Tuesday, November 30, 2021

Verðfall í fordæmalausri eftirspurn

Fyrir nokkrum árum kom frétt eitt haustið um það vandamál að hér á landi væri til allt of mikið af lambakjöti. Ekkert hagkerfi annað en kapítalismi gæti kallað það vandamál. Og sama haust kom frétt um skort á lambakjöti. Sama haust!

Svona burtséð frá covid, þá hefur túrismi vaxið fordæmalaust undanfarin ár. Annar hver ferðamaður flýgur heim í lopapeysu. Og á sama tíma fellur verð á íslenskri ull svo, að margir bændur vildu helst vera lausir við að rýja!

Hvers konar rugl-hagkerfi er þetta eiginlega??

Tuesday, November 23, 2021

Hneyksli þvert yfir Ölfusá

Það var frétt í gærkvöldi um fyrirhugaða nýja brú yfir Ölfusá. Framkvæmdin verður svokölluð PPP. Það stendur fyrir Public-Private Partnership. Það þýðir langtíma-hagsmunasamband opinberra aðilja við einkaaðilja, eða með öðrum orðum auðvaldið.

Svona brú er dæmigerð slík framkvæmd. Auðvaldið "tekur að sér" framkvæmd sem "hefði annars ekki verið farið í".* Þessu er stillt þannig upp til að réttlæta beina aðkomu auðvaldsins. Hvað vitum við annars hvað hefði annars verið? Það er pólitísk ákvörðun. Það er bara þessi ríkisstjórn sem hefði annars ekki byggt þessa brú, höfum það á hreinu.

Tilgangurinn er að koma peningum í lóg: í arðbæra fjárfestingu. Þeir væru ekki að því annars. Og hvaðan haldið þið að gróðinn komi?

[* ekki bein tilvitnun]

Tuesday, November 16, 2021

Leigið bara árnar

Þessi ríki Breti sem er að kaupa upp jarðir á Íslendi, að sögn til að vernda villtan lax, er að vonum umdeildur. Það hlýtur bara að vera hindrun fyrir hann. Ætli þetta snúist um eitthvað meira en að vernda lax? Því ef það er það sem þetta snýst um hjá honum, hvers vegna tekur hann ekki frekar laxveiðiárnar á leigu? Það hlyti að mælast betur fyrir og vera auðveldara og gera sama gagn. Af hverju gerir hann það ekki?

Tuesday, November 9, 2021

Stríð fólksins

Valdaránið í Mjanmar? Kommúnistaflokkur Burma lýsir yfir stríði fólksins.

Tuesday, November 2, 2021

Sameining sveitarfélaga

Það er mikið talað um sameiningu sveitarfélaga og sjaldan á neikvæðum nótum í opinberri umræðu. Þó heyrir maður hvaðanæva að um neikvæða upplifun íbúa minni sveitarfélaga, sem sameinuðust stærri. Aðallega niðurskurð á þjónustu. Ætli það sé þessi hagkvæmni sem sóst er eftir? Að skera bara niður þjónustu í litlum byggðum?

Á sama tíma er undarlega lítið talað um sameiningu stærstu sveitarfélaganna. Það mundi skila miklum samlegðaráhrifum að sameina Reykjavík og Kópavog og Seltjarnarnes. Og Garðabæ líka. Það ætti í alvörunni að gefa því meiri gaum.