þorgrímur ekki við, felldi Gísli hann og bar út knöttinn. Þá vill Gísli taka knöttinn, en Þorgrímur heldur honum og lætur hann eigi því ná. Þá fellir Gísli svo hart Þorgrím, svo að hann hafði ekki við og af gekk skinnið af knúunum, en blóð stökk úr nösunum, af gekk og kjötið af knjánum. Þorgrímur stóð seint upp. Hann leit til haugsins Vésteins og mælti:
Geir í gumna sárum
gnast. Kannk ei þat lasta.
Wednesday, November 8, 2017
Hátíðarræða flutt í Iðnó á byltingarafmælinu 7. nóvember 2017
Sunday, November 5, 2017
Októberbyltingin 100 ára
Monday, October 30, 2017
AÐ LOKNUM KOSNINGUM -- HELDUR BARÁTTAN ÁFRAM
Wednesday, October 25, 2017
Alþýðufylkingin: kosningabaráttan í algleymingi
Þið sem þetta lesið eruð víst flest á Facebook. Ég er kominn þangað og mun lítið blogga hér í framtíðinni.
Skoðið vefrit Alþýðufylkingarinnar: Neistar.is -- það er vefrit sem bragð er að.
Thursday, September 28, 2017
Ný heimasíða Alþýðufylkingarinnar
https://www.althydufylkingin.is/
Komið og skoðið, deilið, lækið!
Thursday, September 7, 2017
Ég er byrjaður á Facebook
Friday, May 5, 2017
Ókeypis inn í Kerið í Grímsnesi
Þarna stendur samt miðasölukofi og í honum sat miðasali. Erlendir ferðamenn fóru beint þangað og borguðu.