Monday, March 29, 2010

Þetta helst...

Þessi kattakomment Jóhönnu Sigurðardóttur eru ekki beint til þess fallin að styrkja ríkisstjórnina í sessi. Ætli hún hafi búist við því sjálf, að það yrðu engin viðbrögð?
Ég er ekki ánægður með frammistöðu ríkisstjórnarinnar í flestum stærri málum. Ekki er ég heldur ánægður með spuna hægrimanna allra flokka um "órólegu deildina". Tilgangurinn með slíku tali er að auka spennuna innan VG. Nú síðast í dag er það leiðari Fréttablaðsins. Hrifning mín á því blaði var nú aldrei mikil, en fer ekki vaxandi.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Eggin.is birtir ræðu Þorvaldar Þorvaldssonar frá Austurvelli í fyrradag.
Lesið líka Söguendurskoðun og fullveldi eftir Þórarin Hjartarson og Byltingarástand í Grikklandi eftir Jón Karl Stefánsson.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Evrópuráðið varar Alþjóða heilbrigðismálastofnunina við því að kannski verði faraldursviðvaranir hunsaðar næst vegna þess að svínaflensan hafi verið hæpuð, 65.000 dauðsföllum spáð á Bretlandi en raunin varð 360 dauðsföll. Ég velti því nú fyrir mér hvort það sé ekki til marks um að viðbrögðin hafi einmitt verið rétt. Stærstu ógnirnar verða óneitanlega smáar ef það er brugðist rétt við þeim, er það ekki?

Saturday, March 20, 2010

Strauss-Kahn og kreppan

Dominique Strauss-Kahn, guðfaðir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, vill ekki að bankakreppa í líkingu við þá íslensku endurtaki sig. Það var og. Ég efast í sjálfu sér ekki um að hann vilji það ekki, en hversu mikið vill hann það ekki? Nógu mikið til að lítast vel á einu leiðina til þess? Eina leiðin til að afstýra kreppum er að afleggja kapítalisma. Það er eina leiðin. Það er ófrávíkjanlegt lögmál að kreppur eru fylgifiskur kapítalisma. Eina leiðin út úr kreppunni er leiðin út úr kapítalismanum. Gaman þætti mér að sjá Strauss-Kahn komast svo langt í röksemdafærslunni.

Saturday, March 13, 2010

Ræða á Austurvelli

Þessa ræðu flutti ég á Austurvelli fyrr í dag.

Gott fólk.

Ég hef starfað á geðdeild undanfarin níu ár. Á meðan íslenska hagkerfið óx hraðast og féll hraðast, gekk lífið sinn vanagang á deild 14 á Kleppi. Þangað kom aldrei neitt góðæri, heldur var deildin rekin með sparsemi og ráðdeild og lágum launum.

Lífið gekk sinn vanagang, þangað til nú í desember. Þá fengum við þær fréttir að það ætti að loka. Allir fengu uppsagnarbréf í janúar, sagt upp frá og með fyrsta maí nk. Ég trúi því mátulega, sem okkur er sagt, að ástæðurnar séu hugmyndafræðilegar. Ég hygg hins vegar að þarna láti hinn fjársvelti Landspítali undan kröfum um að spara – mikið og fljótt.

Krafan um sparnað kemur vitanlega að ofan, frá norrænu velferðarstjórninni okkar, sem fer að vilja Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Hefur einhver heyrt um land sem hefur byggt upp norrænt velferðarkerfi undir leiðsögn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins? Nei – vegna þess að það land er ekki til. Erindi sjóðsins er ekki að hjálpa okkur að byggja upp velferð, heldur að hjálpa kröfuhöfum að innheimta skuldir. Hollráðin sem frá honum koma ganga út á að einkavæða ríkiseignir, draga út útgjöldum ríkisins og loks að greiða fyrir erlendri fjárfestingu. Með öðrum orðum, að innviðir samfélagsins verði settir á uppboð fyrir fjárfesta. Að spyrja hvernig við mundum spjara okkur án Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er álíka gáfulegt og að spyrja hvernig fíkill mundi spjara sig án handrukkara.

Hér er ein vísa eftir sjálfan mig:

IceSave bæði og ESB
undan þeim stynur þjóðin.
Eg vil negla upp á tré
Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

Við megum aldrei gleyma að við búum í stéttskiptu þjóðfélagi og þessu landi er stjórnað af valdastétt sem er ekki kosin heldur ræður í krafti eignarhalds og yfirráða yfir fjármagni.

Þessi valdastétt heitir fjármálaauðvald. Það skipulagði fjármálakerfi landsins eftir sínum hagsmunum og tryggði þannig eigin völd nógu vel til að halda velli þrátt fyrir hrun og þótt við þykjumst hafa gert byltingu. Fjármálaauðvaldið er alþjóðlegt í eðli sínu: Bankajöfrar á Íslandi og í t.d. Bretlandi eða Hollandi eiga meira sameiginlegt hverjir með öðrum heldur en vinnandi fólki í þessum löndum. Við, vinnandi fólk, höfum verið féflett af sameiginlegum óvini, fjármálaauðvaldinu, og erum náttúrlegir bandamenn.

Fjármálaauðvaldið fær sitt áður en heimilin fá skuldaleiðréttingar, kröfur þess ganga fyrir velferðarkerfinu og eru meira að segja verðtryggðar! Þarf frekari vitnanna við, um það hver ræður í þessu landi? Follow the Money!

