Thursday, March 31, 2016

"Hæfi" er marklaust orð

Ef fjármál maka eru manni óviðkomandi vegna þess að maðurinn er með aðra kennitölu en makinn, þá er "hæfi" ógegnsær orðaleppur sem villir um fyrir fólki.

Svipað og fyrir hrun (og kannski ennþá?) þegar t.d. feðgar töldust ekki vera "tengdir aðilar".

Friday, March 11, 2016

Píratar eru borgaralegur flokkur

Það er í raun ekkert skrítið við það að Píratar sópi svona að sér fylginu eins og undanfarið. Það er eins og þeir hafi á sér áru sem margir túlka sem eitthvað annað en gamla dótið á Alþingi. Og þeir eru vissulega eitthvað annað, að sumu leyti, -- en ekki eins ólíkir því gamla eins og fólk heldur líklega.

Þeir hafa á sér áru róttækni, áru rökfestu og heiðarleika, jafnvel óttaleysis frammi fyrir gamla kerfinu. Ætli það lýsi ekki ágætlega útbreiddum hugmyndum um þá? -- Nú ætla ég ekki að efa heiðarleika þeirra og óttaleysi. Rökfestan ætla ég hins vegar að sé ofmetin og róttæknin frekar lítil.

Það er tiltölulega lítill vandi að vera rökfastur þegar maður er í stjórnarandstöðu og það þýðir ekki endilega að maður verði það líka í stjórn. Saga Vinstri-grænna sýnir það nokkuð vel. Það er kannski ekki að marka þegar um er að ræða annan flokk -- en afstaða Pírata til ESB afhjúpar einkennilega órökrétta stefnu: þeir segja að það sé ekki hlutverk stjórnmálamanna að hafa afstöðu til ESB, heldur fyrst og fremst að tryggja kosningar og að "hlutlausar" upplýsingar liggi fyrir. Hvílík firra. Til að byrja með, þá er það einmitt hlutverk stjórnmálamanna að boða stefnu og reyna að fá fólk til fylgis við hana. En ekki hvað? Í tilfelli ESB eru bara tvær stefnur: með og móti. Það liggja þegar fyrir meira en nægar upplýsingar til að velja þar á milli. Fyrir utan þetta, eru "hlutlausar" upplýsingar ekki til í stjórnmálum, heldur draga þær alltaf dám af þeim farvegum sem þær hafa runnið eftir. Og það er bara lýðskrum að tala um kosningar eins og þær séu heilagur gral, eins og það sé lýðræðislegt að kjósa um loðnar spurningar, eða þá að kjósa um að afnema lýðræðið. Kosningar geta nefnilega vel verið ólýðræðislegar.

Þá er það hin meinta róttækni. Um síðustu helgi héldu Píratar einhvers konar vinnufund um efnahagsmál. Án þess að ég ætli mér að gerast einhver ráðgjafi þeirra, þá hefði þeir átt að halda þannig fund áður en þeir stofnuðu flokkinn. Efnahagsmálin eru burðarbitinn í alvöru stefnuskrá. Flokkur sem er ekki með efnahagsstefnu er bara tækifærissinnaður. Fyrir utan stefnuskrá Alþýðufylkingarinnar eru ekki nema einn eða tveir flokkar á Íslandi sem ná því máli að vera með alvöru efnahagsstefnu -- það eru Samfylkingin og líklega Sjálfstæðisflokkurinn. Stefnuleysi Pírata í efnahagsmálum sést best á því að þeir rúma anarkista og sósíalista jafnt og krata og jafnvel frjálshyggjufífl. Þessir hópar eru ósamrýmanlegir, nema þeir komi sér saman um eitthvað sem er ekki neitt. Það verður skrítið bragð af grautnum sem þau kokka saman úr því.

Á Íslandi hefur stéttarvitund alþýðunnar hnignað áratugum saman, sem er að því leyti eðlilegt, að hér hefur alþýðan ekki átt nothæfan stéttabaráttuflokk síðan um miðja 20. öld. Það sem lifir af íslensku vinstrihreyfingunni er flest komið á eftirlaun, fyrir utan auðvitað Alþýðufylkinguna. Gagnrýni á kapítalismann er og hefur lengi verið jaðarskoðun á Íslandi. Hana hefur vantað hjá mest áberandi talsmönnum hinna svokölluðu vinstriflokka.

