Tuesday, June 29, 2021

Skrópaði í sundi í fjögur ár

Mér var alveg meinilla við að fara í skólasund þegar ég var barn. Hafði lítið gaman af sundi yfirhöfuð en alveg sérstaklega illa við skólasund. Fyrstu tvo veturna sem bekkjarfélagar mínir fóru í sund, skrópaði ég. Fór með í eins og eitt eða tvö skipti, en sat fullklæddur á bakkanum allan tímann. Aldrei var neitt sagt við þessu. Spéhræðsla var aðalástæðan.

Næstu fjóra vetur -- 9 til 12 ára -- fór ég svona oftast í skólasundið, lét mig hafa það þótt mér væri illa við það. Það var reyndar ömurlegt, eins og margt annað í Landakotsskóla.

Næstu tvo vetur eftir það: áttunda og níunda bekk, skrópaði ég alveg. Mætti ekki í eitt einasta skipti. Undir vor í níunda bekk hringdi leikfimikennarinn í mig. Hann bauð mér að koma í eitt skipti í Vesturbæjarlaug og ef ég sýndi að ég væri syndur, þá yrði þetta bara látið niður falla. Ég gerði þetta, mætti, sýndi að ég kynni að synda og fór eftir það ekki í neitt sund lengi, en það er önnur saga.

Mig hefur lengi grunað að leikfimikennarinn hafi áttað sig á að þar eð sundkennsla væri skylda, og enginn hafði sagt neitt í tvö ár þrátt fyrir 0% mætingu mína, þá mundu böndin berast að honum fyrir að ég hafi skrópað. Og hann hafi ekki getað losað sig úr þeirri klípu -- nema með því að losa mig úr henni. Ég hafi þannig notið þess að annar væri ábyrgur en hefði forsómað sína plikt.

Tuesday, June 22, 2021

Lágmarksstærð

Lög um lágmarksstærð sveitarfélaga eru með verri hugmyndum sem ég hef heyrt, fyrir hinar dreifðu byggðir. Það er jafnvitlaust og lög um lágmarksstærð þjóðríkja, sem mundu skikka Ísland til að sameinast Noregi.

Þið spyrjið kannski af hverju. Vegna þess að það er alltaf sama sagan, þegar fámennara sveitarfélag sameinast fjölmennara, verður það alltaf afgangsstærð. Skólarnir eru til dæmis sameinaðir og öll börnin flutt á milli í skólabíl, miklu lengri vegalengd en ella hefði verið. Og sama með fleiri stofnanir. Úti um allt land er að finna samfélög í fámennari kantinum sem hafa selt frumburðarréttinn frá sér fyrir baunadisk og iðast þess æ síðan. Það væri nær að hlusta á þeirra reynslu.

Ríkið hvetur smærri sveitarfélög til að sameinast. Það er bull. Ef sveitarfélög hafa hag af sameiningu og íbúarnir vilja hana, þá þarf ekki að hvetja til hennar. Það þarf ekki að lokka fólk til einhvers sem er fýsilegt í sjálfu sér.

Tal um samlegðaráhrif er bull. Ef þau eru einhver eru þau bara til hagsbóta fyrir stærra sveitarfélagið. Auk þess er oft nóg að hafa samstarf til að ná fram hugsanlegri hagræðingu, og sameiningin er þá ástæðulaus. Rétt eins og það er hægt að starfa með öðru fólki án þess að giftast því líka.,

Jæja, bull og bull. Það yrðu að vísu líklega mjög mikil og holl samlegðaráhrif ef sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu sameinuðust. Þar eru bæði skriffinnskubákn sem mætti skera niður, og samgöngu- og skipulagsmál sem eru mikil sóknarfæri í að samræma.

Tuesday, June 15, 2021

Illa þýddir matseðlar

Við vinirnir leituðum lengi -- asnalega lengi -- áður en við fundum veitingastað sem við gátum sezt inn á, í Beograd í Serbíu, um árið. Matseðillinn var plastaður og plastið stamt af húðfitu annarra gesta. Húsgögnin hvít úr plasti, eins og sjást oft í görðum. Enska þýðingin var ekki gert af mikilli kúnst, en ég valdi "greeled trout" af seðlinum -- glóðarsteiktan silung. 300 grömm, það kom fram. Mér var síðan borinn stór diskur, hlaðinn steiktum sardínum úr dós. Meðlæti var ein sneið af sítrónu og ein lítil visk af steinselju. Og stór Jelen Pivo.

En þegar ég var barn -- kannski tíu ára -- vorum við pabbi og systkini mín norður í Mývatnssveit og fórum þar út að borða. Á Hótel Reykjahlíð. Í enska dálkinum á hinum eftirminnilega matseðli gat m.a. að líta "grilled throat" og "tenderlion". Ég vildi að ég hefði stolið eintaki.

Tuesday, June 8, 2021

Í sátt við íhaldið

Þegar Sjálfstæðismenn tala um að það "þurfi" að hafa "sátt" um eitthvað, þýðir það að þeir þurfi að vera sáttir við það sjálfir. Og þeir segja það ekki nema þeir séu það ekki. Aldrei töluðu þeir um að það þyrfti sátt um sölu Símans, eða um Kárahnjúkavirkjun, og hvað þá fjárlagafrumvarpið. Það virkar ekki þannig.

Ætli sé almenn sátt við að hafa kvóttakerfið óbreytt? Er sátt um gömlu stjórnarskrána? Eða um aðildina að Evrópska efnahagssvæðinu? Eða NATÓ?

Það breytist aldrei neitt ef það verður að vera í sátt við íhaldið og auðvaldið. Og þeir vita það best sjálfir. Þannig að fjandinn hafi þeirra sátt, þeirra hagsmuni og þeirra villandi blaður.

Tuesday, June 1, 2021

Ugluskoðun í Laugardalnum

Hann sagði konunni að hann væri í fuglaskoðunarferð. Settist svo á bekk í Laugardalnum með vini sínum og með eina viskíflösku í nesti ... og beið eftir að sjá uglu.