Wednesday, December 1, 2004

Fundur áðan á Hótel Borg



Var á ágætum fundi á Hótel Borg, blaðamannafundi Þjóðarhreyfingarinnar - með lýðræði. Eins og áður hefur komið fram stendur til að birt verði í New York Times stóreflis auglýsing þar sem fram kemur að íslenska þjóðin var ekki spurð álits og íslenskum lögum var ekki einu sinni fylgt þegar Ísland var sett með á listann yfir hinar herskáu þjóðir. Þessi auglýsing er vitanlega ekki ókeypis, og þess vegna stendur yfir fjársöfnun til að greiða hana, sjá nánar hér. Ég hvet fólk til að láta þúsundkall af hendi rakna með því að hringja í 902-0000.

Á blaðamannafundinn komu hinir stórsniðugu strákar úr 70 mínútum, hressir að vanda, og ætluðu líklega að vera með sprell. Ég held að Bubbi Morthens hafi stoppað það. Gott hjá Bubba. Eftir fundinn, þegar út kom, átti ég svo stutt tal við mann sem mig minnir að hafi einu sinni verið á þingi fyrir Framsóknarflokkinn. Hann var óánægður með þetta framtak og vildi meiri hörku í stríðið, kvað svona kommakák nú ekki vera upp á púkkandi (mín orð, ekki hans). Það var kaupstaðarlykt af honum.



Ég vil minna á tónleikana í kvöld!



Annars fór ég á mótmælastöðu við Alþingishúsið ásamt fleira fólki í hádeginu. Við vorum ekkert voðalega mörg í þetta sinn. Halldór Blöndal stikaði hjá, stórstígur og fast um foldu, og "tók ekki eftir okkur". Við þurfum kannski að hafa stærri skilti næst?

No comments:

Post a Comment