Á þessum tíma hefur áróður borgaralegra og smáborgaralegra hugmynda vaðið uppi og markað djúp, borgaraleg spor í stéttarvitund mjög stórs hluta þjóðarinnar. Sáð eitruðum fræjum. Haldið fast að fólki ranghugmyndum um kapítalisma og um sósíalisma. Sáð einstaklingshyggju, græðgi, smásálarlegri spillingu ... að þessi gildi séu ekki allsráðandi í þjóðfélaginu gæti virst skrítið, en er auðvitað vegna þess að þau eru flestu eðlilegu fólki óeðlileg.

Það hlaut að koma að því að fólk gæfist í massavís upp á annars vegar purrkunarlausum boðberum auðvaldsins, öflunum sem núna eru í ríkisstjórn, og hins vegar á gagnslausri, borgaralegri stjórnarandstöðu sem kallar sig "vinstri" en meinar ekkert með því og hefur ekki upp á neitt annað að bjóða en áframhald kapítalismans, -- og nægir þá að minna á síðasta kjörtímabil.

Það hlaut að koma að því. Og Píratar eru þá í þessari sérstöku stöðu: pólitísk jómfrú, óspillt af valdastólum; eiga skörulega talsmenn sem koma vel fyrir í fjölmiðlum -- og svo með þessa hipp og kúl áru, sem minnir á pönk eða einhvers konar uppreisn. En boðskapurinn, stefnan, kjarninn í stefnuskránni: efnahagsstefnan ... lætur á sér standa. Með öðrum orðum: Píratar bjóða ekki upp á neitt annað en áframhaldandi kapítalisma, alveg eins og hinir flokkarnir á Alþingi.

Þeir eiga örugglega eftir að fá marga menn kjörna á næsta ári. Og þeir munu örugglega taka til í einhverjum úreltum lögum og reglugerðum og margir munu fagna. Þeir munu örugglega koma mörgu góðu til leiðar. Eins og hinir flokkarnir hafa gert þegar þeir hafa verið í stjórn. En þeir munu ekki valda hér þeim nauðsynlegu vatnaskilum í efnahagsstjórn að brjóta auðvaldið á bak aftur, né einu sinni reyna það. Áran er bara ára. Hún er ímynd, meira í ætt við markaðssetningu heldur en pólitík. Hún virðist virka vel, en eftir nokkur ár er ég hræddur um að margir hafi orðið fyrir vonbrigðum. Og margir aðrir halda örugglega áfram að klappa fyrir þeim eins og fótboltaliði. Eins og er hjá hinum flokkunum.

Á meðan munum við í Alþýðufylkingunni halda áfram að sækja í okkur veðrið með stefnu okkar, sem ein íslenskra stefnuskráa sker sig úr borgaralegu flokkunum með skýrri sýn og efnahagsstefnu, sem vísar veginn út úr kapítalismanum og kreppunni og í átt til jöfnuðar og félagslegs réttlætis. Öfugt við alla hina flokkana.

Tuesday, March 8, 2016

Áttundi mars

Alþjóðlegur baráttudagur kvenna fyrir friði og jafnrétti er í dag. Af því tilefni er baráttufundur í Iðnó, sem meðal annars má lesa um hér, sem ég hvet fólk til að mæta á þótt ég komist ekki sjálfur.

Ingen klassekamp uden kvindekamp!
Ingen kvindekamp uden klassekamp!

Thursday, March 3, 2016

Ekki mannvonska, aðallega heimska

Flestir rasistar eru ekki "vont fólk" heldur virðulegir, sómakærir og illa upplýstir.

Það er feilskot að saka Ásmund Friðriksson um mannvonsku. Hann er aðallega hálfviti sem óábyrgt fólk hefur komið til of mikilla metorða.

Það þarf að taka það til alvarlegrar skoðunar, hvort Ásmundur þurfi ekki að læra að halda kjafti.