Ríkisstjórnin sem er við völd er gott dæmi um það að sérhver ríkisstjórn er framkvæmdanefnd ríkjandi stéttar. Ríkjandi stétt bindur ekki bara hendur ríkisstjórnarinnar, heldur setur henni beinlínis fyrir verkefni.

Ég er í sjálfu sér á móti öllum borgaralegum ríkisstjórnum, en þær eru samt ekki allar eins. Ef við fellum hina gölluðu núverandi ríkisstjórn í dag, þá munum við í staðinn fá aðra ríkisstjórn, enn verri. Þá væri verr af stað farið en heima setið. Ef það á að taka til í alvöru í þjóðfélaginu þarf að verða til pólitískt afl sem er fært um það.

Ríkisstjórnin dugar ekki gegn auðvaldinu vegna þess að hún er sköpuð til að þjóna því. Allt kerfið er hannað í þágu valdastéttarinnar og það er varla á valdi einnar stjórnar að sporna gegn því – en ég sé ekki heldur að hún reyni. Það er nefnilega ekki sögulegt hlutskipti krata að setja skorður á auðvaldið, heldur á alþýðuna.

Baráttan núna þarf að beinast gegn hinni hægrisinnuðu kreppupólitík sem auðvaldið rekur í gegn um ríkisstjórnina og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Ef við viljum setja baráttunni markmið, eða skilgreina skotmörk, þá er af nógu að taka: Baráttan gegn Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og gegn verðtryggingunni, fyrir skuldaleiðréttingum, fyrir velferðarkerfinu og fyrir félagslegu eignarhaldi á auðlindunum, svo ég nefni fáein dæmi.

Pólitískt afl, sem er fært um að bylta þjóðfélaginu og koma raunverulegum völdum í hendur almennings, verður ekki til af sjálfu sér. Það þarf skipulagða og markvissa baráttu til. Hagsmunir skuldaöreiga og okurlánaauðvalds eru ósamrýmanlegir. Annað hvort verður að víkja. Það stendur því upp á okkur sjálf, grasrótina og almenning, að berjast gegn auðvaldinu á öllum sviðum. Ávöxturinn verður ríkulegur ef við höfum betur, enda getur enginn mótað samfélagið okkar betur en við sjálf.

Takk fyrir.

Ég skal verða fjármálaráðherra

Í sjónvarpinu um síðustu helgi sagði Steingrímur J. Sigfússon, ef ég heyrði rétt, að ef einhver vildi taka að sér að vera fjármálaráðherra í hans stað, þá skyldi sá hinn sami bara melda sig.

Ég lýsi mig hér með reiðubúinn.

Fyrstu verk mín þegar ég er tekinn við fjármálaráðuneytinu verða þessi: Að reka Alþjóðagjaldeyrissjóðinn úr landi, að leiðrétta stökkbreyttan höfuðstól húsnæðislána, að þjóðnýta fjármálastofnanir: banka, tryggingafélög og lífeyrissjóði; að hækka örorkubætur, lækka virðisaukaskatt á nauðsynjavörum, framselja fyrrum eigendur og stjórnendur Landsbankans til Hollands eða Bretlands, setja lög um hámarkslaun og hækka taxta verkalýðsfélaganna einhliða.

Síðan mundi ég fá mér hádegismat.

Monday, March 8, 2010

Um hvað var verið að kjósa?

Það var kosið um IceSave-samning á laugardaginn var. Formlega var verið að kjósa um hvort tiltekin lög ættu að halda gildi sínu eða ekki. Talsmenn IceSave-skulda kepptust um að benda á að verið væri að kjósa um spurningu sem skipti ekki lengur máli sem slík. Það er út af fyrir sig rétt, og út af fyrir sig neitaði því enginn, held ég. En það þýðir að meira en helmingur landsmanna hefur í raun mætt á kjörstað í til að kjósa um eitthvað annað en þessa spurningu, er það ekki? En hvað annað var fólk þá að kjósa um? Ýmislegt, býst ég við, og það getur hver sem er giskað jafn vel og ég.

Ég mætti og kaus "nei" vegna þess að í fyrsta lagi samþykki ég ekki þennan tiltekna samning -- og vegna þess í öðru lagi að ég samþykki heldur engan annan samning sem felur það í sér að íslenskur almenningur taki á sig skuldir fjármálaauðvaldsins. Ég mun ekki una þeirri niðurstöðu að innviðir íslensks samfélags verði skornir niður til að borga fyrir svikamyllur útrásarhrappanna. Ég hygg að ég sé ekki einn um að hafa haft þetta í huga þegar ég krossaði skýrt og ákveðið við "nei".

Nánari skýringar: Hugleiðingar um IceSave og stéttabaráttuna.

IceSave og stéttabarátta

Lesið grein mína frá föstudeginum: Hugleiðingar um IceSave og stéttabaráttuna

Saturday, March 6, 2010

Dagur 6

Í dag er sjötti dagur frá því ég tók síðasta kornið úr neftóbaksbauknum í nefið. Af því tilefni ætla ég niður í ráðhús á eftir og kjösa NEI við IceSave.

IceSave og stéttabaráttan

Það birtist grein eftir mig á Egginni í gær: Hugleiðingar um IceSave og stéttabaráttuna heitir hún.