Tuesday, March 30, 2021

20 ára afmæli

Í dag, 30. mars, eru tuttugu ár síðan við Bessi frændi fórum saman á Klepp og sóttum um vinnu. Við vorum ráðnir á staðnum og höfum unnið þar síðan. Ég segi ekki að þetta sé eins og í gær, en það er samt skrítið að það séu komin tuttugu ár.

Rúm níu ár á hjúkrunargeðdeild, hálft ár á öryggisgeðdeild og rúm tíu ár á endurhæfingargeðdeild. Þetta hefur verið lærdómsríkur tími og ég er þakklátur fyrir margt. Sjúklingarnir sem ég hef annast eru samt það sem hefur gert þetta allt þess virði. Þvílíkur hópur af góðu, skemmtilegu og áhugaverðu fólki.

Tuesday, March 23, 2021

Þegar sjónvarpið datt af sjálfu sér

Við fluttum þegar ég var á fimmta ári, og höfðum auðvitað með okkur gamla sjónvarpið frá Suðurgötu. Því var komið fyrir á stigapallinum, á litlu, rauðu borði, og sófa rétt hjá. Nú, einn daginn -- ég var 5-6 ára -- sat ég og horfði á sjónvarpið þegar það datt allt í einu fram fyrir sig, beint á gólfið. Og lenti á uppáhalds He-Man-karlinum mínum. Skjárinn brotnaði auðvitað, og He-Man-karlinn líka. Það var enginn til vitnis um þetta nema ég, og ég sver að ég kom ekki við tækið. En hver haldið þið að trúi 5 ára krakka sem heldur því fram að fyrsta lögmál Newtons hafi verið brotið? Ekki mundi ég gera það... En skrítið var það.

Tuesday, March 16, 2021

Stúlkan í rauða kjólnum

Það var á ofanverðum tíunda áratugnum, ég var á menntaskólaaldri, það var kvöld og ég var úti í garði heima hjá mér. Úr átt frá Ásvallagötu heyrðist glaumur, eins og þar væri samkvæmi í gangi. Þá kom gangandi lítill hópur af fólki í sparifötum og spurði hvort ég hefði séð stelpu. Stelpu? hváði ég. Já, við erum að leita að henni, sögðu þau, hún er ljóshærð, í rauðum kjól og líklega með svarta tösku og hún ráfaði eitthvað frá partíinu. Nei, sagði ég, ég hef því miður ekki séð hana. Og þau héldu áfram og hurfu fyrir horn.

Nokkrum mínútum síðar kom annar lítill hópur í sparifötum gangandi. Þau spurðu: Heyrðu, hefður séð ljóshærða... Ég botnaði: ...stelpu? Þau: Já. Ég: Í rauðum kjól? Þau: Já, einmitt! Ég: Hélt hún á svartri handtösku? Þau: Já! Hefurðu séð hana? Ég: Nei, því miður hef ég ekki séð hana...

Tuesday, March 9, 2021

Þegar Kölski/Grýla gekk suður Suðurgötuna

Sú var tíðin að ég var svo kúl, að ég gekk á kúrekastígvélum hvunndags. Ég varð þess fljótlega var, að hælarnir slitnuðu mun hraðar en aðrir hlutar sólans. Eðlilega, enda steig ég mest í þá. Einu sinni setti Hafþór skósmiður í Garðastræti nýja hæla, og setti í leiðinni litlar skeifur undir. Bara þunnar málmplötur skrúfaðar aftast undir hælinn. Þær hægðu auðvitað mjög á slitinu. Auðvitað, hugsaði ég. Skeifur.

Þegar þær voru uppurnar, fór ég í Brynju og keypti stóra skinnu, sagaði hana og boraði og gerði þannig úr henni tvær skeifur sem ég gat sjálfur skrúfað undir stígvélin. Algjör snilld. Nú, svo tók ég einu sinni bensín í Hveragerði og rak þar augun í alvöru skeifur til sölu. Skeifur undir hesta. Keypti einn gang af skaflaskeifum. Þær gætu komið sér vel.

Það liðu nokkrir mánuðir. Það kom vetur, það kom frost, það kom hláka og það kom logndrífa yfir hlákuna. Og ég ætlaði út. Logndrífa á hláku gerir auðvitað manndrápshálku, en ég var viðbúinn: Dró fram hermannastígvél og dreif skaflajárnin undir framanverð. Gekk svo út, förinni var heitið eitthvað í suðurátt og ég gekk því niður Kirkjugarðsstíg og svo suður Suðurgötu. Skaflajárnin gerðu að veggripið var eins og á sumardegi. Fór á fullri ferð í beygjur og haggaðist ekki á svellinu. Gekk svo hvatlega.

Slóð Kölska

Þegar ég leit um öxl, genginn spölkorn í snjónum, sá ég að þar sem venjulega hefðu verið venjuleg spor, voru auðvitað för eftir skeifurnar. Eins og hófför. Eins og spor eftir tvo hófa. Enginn gengur á tveimur hófum, nema auðvitað Grýla.

Ég tók nú skeifurnar undan stígvélunum þegar ég kom heim. Vildi ekki villa um fyrir sakleysingjum sem gætu dregið hjátrúarfullar ályktanir.

Enginn nema Grýla? Í Bretlandi sáust reyndar spor Kölska í febrúar 1855 og þau voru ekki ólík tveimur skeifum. Kannski hef ég óvart ráðið gátuna um hvernig stóð á þeim...?

Tuesday, March 2, 2021

Lögmál hárs og skalla í Kreml

Það getur varla verið tilviljun að leiðtogar Rússlands hafa til skiptis verið með hár og skalla í marga mannsaldra:

Pútín er með skalla, Medvedev með hár .. Pútín aftur með skalla.
Jeltsín var með hár.
Gorbatsjov með skalla.
Chernenkó var með hár.
Andrópov var með skalla.
Brésnév var með hár.
Khrúshchév var með skalla.

Khrúshchév, Brésnév, Andrópov, Chernenko

Nú, Stalín var auðvitað með hár og Lenín var með skalla.
Nikulás II var með hár.
Alexander III var með skalla.
Alexander II var með hár.
Nikulás I var með skalla...

Alexander I, Nikulás I, Alexander II, Alexander III, Nikulás II

...og Alexander I var líka með skalla. Hann var keisari 1801-1825. Á undan honum voru konur, börn og karlar sem gengu með parrukk, svo spurningin verður ómarktæk.