Wednesday, March 2, 2016

DíaMat: umsókn farin af stað

DíaMat - félag um díalektíska efnishyggju var stofnað í fyrra. Ég er formaður þess. Í gær póstlagði ég formlega umsókn um að það fái skráningu sem lífsskoðunarfélag. Áhugasamir geta lesið greinarstúf um það hér og geta líka gefið sig fram í tölvupósti: vangaveltur@yahoo.com

SA, lífeyrissjóðir og hagsmunir almennings

SA segja: „Líf­eyr­is­sjóðirn­ir gæta hags­muna al­menn­ings í land­inu“ - nú skal ég ekki efa það, að fólk í SA og fólk sem er á launum hjá lífeyrissjóðum eða öðrum fjármálafyrirtækjum trúi þessu sjálft. En ég held að þessi fullyrðing hljómi hlægilega í eyrum margra, ef ekki flestra annarra.

(Til samanburðar lýsa SA sjálfum sér svona: „Samtök atvinnulífsins eru í forystu um samkeppnishæft rekstrarumhverfi sem stuðlar að arðbæru fjölbreyttu og ábyrgu atvinnulífi sem bætir lífskjör allra.“ - má ekki líka skilja þetta sem „gæta hagsmuna almennings í landinu“?)

Staðreynd: Beinir fulltrúar auðvaldsins eiga urmul fulltrúa í stjórnum lífeyrissjóða.
Spurning: Ætli þeir gæti ekki hagsmuna umbjóðenda sinna?

Staðreynd: Lífeyrissjóðirnir hafa tapað gríðarlegu fé í verkefnum sem „einhverjir“hafa grætt gríðarlega á, og á að kaupa ónýt verðbréf sem „einhverjir“ hafa þá sloppið undan.
Spurning: Er hægt að útskýra það allt með klaufaskap?

Fullyrðing: Uppsöfnunarsjóðir með ávöxtunarkröfu eru ekki bjarghringur heldur myllusteinn fyrir almenning í landinu. Ávöxtunarkrafan þýðir annars vegar brask, þ.e. umsvif sem annað hvort tapa peningum eða græða á okurvöxtum eða arðráni. Hins vegar þýðir hún kröfu um síaukinn hagvöxt, sem getur ekki gengið upp vegna þess að kapítalisminn er ekki eilífðarvél heldur háður eigin tortímingu í formi kreppu. Kreppa kemur nokkrum sinnum á hverri starfsævi og í hvert skipti tapast verulegur hluti uppsöfnunarsjóða.

Þegar maður leggur saman iðgjaldið og peningana sem við borgum í vexti af lífeyrissjóðslánunum - hvað ætli gegnumstreymiskerfi mundi þá kosta í samanburðinum? Það væri áhugavert að vita það.

Og talandi um áhugavert: lesið ályktun Alþýðufylkingarinnar um lífeyrismál. Hún er áhugaverð!

Tuesday, March 1, 2016

Túristablaðran: Hvar endar þetta eiginlega?

Isavia var að uppfæra spá um fjölgun ferðamanna, úr 22% aukningu í 37% aukningu - miðað við í fyrra. Til stendur að nota 20 milljarða í viðbyggingar við Leifsstöð á árinu. Hvar endar þetta eiginlega? Hvað getur þetta land tekið við mörgum?

Og: Ef það gefur á bátinn í efnahagskerfi landanna sem ferðamennirnir koma frá, er þá flúðasiglingaferðin til Íslands ekki eitt af því fyrsta sem fólk hættir við að fá sér?

Spádómur: Í næstu kreppu (sem er kannski ekki langt undan) mun ferðamönnum til Íslands fækka um helming miðað við árið á undan. Hvað verður þá um öll nýju, fínu hótelin sem nú eru í byggingu?

Fordæmið er ekki langt undan: Spánn er ekki ennþá búinn að rétta úr kútnum eftir að þýskir ellilífeyrisþegar hættu að kaupa sér annað heimili í sólinni fyrir 7-8 árum síðan. Það er ekki nóg að byggja bara meira og meira upp af gistirýmum og öðrum innviðum. Það þarf líka að segja stopp á einhverjum tímapunkti. Stjórnvöld þurfa að gera það. Annað væri óábyrgt.