Saturday, December 4, 2004

Enn um Úkraínu og um réttmæt stríð og óréttmæt



Í Úkraínu takast á tvær valdablokkir: Ein er tengd og háð Rússlandi, hin er tengd og háð Bandaríkjunum og Evrópusambandinu. Hvorug blokkin ber hagsmunu úkraínskrar alþýðu manna fyrir brjósti.

Það er gamall leikur hjá vestrænum heimsvaldasinnum að stilla upp stjórnmálamönnum (í þessu tilfelli Jústsénkó) til höfuðs rotinni og spilltri valdaklíku landa, þar sem vestræn heimsvaldastefna seilist til áhrifa. Þessir stjórnmálamenn eru síðan básúnaðir sem vinir lýðræðis og mannréttinda, öfugt við gömlu stalínistana og vinnubúðasósíalistana. Settar eru á fót "sjálfstætt starfandi" hreyfingar sem ýmist eru á mála hjá vestrænum hagsmunaaðilum, fá ráðleggingar hjá þeim eða fyrirgreiðslu, eða eru beinlínis útibú frá þeim. Oft er hamrað á því, hvað gamla kerfið sé ægilegt, til þess að fólk haldi að "það geti nú ekki versnað" og að "þessi huggulegi, vestrænt menntaði maður hljóti nú að færa betri tíð, fyrst hann hlífir ekki gömlu flokksgæðingunum".

Jústsénkó fékk sennilega atkvæði fleiri kjósenda en Janúkóvitsj. Janúkóvitsj er sennilega verri leiðtogi en Jústsénkó. Það gerir Jústsénkó ekki sjálfkrafa góðan valkost. Hvað ef báðir eru ægilega slæmir kostir? Í Úkraínu virðist, því miður, sem sú sé raunin.

~*~*~*~*~*~*~*~*~*~*~



gefnu tilefni ætla ég að tjá mig örlítið meira um það sem Maó formaður sagði um réttmæt stríð og óréttmæt, og hvers vegna ég sagði það vera umhugsunarefni. Það er umhugsunarefni.

[Skáletrað = tilvitnun í Rauða kverið, s. 62]

Öll stríð, sem stuðla að framförum, eru réttmæt, og öll stríð sem hefta framfarir, eru óréttmæt.

Það er framför, fyrir fólk sem er ófrjálst, að fá frelsi. Ef þetta fólk er þjóð sem fær frelsi undan kúgun annarrar þjóðar, eða stétt sem fær frelsi undan annarri stétt, þá er það framför. Þannig er þjóðfrelsisstríð réttmætt, sem og mörg byltingarstríð, svo dæmi séu tekin. Þannig var frelsisstríð Bandaríkjanna réttmætt, einnig franska byltingin, einnig rússneska byltingin. "Stríð er framhald stjórnmálanna" segir Maó á öðrum stað -- stjórnmál + ofbeldi = stríð; stríð - ofbeldi = stjórnmál. Ef framförum er náð án ofbeldis er það gott. Ísland fékk frelsi undan Danmörku án beins ofbeldis. Það var gott. Það var framsækið. Það var framför fyrir Íslendinga. Bandaríkin fengu frelsi undan Bretum með beinu ofbeldi. Eða réttara sagt, þá var réttmætum kröfum þeirra svarað með ofbeldi, og þá hlutu þeir að verja hendur sínar. Þeir höfðu sigur, þeir fengu þjóðfrelsi, það var gott. Það var framsækið. Í Frakklandi 1789 og Rússlandi 1917 var ófremdarástand; alþýða manna var í nauðum og forneskjulegt einveldið hafði ekki tök á að friðþægja hana lengur. Það reyndi að berja hana niður í staðinn. Alþýðan varði hendur sínar, svaraði árásum og vann sigur: Sá sigur var réttmætur og framsækinn. Nú er þess að geta, að í báðum þessum löndum vann gagnbyltingin sigur á byltingunni. Það breytir því ekki að byltingarnar sjálfar voru bæði réttmætar og framsæknar.



Vér kommúnistar látum heldur ekki þar við sitja, vér tökum virkan þátt í réttlátum stríðum.



Þegar barist er fyrir réttmætum og framsæknum málstað, hvort sem það er á ritvelli eða vígvelli eða í dómsal, er það þá ekki bæði rétt og skylt ábyrgum manni sem vill ástunda réttmæta og framsækna breytni, að veita þeim lið sem á góðan málstað að verja? Ég held að það svari sér sjálft. En athugum:



Heimsstyrjöldin fyrri var til að mynda óréttmætt stríð, þar sem báðir aðilar börðust fyrir hagsmunum heimsvaldasinna.



Oft er það svo að á ferðinni er "false dilemma" -- dæminu er stillt upp eins og um tvo möguleika sé að velja, þegar verið getur að það sé þriðji möguleiki og að hinir tveir séu jafnvel ekki eins aðskildir og látið er líta út fyrir. Heimsstyrjöldina fyrri tekur Maó sem dæmi, en sama má segja um heimsstyrjöldina síðari og fjöldann allan af öðrum stríðum. Reyndar langflest stríð, ef út í það er farið. Þegar togstreitan snýst um hagsmuni valdastétta, þar sem valdastétt eins lands tekst á við valdastétt annars lands, þá er hin opinbera togstreita milli tveggja valdastétta. Á vígvellinum takast hins vegar á verkamenn hvorrar þjóðar með stígvél og byssustingi. "Rich man's war, poor man's fight", eins og sagt er. Heima fyrir er stríðið notað sem skálkaskjól fyrir atlögu að frelsi og mannréttindum, sem yfirleitt eru "grossly out of proportion" við það sem tilefnið kann að gefa til kynna. Með öðrum orðum, í heimsvaldastríði milli valdastéttar/ríkis A og valdastéttar/ríkis B, eru fórnarlömbin undirstéttirnar a og b. Þetta er stríð valdastéttarinnar A<->B innbyrðis og gegn undirstéttinni ab sameiginlega. Þegar svo stendur á, að undirstéttin er beitt ofbeldi, hvað er þá eðlilegra en að hún reyni að sporna gegn því?



Leiðin til að andæfa slíku stríði er að gera allt, sem í voru valdi stendur, til þess að koma í veg fyrir það, áður en það skellur á, og að svara ranglátu stríði með réttlátu stríði hvenær, sem færi gefst, eftir að það er hafið.



Hindra stríðið áður en það brýst út. Ef henni heppnast það ekki, og atlagan gegn henni hefst engu að síður, þá hlýtur hún að verja hendur sínar, ekki satt? Það er þá stigs munur en ekki eðlis, hvort sú barátta fer fram fyrir dómstólum, á ritvelli eða á vígvelli. Hún er réttmæt og framsækin. Óþarft er að taka fram (geri það samt til að taka af tvímæli) að fráleitt er að beita beinu ofbeldi ef komist verður hjá því!



Að þessu sögðu þætti mér fróðlegt að vita hvað fólki finnst um þau ummæli að ég sé "farinn að réttlæta stríðsrekstur".

No comments:

Post a Comment