Tuesday, January 26, 2021

Þegar ég lék ekki í mynd eftir Hrafn Gunnlaugsson

Sumarið 1998 var hringt í mig og spurt hvort ég vildi koma í prufu fyrir kvikmynd. Ég vissi ekkert hvers vegna ég varð fyrir valinu en sá enga ástæðu til að segja nei, svo ég sló til. Kom í niðurnítt hús við Hverfisgötu, upp einhverja rangala og inn í vinnurými. Vísað inn í rökkvað herbergi og átti þar að leika, án neinna hjálpartækja, átjándu aldar skólapilt sem laumast inn í herbergi, opnar kistil á borði og verður undrandi yfir innihaldinu. Fórst mér þetta vel úr hendi. Flott, sagði kona, það verður svo haft samband við þig.

Liðu nú nokkrir mánuðir. Kominn var desember. Ég gekk snemma til náða, þar eð ég átti að mæta í próf morguninn eftir. Um hálfellefu um kvöldið hringir síminn, pabbi svarar. Kemur svo upp og segir að það sé síminn til mín. Ég fór framúr og hugsaði að þetta hlyti nú að vera mikilvægt fyrst það væri verið að hringja svona seint.

Röddin í símanum sagði:

Mynd: Kvikmyndir.is
Já, Vésteinn? Já, við erum að fara að taka upp. Geturðu verið kominn til Krýsuvíkur eftir klukkutíma?

Ég hváði. Krýsuvíkur eftir klukkutíma? Hugsaði mig örstutt um: Vetur, seint, ég ekki með bíl og auk þess ekki með bílpróf, próf á morgun, fyrirvarinn enginn. Nei, það gat ég ekki. Það var bara ekki séns.

Röddin í símanum sagði þá vandræðalegt: Ó...

Þarna missti ég af semsagt smáhlutverki í Myrkrahöfðingjanum eftir Hrafn Gunnlaugsson, sem kom út árið eftir. Ég hef nú séð meira eftir ýmsu öðru. En fyrir vikið get ég sagt að ég sé föðurbetrungur, að minnsta kosti að þessu leyti. Ég lék í það minnsta ekki í mynd eftir Hrafn.

Wednesday, January 20, 2021

Frægir steinar sem ég skoðaði á síðasta ári

Blótsteinn á Hólmavík
(mynd: Vésteinn Valgarðsson)
Á árinu 2020 ferðaðist ég eins mikið og ég gat innanlands, og mest um Vesturland og Norðurland. Eitt af því sem ég geri á innanlandsferðalögum er að vitja frægra steina. Síðasta sumar skoðaði ég þessa:

Húsafellshelluna í Borgarfirði og Draugaréttina með.
Stein Árum-Kára í Selárdal.
Grástein í Stóru-Ávík á Ströndum.
Blótsteininn á Galdrasýningunni á Hólmavík (mynd).
Hestasteininn á Höskuldsstöðum í Vindhælishreppi á Skaga.
Skeljungsstein í landi Silfrastaða í Skagafirði.
Djáknastein á Myrká í Hörgárdal.
Hestasteininn í Laufási við Eyjafjörð (sem langalangafi setti þar).

Lurkasteinn í Öxnadal bíður betri tíma, sem og Staupasteinn í Hvalfirði og fleiri nafntogaðir merkissteinar.

Tuesday, January 12, 2021

Við áttum kött sem var læs

Mynd úr einkasafni
Einar bróðir átti kött sem hét Pamína. Hún var afburðaflottur köttur, greind, hugrökk og hraust. Við gáfum köttunum auðvitað alltaf jólagjafir svo að þeir gætu fagnað fæðingu jólasveinanna með okkur.

Einu sinni tók ég harðfisk og pakkaði þannig inn, að köttur gæti opnað pakkann með hæfilega miklum erfiðismunum, og skrifaði Pamína á miðann. Á aðfangadag fór pakkinn undir jólatréð eins og vera ber, en þegar við vorum búin að borða hafði Pamína ekki haft biðlund. Hún hafði farið beint í pakkann sem var merktur henni og var búin að opna hann.

Ég hef aldrei, fyrr eða síðar, vitað kött geta lesið nafnið sitt. Sannarlega mögnuð skepna.

Tuesday, January 5, 2021

Síðasta sumar hitti ég á óskastundina

Síðasta sumar var ég, einu sinni sem oftar, í vinnunni. Sjónvarpið var í gangi, stillt á Stöð tvö, og það rúllaði einhver auglýsing um dagskrána framundan. Klippt á nokkurra sekúndubrota fresti.

Bjartmar Guðlausson
Mynd: Ismus.is

Við sátum tveir, sjúklingur og ég, í stofu og ég reyndi að fitja upp á einhverju til að spjalla um. Það var sumar, þannig að ég spurði hvaða grillmat honum þætti best að borða. Kótilettur, sagði hann. Ah, svaraði ég, alveg sammála því. Þú ert þá orðinn kótilettukarl, eins og Bjartmar söng, bætti ég við. Eða -- ætlaði að bæta við. Þegar ég byrjaði að segja nafn Bjartmars Guðlaugssonar: Bja... -- birtist mynd af Bjartmari á skjánum. Í sekúndubrot. Ég sneri að sjónvarpinu og sá það, en ungi maðurinn viðmælandi minn sneri að mér og sá það ekki. Ég benti á sjónvarpið en nafn Bjartmars stoppaði í kokinu á mér og í hröðum klippingum auglýsingarinnar var hann löngu horfinn áður en sessunautur minn náði að líta við.

Sjúklingurinn spurði hvort væri allt í lagi. Jájá, svaraði ég -- náði fljótlega að koma nafninu út: Bjartmar! Bjartmar!

Bjartmar birtist á sama sekúndubroti og ég nefndi nafn hans. Þetta gat aðeins þýtt að ég hefði hitt á óskastundina, ellegar þá að það væri einfaldlega happadagurinn minn. Mér leið eins og ég væri sigurvegari alheimsins, hvorki meira né minna.

Vaktinni lauk undir miðnætti og ég fór auðvitað beint í sjoppuna í Hagkaupum í Skeifunni og keypti mér happaþrennu. Kom svo heim og hikaði. Á maður að freista gæfunnar? Á maður að taka sénsinn á að það sé ekki vinningur, og þá sé happadagurinn góði ekki lengur happadagur? Eða á maður að veðja á að það sé vinningur? Og ef maður er þegar á hátindinum -- sigurvegari alheimsins, eins og ég sagði -- væri þá ekki að bera í bakkafullan lækinn að vinna á happaþrennu líka?

Ég ákvað að geyma bara happaþrennuna. Ef ég verð svo gamall að eiga einhvern tímann virkilega vondan dag, þá gæti það bjargað deginum að vinna of fjár á happaþrennu. Hún fór í bjargráðaboxið og þar bíður hún vonandi lengi.