Friday, December 3, 2004

Bhopal, Úkraína, dálkur ...



Dow Chemical gengst við ábyrgð vegna Bhopal-slyssins ef þessa frétt er að marka. Í dag eru einmitt 20 ár frá Bhopal-slysinu, þegar feiknalegt magn af eiturgasi rauk út úr skordýraeitursverksmiðjunni í Bhopal í Indlandi og drap þúsundir manna á augabragði. Union Carbide átti Bhopal-efnaverksmiðjuna en vildi aldrei gangast við ábyrgð. Dow Chemical keypti Union Carbide fyrir nokkrum árum og færðist ábyrgðin með í kaupunum. Mér þykir þetta stórfrétt ef sönn er. Ætli eitthvað hangi á spýtunni?



~*~*~*~*~*~*~*~*~



Ég má til með að benda fólki á þrjár frábærar greinar á World Socialist Website: þessa, þessa og þessa. Það sem er að gerast í Úkraínu er í stuttu máli þetta: Valdastétt sem byggir á fjárfestingu vestræns auðvalds er að ryðja sér til rúms á kostnað valdastéttar sem byggir á sterkum tengslum við Rússland. Vestrænar stofnanir og hægrisinnaðir þankatankar -- sem kenna sig margir hverjir við lýðræði og frelsi -- mynda klappliðið fyrir vestræntösinnuðu valdastéttinni. Með öðrum orðum, þarna takast á vestrænir (BNA og ESB) hagsmunir og rússneskir hagsmunir. Þetta er hluti af stórsókn vestræns auðvalds á fyrrum yfirráðasvæði Ráðstjórnarríkjanna og beintengt umsvifum í Georgíu, Mið-Asíu, Miðausturlöndum og víðar.

Í Úkraínu er svipað að gerast og í Júgóslavíu ekki löngu áður en borgarastyrjöld braust út þar að áeggjan vesturveldanna (sjá yfirlitsgrein). Það eru alvarlegir atburðir að gerast. Fjölmiðlar láta eins og ferskir vindar lýðræðis og frelsis blási um fúna sovéthjalla og að steinrunnið valdakerfið streitist á móti framförunum. Það er ekki svo. Þarna takast hægriöfl á við hægriöfl. Massífar áróðursvélar og kosningasmölunarvélar ræstar og ekkert gefið eftir í baráttunni um geóstrategíska legu Úkraínu, olíu- og gasleiðslur hennar og iðnaðar- og landbúnaðarþrek.



~*~*~*~*~*~*~*~*~



Dálkur á Harðkjarna.

No comments:

Post a Comment