Thursday, December 30, 2004

Á mínu heimili hefur verið tekin ákvörðun um að sleppa því að kaupa flugelda í ár og nota sömu peninga í staðinn til þess að styrkja hjálparstarf við strendur Indlandshafs. Þar er þeim betur varið en og skynsamlegar en gert væri með því að sprengja þá í tætlur. Ég hvet aðra til að gera það sama: Nota rakettupeningana til mannúðarmála í ár.

(Það hefur varla farið fram hjá neinum að söfnunarsími RKÍ er 907-2020, auk þess sem hægt að styðja starfið á þessari síðu.)

~~~~~~~~



Talandi um flugelda, þá hef ég alveg misst smekkinn fyrir flugeldum á undanförnum árum. Var mjög spenntur fyrir þeim sem krakki -- eins og svo margir aðrir krakkar -- en áhuginn dofnaði svo, eins og hann gerir hjá flestum. Í mínu tilfelli var þó eitt atvik sem deyfði áhugann ennþá meira: Ég fór sem sjálfboðaliði til Palestínu. Eftir andvökunætur í Jerúsalem, Nablus og Ramallah, þar sem vélbyssuskot dundu við í nokkur hundruð metra fjarlægð og fallbyssuskot þess á milli er minn smekkur fyrir gamlárskvölds-rakettum alveg farinn. Ég fékk nú ekki áfallastreituröskun eftir heimkomuna frá Palestínu, en hef orðið var við að það fer stundum um mig: Raketturnar minna mig á byssu- og fallbyssuskotin og hljóð í jarðýtum og öðrum vélum á beltum minna mig á hljóðið í skriðdrekum Ísraela. Annað, sem angrar mig í minni mæli, eru hljóðin í þotum og þyrlum, og lykt af úldnandi rusli.

~~~~~~~~



Í fréttum frá Kóreu: Natsagiin Bagabandi, forseti Mongólíu, hefur gefið Norður-Kóreustjórn loforð um að ekki verði settar upp flóttamannabúðir í Mongólíu fyrir flóttamenn frá Norður-Kóreu. Auk þess gerðist sá fáheyrði atburður að maður flúði til Norður-Kóreu. Það þykir mér nú fréttnæmt, verð ég að segja!

~~~~~~~~



Á MIFTAH.org er áhugaverð grein um kosningarnar til embættis forseta Palestínsku heimastjórnarinnar. Þar er líka þessi mynd af krakka í jólasveinabúningi að fara inn í fæðingarkirkjuna í Bethlehem. Takið eftir því hvað dyrnar sem hann er að ganga inn um eru lágar. Þetta eru aðaldyrnar á kirkjunni.

~~~~~~~~



Ögmundur Jónasson veltir fyrir sér endurþjóðnýtingu í Rússlandi. Ég get nú, fyrir mitt leyti, ekki sagt að ég kenni mikið í brjósti um oligarchana.

No comments:

Post a Comment