Tuesday, December 14, 2004

Nánar um andspyrnuna í Íraq



Það er kannski rétt að ég útlisti örlítið nánar skoðun mína á írösqu andspyrnunni. Hún berst fyrir réttlátum málstað og fallnir andspyrnumenn eru ótvíræðir píslarvottar. Frelsisstríð Íraqs er þjóðfrelsisstríð og sem slíkt bæði réttmætt og framsækið. En hversu langt nær réttmætið og framsæknin? Það er nú spurning. Að svo miklu leyti sem andspyrnan berst gegn hernámsliði, innrásarher, málaliðum, leppum, strengjabrúðum og quislingum, þá er hún bæði framsækin og réttmæt. Er ofbeldi þeirra réttlætanlegt? Látum einstök atvik liggja milli hluta, en sá aðili sem er að beita ofbeldi í Íraq er bandaríski herinn. Með dyggum stuðningi Íslands. Þegar Íraqar í andspyrnuhreyfingunni eru sagðir almennt herskáir er það einfaldlega ósatt. Sá sem er í sjálfsvörn eða nauðvörn og er beittur ofbeldi hefur skilyrðislausan rétt til að verja sig. Erum við Íslendingar að leggja okkar af mörkum til að verja þá fyrir ofbeldi Bandaríkjahers? Nei. Fyrst við verjum þá ekki höfum við siðferðislega ekki efni á að fordæma þá þegar þeir gera það sjálfir.

Hver getur áfellst þann, sem er króaður í horni og standa á honum spjótin, að hann freisti þess af örvæntingu að verja hendur sínar? Ég spyr. Hver mundi ekki verja hendur sínar?



En hvað tekur við? Ef quislingurinn Allawi er hrakinn út í hafsauga, sem ég vona að hann verði, hvað tekur þá við? Klerkaveldi? Lýðræði? Sambandslýðveldi? Ég veit það náttúrlega ekki.

Klerkaveldi væri alveg afleitt. Nýtt sekúlar gerræðisríki Baathista eða svipaðra kóna væri líka afleitt. Þær fylkingar andspyrnunnar sem berjast fyrir öðru hvoru af þessu hætta að vera framsæknar um leið og Bandaríkjaher er farinn. Sá sem berst fyrir afturför í Íraq (að það fari aftur í sama farið eða veðri stjórnað svipað og Íran) berst fyrir afturhaldi, afturför.

Fulltrúalýðræði að vestrænni fyrirmynd væri í sjálfu sér ágætt, en spurning hvort það getur komist á við þessar aðstæður. Það verður í fyrsta lagi að vera sanngjarnt, í öðru lagi að vera í umboði þjóðarinnar, og í þriðja lagi verður það að spretta upp úr jarðvegi þeirrar þjóðar sem það á að þjóna. Stöndug millistétt er nauðsynleg til að borgaralegt lýðræði geti gengið í alvörunni. Það mætti kannski hugsa sér sambandslýðveldi, hvernig sem það væri útfært. Hvort tveggja væri framför frá því sem nú er og því framsækið markmið að berjast fyrir. Því miður er það býsna lítið raunhæft.

Svo mikið er víst að Bandaríkjamenn eiga ekki eftir að koma á stjórnarfari í Íraq sem Íraqar sætta sig við. Hvers vegna ekki? Nú hafa Bandaríkjamenn lagt út í kostnaðarsamt stríð. Þeir munu ekki sætta sig við að koma út í tapi. Þeir eru að leggja undir sig olíulindir Íraqa og sleppa þeim ekki svo glatt. Það var nú stóri glæpurinn hans Saddams, að hann þjóðnýtti olíulindirnar. Hvað sem öðrum glæpum hans leið, þá var það gott hjá honum. Hvaða lýðræðisþjóð getur sætt sig við að þjóðarauður í jörðu sé gefinn útlendingum á spottprís? Auðvitað þjóðnýta helvítið!

Bandaríkjastjórn á sína heimsvaldahagsmuni og þeir eru andstæðir hagsmunum írösqu þjóðarinnar. Það er ekki hægt að gera báðum til geðs.

Svo ég haldi mig við efnið: Hvað svo? Eitt stjórnarform var eftir óupptalið: Alþýðulýðveldi. Sekúlar, lýðræðislegt og sósíalískt alþýðulýðveldi. (Nei, ég er ekki að tala um stalínískt gerræðisríki með þrælabúðum og hreinsunum!)

Hvað þyrfti til að koma á alþýðulýðveldi í Íraq?

Það þyrfti stjórnmálaflokk sem stefndi að því, hefði raunhæfa stefnuskrá, væri trúr írösqu þjóðinni og írösqu vinnandi fólki, og höfðaði til vinnandi fólks á forsendum þess sjálfs. Nánar tiltekið vinnandi fólks í þróunarlandi sem er aftarlega á merinni að mörgu leyti. Ég er semsé að tala um maóistaflokk: Íraq sárvantar maóistaflokk.



Gúgl-leit að írösqum maóistum skilaði engri niðurstöðu. Ég veit m.ö.o. ekki til þess að til sé maóistaflokkur í Íraq. Hvers vegna maóista? Ég held að maóismi sé sú byltingarkenning sem eigi við í þriðja heiminum. Varla þarf að taka fram að ég er ekki að tala um að taka upp hverja einustu kreddu eftir Maó sjálfum og troða óbreyttri upp á Íraq. Ég er að tala um að taka maóismann sem heildstætt kerfi og staðfæra það fyrir Íraq. Samanber Prachanda-leiðina sem maóistar í Nepal fara. Það er kominn maóistaflokkur í Afghanistan (sem ég vona að fari að láta til sín taka) og nú er Íraq næst á dagskrá.

Maóistaflokk Íraqs, takk fyrir!





Þangað til fylgist ég dapur í bragði með því hvernig hugrakkir synir Fallujah-borgar eru brytjaðir niður með stórvirkum vinnuvélum og hvernig skvapkenndir og værukærir kolbítar á Íslandi bora í nefið meðan þeir jánka því að við Íslendingar tökum þátt í þessum glæp. Þessum glæp gegn mannkyni.

No comments:

Post a Comment