Friday, December 10, 2004

Grjót flaug inn um rúðu í andyri Alþingis. Réttlætanlegt? Kannski. Góð hugmynd? Ónei!



Það er rangt að grípa til ofbeldis að fyrra bragði. Sá sem gerir það sýnir á sér þau veikleikamerki að hann skorti rök eða hafi ekki stjórn á skapi sínu. Auðvitað getur verið að hann hafi einfaldlega verið beittur ofbeldi sjálfur, eins og að það sé ekki hlustað á hann, rök hans þögguð niður eða drekkt með áróðri, honum neitað um lýðræði og vettvang til að tjá sig eða annað því um líkt. Undir þeim kringumstæðum mundi ofbeldið flokkast undir sjálfsvörn.



Grjótkast inn um rúðu Alþingis þjónar ekki tilgangi friðarsinna, að stöðva Íraqsstríðið, heldur hjálpar það ráðamönnum við að marginalisera friðarsinna sem bullur og brjálæðinga sem láti tilfinningar hlaupa með sig í gönur, nytsama sakleysingja eða fyrirhyggjulausa og óþroskaða krakka. Það lítur nefnilega þannig út, og það er almenningsálitið sem hlýst af ástæðulausu ofbeldi.



Ástæðulausu ofbeldi? Er til ofbeldi sem ekki er ástæðulaust? Já, þar á ég við sjálfsvörn. Það er fjarri mér að afneita rétti fólks til sjálfsvarnar. Palestínumenn, Íraqar, Afghanar, Víetnamar o.fl. eru dæmi um þjóðir sem hafa nýtt sér réttinn til sjálfsvarnar þótt deila megi um einstakar aðgerðir eða vinnubrögð.



Halldór Ásgrímsson hefur reyndar sjálfur valið að sitja ekki á friðarstóli, hann hefur sjálfur kastað stríðshanskanum og styður árásir á okkur, venjulegt fólk. Til útskýringar vil ég taka fram að þegar ég segi „við“ þá meina ég þá sem íslenskt launafólk á samleið með, sem er launafólk um víða veröld. Árásir á saklausa, vinnandi Íraqa er fyrst og fremst árás á saklaust, vinnandi fólk. Hvert ríkisfang þess er skiptir litlu máli; það sem skiptir máli er að það er ráðist á stéttarsystkini okkar saklaus, og þaðan er stutt leið til þess að ráðist sé á okkur sjálf saklaus hér á örugga Íslandi.



En ofbeldi? Nei takk. Við viljum minna ofbeldi, ekki meira. Ofbeldið er vandamálið, ekki lausnin. Maður slekkur ekki eld með eldi. Ég held að það sé fyrirfram tapaður bardagi að leggja til atlögu við þann sem er sterkari en maður sjálfur. Segir það sig ekki sjálft? Sá sem er sterkari lemur mann bara í klessu. Vinnandi fólk er mun sterkara en afturhaldsöfl, heimsvaldasinnar og aðrir pappírstígrar til samans, um leið og það kennir krafta sinna og öðlast stéttarvitund, samheyrileikakennd. Skipuleg valdataka þess getur farið friðsamlega fram ef henni er leyft það. Sjálfsákvörðunarrétt hefur fólk. Ef því er meinað að nýta sér hann jafngildir það árás á það og þá hefur það rétt til að verja sig. Til að verja mannréttindi sín. Vinnandi fólk með stéttarvitund og sjálfstæðan pólítískan front að vopni getur unnið þá sigra sem það vill og átt alls kostar við hvern sem er. Það þarf ekki að beita ofbeldi, og ef andstæðingurinn grípur til ofbeldis er það ofbeldi afturhaldssamt og óréttlátt. Sjálfsvörn gegn slíku ofbeldi, hvað getur hún annað en verið réttlát?



Ef vinnandi friðarsinnar á Íslandi vilja friðsamlegt samfélag, er þá ekki leiðin til þess líka friðsamleg? Við erum yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar. Leiðin til þess að nýta sjálfsákvörðunarrétt okkar til að losna undan auðvaldi er ekki leið ofbeldisins heldur er hún leið stéttarvitundarinnar, samstöðunnar, skilningsins á sameiginlegum hagsmunum okkar hvers með öðru og með stéttarsystkinum í öðrum löndum.



No comments:

Post a Comment